„Ef stelpur mega fylla í tútturnar, af hverju mega ekki strákar fá sér smá hár?“
Persónulegt viðtal við mann sem fór í hárígræðslu til Tyrklands, sem hann vonar að sé vel heppnuð. Sífellt fleiri Íslendingar leggja þetta ferðalag á sig.
Hárið er mikilvægt tákn fyrir karlmenn og hefur lengi verið…
Frásögn frá Gasa-ströndinni fyrir langalangalöngu: Í Biblíunni var Samson dómari kraftmikill maður og óvinir hans áttu erfitt með að finna hvaðan kraftarnir komu, svo að þeir mættu koma höggi á hann. Tálkvendið Dalíla var send til hans og hún veiddi það upp úr honum að kraftarnir lægju í hárinu.
„Aldrei hefir rakhnífur komið á höfuð mitt,“ sagði Samson, „því að ég er Guði helgaður í frá móðurlífi. Væri nú hár mitt skorið, þá hyrfi afl mitt frá mér og ég gjörðist linur og yrði sem allir menn aðrir.“
Dalíla seldi þessar upplýsingar til óvina hans, sem skáru af honum árið og náðu þar með að lokum að granda honum.
Örlagaríkt ferðalag til Tyrklands
Í þessari frásögn úr Gamla testamentinu er boðskapurinn einfaldur: Þú mátt ekki missa hárið.
Eiríkur Atli Hlynsson er 27 ára íslenskur verkfræðingur og iðnaðarmaður sem á og rekur fjölskyldufyrirtækið Vinnumenn. Hann hefur tekið þennan boðskap Biblíunnar alvarlega – hvort sem það var eftir beinum eða óbeinum leiðum – því hann sest í nýju viðtali niður með ritstjóranum og ræðir mikla Bjarmalandsför sína til Istanbúl í Tyrklandi, þar sem hann fór í sérstaka hárígræðslu.
Þar með bætist Eiríkur í sístækkandi hóp íslenskra karla sem leggja leið sína til Tyrklands í þessu skyni.
Réttlæting Eiríks á þessari ferð er einföld, þótt ekki sé hún kannski biblísk: „Þetta spilar inn á sjálfstraust. Ef þessar konur og stelpur mega fylla í tútturnar og fá sér í varir og ennið og rass, af hverju mega ekki strákar fá sér smá hár?“ segir iðnaðarmaðurinn.
Eiríkur greindi opinskátt frá öllu ferlinu á samfélagsmiðlum hjá sér og kveðst hafa fengið mikil viðbrögð frá mönnum í svipaðri stöðu. „Strákar sem ég hef ekki talað við í mörg ár eru bara: Sælir, ég vildi bara segja takk,“ segir Eiríkur.
Ekki mjög dýrt
Um er að ræða nokkuð sársaukafullt og klínískt fimm til sex klukkustunda ferli, þar sem hár er rakað af Eiríki og græddar eru nýjar rætur í höfuð hans. Í viðtalinu lýsir Eiríkur ferlinu frá upphafi til enda, sem hann segir á köflum „ógeðslega vont.“
„Sumir eru bara lokaðir og vilja ekki deila svona hlutum. Við félagarnir grínumst allir í hver öðrum um að það sé byrjað að þynnast. Eins og félagi minn sem kom með mér hann var kominn með munkahreiður á kollinn. Hann hafði verið með sprey lengi til að þykkja hárið og fylla í. Spreyið virkaði, en hann sagði að með því að fara út væri hann búinn að borga upp ferðina í spreyi á stuttum tíma,“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir að heildarpakkinn í Tyrklandi með öllu hafi kostað hann á bilinu 450 - 500 þúsund, sem er ekki mikill peningur miðað við önnur úrræði gegn hármissi.
Enn er óljóst hverju ígræðslan skilar í tilviki Eiríks og heitir ritstjórinn því að birta reglulegar uppfærslur þegar nýja hárið fer að taka á sig mynd. Sögulega séð eru til dæmi um misheppnaðar ígræðslur, en Eiríkur hefur nokkra trú á að meðferðin hjá Smile Hair Clinic í Tyrklandi muni skila góðum árangri.