Þessi tiltekna grein er ókeypis, ólíkt flestum öðrum, en munum að verður er verkamaðurinn launa sinna:
Komið sæl. Að baki er páskahelgi hjá þjóð sem var svipt þeim rétti sínum að ræða heildarmynd komandi forsetakosninga í páskaboðum… það er varla tímabært að reyna að leggja þetta niður fyrir sér enn sem komið er og styttist þó verulega í kosningar; það eru tveir mánuðir í dag.
Nú þegar upprisuhátíðin er um garð gengin er ekki úr vegi að víkja stuttlega að nýjustu fréttum á sviði eilífs lífs.
Við getum í því sambandi rifjað upp ævintýri Eiríks Atla Hlynssonar verkfræðings og iðnaðarmanns, sem lagði leið sína til Istanbúl hér um árið til að græða í sig hárrætur. Með því átti að festa góðan hárvöxt í sessi, enda var farið að síga á ógæfuhliðina í því efni.
Í þeirri umfjöllun var boðuð eftirfylgni og hér að neðan getur að líta árangurinn sem aðgerðin hefur borið á örfáum mánuðum, hægra megin er Eiríkur um páskana með stæðilegan lubba á höfðinu.
Auðvitað hefðu svona úrbætur á mannslíkamanum verið óhugsandi áður en þær urðu hugsandi með tilkomu nýrrar tækni. Þetta er á smáum skala, að hægt sé að stemma stigu við hrörnun mannslíkamans með þessum hætti, en stóri skalinn er fram undan, áðurnefnt eilíft líf.
Höldum sjó í fimm ár
Bandaríski transhúmanistinn og framtíðarfræðingurinn Ray Kurzweil veit sínu viti um þróun gervigreindar. Hann spáir gervigreind greindari mönnum árið 2029 og svo spáir hann „singularity“ fyrir árið 2045; singularity vísar þá til slíkrar framþróunar í tækninni að um verður að ræða einstakan umbreytandi viðburð í sögu mannkyns, slíkar verða framfarirnar.
Tækninni er og verður beitt gegn hrörnun mannslíkamans og ef tæknin nær nýjum hæðum í anda spádóms Kurzweil, ná möguleikar á því sviði líka nýjum hæðum.
Í pallborðsumræðum á ráðstefnu á dögunum var Kurzweil spurður hvort hann teldi að einhver viðstaddur næði að lifa í fimm hundruð ár í núverandi líkama. Hann svaraði: „Algjörlega. Ef þú ert á lífi eftir fimm ár, og ég ímynda mér að allir hér verði á lífi þá, þá já.“
Spurning aftur: Þannig að ef maður er á lífi eftir fimm ár, þá getur maður líklega líka verið á lífi eftir fimm hundruð ár?
Kurzweil: „Ef þú ert að vanda þig, já, og hérna sýnist mér allir vera að vanda sig.“
Best að byrja að vanda sig! Það styttist samkvæmt þessu í að við verðum komin fyrir vind. Þá vakna stórar spurningar sem við lofum að fjalla um á næstu fimm árum.