Bjarni hafi opnað landamærin og kvarti nú yfir fánum á Austurvelli
Einar Þorsteinsson borgarstjóri sækir í sig veðrið eftir embættistöku og skaut föstum skotum á utanríkisráðherra á Viðskiptaþingi...
Ef þú ert hrifin(n) af því starfi sem hér er unnið er rétt að þú íhugir vandlega að ganga í hóp áskrifenda ritstjórans gegn hóflegu gjaldi og styðja þar með við frjálsa fjölmiðlun í landinu:
Það var ánægjuleg stemning á Viðskiptaþingi í seinustu viku þar sem sjónum var beint að þjónustulund hins opinbera kerfis í heild sinni – og auðvitað að miklum umsvifum hins opinbera í flestri grein. Af heimspekilegum og andlegum ástæðum kunna þau sívaxandi umsvif ekki góðri lukku að stýra.
Ritstjóranum var falið að hafa umsjón með pallborðsumræðum þriggja stjórnmálamanna á þinginu, þar voru Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir formaður Sjálfstæðisflokksins og Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Þar sköpuðust líflegar umræður um margt og þar á meðal bar útlendingamálin á góma.
Erlent fólk sinnir störfum sem Íslendingar líta ekki við
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar gagnrýndi atvinnustefnu stjórnvalda, þar sem verið væri að skapa störf sem hefðu ekki endilega mikla framleiðni, eins og þjónustustörf. Áherslan ætti frekar að vera á greinar með hærri framleiðni.
„Þetta snýst ekki um það hverjir það eru eða hvaðan fólk er að koma, heldur um það hvers konar störf við erum að skapa. Hvers konar samfélag erum við að skapa þar sem eina tækifærið sem við sköpum fyrir erlent fólk sem kemur hingað til landsins er að sinna störfum sem við viljum ekki líta við?“ spurði Kristrún.
Kristrún hefur að undanförnu reynt að hvetja til umræðu um heildarmynd útlendingamála, þar sem tekin er umræða um bæði fjölgun hælisleitenda en einnig innflytjenda í atvinnuleit.
„Ég vil Ísland með mörgum útlendingum“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og, nái hún kjöri, verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins, vill, ólíkt Kristrúnu, gæta þess að blanda umræðu um útlendingamál almennt ekki saman við málefni hælisleitenda.
„Ég vil Ísland með mörgum útlendingum og ekki bara útaf störfum. Ég held bara að það sé skemmtilegra að eiga heima hérna þegar það er fleira alls konar fólk. Þar sem eru fleiri staðir sem bjóða upp á skemmtilegan mat og fólk sem kemur með annan bakgrunn og stofnar fyrirtæki og jú gengur í störf sem við erum ekki eins spennt fyrir og gera alls konar. Þannig að við vitum að hagvexti hefur verið haldið uppi hérna á Íslandi undanfarin ár af útlendingum. Við vitum að börn sem eru með íslensku sem annað mál gengur ekki jafnvel í skóla og íslenskum börnum, ekki af því að þau séu ekki eins vel gefin, heldur af því að við erum ekki að taka á móti þeim almennilega. Og ef við meinum það, sem ég held að sé þvert á flokka, að Ísland eigi að vera land tækifæranna, þá þurfum við einfaldlega að gera betur í þessu.
Það þýðir að það sé ekki endilega góð ráðstöfun að setja tuttugu milljarða í kerfi [hælisleitendakerfið] þar sem við erum að rosalega litlu leyti að fjárfesta í mannauðnum, vegna þess að fólk er hér í einhvern tíma en svo fer á endanum helmingur til baka. Þá erum við að setja fjármuni í eitthvað sem við gætum verið að fjárfesta í fólki sem við munum þurfa á að halda.
Við erum hérna líka að tala um öldrun þjóðar og hvernig eigum við að manna þær miklu þjóðfélagsbreytingar og það sem þeim fylgja hér á Íslandi? Við gerum það ekki hérna ein og þess vegna eigum við að tala þannig um innflytjendamál að við viljum fá fleira fólk til landsins. Það er gríðarlegur munur á því að vera með kerfi með séríslenskum reglum sem of oft er verið að misnota, sem er neyðarkerfi, og því að vera með gátt inn í landið þar sem þú getur komið, komið undir þig fótunum og tekið þátt í íslensku samfélagi.“
Skólakerfin að springa úr álagi
Einar Þorsteinsson borgarstjóri ræddi málefni innflytjenda og hælisleitenda stuttlega einnig með hliðsjón af húsnæðismarkaðnum og spurði: „Ég spyr bara: Það eru að koma hérna þúsund manns á mánuði. Hvar á þetta fólk að búa?“ Þar sagði hann að ef einkageirinn tæki ekki við sér í framkvæmdum, sæi hann ekki annan kost en að borgin færi hreinlega að byggja sjálf.
Einar rifjaði það annars upp þegar hópur Sýrlendinga kom til landsins á sínum og þegar börn úr þeim hópi fóru inn í skólakerfið hafi tvær milljónir króna verið látnar fylgja þeim inn í skólakerfið, svo að styðja mætti sérstaklega við þau. Nú er öldin önnur: „Í dag, þegar við erum að taka á móti börnum frá stríðshrjáðum ríkjum erum við að fá 150.000 krónur inn í skólakerfið. Þannig að þetta er allt að lenda á sveitarfélögunum. Og skólakerfin eru að springa úr álagi útaf þessum hópi, við viljum gera þetta vel.
Það eru stjórnvöld sem eru búin að opna landamærin, ekki sveitarfélögin. Þau geta verið ánægð með það og ég styð það. En þá verður líka að horfa á þetta heildstætt og sýna þá ábyrgð að fjármagna þær ákvarðanir sem við erum að taka.
Ég verð að segja, mér finnst líka holur hljómur í því þegar utanríkisráðherra kvartar yfir því, eftir að hafa opnað landamærin, eftir að hafa svelt sveitarfélögin um fjármagn sem þarf til að taka á móti þessu fólki að agnúast síðan út í það þegar þeir veifa sínum fánum á Austurvelli.“
Helviti varstu flottur þarna!