Forsætisráðherrann segir Bretland hafa verið gert að „tilraun í opnum landamærum“
Keir Starmer með hvassa gagnrýni á Íhaldsmenn
Gleðilegan föstudag, kæru lesendur, hér er stutt vangavelta fyrir ykkur inn í helgina, nokkuð sem vakti athygli mína á förnum vegi um internetið.
Ég hef ekki séð mikið fjallað um annars athyglisverða og afar hvassa gagnrýni forsætisráðherra Breta á innflytjendastefnu fyrri stjórnar Íhaldsmanna.
Það hefur verið fréttaefni að undanförnu að milljón manns hafi flutt til Bretlands á síðasta ári, sem er fjórföldun frá 2019. Það væri í íslenskum hlutföllum í kringum 6.000 innflytjendur á ári, sem er einmitt u.þ.b. meðaltal fjölgunar hér á landi frá 2017.
Tölurnar þykja háar og breskir Íhaldsmenn tala nú mjög fyrir draga stórlega úr strauminum inn í landið. Athugum að umræðan snýst hér frekar um vinnumarkað en hæliskerfi eða slíkt.
Svo virðist sem Verkamannaflokkur Keir Starmer sé á sömu blaðsíðu. Formaðurinn segir um „opingáttastefnu“ Íhaldsflokksins á undanförnum árum:
Mistök af þessari stærðargráðu eru ekki bara óheppni, ekki bara hluti af alþjóðlegri þróun, eða að einhver hafi ekki verið að fylgjast nógu vel með.
Nei, þetta er á allt öðrum skala. Þetta gerðist viljandi, ekki óvart. Stefnunni var breytt að ásettu ráði til að liðka fyrir flutningi fólks hingað.
Brexit var notað í þeim tilgangi að gera Bretland að einni stórri tilraun í opnum landamærum. Þetta var stefna sem naut einskis stuðnings - og þetta var ófyrirgefanlegt.
Óhjákvæmilegt er að setja þessi mistök í samhengi við vangetu stjórnvalda til að vinna eigin heimavinnu í tengslum við fagmenntun, umbætur í atvinnuleysistryggingakerfi eða að gefa unga fólkinu okkar góð tækifæri. Í staðinn var ódýrra lausna leitað utan landsteinanna.
Af því að það er augljóst: Meirihluti fólksins sem hingað hefur komið er að fylla í göt á okkar innlenda vinnumarkaði. Skortur á fagmenntuðu fólki um allt land!
Þetta hefur leitt til þess að hagkerfi okkar reiðir sig í óheilbrigðum mæli á innflutning vinnuafls. […]
Við ætlum að nálgast þetta öðruvísi og birtum brátt hvítbók okkar með áætlun um það hvernig við drögum úr straumi innflytjenda.
Það felast tíðindi í því að forsætisráðherrann sjálfur, úr systurflokki Samfylkingarinnar, lýsi því þannig að land sitt hafi verið gert að tilraunastað fyrir opin landamæri. Starmer lýkur ræðu sinni þannig að hann fellst á að þetta verði hvorki fljótgert né einfalt „en við ætlum að snúa þessu við. Ekki með brellum, heldur vinnusemi.“