Dregið úr latínukennslu við MR
Varðhundar klassískrar menntunar hafa alltaf áhyggjur þegar þeir lesa slíkar fyrirsagnir. Hér má þó halda því fram að málið sé ekki endilega grafalvarlegt, þótt sporin hræði... (lat. vestigia terrent)
Þessi grein er í boði hússins, en ef þú vilt aðgang að stríðum straumi efnis fyrir áskrifendur Ritstjóra, komdu þá í áskrift. Um leið styðurðu frjálsa fjölmiðlun í landinu…
Sú breyting hefur verið gerð á latínukennslu við Menntaskólann í Reykjavík að nú er máladeildarnemendum í nýmáladeild aðeins gert að læra latínu á fyrsta námsári sínu en að því loknu ljúka þeir stúdentsprófi í faginu. Áður tóku nemendur í þeirri deild tvö ár. Latínuskammtur nemenda í fornmáladeild helst hins vegar óbreyttur.
Þeir sem trúa á mikilvægi þess að haldið sé úti kennslu í latínu og forngrísku í Latínuskólanum fylgjast auðvitað grannt með öllum smávægilegum breytingum á námsframboðinu, enda er óttinn alltaf sá að smá breytingar geti boðað annað, meira og verra.
Sólveig Guðrún Hannesdóttir rektor lofar því í samtali við ritstjórann að þær áhyggjur séu ónauðsynlegar í þessu tilviki, breytingarnar séu ekki þess eðlis.
„Ég held að þetta sé ekki eitthvað sem er neikvætt fyrir latínukennslu í skólanum,“ segir Sólveig Guðrún. „Latínan helst sú sama í fornmáladeild. Þar er þunginn í latínukennslunni og þar eru sannkallaðir toppnemendur í þessu sem hafa mikinn áhuga á forntungumálum.“
Latínuskammtur nemenda í fornmáladeild helst sem sé óbreyttur, en nemendur í nýmáladeild missa út eitt ár af latínu og fara í staðinn í málvísindi á öðru ári.
„Á þessum tveimur árum sem ég hef verið rektor, hafa komið fyrirspurnir frá málabrautarnemum um ástæður þess að þeir læri ekki málvísindi og af hverju þeir taki tvö ár í latínu þegar áherslan er á nýmálin. Mér hefur fundist þetta spurning sem er erfitt að svara og okkur langaði þess vegna að prófa þetta.
Ef okkur finnst síðan að við þurfum meiri latínu í nýmáladeild, til dæmis fyrir betri grunn í rómönsku málunum, þá bregðumst við aftur við því. En það er bara munur á milli þessara tveggja deilda, þetta er bara öðruvísi hópur; hvorki betri né verri, bara öðruvísi,“ segir Sólveig Guðrún.
Fámennar brautir en mikilvægar
Nú eru þrettán nemendur við fornmáladeild í fimmta bekk, sem er smærri eining en svo að það „svari kostnaði“ að halda henni úti, samkvæmt köldum mælikvörðum stjórnsýslunnar.
„Fornmáladeildin er alls ekkert að deyja út og ég vil síst meina að þetta verði til þess að fæla nemendur frá fornmáladeild. Ég vil líka leggja áherslu á það hvað það er mikilvægt að geta þó haldið úti þetta fámennum deildum, að það sé skóli sem bjóði upp á fornmáladeild og ef út í það er farið, líka fámennar eðlisfræðibrautir.
Auðvitað kostar það þegar kennari er kannski að kenna tólf nemendum en fá greitt fyrir að kenna sautján, af því að sautján er lágmarkið sem við greiðum fyrir. Þannig að í mörgum öðrum skólum væri farið að skerða kennsluna en við erum ekki að því. Nemendur fá alveg jafnmarga tíma í stundatöfluna þótt þeir séu fáir. Auðvitað finnst ráðuneytinu þetta dýrt hjá okkur, en við viljum geta boðið upp á þetta. Þetta eru fámennar brautir en þær eru mjög mikilvægar,“ segir Sólveig.
Samtals eru í fimmta og sjötta bekk 22 nemendur í fornmáladeild, þar af eru níu í sjötta bekk. Þeim er þá kennt níu í einu í latínu.
Að panta jógúrt eða að skyggnast inn í hugarheim merkustu hugsuða Evrópu?
Það af sem áður var að ungt fólk á menntabraut njóti undirstöðukennslu í fornmálum og tungumálum áður en lengra er haldið.
Þótt „lágum hlífi hulinn verndarkraftur“ þessum tíu til tuttugu manna fornmáladeildarbekk á hverju ári í MR, hefur áherslan í æðri menntum færst annað, og auðvitað um leið í samfélaginu öllu.
Því miður, segir ritstjórinn, sem ólst upp í þessu kerfi – þótt bitrara sé þetta fyrir eldri kynslóðina sem hefur sannarlega horft á klassískar menntir, eins og þær hafa tíðkast öldum saman, hrynja á sínum líftíma.
Einar Már Jónsson, sagnfræðingur og bróðir Megasar, hefur lýst þessu með áhrifaríkum hætti í bók sinni Bréfi til Maríu frá árinu 2007.
Klassísk menntun, sem á rætur sínar að rekja til fornaldar og ríkti óslitið í Evrópu frá miðöldum til okkar daga, í háskólum, menntaskólum og jafnvel út fyrir þær stofnanir, byggðist frá upphafi á einum föstum grunni: tungumálanámi. Markmiðið var ekki að kenna nemendum að panta jógúrt á veitingastað í einhverju framandi landi, eins og ein af mínum námsmeyjum hélt statt og stöðugt fram að ætti að vera endanlegur tilgangur alls málanáms. Á bak við þessa menntun var fyrst og fremst sú staðreynd, að hvert tungumál er heimur út af fyrir sig, heimur sem er ekki samhverfur neinum öðrum tungumálsheimi og verður aldrei samsamaður honum. Því var litið svo á að til að vera menntaður þyrfti maður að þekkja rækilega annan heim en þann sem fælist í móðurmálinu, helst fleiri en einn; reyndar gæti maður ekki þekkt heim síns eigin móðurmáls nema hann þekkti heim annars tungumáls líka. Upphaflega var það latína sem var þungamiðja klassískrar menntunar, og svo bættist forngríska við.
Einar bendir á að tungumál séu ekki aðeins tjáningarmeðal á milli samtímamanna, heldur séu þau einnig tæki til samskipta á milli kynslóða; stór þáttur í menningarlífi Evrópu er allur á latínu. Í klassískri menntun hafi latína, ásamt forngrísku, þann mikla kost að vera mjög skýr og auðugur tungumálsheimur, gerólíkur tungumálsheimi nemendanna, og því andleg þjálfun í meira lagi.
En þetta er búið, að sögn Einars.
Á stuttum tíma hefur klassísk menntun víðast hrunið til grunna, þótt leifar af henni kunni enn að vera til, á einstaka stöðum. Með þessu orði á ég við þá menntun sem átti sér a.m.k. þúsund ára rætur og byggðist á kunnáttu í tungumálum, móðurmálinu, fornu málunum latínu og grísku, ýmsum nýjum tungumálum, fleiri en einu, svo og bókmenntum, sögu og heimspeki. Þessu hefur verið ýtt til hliðar að langmestu leyti, í staðinn hefur einkum komið leiðsögn í goðafræði og helgisiðum tæknidýrkunarinnar, einnig kennsla í einföldum samtölum á einu eða tveimur útbreiddum tungumálum, eða kannske raunvísindum, sem eru góð til síns brúks, en geta ekki undir neinum kringumstæðum komið í staðinn fyrir klassíska menntun.
Að fækka latínuárum um eitt í einni deild er lítið og ómerkilegt skref, en þetta hnígur þó allt í sömu átt og hún er varla góð.
Það er mikilvægt að kunna latínu, hún er jú töluð í helvíti.