Áður en þú tjáir þig – hvað heldurðu að lögreglunni finnist?
Fæstir spyrja sig þessarar spurningar áður en þeir stinga niður penna, en freistast þó til að klaga í lögguna þegar önnur úrræði þrjóta.
Ef þú ert hrifin(n) af því starfi sem hér er unnið er rétt að þú íhugir vandlega að ganga í hóp áskrifenda ritstjórans gegn hóflegu gjaldi og styðja þar með við frjálsa fjölmiðlun í landinu:
Umræðan um útlendingamálin er á yfirsnúningi þessi dægrin og menn eru við hvert fótmál sakaðir um „hatursorðræðu“; hugtak sem ég hef lengi bent á að er mjög varasamt og yfirleitt gagnlítið í allri pólitískri umræðu.
Ásökuninni er einkum og raunar nær einvörðungu beitt þegar það þjónar pólitískum markmiðum manna að benda á hatursorðræðuna.
Sema Erla Serdaroglu aktívisti segir Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra stunda hatursorðræðu með ábendingum sínum um tjaldbúðirnar á Austurvelli.
Að sönnu má telja það óþarfa hjá Bjarna að blanda þeim ábendingum við umræðu um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, en að gefa það til kynna í virðulegum fjölmiðlum að færsla hans varði við lög er til marks um að hugmyndafræðin sé að hlaupa með menn í gönur.
Á sama tíma kæra Palestínuaktívistar blaðamenn til siðanefndar Blaðamannafélagsins fyrir að svo mikið sem fjalla um þá staðreynd að íslenskur lögmaður hafi lagt fram kæru á hendur Palestínumanni á Íslandi fyrir það sem lögmaðurinn álítur hatursorðræðu.
Samkvæmt hinni kærðu frétt mbl.is er einn mótmælandi sakaður um hatursorðræðu á Facebook, þar sem samkvæmt vélþýðingu segir:
„Drepið gyðingana hvar sem þið finnið þá, rífið þá á hol, mígið yfir þá [og] lík þeirra. Ég sver að við munum dæma þá að viô hlið Paradisar. Bölvun hvíli á sonum Zíons [gyðingum], sonum apa og svína.“
Síðasttöldu orðin eru tilvitnun í kóraninn.
Maður getur vart trúað að menn láti svona frá sér opinberlega án þess að eitthvað vanti inn í heildarmyndina – eða þá að vélþýðingin afskræmi merkinguna – en vonandi er að rannsókn leiði það í ljós.
Allir hafa hagsmuna að gæta hérna
Augljóslega er það óboðlegt og langt utan leyfilegra marka að hvetja til þess að einn eða annar sé drepinn. En hvöss umræða, hins vegar, sem byggð er á staðreyndum og skoðunum fólks, er nauðsynleg í okkar samfélagi, ekki síst á tímum sem þessum.
Þar er vert að benda á að umræða til stuðnings Palestínu er víða um hinn vestræna heim skipulega ritskoðuð af yfirvöldum og tæknifyrirtækjum – sem er vítaverð skoðanakúgun. Sú kúgun er framkvæmd, oft að tilefnislausu, undir formerkjum meintrar „hatursorðræðu“.
Það hefur heldur komið í hlut hægrimanna hingað til að lýsa efasemdum um hatursorðræðuáhuga vestrænna yfirvalda, eins og fyrirhuguðu hatursorðræðunámskeiði forsætisráðherra hér á landi, sem hún vill skikka að því er virðist flesta vinnandi Íslendinga á.
En núna kann það að renna upp fyrir báðum jöðrum hins pólitíska kvarða, að hatursorðræðuvopninu verður beitt gegn öllum andstæðingum ríkjandi yfirvalda ef frjálst fólk lætur glepjast af þessu sannarlega áhrifamikla orði.
Þar ítrekar ritstjórinn þetta grundvallaratriði: Við megum setja fram umdeildar skoðanir og líka umdeildar staðreyndir og ef þær reynast rangar, þá mun tíminn og umræðan leiða það í ljós, en ekki stjórnvöld.
Forvirkar rannsóknarheimildir
Bjarni Benediktsson lýsti því í umræddri stöðuuppfærslu að vegna sviplegra horfa í hælisleitendamálum þurfi nú að „styrkja lögregluna m.a. með auknum heimildum í baráttunni gegn brotastarfsemi, þ.m.t. alþjóðlegri brotastarfsemi.“
Þar má sjá fyrir sér að hann sé að tala fyrir því sem Sjálfstæðismenn hafa verið að reyna að koma í gegnum þingið, sem er frumvarp um töluvert auknar og forvirkar rannsóknarheimildir lögreglunnar. Þar með talin eru ákvæði um auknar heimildir lögreglu til að hafa náið eftirlit með fólki, til dæmis á netinu, án sérstaks rökstuðnings.
Maður getur ákveðið að gefa sér að markmið þeirrar löggjafar séu göfug og að beiting nýrra heimilda verði það ávallt líka. En sem efasemdarmaður um eftirlit ríkisvalds með borgurum maður getur líka gefið sér hið gagnstæða og gert ráð fyrir að svona ráðstafanir séu stórlega vafasamar.
Að stjórnmálamenn nýti sér ólguna nú til þess að renna stoðum undir þessar auknu forvirku rannsóknarheimildir með borgurum hljómar ekki vel. En þegar ég segi það er málið auðvitað flókið; lögreglan á fullt í fangi með að hafa eftirlit með skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi, sem maður getur aldrei verið viss um að fari ekki á einhverjum tímapunkti úr böndunum.
Ef þú ert hrifin(n) af því starfi sem hér er unnið er rétt að þú íhugir vandlega að ganga í hóp áskrifenda ritstjórans gegn hóflegu gjaldi og styðja þar með við frjálsa fjölmiðlun í landinu: