Kannski liggur það í hlutarins eðli að hugsjónasnauðir stjórnmálamenn láti berast með almenningsáliti sem birtist þeim í skoðanakönnunum um einstök mál hverju sinni.
Könnun frá Maskínu sýnir að 60% Íslendinga telji nú of marga flóttamenn fá hæli á Íslandi. Á undanförnum árum hafði sama hlutfall staðið í um 25-30%. Hér hefur orðið „alger viðsnúningur í viðhorfi almennings til flóttamanna“ eins og Vísir segir réttilega, sem lét framkvæma könnunina.
Hvort stjórnmálamenn séu að laga sig að þessari breytingu hjá íslenskum almenningi eða almenningur að breyttum málflutningi stjórnmálamanna er vissulega spurningin um hænuna eða eggið, en eftir situr að allt er breytt í þessum málaflokki.
Hin faglega kærunefnd
Sú frétt birtist á föstudaginn að nú líti kærunefnd útlendingamála, sem ræður miklu um flóttamannamál á Íslandi, svo á að ástandið í Venesúela hafi skánað. Því sé réttlætanlegt að senda fólk þangað heim, sem hér hefur leitað hælis.
Dómsmálaráðherra hefur sagt að þessi úrskurður geti haft í för með sér mestu fólksflutninga síðari tíma héðan úr landi, en 1.500 manns og þeirra örlög eru undir. Þeir gætu verið sendir úr landi.
Einhvern tíma hefði fólk safnast saman á Austurvöll vegna minna máls. Annað eins hefur þekkst vegna einnar fjölskyldu sem fer í viðtal, en nú heyrast ekki sömu mótmæli.
Vissulega frá talsmönnum flóttamanna, lögmönnunum, og jú Pírötum, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, sem er reyndar einnig lögmaður, talsmaður flóttamanna, þegar hún situr ekki á þingi.
Arndís Anna sagði í viðtali við RÚV að hún hefði áhyggjur af því að umrædd kærunefnd væri að láta undan pólitískum þrýstingi með því að leyfa brottflutning til Venesúela. Aðrir stjórnmálamenn „treysta“ nefndinni, eins og forsætisráðherra. Manni segir svo hugur að menn velji á milli trausts og tortryggni um þetta eftir því hvort niðurstöður nefndarinnar hugnist þeim eður ei.
Fagrar hugsjónir á meðan það hentar
Einnig er vikið að þessum breytingum í greinargóðum skrifum Kristins Hrafnssonar blaðamanns, sem varpa skýru ljósi á vandræðalegan plebbaskap íslenskra stjórnvalda við að sleikja upp Bandaríkjamenn í þeirra inngripum „gegn kommúnisma“ í Venesúela á sínum tíma.
Á þeim samstöðugrundvelli ákváðu íslensk stjórnvöld upphaflega að taka við öllu þessu fólki frá Venesúela. Nú er stemningin gegn kommúnismanum í Venesúela einfaldlega minni, þannig að þetta fólk má eiga sig. Það er ógeðsleg grimmd og hún minnir okkur á þau eilífu sannindi að það eldist illa að láta eins og utanríkisstefna geti byggst á hugsjónum, þegar hún byggist auðvitað ávallt á hagsmunum.
Nicolas Maduro, hinn illi kommúnisti, hefur tryggari völd en nokkru sinni fyrr yfir landinu, en samt er óhætt að senda fólk þangað. Það er auðvitað „faglegt mat“ en tengist því ekkert að Bandaríkin eru komin í mun nánara samband við stjórnvöld í landinu. Alls ekki.
How can I help you?
Athygli ritstjórans vekur einnig mildi Samfylkingarmanna til þessara brottflutninga, en Dagbjört Hákonardóttir þingmaður flokksins leggur einkum áherslu á að það ríki ekki samstaða í stjórninni um málið. Takk fyrir þetta, góður punktur!
Þetta er sama nýja Samfylking og hefur nýlega kallað sig flokk sem gerir „fortakslausa kröfu um lög og reglur“, talar gegn stofnun „Mannréttindastofnunar“ vegna verðbólgu og losaði sig við Helgu Völu Helgadóttur. Flokkur sem vill „virkari tengingu við venjulegt fólk“.
Eina framlag Viðreisnar til þessarar umræðu er að lýsa yfir áhyggjum af „stigmagnandi hörku í umræðunni“ og kallar eftir þverpólitískum lausnum. Segið bara hvað þið viljið gera, teknókratar!
Sjálfstæðisflokkurinn, það óáhugaverða stjórnmálaafl, reynir að skora stig í þessum sviptivindum með því að tala gegn straumi flóttamanna vegna kostnaðarins fyrir skattgreiðendur. Þessi flokkur atvinnurekenda kann þeim kostnaði nefnilega illa, en mótmælir þó aldrei fordæmalausum straumi innflytjenda sem hér á landi hefur myndað nýja að miklu leyti réttindalausa verkamannastétt sem ekki talar íslensku og getur unnið allar helgar.
Íslenskukennsla? Aðlögun? Hver á að borga fyrir það? Er það ég? How can I help you?
Í nýrri ályktun Íslenskrar málnefndar er farið yfir stöðu íslenskrar tungu í fjölmenningarsamfélagi. Þar er talin ástæða til að árétta að nú þurfi „sem endranær að standa vörð um íslensku sem opinbert mál samfélagsins.“
Í þessari ályktun (formaður nefndarinnar er bróðir forsætisráðherra) er að vísu ekki kveðið nógu skýrt að orði um að sitjandi stjórnvöld hafa, svo að áþreifanlegt er, brugðist fullkomlega í að kenna nýbúum íslensku. Enn dapurlegra er til þess að hugsa að engin teikn eru á lofti um að þau mál standi raunverulega til bóta. Á einhverjum tímapunkti verður það mögulega of seint.
Börnin aftur í búrin
Þessi „algeri viðsnúningur“ í viðhorfi til flóttamanna (ath. þeim málum skal ekki blanda saman við málefni innflytjenda) einskorðast ekki við Ísland heldur er sums staðar varla um annað rætt í stjórnmálum vestrænna ríkja.
Í Þýskalandi má rifja það upp þegar Horst Seehofer þáverandi dómsmálaráðherra talaði fyrir því árið 2017 að sett yrðu töluleg takmörk á fjölda flóttamanna upp á 200.000 manns. Þá varð allt vitlaust vegna hugmyndarinnar og afsagnar hans krafist.
Nú hefur Markus Söder, ein af vonarstjörnum sama flokks Kristilegra demókrata og arftaki Seehofer í embætti forsætisráðherra Bæjaralands, lýst nákvæmlega sömu hugmynd. Viðbrögðin eru öllu mildari og þar er það umhverfið sem hefur breyst, en ekki hugmyndin.
Sama gildir um Bandaríkin, þar sem „börn í búrum“ á landamærum Donald Trump rötuðu í alla heimsmiðla árið 2018 og Íslendingar settu margir stuðningsskreytingu á profile-myndirnar sínar á Facebook gegn geymslu barna í búrum.
Egill Helgason skrifaði þá: „Við horfum á hvernig fasismi skríður áfram hægt og bítandi og lætur ekki stöðva sig. Nýjasta og versta dæmið er hvernig ríkisstjórn Donalds Trump í Bandaríkjunum lætur stía í sundur börn og foreldra, en lokar börnin inni í búrum á landamærum Bandaríkjana og Mexíkó.“
En hvað kom eftir Donald Trump? Við höfum lítið heyrt af því. Raunin var sú að Biden-stjórnin breytti lítillega til á landamærunum árið 2021 en fyrr á þessu ári var síðan sagt frá því í New York Times, Guardian og í fleiri miðlum að Biden-stjórnin stefndi nú á að hverfa í raun aftur til stefnu Trump á landamærunum. Að loka ólöglega innflytjendur inni í búrum. Búr er búr, sama hvað þú kallar það, samanber hið „lokaða búsetuúrræði“ sem íslensk stjórnvöld eru hrifin af.
Í þessari grein er því jafnvel haldið fram að börn hafi raunar aldrei hætt að fara í búr á landamærunum í Bandaríkjunum. Það sem breyttist hins vegar var forsetinn. Líka tíðarandinn?
Það hefur líklega farið framhjá Agli Helga að NYT varð að leiðrétta frétt sína um “börnin í búrunum” af því að myndefnið sem þeir notuðu var frá 2013.
Populísk gildishlaðin grein að mínu mati sem skautar fram hjá viðfangsefninu og þeim áskorunum sem þjóðin og umheimurinn stendur frammi fyrir.