„Þeir hafa sáð fræjunum að eigin falli“
Kjartan Þórisson um Noona, frumkvöðlalífið, gervigreind, paradís, heimsendi og geimverur
Almennilegt hlaðvarpsviðtal til að hlusta á á leið í bústaðinn…
Það er andi í Kjartani Þórissyni, sem er á meðal fremstu frumkvöðla sinnar kynslóðar í íslensku atvinnulífi. Hann er aðeins tuttugu og átta ára gamall en er framkvæmdastjóri og stofnandi Noona, fyrirtækis með viðskiptavini í yfir tuttugu löndum og samtals vel á fimmta tug starfsmanna.
Kjartan fer yfir ferilinn og hugsjónirnar í viðtali í hlaðvarpi Snorra Mássonar ritstjóra í dag.
„Það eru margar skemmtilegar myndlíkingar sem hafa verið búnar til í kringum það að stofna fyrirtæki og fara að „frumkvöðlast.“ Ein af þeim er sú að maður kastar sjálfum sér fram af kletti og maður þarf að byggja flugvélina á leiðinni niður til að geta flogið og lifað af,“ segir Kjartan.
„Þetta er tilfinningarússíbani sem maður fer í gegnum og þetta verður smá þráhyggja og maður getur verið og er örugglega yfirleitt sinn versti óvinur.
Þessa dagana, blessunarlega, líður mér eins og botninn sé í baksýnisspeglinum. Kannski tekur hann einhvern tíma við manni aftur í framtíðinni og þá er ég alltaf tilbúinn. En þessa dagana er skemmtilegt að vera til og það er skemmtilegt að vera Noon-verji.“
Noona byrjaði sem hliðarverkefni Kjartans í menntaskóla árið 2014 og verður fyllilega að fyrirtæki þegar Kjartan og Jón Hilmar Karlsson taka saman höndum í kringum 2018, kaupa aðra út og ákveða að fara alla leið með verkefnið.
Vöxtur Noona hefur verið ör á undanförnum árum. Fyrirtækið þjónustar nú 1.800 fyrirtæki í 20 löndum og yfir 120.000 Íslendingar hafa sótt Noona-appið, sem nýlega hlaut Íslenskuvefverðlaunin fyrir app ársins. Nýverið festi Noona kaup á íslenska viðskiptatæknifyrirtækinu Salescloud og stefnan er að með tíð og tíma muni þjónustan öll vera veitt undir sameinuðu merki Noona. Útrás er fram undan en á þessu stigi er helmingur viðskiptavina staddur erlendis.
Í þættinum er farið um afar víðan völl, allt frá umræðum um heimsmál og gervigreind til spádóma um annaðhvort heimsendi eða paradís á jörðu. Hlaðvarpsviðtöl Snorra Mássonar ritstjóra eru unnin í samstarfi við vefverslunina www.sante.is.
Einstein sagði að vísindi án trúar væru ömurleg, en trú án vísinda væri blind. Og Aristoteles: Miðað við hve takmarkað tungumál okkar er má þykja furða hve vel okkur gengur að skilja hvert annað
Búinn að slá um sig með rithöfundum hægri vinstri, og svo kemur: “Í upphafi var orðið,” sagði einhver. Það var Jóhannes, fjórði guðspallamaður Biblíunnar :)