Ég myndi deyja fyrir Vestmannaeyjar
Kannski væri gott fyrir strákana okkar að stofna íslenskan her
Nú geisa stríð um víða veröld og við Vesturlandabúar erum mjög uppteknir af átökunum, enda höfum við og samstarfsríki okkar víða beina og óbeina hagsmuni af niðurstöðunni. Hugmyndafræðileg og tilfinningaleg samúð okkar með einum eða öðrum er af einskærri tilviljun jafnan í algerum takti við við hagsmuni þessara mikilvægu samstarfsríkja okkar.
Þótt þeir sögulegu atburðir hafi orðið að Svíþjóð og Finnland gangi nú í Atlantshafsbandalagið, þá hefur maður hér í Norður-Evrópu ekki á tilfinningunni enn þá að verulegar líkur séu á átökum eða innrás á okkar svæði.
Líklega er þó vafasamt að verða svo friðsæll í hjarta sér að maður útiloki alveg að til þess geti komið að erlendur her ásælist yfirráð eða verðmæti hér um slóðir, jafnvel á því gráa lúsuga Íslandi.
Við höfum tilhneigingu til að sjá fyrir okkur að sagan endurtaki sig. Í fyrri og síðari heimsstyrjöld sluppum við ekki bara prýðilega heldur skömmumst við okkur hálfpartinn eftir á að hyggja fyrir að hafa verið stríðsgróðamenn, einkum í þeirri síðari. Þar vorum við svo heppin að vera hertekin af kurteisum Bretum, sem unnu svo stríðið. Eftir það, þægileg umskipti yfir í nútímahagkerfi á 20. öld.
En hvað ef þessi saga endurtekur sig ekki á nýjum tímum og eitthvað hræðilegt gerist? Það væri ekki einu sinni nýtt. Fyrir fjögur hundruð árum voru um það bil 34 drepnir í Vestmannaeyjum og 234 hnepptir í þrældóm og fluttir til Norður-Afríku í Tyrkjaráninu.
Þar var illa vegið að Vestmannaeyingum og hvar voru Danir þá, sem maður hefði ætlað að hefðu átt að grípa til varna fyrir Íslendinga? Þeir voru uppteknir í öðrum stríðum í Evrópu.
Ef þetta endurtæki sig í einhverri mynd í nútímanum og ef við sjáum fyrir okkur fjarstæða möguleika eins og til dæmis að Kínverjar, kannski búnir að taka yfir Taívan og skyndilega spenntir fyrir eyju í norðri, vildu gera strandhögg á sama stað og Tyrkir forðum og ná yfirráðum í Vestmannaeyjum. Þeir tækju yfir skólana, yfir útgerðina (og þar með yfir hlutafé í Morgunblaðinu!) og almennt alla stjórnsýslu í eyjunni, staðurinn héti ekki lengur Vestmannaeyjar heldur kínversku nafni, hvað gerðum við þá?
Einfalda svarið er auðvitað að við myndum reiða okkur á stuðning Atlantshafsbandalagsins. En þegar Kínverjar væru komnir út á Atlantshaf væru allar líkur á að bandalagsþjóðir okkar væru einmitt „uppteknar í öðrum stríðum“ eins og fyrir fjögur hundruð árum. Maður getur því ekki verið viss um að Vestmannaeyjar væru í forgangi.
Vondur draumur Evrópuþjóða
NATO hefur starfandi framkvæmdastjóra en ef hann og Bandaríkjaforseti eru ósammála, gengur maður út frá því að Bandaríkjaforseti sé sá sem hafi raunverulega valdið.
Þegar Donald Trump komst til valda vorum við minnt á að NATO-ríki þurfa sannarlega að lúta duttlungum forsetans í Hvíta húsinu. Trump talaði á öðrum nótum um samstarfið en forverar hans í embætti og fór í hart við til dæmis Þjóðverja og Frakka um hernaðarútgjöld.
Um bandalagið sagði Trump þetta árið 2019: „Ef ég á að segja eins og er, eru það Bandaríkin sem græða minnst á þessu varnarbandalagi. Við græðum minnst á þessu. Við erum bara að hjálpa Evrópu.“
Þjóðverjar vöknuðu upp við vondan draum enda höfðu þeir verið að spara sér skildinginn á sviði varnarmála og skákað á meðan í skjóli Bandaríkjanna. Angela Merkel sat undir ákúrum frá Trump um að á sama tíma og Bandaríkjamenn sæju í raun um varnir Þjóðverja, væru Þjóðverjar algerlega háðir gasi frá Rússum. „Þýskaland er undir fullkominni stjórn Rússlands,“ er bein tilvitnun frá Trump frá 2018.
Trump rataðist auðvitað satt á munn þarna þótt menn hafi ekki virt það við hann. Fyrirsögn Vísis um framferði illvíga óargadýrsins í Hvíta húsinu á umræddum fundi er dæmigerð: „Trump setti NATO-fundinn úr skorðum“.
Raunar vöknuðu Þjóðverjar þó ekki upp af vonda draumnum þarna, heldur var það ekki fyrr en með innrás Rússa inn í Úkraínu í febrúar 2022 sem menn þurftu að horfast í augu við stöðuna.
Olaf Scholz kanslari hélt ræðu sem fer í sögubækurnar sem Zeitenwende-ræðan, vendipunktur á milli tveggja tíma, þar sem hann boðaði stóraukin útgjöld til hernaðarmála strax. Þjóðverjar tóku með þessu algera, að margra mati löngu tímabæra u-beygju á sviði varnarmála, þótt þeir eigi langt í land með að nútímavæða her sinn.
Á sama tíma þurftu þeir þó að skrúfa fyrir gasið frá Rússlandi (að hluta vegna eigin áhuga og að hluta þrýstings að utan) og síðan hefur þýskt efnahagslíf verið í miklum hremmingum, sem eru sífellt að versna. Maður spyr sig: Var þýska efnahagsundrið allt byggt á rússnesku gasi? Ég hef engar forsendur til að fullyrða um það, en það hljómar ekki fáránlega sem frasi.
Eftir stendur önnur spurning: Hafa menn mikla trú á að svo laskaður þjóðarbúskapur geti staðið undir nauðsynlegri endurnýjun þýska hersins? Það er vafaatriði. Þessa dagana er Þýskaland uppnefnt „veiki maðurinn í Evrópu“ og því taka Þjóðverjar ekki af léttúð.
Strategía
Við getum dregið tvenns konar lærdóm af ofangreindu. Í fyrsta lagi getur allt gerst í bandarískri pólitík. Í öðru lagi hefur þróunin þar verulega mikið að segja um örlög okkar þjóða sem reiðum okkur á bandaríska herinn.
Við sjáum örvæntingu Þjóðverja og hafa þeir þó sinn eigin her. Við hér eigum enn meira undir.
Af hreinum og tærum strategískum ástæðum, er þá nokkuð galið að vilja af tvennu illu frekar vera í stöðu Þjóðverja, sem hafa eigin her, en að vera í okkar stöðu, sem erum fullkomlega ofurseld ófyrirsjáanlegum bandarískum ákvörðunum í þessum málum?
Það er ekki guðlast að sjá fyrir sér aðstæður þar sem Bandaríkin myndu hætta að nenna að verja okkur og við stæðum eftir varnarlaus.
Arnór Sigurjónsson, embættismaður á sviði íslenskra varnarmála til 40 ára, gaf út bókina Íslenskur her á árinu sem er kynnt svona til leiks: „Hvað ef Atlantshafsbandalagið hætti að starfa og varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna yrði sagt upp?“
Í bókinni leggur Arnór til að Íslendingar axli loksins ábyrgð á eigin vörnum og stofni íslenskan um það bil þúsund manna her. Hann segir ekki hægt að útvista þessu verkefni til annarra þjóða sem hafa margvíslegra annarra hagsmuna að gæta, þótt samstarf sé auðvitað æskilegt.
Svarið við þessum hugmyndum, sem eru auðvitað ekki nýjar af nálinni, er iðulega spurningin um hvaða gagn við hefðum af slíkum her? Hann mætti sín ekki mikils ef til innrásar kæmi, eins og dæmin sanni hjá hernaðarþjóðum sem þó hafi verið herteknar í gegnum tíðina.
Á móti má aftur vísa í Arnór: „Mikilvægasta hlutverk íslensks herliðs er að bregðast við óvæntum og fyrirvaralausum öryggisáskorunum sem spanna bilið frá fjölþáttaógnum til hefðbundinna hernaðarátaka með því að tryggja öryggi hernaðarlega mikilvægra staða áður en liðsauki erlendis frá nær að komast til landsins. Þannig stuðlar herliðið að því að varðveita og vernda sjálfstæði og fullveldi Íslands með því að hækka sársaukaþröskuld sem hugsanlegur árásaraðili stendur frammi fyrir.“
Hljómar smá skynsamlega, en þrátt fyrir þessi sjónarmið hafna langflestir íslenskir stjórnmálamenn því alveg að Íslendingar annist sjálfir eigin varnir. Að stofna her myndi kosta okkur 66 milljarða á ári að sögn Arnórs og sú tala hjálpar ekki málstaðnum.
Stemning
Af strategískum ástæðum væri sem sé alls ekki galið að ræða stofnun íslensks hers. En af stemningsástæðum er enn meiri ástæða til að stofna íslenskan her.
Íslenskir karlmenn á herskyldualdri lifa margir nú þegar í varanlegri hernaðarfantasíu í tölvuheimum, þannig að fyrir þá væri herþjónusta í raun bara spurning um eðlilegt næsta skref.
Við getum auðvitað breytt engu, leyft þessum ungu mönnum að ganga endanlega frá dópamínkerfum líkama síns með tölvuleikjum og klámi og haldið áfram okkar árlega málþing þar sem við komum ávallt af fjöllum og spyrjum: Hvað er eiginlega að hjá strákunum okkar?
Eða við getum stofnað sakleysislegan íslenskan her, þar sem við komum lífsorku þessara manna í heilbrigðan farveg; setjum þá í stranga líkamlega þjálfun við smá klikkaðar aðstæður úti í íslenskri náttúru, kennum þeim raunverulegan aga og sjálfsstjórn, byggjum upp líkamlega heilsu, sköpum praktíska þekkingu á innviðum landsins hjá stórum hópi og fáum fram smá samheldni og metnað til að vinna störf í þágu samfélagsins. Eftir herskylduna kæmu þeir svo ferskir heim, reynslunni ríkari. Sumir myndu gera herinn að ævistarfi.
Ég átta mig á að stofnun hers er ekki eina (og ekki endilega rétta) lausnin fyrir umræddan hóp klámsjúklinga; en hann hljómar samt smá eins og hann gæti þjappað hópnum saman fyrir göfugan málstað, er það ekki?
Raunverulegur hernaður yrði vonandi eftir sem áður fantasía, rétt eins og hann er það núna í tölvuleikjunum. En ef eitthvað gerðist, væri þá ekki alveg eins gott að hafa beislað alla orkuna í alvöru undirbúning fyrir stríð?
Hverfum aftur til Vestmannaeyja, til hins ólíklega möguleika að þær verði fyrir árás. Ef Kínverjar eða til dæmis Rússar taka raunverulega yfir eyjuna og skemma allt sem okkur er þar kært, myndum við ekki finna til okkar? Myndum við ekki smá deyja fyrir Vestmannaeyjar?
Hvort sem svarið er nei eða já við þeirri spurningu, hljóta allir að vera sammála um að best færi á að senda á undan sér þúsund gaura ferska úr þekkingarmiðstöð íslenskrar hernaðarlistar, musteri líkamlegrar hreysti, úr höfuðstöðvum íslenska hersins á Reykjanesskaga.
P.S.
Hér er auglýsing frá norska hernum: „Fyrir allt sem við eigum. Og allt sem við erum.“ Það ætlar enginn að segja mér að gaurinn sem var að lesa Hernaðarlistina í World Class myndi ekki bókstaflega fara á biðlista fyrir íslenskt svona prójekt.