Ekkert nýtt, nema valdarán
Valdarán eru ekki lengur bara í sögubókunum. Hvað eiga Spánverjar, Argentínumenn og OpenAI sameiginlegt þessa dagana?
Greinin birtist fyrst 20. nóvember 2023, en er nú endurbirt í opinni dagskrá vegna forfalla ritstjórans (hræðileg og auðmýkjandi pest) og einnig í ljósi þess að hér er rætt um Bitcoin! Það er í hæstu hæðum þessa dagana eins og þið vitið… Einnig hefur OpenAI aftur verið til umræðu. Ný, fersk grein er væntanleg og auðvitað fréttir vikunnar!
Ný vika, ný tækifæri! Hér og annars staðar hafa orðið mikil tíðindi:
Hinn mikli hægrimaður Javier Milei var kjörinn forseti Argentínu um helgina í stærri kosningasigri en búist var við. Hann er Bitcoin-vinur.
Stofnanda eins mikilvægasta gervigreindarfyrirtækis heims, Sam Altman hjá OpenAI, var sagt upp störfum fyrir helgi.
Stjórnmálaástandið á Spáni hefur ekki verið eins eldfimt lengi. Á meðan flokkar lengst til hægri saka forsætisráðherrann um að hafa framið valdarán með myndun nýrrar ríkisstjórnar, hvetja fyrrverandi hátt settir stjórnendur í hernum til þess að spænski herinn fremji bókstaflegt valdarán til að stemma stigu við hinu.
Stjórnmálafræðingurinn Francis Fukuyama gerði garðinn frægan með bók sinni The End of History and the Last Man árið 1992, þar sem hann sagði að frjálslynt lýðræði hefði sigrað söguna og að þar með væri þetta bara komið. Sú pæling hljómaði vel, en hún hefur elst illa.
Hvað þarf til að fremja valdarán? Pepp samfélagsins
Á nýlendutímanum í Rómönsku-Ameríku hófust valdarán jafnan á „pronunciamiento“ (yfirlýsingu) hjá hershöfðingjum, sem lýstu sterkri skoðun á framvindu mála í stjórnmálunum.
Stundum dugði svona „pronunciamiento“ til þess að friðsamlegt valdarán ætti sér stað og herinn tæki völdin. Það krafðist þess að fleiri jákvæð „pronunciamientos“ kæmu frá öðrum mikilvægum einingum samfélagsins og allt féll þá í ljúfa löð. Í öðrum tilvikum voru svona yfirlýsingar auðvitað upphafið að blóðugri átökum.
Eftir að Sam Altman var rekinn frá OpenAI á föstudaginn var hefur frumkvöðullinn og höfundurinn Antonio García Martínez líkt brottrekstri hans við ákveðið valdarán á vegum stjórnar fyrirtækisins, sem var þó frá upphafi óljóst hvernig myndi leggjast í almenning.
OpenAI er byggt á óskiljanlegum strúktúr sem óhagnaðardrifið félag í aðra röndina með hagnaðardrifnar einingar í undirfélögum. Ýmis sjónarmið liggja þessu til grundvallar, en það er, eins og sjá má, ekki langsótt að bera skipuritið saman við hernaðarstofnanir og leyniþjónustur.
Frá því að Altman var látinn fara hafa pronunciamiento-arnir frá stofnunum samfélagsins flestir verið á þá leið að menn sætta sig ekki við þessa ákvörðun. Elon Musk, fjármálalegur hershöfðingi í bandarísku samfélagi, skrifaði á X: „Í ljósi áhættunnar og máttarins sem felst í háþróaðri gervigreind, á almenningur heimtingu á að vita hvers vegna stjórnin fann sig knúna til að ráðast í svo afdrifaríkar ráðstafanir.“
Enn er á huldu hvaða ástæður bjuggu hér að baki, en það má segja að þessi „pronunciamiento“ – valdarán og aðför stjórnar OpenAI að Sam Altman – hafi ekki fallið í kramið hjá samfélaginu. Það var ekki pepp fyrir því að steypa honum af stóli.
Altman hefur nú verið ráðinn til Microsoft, sem er helsti fjármögnunaraðili OpenAI. Óvíst er hvað verður um samstarf OpenAI og Microsoft í framhaldinu.
Gamlir hershöfðingjar láta heyra í sér
Á Spáni er umræðan um valdarán ekki á sviði tæknifyrirtækja, heldur stjórnmálanna sjálfra. Síðasta fimmtudag undirrituðu fimmtíu fyrrverandi hershöfðingjar, aðallega úr lofthernum, hvatningu til hersins um að fjarlægja Pedro Sánchez forsætisráðherra frá völdum.
Þessi hvatning er byggð á þeim sjónarmiðum þessara fyrrverandi hermanna, að stjórnarmyndun Sánchez sé í grunninn ólýðræðisleg. Það er vegna þess að Sánchez samdi í stjórnarmyndunarskyni við flokk aðskilnaðarsinna í Katalóníu um að veita þeim sakaruppgjöf sem stóðu að ólöglegri atkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins 2017.
Þeir sem eru lengst til hægri á spænska stjórnmálasviðinu líta á þetta samkomulag sem valdarán, þar sem réttarríkið sé í raun tekið úr sambandi með þessum ráðstöfunum. Aðrir og fleiri eru mótfallnir þessu án þess að taka svo sterkt til orða, en hundruðir þúsunda hafa mótmælt á götum úti undanfarna daga og ekki er það allt fallegt.
Við getum prísað okkur sæl hér heima að fantasíur um raunverulega ólýðræðislegar aðgerðir eru ekki litríkari en sem nemur endurtalningu á atkvæðum í Norðvesturkjördæmi árið 2021. Það er nú gleymt. Reyndar þegar ég segi þetta: Samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 að frumvarp stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár yrði grunnur nýrrar stjórnarskrár. Það var ekki farið eftir þeirri niðurstöðu. Jæja.
Verum frjálsir menn eða deyjum
Þótt Javier Milei, nýr forseti Argentínu og alþjóðleg stórstjarna hægrisins, sé lýðræðislega kjörinn, lifir hann sig inn í átök liðinna tíma, þar sem ekki allt snerist um lýðræði, heldur hreina hernaðarlega yfirburði.
Í lok október deildi Milei ákveðnum „pronunciamiento“ frá argentínskri frelsishetju, José de San Martín, sem barðist á nítjándu öld gegn spænskum yfirráðum í landinu.
Þar sagði hershöfðinginn: „Við þurfum að berjast með öllum tiltækum ráðum. Ef við eigum engan pening, þá dugar okkur kjöt og smá tóbak; ef við eigum engin föt klæðumst við tötrunum sem konur okkar sauma á okkur, og ef það bregst berjumst við á Adamsklæðunum. Verum frjálsir menn – annað skiptir engu máli. Dauðinn er betri en að vera þræll stjórnarsinnanna. Félagar, heitum því að leggja ekki niður vopn fyrr en landið er alveg frjálst. Hinn kosturinn er að deyja með vopnin í höndunum eins og hugrakkir menn.“
Milei deilir þessu af innlifun á X. Kosningabarátta hans hefur enda haft yfirbragð þess að vera einmitt upp á líf og dauða. Það er margt um hana að segja, en Milei er sérstakur frambjóðandi, enda er hann nokkuð frábrugðinn öðrum „popúlistum“.
Milei er Thatcheristi – og boðar algert efnahagslegt frelsi. Það felur í sér sama algera óþol á umsvifum ríkisvaldsins og gætir hjá nýja bandaríska hægrinu, sem boðar „RAGE“: Retire all Government Employees. Svona sér Milei fyrir sér uppstokkun ráðuneyta. Afuera!
Það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni hér, frambjóðendur boða minni eða meiri umsvif ríkisvaldsins hverju sinni.
Seðlabankar svikamylla stjórnmálamanna
Það sem er hins vegar nýtt undir sólinni er að forseti stórþjóðar með 46 milljónir íbúa sé talsmaður Bitcoin, eins og Milei er. Í viðtali fer hann (hagfræðingur að mennt) af töluverðri þekkingu yfir tilurð þjóðargjaldmiðla sem fyrirbæris og skýtur föstum skotum að ofríki seðlabankanna.
„Það fyrsta sem við þurfum að gera okkur grein fyrir er að seðlabankar eru svikamylla. Þeir eru svikamylla stjórnmálamanna sem nota seðlabankana til þess að halda uppi viðvarandi skattlagningu á borgara í formi verðbólgu.
Og hvað er þá Bitcoin? Bitcoin er í raun að skila peningunum aftur til þeirra sem bjuggu hann til í byrjun: Sem er einkageirinn. Þar verður peningurinn til,“ segir Milei.
Í okkar samfélagi verður peningur til hjá stjórnvöldum, sem hafa þar með einokun á honum og fulla stjórn. Af þessum sökum segir Milei skiljanlegt að stjórnmálamenn setji sig upp á móti Bitcoin. Af því að ef lagaleg einokun þjóðargjaldmiðilsins er afnumin, er ekki lengur hægt að „ræna fólk daglega með skattinum sem er verðbólgan.“
Ekkert skal fullyrt hér um væntanlegan árangur Milei í baráttu gegn vókisma eða vinstrimennsku í víðum skilningi. Sú eilífðarvél malar og Guð veit hvað verður ofan á. Á sviði rafmynta er hins vegar full ástæða til að taka kjöri Milei mjög alvarlega, enda útheimtir efnahagsástandið í Argentínu róttækar lausnir.
Að leyfa Bitcoin sem löglegan gjaldmiðil í svona stóru hagkerfi gæti verið mikil bylting, mögulega hið eina sanna valdarán fólksins. En ef Milei flýgur þar of nálægt sólinni er enginn vafi á að hershöfðingjar á heimsgjaldmiðlasviðinu munu bera sína „pronunciamientos“ á borð – og sannarlega láta Milei finna fyrir því.
Sem betur fer hefur Argentína ekki alltof miklu að tapa.