Af hverju er Bitcoin í hæstu hæðum?
„Upphafið að endalokunum“ var fyrirsögn Viðskiptablaðsins um stöðu Bitcoin fyrir tæpu ári. Staðan núna: Bitcoin hefur aldrei í sögunni verið verðmætara gagnvart krónu
Ef þú ert hrifin(n) af því starfi sem hér er unnið er rétt að þú íhugir vandlega að ganga í hóp áskrifenda ritstjórans gegn hóflegu gjaldi og styðja þar með við frjálsa fjölmiðlun í landinu:
Ritstjórinn sér ekki að stærri miðlar hafi gert því sérstök skil þótt sannarlega dragi til tíðinda í heimi rafmynta þessa dagana.
Síðasta miðvikudag varð sá merki atburður að verðmæti Bitcoin mældist meira en nokkru sinni fyrr gagnvart íslensku krónunni, sem þýddi að eitt Bitcoin kostaði um 8,6 milljónir íslenskra króna.
Þegar þetta er skrifað hefur Bitcoin einnig slegið met í verði gagnvart evru og ekki er talið ólíklegt að Bitcoin muni ná metinu gagnvart Bandaríkjadal á næstu dögum eða vikum.
Þar með er rafmyntin sögð hafa jafnað sig eftir að hún hrundi eftir hápunktinn árið 2021 og tekið hefur tæp þrjú ár að ná sama stað að nýju.
Þau ósköp sem þá riðu yfir, þegar Bitcoin hrundi úr um það bil 69.000 Bandaríkjadölum í nóvember 2021 alla leið niður í rétt rúma 15.000 Bandaríkjadali í nóvember 2022, urðu til þess að margir fældust verulega frá fjárfestingu í rafmyntinni og langur rafmyntavetur skall á.
Einnig urðu ósköpin mörgum andstæðingum þessarar nýju tækni nokkurt fagnaðarefni, að því er virðist. Ég minnist þess að hafa lesið forsíðu Viðskiptablaðsins í mars 2023, þar sem yfirskriftin var: Upphafið að endalokunum. Kerfissinnaðir hagfræðingar töluðu margir á þá leið.
Á vef Visku Digital Assets fjallar Daði Kristjánsson framkvæmdastjóri sjóðsins um að ástæður hinna miklu hækkana núna megi líklega að nokkru leyti rekja til innkomu svonefndra kauphallarsjóða með Bitcoin í Bandaríkjunum.
Þar hafa stærstu eignastýringarsjóðir heims, BlackRock og Fidelity, komið inn á þennan markað sem þó hefur ekki verið talinn eins öruggur og aðrir markaðir hingað til. Það kann að vera að breytast í hugum stórra fjárfesta, sem útskýrir gífurlega mikla eftirspurn eftir rafmyntinni núna.
Hér skal ekki fullyrt um þróunina á næstu vikum og mánuðum, en eitt er ljóst: Í mars 2023 var það rangt sem stóð á forsíðu Viðskiptablaðsins um „upphafið að endalokunum“. Öllu heldur telur ritstjórinn að hér sannist hið fornkveðna, að með hverju ári sem svona fyrirbæri deyr ekki, því lífvænlegra verður það.
Hvað með stríðsrekstur Pútíns? - Bara svona hugsað upphátt.