Ég býð mig fram
„Ég tilkynni hér með að ég sækist eftir oddvitasæti á lista Miðflokksins í Reykjavík í komandi alþingiskosningum.“
Mér hefur liðið skringilega að undanförnu. Allan minn atvinnuferil og einkum eftir að ég útskrifaðist úr íslenskum fræðum við Háskóla Íslands hef ég verið tiltölulega sakleysislegur blaðamaður í grunninn. Ég hef tekið viðtöl, spurt spurninga, lesið og lesið, kynnt mér söguna, reynt að mennta mig, skrifað greinar, unnið í sjónvarpi, ég hef reynt að kanna málin í þaula og jafnvel finna ný sjónarhorn, þegar það hefur verið hægt, og þetta hefur verið frábær vinna. En hún hefur hægt og rólega tekið breytingum. Það sem hefur breyst í áranna rás og svo hraðar á allra síðustu misserum er auðvitað eins og þið hlustendur mínir þekkið að ég hef sjálfur og að hluta til er það einfaldlega ósjálfrátt, þá hef ég sjálfur öðlast sífellt skýrari sýn á þau mál sem ég er að fjalla um. Ég er ekki bara að spyrja heldur líka bara segja. Ég hef öðlast mjög skýra sýn á samfélagsmál og stjórnmál, sem ég hef ekki farið í felur með. Og það hefur hingað til ekki verið það skrýtið, að ég hafi svona miklar skoðanir á hlutunum, en núna finnst mér það vera orðið svolítið skrýtið, af því að ég hef svo alvöru miklar skoðanir á hlutunum. Til að útskýra tilfinninguna þá er ég kannski að taka viðtal og ég er að reyna að spyrja um eitthvað mál, tala um eitthvað mál og ég finn að viðmælandi minn er bara svona já, einmitt, væri gott að gera eitthvað í því, skoða það - ókei já. Jú. Og þetta er kannski einhver sem er nú þegar í stjórnmálum. Og ég hugsa: Nei við þurfum ekki að skoða neitt við þurfum að hjóla í þetta… Maður verður fyrir vonbrigðum að fá dauf viðbrögð við einhverju sem maður vera lykilatriði í stjórnmálunum.
Hvað gerir maður í þessum aðstæðum? Hvað gerir maður þegar maður finnur það á sér að maður hefur virkilega sterka sýn á þróun íslenskra stjórnmála? Það er hægt að gera ekki neitt sérstakt. Halda áfram að pæla, skrifa og spjalla um málin í hlaðvarpinu sínu. Og ég hef hallast að því. Bæta vöruúrvalið í mínu margmiðlunarfyrirtæki. Færa út kvíarnar. Ég skrifaði bók - ég er að gefa út bók núna um jólin sem er vel að merkja ekki um stjórnmál heldur allt annað, ákveðinn merkan Íslending – ég er spenntur að segja ykkur meira frá því. Þannig að það var planið mitt, að gera ekkert sérstakt í þessum skoðunum mínum, vera ekkert að fara í stjórnmál, auðvitað sá ég fyrir mér að það væri hægt, og að það gæti komið tími einhvern tímann síðar þar sem það væri augljóst skref fyrir mig. En ekki strax. Ég er tuttugu og sjö ára gamall, ég þarf ekki að drífa mig. Minn tími mun koma - einhvern tímann seinna. Og svo gerist það, að upp rennur sunnudagurinn 13. október, þar sem er fyrirvaralaust boðað til kosninga til Alþingis. Og það má segja að þá einfaldlega verði mér ljóst, eins og í einu vetfangi, segi ég einlæglega, að hugsanlega, mögulega, sennilega sé þetta tíminn. Að þessi tími sem ég er að tala um að geti runnið upp sé runninn upp.
Hvers konar tími er það sem rennur upp með svona óvægnum hætti? Við lifum að mínu mati örlagatíma í sögu þjóðarinnar. Um heim allan eru róttækar breytingar fram undan og þær eru raunar þegar að verða, hvort sem þær eru í tækni, breyttum efnahagi þjóða, auknum fólksflutningum, harðnandi hugmyndabaráttu og sífellt fleiri stríðum, er ljóst í mínum augum að allar þessar breytingar munu á komandi tímum skapa verulegan þrýsting á íslensk stjórnvöld. Þrýstingurinn er margs konar, hann kemur úr öllum áttum og í ólíkum málum hverju sinni og hann kemur bæði að utan og frá pólitískum öflum innanlands. Það er augljóst fyrir mér að þennan þrýsting þarf að standast. Fólkið sem stýrir landinu þarf að mæta þessum þrýstingi og vinna úr honum, og eftir atvikum vinna gegn honum, með hag þjóðarinnar sem einu meginregluna. Ekki í forgrunni eða að leiðarljósi, ekki að hafa þjóðarhag í huga svona lauslega. Ég er að tala um ákveðna rörsýn: Hvað gagnast okkur sem þjóð? Ekki hvaða orð eru fallegust, ekki hvað hljómar vel í eyrum hugmyndafræðilega drifinna aktívista, ekki hvað munu ráðherravinir mínir á erlendu ráðstefnunum segja um þetta eða verra, stjórnendur þeirra alþjóðlegu stofnana sem ég gæti hugsað mér að fá vinnu hjá þegar ég hætti í stjórnmálum, ekki hvað þeir segja. Nei. Rörsýn: Hvað gagnast Íslendingum?
Tökum dæmi um þrýsting, tökum dæmi um tungumálið. Íslensk tunga er sannarlega að verða fyrir miklum þrýstingi. Sjáum til. Staðan er sú að búum við einstæða samfellu í tungumáli frá upphafi byggðar hér í landi fyrir 1150 árum og allt til dagsins í dag. Við erum ein örfárra þjóða heims sem skilur eigin miðaldabókmenntir milliliðalaust, sem eru vel að merkja í okkar tilfelli með því betra sem hefur verið skrifað í mannkynssögunni, við skiljum þessar bókmenntir milliliðalaust vegna þess hve einstaklega vel tungan hefur varðveist hérna. Þessu sögulega afreki okkar er núna teflt í tvísýnu. Í tíð fráfarandi ríkisstjórnar höfum við séð meiriháttar hrun í stöðu íslenskrar tungu á mörgum sviðum. Maður getur víða ekki fengið afgreiðslu á íslensku, maður er auðmýktur og látinn tala ensku í til dæmis bakaríinu sem maður hefur verslað við alla tíð og jafnvel á opinberum stöðum. Börn geta í mörgum tilvikum ekki vænst þess að læra íslensku á leikskólum landsins enda talar starfsfólkið í sífellt auknum mæli ekki íslensku. Tæknin hefur líka svipt börn verulegum aðgangi að móðurmáli sínu og PISA-kannanir leiða í ljós hörmulegt ástand í þekkingu ungs fólks á móðurmálinu og í ákveðnum landshlutum hefur stjórnsýsla að hluta til færst yfir á ensku.
Þessi óheillaþróun er á fullri ferð og vissulega á hún sér margþættar skýringar. Grundvallaratriðið er þó að stjórnvöld eru á endanum ábyrg. Því að ég segi, ef þú tækir öll verkefni heims af borði ríkisvaldsins væri augljóst að á endanum yrði eitt verkefni þó að standa eftir: Það er að standa vörð um íslenska tungu því að hún er grunnur okkar menningar í meira en þúsund ár. Ef hún fer, erum við ekki lengur þjóð. Og hvað hefur ríkisvaldið gert, hvað hafa Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir – hvað hafa þessi flokkar gert fyrir íslenskuna? Það eina sem þetta fólk hefur gert, eins og þetta blasir við manni utan frá, er að missa gjörsamlega stjórn á ástandinu. Auðvitað fara þessir flokkar fögrum orðum um tungumálið á hátíðisdögum, þetta fólk er búið að læra að maður verður að gera það, en sannleikurinn sá að stjórnvöld hafa ekki komist nálægt því að tryggja að innflytjendur í íslenskt samfélag tileinki sér tungumálið upp til hópa. Þar er árangur okkar margfalt verri en annarra þjóða í svipaðri, því að ef einhver var búinn að gleyma því og ef einhver efaðist um það, þá er hægt að tryggja að fólk læri tungumálið. En stjórnvöld hafa ekki viljað það. Af hverju? Það er erfitt að segja. Það má benda á ýmislegt. Það má benda á að þessi sömu stjórnvöld geta til dæmis ekki opnað munninn um málefni innflytjenda, eins og tungumálið, án þrjátíu blaðsíðna hugmyndafræðilegs fyrirvara um fjölmenningu og inngildingu, sama hvað inngilding á svo sem að þýða. Það er ekki orð. Í grunninn, wokeismi, pólitískur rétttrúnaður, í rauninni hræðsla við aktívistanna. Það er ein ástæðan fyrir þessu. En það er líka önnur ástæða og hún er öllu alvarlegri. Það er hreint og klárt metnaðarleysi fyrir íslenskri tungu. Og ég segi: Slíkt metnaðarleysi er glæpsamlegt fyrir íslenskan stjórnmálamann.
Þið heyrið að mér verður heitt í hamsi. Sannarlega. Og ég gæti haldið lengi áfram. En þetta er bara eitt af mörgum málum, en ég nefni það sérstaklega vegna þess að það er lýsandi fyrir stjórnmálamenn sem geta ekki tekið ákvarðanir. Hafa ekki tekið ákvarðanir. Og að taka ekki ákvarðanir er, við þurfum að athuga það, oft jafnvont ef ekki verra en að taka ófullkomnar ákvarðanir. Þær ákvarðanir bera að minnsta kosti vott um að maður sé að vinna vinnuna sína.
Fleiri mál: Botnlaus hallarekstur ríkissjóðs og sóun á peningi okkar skattgreiðenda í tilgangslaus eða jafnvel skaðleg verkefni á vegum ríkisvaldsins. Hætta því. Skera niður í rugli sem er að bitna á mikilvægum verkefnum. Í staðinn, að leggja frekar áherslu á vandaða grunnþjónustu við almenning hvort sem það er í heilbrigðismálum, menntamálum eða löggæslumálum. Við höfum búið í öruggu og traustu samfélagi og við viljum að svo verði áfram. Það er það sem fjölskyldurnar í landinu vilja, mæðurnar og feðurnir, ömmur og afar, þetta veit ég sem faðir lítilla barna, við viljum öryggi og velferð og frelsi til að þroskast í leik og starfi. Ríkisvaldið á að standa vörð um þessi atriði en ekki halda aftur af borgurum með því að þvælast fyrir almennu athafnafrelsi.
Ríkisvaldið á heldur ekki að þvælast fyrir málfrelsi í landinu eins og síðasta ríkisstjórn gerði að erlendri fyrirmynd með sífellt auknum áhuga stjórnvalda á tjáningu almennra borgara. Allt var það gert undir fölsku flaggi átaksverkefna um hatursorðræðu og upplýsingaóreiðu, en hafði að mínu mati, rétt eins og ég hef fjallað um í löngu máli allan þennan tíma, stórkostlega vafasaman og grafalvarlegan undirtón. Hin stórhættulega hatursorðræða var í mörgum tilvikum því miður einfaldlega orðræða sem stjórnvöld hötuðu. Alþingismenn eiga aldrei að taka þátt í slíkri aðför að málfrelsi okkar, bara af því að átaksverkefnið hljómar vel eða af því að „Evrópuráðið hefur áhyggjur af umburðarleysi á Íslandi í nýrri skýrslu“ eins og Stjórnarráðið orðaði það og enginn vissi hvað þýddi. Íslensk stjórnvöld eiga ekki að berast með straumi sturlaðrar hugmyndafræði og fórnarlambsdýrkunar sem hefur því miður þegar grafið um sig á öllum stigum, ekki síst í skólakerfinu þar sem prédikað er yfir saklausum börnum að þau séu verri eða betri eftir því hversu mikilla „forréttinda“ þau njóta út frá húðlit, uppruna, vegna foreldra sinna eða jafnvel út frá kynferðismálum. Þar hefur fólk gleymt því að börn eru börn og eru almennt ekki að draga fólk í dilka, nema einhver kenni þeim það sérstaklega. Hér þurfa stjórnvöld að senda skýr skilaboð: Okkar kerfi eiga fyrst og fremst að kenna fólki, gera það framúrskarandi, en ekki að annast innrætingu barnsins. Þar að auki er mín skoðun sú að við eigum að leggja áherslu á það sem sameinar okkur sem þjóð en ekki það sem greinir okkur í sundur.
Ég gæti haldið lengi áfram. Fleiri mál: Fjölskyldumálin. Fæðingartíðni er hrunin á Íslandi sem er grafalvarlegt vandamál - sem stjórnvöld eiga ekki bara að grínast með einu á sinni á ári þegar mælingarnar koma. Fullveldismálin – ég lít svo á að það sé ástæða fyrir íslenska stjórnmálamenn að mæta allri viðleitni sem gæti túlkast sem inngrip í okkar fullveldi af fullri hörku. Það er oft gert lítið úr slíkum málum eins og gagnvart Evrópusambandinu og EES-samningnum og sagt að við höldum nú svona strangt til tekið fullveldi okkar þrátt fyrir að hitt og þetta sé samþykkt og í einhverjum tilvikum má það vel vera – en það þýðir ekki að við eigum ekki að kanna málið vel. Ef einhver á að kanna öll möguleg inngrip í fullveldi Íslendinga alveg í þaula er það Alþingi Íslendinga.
Að þessu öllu sögðu. Niðurstaðan í þessu er sú að við erum augljóslegra í virkri sjálfstæðisbaráttu og sjálfstæðisbarátta er alltaf frelsisbarátta á sama tíma. Mér finnst persónulega að við ættum að hafa sigur í þessari baráttu. Ég var að ræða það hér áðan hvernig sýn mín á stjórnmálin hefur orðið sífellt skýrari með árunum en samt er þetta flókið ferli. Ég var upphaflega vinstrimaður í flestum málum, kannski eins og ungu fólki sæmir. Svo gerist það með aldri og reynslu að maður færist aðeins til hægri í ákveðnum málum en hitt er kannski áhugaverðara, og það er spurningin um það hver færðist hvert. Mál sem áður voru merkt vinstri, eins og já smá þjóðrækni eða varðstaða um tjáningarfrelsi, eru nú komin til hægri í hugum margra, jafnvel öfgahægri sem er besti brandarinn af þeim öllum. En því má hafna. Og um það má deila og það er efni í annan þátt. Stóru spurningunni er hins vegar ósvarað: Í öllum þessum tilfæringum og sveiflum hingað og þangað, til hægri og til vinstri, hvar sitjum við eftir, sem höldum í þau grunngildi sem ég hef verið að tíunda hérna í stuttu máli? Á svona örlagatímum, væri ekki tilefni fyrir alla sem trúa á framtíð landsins og vilja berjast fyrir henni, að mætast á miðri leið í Miðflokknum.
Það held ég.
Að mínu mati er Miðflokkurinn það stjórnmálaafl sem er langlíklegast til þess að standa vörð um heilbrigða skynsemi í íslenskum stjórnmálum. Það hefur sýnt sig á síðustu árum í meiri háttar hagsmunamálum fyrir Íslendinga og ég er þess fullviss að svo verði áfram og jafnvel mun meira á komandi tímum. Miðflokkurinn er, eins og ég sé hann, skynsemisflokkur sem þó er einnig rómantískur í sínu innsta eðli. Og rómantík er snar þáttur í þeirri sjálfstæðisbaráttu sem er fram undan og ég þreytist ekki á að nefna. Af þeim sökum tilkynni ég hér með að ég sækist eftir oddvitasæti á lista Miðflokksins í Reykjavík í komandi alþingiskosningum. Ég hef lýst þeim vilja mínum fyrir viðeigandi yfirvöldum innan flokksins og bind vonir við að þau komist að niðurstöðu von bráðar. Fari það allt saman mér í hag, verða skiljanlega gagngerar breytingar á þessari starfsemi hér en þó langt í frá þannig að ég hafi sagt mitt síðasta orð á þessum vettvangi. Við sjáumst heil og minnum hér í lokin á það sem hafa verið kjörorð fréttaþáttarins, ást á ættjörðu, ást á sannleika. Sumt breytist aldrei. Guð blessi ykkur og áfram Ísland.
FAIL.
Alltof langt, alltof klysjukennt.
Þetta byrjar mjög illa hjá þér. Sæmilega vel gefnir menn eiga ekki að skrifa svona langlokur. Þeir eiga sð geta komið hugsunum sínum frá sér á hnitmiðaðri hátt. Þú getur samt huggað þig við að Kári Stefánsson er ekkert skárri. En gann er reyndar ekki í framboði.
Ég veit að þú munt samt gera meira gagn en ýmsir.
Bestu kveðjur
óm