Þetta leysist ekki af sjálfu sér
Eftir að sprunga opnaðist inni í Grindavík um helgina breyttist umræðan um byggð í Grindavík á næstu árum alveg í einu vetfangi.
Eftir að sprunga opnaðist inni í Grindavík um helgina breyttist umræðan um byggð í Grindavík á næstu árum alveg í einu vetfangi. Á meðan sumir sjá fyrir sér að geta búið þar áfram þegar ástandinu linnir eftir einhver ár - vilja aðrir hefja nýtt líf á nýjum stað. En staðan er flókin; eignir í Grindavík eru auðvitað ekki verðlausar með öllu, en það er samt ómögulegt að meta virði þeirra einmitt núna, hvað þá koma þeim í verð á almennum markaði.
Þetta veldur óleysanlegri togstreitu hjá mörgum og við fáum inn á milli vangaveltur eins og þessa, frá Birni Birgissyni Grindvíkingi, sem segist heyra ÞETTA frá mörgum Grindvíkingum: „Ég vildi óska þess að jarðskjálftar, eldgos og hraun hreinlega eyðileggi bæinn!“
Horfa á umfjöllun:
Á meðan ekki eru teknar ákvarðanir eru Grindvíkingar á leigumarkaði hér og þar í tímabundnu húsnæði. Færsla í Facebook-hópi til aðstoðar Grindvíkingum þar sem 90 fermetra íbúð í Kópavogi er auglýst til leigu er lýsandi fyrir ástandið; íbúðin er auglýst á 340.000 á mánuði - og ekki líður á löngu þar til leigusalinn er sakaður um að ætla að græða á hörmungarástandinu. Leigusalinn bendir þá kurteislega á að á þessu leiguverði sé hann í raun að borga með íbúðinni, svo háir séu vextirnir.
Það er nefnilega þegar gífurlegur þrýstingur á fasteignamarkaði og vextirnir sliga fólk. Hörmungarnar í Grindavík blandast inn í ástand sem er þegar mjög flókið; það síðasta sem við heyrðum af stýrivöxtum var viðtal á Innherja þar sem forstöðumaður Hagfræðistofnunar ríkisins spáði því að stýrivextir ættu eftir að hækka um tvö prósentustig á þessu ári, en ekki lækka eins og margir hafa vonað. Þá væru þeir komnir í 11,25%.
Þótt auðvitað sé það algerlega inni í myndinni að síðarmeir verði aftur búið í Grindavík, kalla margir eftir því núna að ríkisvaldið skeri Grindvíkinga úr snörunni. Ein útfærslan er að ríkissjóður kaupi einfaldlega fasteignir þeirra Grindvíkinga sem vilja selja þær á fasteignamatsverði - sem er samtals upp á rúma 100 milljarða króna í Grindavík árið 2024.
Mögulegt væri að hafa síðan forkaupsrétt aftur fyrir fyrri eigendur þegar og ef þeir vilja flytja til baka. Guð veit hver er rétta lausnin en þá vísum við í Grindvíkinginn sem benti á að: „Þetta er eitt af því sem leysist ekki af sjálfu sér.“