Þetta er sem sagt viðurkennd skoðun núna
Opinber starfsmaður tjáir sig opinberlega um þá ósk sína að Donald Trump sé skotinn í höfuðið í beinni útsendingu. Hver dregur mörkin í opinberri umræðu?
Umfjallanir og greinar birtast áskrifendum í hverri viku en þessi grein er opin öllum, aldrei þessu vant.
Það munaði millimeter á því um helgina að við yrðum í beinni útsendingu vitni að morði á líklegum verðandi forseta máttugasta ríkis heims. Þá hefðu vafalaust farið í hönd enn óskýrari og harðvítugri átakatímar en við lifum núna og er þá nokkuð sagt.
Að sjá viðbrögð Donald Trump hefur kallað fram stuðningsbylgju í hans garð í kosningunum í nóvember, bæði hjá þeim sem hafa stutt hann en haldið aftur af sér, og einnig nýjum stuðningsmönnum sem hrifust af karlmennsku hans. Þetta eru bersýnilega straumhvörf í þessari kosningabaráttu.
Frá því að Biden sigraði síðustu kosningar hef ég haft óljósa tilfinningu um að sigur Trump 2024 sé ómöguleiki. Að sama hvernig farið yrði að því, yrði því ekki leyft að gerast að hann yrði forseti Bandaríkjanna á ný. Sú tilfinning mín hefur nú breyst enda var þetta augnablik svo ósvikið að engin fjölmiðlaumræða og staðreyndavakt getur á næstu mánuðum hróflað við þeirri mynd sem greypst hefur í minni heimsbyggðarinnar.
Gamaldags hugmynd að drepa ekki stjórnmálamenn
Við Íslendingar hyllum auðvitað Bandaríkjaforseta sem leiðtoga okkar í víðum skilningi. Tilræði gegn stjórnmálamönnum er ekki daglegt brauð á Vesturlöndum, þannig að okkur krossbregður. Við hugsum sem svo að þetta sé tilræði gegn okkar kerfi og þar með tilræði gegn okkur.
Við drepum ekki hvert annað til að leysa úr ágreiningi. Þannig hefur það að minnsta kosti verið hingað til en nú sýnist manni þetta vera farið að skolast til.
Af netheimum að dæma er þessi gamaldags hugmynd um að drepa ekki hvert annað síður en svo algild. Maður rekur augun í athugasemdir frá Íslendingum um að það hefði nú verið alveg eins gott ef byssukúlan hefði hæft manninn í höfuðið og drepið hann fyrir framan okkur. Sumar athugasemdirnar eru sagðar í hálfkæringi, aðrar undir nafnleynd en enn aðrar eru settar fram í fullri alvöru undir fullu nafni.
Sjáum Ernu Magnúsdóttur, dósent við læknadeild Háskóla Íslands, sem skrifar athugasemd á Facebook:
„Ég viðurkenni að ég óskaði í nokkrar sekúndur þess í gær að árásarmaðurinn hefði hitt. En er ansi hrædd um að gjáin hefði víkkað enn meira hefði það gerst. Svona eins og þjóðsagan um að ef maður kremji kakkalakka sprautist eggin út um allt og gefi af sér 100 afkvæmi í stað þess eina kramda,“ skrifar Erna.
Fyrir þessum læknisfræðidósent er niðurstaðan sem sagt sú að það sé svona þannig séð betra að höfuðið á Trump hafi ekki sprungið í beinni útsendingu, eins og hún óskaði sér þó í smá. Það hefði nefnilega ekki hentað það vel pólitískt að taka kakkalakkann af lífi á þessu augnabliki.
Athugum að ummæli Ernu Magnúsdóttur eru vitaskuld ekki fréttnæm í sjálfu sér en þau varpa ljósi á ramma hins leyfilega í fastráðinni menntastétt hins opinbera.
Hver er að draga mörkin í opinberri umræðu? Er hægt að áfellast fræðimenn með Trump-maníu eða Trump Derangement Syndrome eins og það er kallað? Svona hefur Joe Biden til dæmis fjallað um andstæðing sinn:
Ef maðurinn er hrein ógn við lýðræðið, fasisti, þá er auðvitað ekki aðeins réttlætanlegt að drepa hann heldur er það jafnvel það eina rétta í stöðunni.
Margir hafa viljað gera demókrata og miðla þeirra ábyrga fyrir þessari árás í ljósi þeirrar herferðar sem hefur verið keyrð gegn Trump á undanförnum árum. Maður tekur því þó með fyrirvara þegar einhverri orðræðu er kennt um að brjálæðingar skuli taka skotvopn og myrða saklaust fólk. Þeir fyndu sér líklega ástæðu til að gera það hvernig sem væri. En það má hins vegar velta fyrir sér hvort orðræðan sé ekki vissulega að sannfæra óbreytta háskólakennara þessa heims um að það væri svo sem fínt ef einhver ákveði að skjóta forsetaframbjóðendur í hausinn.
Óhjákvæmileg niðurstaða
Íslandsvinurinn Ayaan Hirsi Ali bendir í þessu samhengi á forsíðu tímaritsins The New Republic frá því í maí á þessu ári, þar sem Trump er blandað saman við Hitler og Bandaríkjamenn varaðir við fasismanum fram undan.
Hirsi Ali skrifar: „Sá málflutningur að Trump sé ógn við bandarískt lýðræði á pari við Hitler á upptök sín hjá fyrstu vinstrisinnuðu blaðamönnunum sem gengu af göflunum árið 2016. Það sem gerði málflutninginn sérlega illkvittinn var auðvitað sú staðreynd að hann réttlætir öll hugsanleg meðul til þess að hleypa embættistíð hans í uppnám og koma í veg fyrir endurkjör. Við ættum því ekki að láta það sem gerðist í gær koma okkur á óvart. Það var óhjákvæmileg niðurstaða markvissrar og grimmilegrar skrímslavæðingar síðustu ára.“
Það er Guðs mildi að ekki fór verr. Er það ekki örugglega?