Fréttir vikunnar | Aumingjavæðing, slaufun Esterar hjá Bónus og verkfall (#32)
Á dagskrá fréttavikunnar: Seinkun grunnskóla, tregða Bónus til að selja bækur um þriðju vaktina, virkjanaþrá Samfylkingar, verkfall flugvirkja og nafnleynd tæknifrömuða í Kísildal.
Það er föstudagur enn á ný og komið að fréttum vikunnar. Við lítum á björtu hliðarnar og bendum á eitt sem ríkir fullkomin sátt um í okkar samfélagi, aldrei þessu vænt, og það er að allir eru sammála um að vera á móti flugumferðarstjórum. Síðan víkjum við að örri þróun gervigreindar, auðvitað, en stöldrum stutt við.
Við veltum fyrir okkur: Hvenær er rétt að svipta hulunni af fólki sem er nafnlaust í sínum störfum? Áhrifamiklir hugmyndafræðingar velja oft að vera nafnlausir - og sömuleiðis sækjast starfsmenn í bókhaldsdeild Bónus ekki alltaf eftir mikilli athygli. Bók um þriðju vaktina kemur hér við sögu og knýr aktívista til að afhjúpa Ester hjá Bónus.
Molar: Samfylkingin vill virkja meira, ráðist að utanríkisráðherra og börn fá að sofa út. Aumingjavæðing!
Hér er uppkast að því sem sagt er í þættinum en ef vísa skal í orð ritstjórans í þessum þætti, skal hið talaða orð gilda, sem sagt úr myndbandinu:
Ritstjórinn er í farsælu samstarfi í nafni málfrelsis við þrjú fyrirtæki sem velja að stuðla að frjálsri fjölmiðlun í landinu. Eitt þeirra er Þ. Þorgrímsson byggingavöruverslun. Meira en 80 ára saga af alvöru þjónustu við alvöru neytendur. Annað fyrirtæki er Domino’s Pizza, þú veist hvaða pizzur ég er að tala um, rótgróin íslensk matarhefð frá 1993. Og loks er það fjarskiptafélag fólksins: Hringdu. Gott verð – og þjónusta sem er þannig að ef þú spyrð vini þína á Facebook hvar þú átt að kaupa net, þá mun gáfaður nörd sem veit allt svara: Hjá Hringdu.
Samstarf við þessi góðu fyrirtæki gerir okkur kleift að færa þér fréttir vikunnar á hverjum föstudegi, þér að kostnaðarlausu.
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra.
Það er 15. desember 2023 og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út eftir sjö vikur. Það er ekki margt sem bendir til þess að kjaraviðræður muni ganga greiðlega fyrir sig núna á næstunni og það eru risastórar spurningar í þessu; fáum við krónutöluhækkanir, einbeitum við okkur að því að hækka bara ákveðnar kvennastéttir í launum og látum þá aðrar bíða í staðinn? Ólíklegt að slík nálgun takist, þetta er auðvitað eins og Herkúles sem hjó eitt af níu höfðum Hýdru - það vex bara annað höfuð í staðinn. Hækkum bara laun leikskólakennara þannig að þeir haldist í vinnu og geti kennt börnum smá íslensku þannig að síðarmeir nái þau lágmarksviðmiðum um lesskilning. Neibb ef við myndum gera það, hvað þá um ljósmæður? Hjúkrunarfræðinga? Grunnskólakennara? Þetta er búið fyrir okkur. Óleysanlegt. Enginn peningur til náttúrulega, eins og Samtök atvinnulífsins segja.
Einhvers staðar er reyndar peningur til; vissuð þið að 20% Íslendinga á meira en 140 milljónir króna í eignir? Fimmti hver maður. Maður sá þetta bara hjá útlendingum á Twitter, í Bandaríkjunum heitirðu millionaire ef þú átt svona peninga. Auðvitað er þetta útaf smá óeðlilegum húsnæðismarkaði, en það breytir því ekki, að einhvers staðar eru peningar til hérna. Það þýðir þó ekki að það sé líklegt að hér náist sátt um að færa peningana nógu mikið til með kjarasamningum til að einhverjir fátæklingar komist upp úr örbirgð og einhverjir auðmenn þurfi að já kaupa sér mögulega einum færri tilgangslausan hlut í mánuði. Nei, hér næst líklega engin sátt um það, en það er reyndar eitt sem fullkomin sátt ríkir um þessa dagana og það er að vera á móti flugumferðarstjórum. Þeir eru nú í verkfalli til þess að berjast fyrir bættum kjörum og meðallaun þeirra eru þegar ein og hálf milljón á mánuði. Það hefur líklega verið farið í verkfall af meira tilefni.
En Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, veit að þetta verkfall meikar kannski ekki það mikinn sens fyrir fólki, hann sagði við Vísi: „Ég held að almenningsálitið hafi aldrei verið með okkur.“ Hmm. Ætli það sé mögulega vegna þess að þið eruð alltaf í verkfalli með eina og hálfa milljón á mánuði? Jæja. Arnar er alla vega að reyna að bæta ástandið aðeins, hann er farinn að gera eins og ráðherrar gera stundum þegar þeir eru búnir að vera mjög óþekkir, þeir mæta í svona köflóttri veiðiferðarlegri skyrtu undir jakkafötunum til að sýna að þeir eru mennskir, Arnar flugumferðarstjóri tekur þetta skrefinu lengra og mætir með Jordan-derhúfu í beina útsendingu á Stöð 2. Já oft var þörf en nú er nauðsyn.
Já, það stefnir auðvitað í smá kjarnorkuvetur á vinnumarkaði ef marka má kröfur fólks í flestum stéttum, en þá getum við allavega huggað okkur við að við erum kannski ekki að fara að rífast um krónur og aura mikið lengur, sjáið hér; starfskraft framtíðarinnar; ný kynslóð af vélmenninu Tesla Optimus, sem Tesla afhjúpaði á miðvikudag. Myndbrot sýnt.
Smá ógnvekjandi. Fyrsta útgáfa vélmennisins í september 2022, Bumblebee, önnur í mars 2023, Optimus einn og nú þriðja útgáfan strax í desember 2023, Optimus Tveir. Hvert verðum við komin eftir fimm ár?
Það er auðvitað raunveruleg spurning og við fjölluðum það á ritstjori.is í vikunni að átökin um þróun gervigreindar eru að harðna töluvert í Bandaríkjunum eftir því sem alvöru gervigreind á pari við mennska greind færist nær okkur.
Á meðal þess sem kemur almenningi fyrir sjónir í þeim átökum öllum er nýleg afhjúpun tímaritsins Forbes á nafnlausum gervigreindarnörda, sem hefur hingað til kallað sig Beff Jezos á X. Beff Jezos hefur verið á meðal forsprakka hreyfingar á sviði gervigreindar, effective accelerationism, hagnýt hröðunarhyggja, ef svo má segja, þar sem litið er svo á að frumkvöðlar eigi bara að gefa bensínið í botn í þróun gervigreindar án þess að hafa of miklar áhyggjur af því hvaða hliðarafleiðingar of hröð þróun gervigreindar getur haft. Margir eru mjög á móti þessu og vilja að stjórnvöld í rauninni hafi meira og minna fulla stjórn á þróuninni, en menn á borð við Beff Jezos eru mjög á móti þessu. Að baki þessum reikningi, Beff Jezos, reyndist vera ósköp sakleysislegur fransk-kanadískur tölvunörd sem heitir Guillaume Verdon. Hann reyndist sem sagt sjálfur vera með gervigreindarsprota í smíðum og hefur nú fengið 14 milljón dala fjármögnun til að þróa verkefnið áfram.
Verdon segist vinna eftir eftirfarandi gildum: málfrelsi, hugsanafrelsi og frelsi til forritunar. Hann heldur því fram fram að með því að tala fyrir því að þróun gervigreindar sé stöðvuð eða færð undir gaumgæfilegri stjórn yfirvalda, sé fólk ekki að hugsa um að „verja almenning“ frá hættum gervigreindar heldur í raun um að verja þá valdastrúktúra sem þjóna þeim á þessari stundu. Maður sér alveg fyrir sér að fólk sem hugsi þannig vaði í herra Verdon, sem hefur sagt orðrétt: „Ef þú vissir hvað ég er að þróa myndirðu banna það.“
Þannig að þetta eru átök og þetta er í raun allt spurning um mjög harða samkeppni og valdabaráttu, en maður spyr sig um leikreglurnar? Þarf endilega að afhjúpa nafnlausan reikning með fimmtíu þúsund fylgjendur, bara vegna þess að upplýsingarnar varða almenning að mati blaðamanna Forbes? Nægir það mat bara til að skera úr um það hver skal doxxaður og hverjum skal hlíft? Að doxxa er sem sagt upp á ensku að að afhjúpa það hver stendur á bakvið eitthvað nafnlaust.
Hér heima er yfirleitt litið á það bara sem hálfgerðan aumingjaskap að vera nafnlaus á netinu, en kannski rennur upp sú tíð að slíkt fyrirkomulag reynist mikilvægt í breyttu pólitísku andrúmslofti. Þetta er flókið samspil - auðvitað eiga menn að vera ábyrgir orða sinna en á sama tíma getur nafnlaus tjáning verið mjög nauðsynleg þegar menn eru að segja sannleikann um mjög valdamikið fólk. Á sama hátt getur í sumum tilvikum verið töluvert réttlæti í hinu gagnstæða, að svipta aðila nafnleynd og afhjúpa hver stendur á bak við einhverjar tilteknar aðgerðir hjá til dæmis stofnunum eða fyrirtækjum.
Stundum er þetta erfið ákvörðun fyrir blaðamenn og já oft aktívista, eins og við sáum líka dæmi um hér heima á Íslandi í vikunni. Femíníski miðillinn Karlmennskan á Instagram hefur verið að berjast fyrir því að fá bók sína um „Þriðju vaktina“ í sölu í verslunum Bónus, sem er auðvitað mikilvægur bóksölustaður. Bónus virðist vera eitthvað hikandi við að taka „Þriðju vaktina“ í sölu, að því er virðist út af einhverjum praktískum atriðum, óljósri markaðssetningu bókarinnar og einhverju slíku, sem eru ástæður sem Þorsteinn í Karlmennskunni tekur ekki gildar, hann skrifar á Instagram: „Bókinni var hafnað að því er virðist af fullkomlega huglægum og tilfinningalegum ástæðum án málefnalegra ástæðna.“
Það er auðvitað verðug ábending hjá Þorsteini; að þarna séu huglægar og ómálefnalegar ástæður að baki ákvörðuninni hjá Bónus. Og við verðum alltaf að taka það alvarlega þegar einkafyrirtækið Bónus tekur órökstudda ákvörðun um að svoleiðis traðka á stjórnarskrárvörðum rétti Íslendinga til að selja sjálfsútgefið fræðsluefni sitt í Bónus. Þetta er alvarlegt mál og í svona tilvikum er stundum eina úrræði aktívista að gerast róttækir og svipta hulunni af raunverulega gerandanum í málinu, sem var í þessu tilviki engin önnur en Ester í bókhaldsdeildinni. Ester í bókhaldsdeildinni í Bónus eða eins og Þorsteinn kallar Ester; gatekeeper allra bóka í Bónus. Hvert er eina úrræði manns gagnvart slíkum gatekeeper, slíkum ómálefnalegum hliðverði? Jú auðvitað bara að afhjúpa hann, afhjúpa Ester og láta hana finna fyrir því. Þorsteinn var neyddur til að grípa til þess ráðs að hvetja alla 22 þúsund fylgjendur Karlmennskunnar á Instagram til þess að „senda endilega fyrirspurn“ á þennan skrifstofustarfsmann Bónus í tölvupósti, á netfang Esterar sem er birt í færslunni, til að “spyrjast fyrir” um ástæður þess að Bónus sé ekki að selja þessa bók um þriðju vaktina.
Enginn óeðlilegur þrýstingur að siga 22 þúsund fylgjendum sínum beint á netfangið hjá Ester, engin áreitni í því, nei bara forvitni, bara einföld spurning: Af hverju, Ester, af hverju verður „Þriðja vaktin“ ekki seld í Bónus? Ertu með einhvern málefnalegan rökstuðning?
Þetta gerðist í alvöru; væri áhugavert að skoða tölvupóstinn hjá Ester, hvort einhver hafi sent fyrirspurn. „Af hverju er ekki Þriðja vaktin í Bónus?“Líka eins og fólk sem vill raunverulega vera það passive aggressive að gefa körlunum í fjölskyldunni þessa bók, gjöf sem segir hátt og skýrt: þú sökkar og ég hata þig, eins og það fólk geti ekki bara keypt hana beint af þessum Instagram-reikningi hjá Karlmennskunni. Nei. Bókin þarf að vera í Bónus. Ester!
Jæja. Yfir í annað mál.
Nokkrar íslenskar lögreglukonur gerðu sér glaðan dag í skoðunar- og vinnuferð til Auschwitz á dögunum, erfitt að sjá fyrir sér glaðan dag þar, en þeim tókst það, þessum lögreglukonum, með því að panta sér karlkyns fatafellu sér til samlætis eitt kvöldið. Lögreglukonurnar mynduðu þetta og deildu sín á milli á samfélagsmiðlum og loks var því lekið til fjölmiðla að þetta hefði átt sér stað. Ritstjórinn dæmir auðvitað ekki - hann hefur takmarkaðar upplýsingar um það hvernig þetta fór allt fram nákvæmlega - en að taka mynd af strippara í vinnuferð hjá lögreglunni og setja það á Snapchat? Er ekki bara það útaf fyrir sig nægt dómgreindarleysi til að vera rekinn? Nei, greinilega ekki, það hljómar eins og þær muni halda vinnunni vinkonurnar. Áhugavert í þessu máli: Það var Heimildin sem skúbbaði þessari frétt og við vorum einmitt hér í fréttum vikunnar fyrir tveimur vikum að veita Heimildinni lýðræðislegt aðhald og benda á tvískinnunginn sem felst í að taka í sífellu við upplýsingum frá heimildarmönnum sem fá að njóta nafnleyndar en fara svo á eftir slíkum nafnlausum heimildarmönnum annarra miðla eins og Nútímans, eins og þegar fréttaflutningu þess miðils kom niður á þingmanni Pírata í hans ölæði hérna á dögunum. Í stripparamálinu var Heimildin ekkert að spyrja lögregluna sérstaklega hvort það samræmdist vinnureglum lögreglunnar að leka upplýsingum í fjölmiðla um það sem á sér stað í vinnuferðum lögreglunnar, eins og Heimildin spurði lögregluna einmitt að þegar upplýsingum var lekið til Nútímans um handtöku þingmannsins.
Annað mál: Samfylkingin heldur áfram að sigla með himinskautum í skoðanakönnunum og það verður spennandi að fylgjast með hvort nýjasta útspil flokksins mun hjálpa þeim enn frekar á þeirri vegferð. Morgunblaðið var svo ánægt að það skellti því á forsíðu blaðsins á miðvikudag, að Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar er byrjaður að gagnrýna ríkisstjórnina sérstaklega fyrir „þunglamalegt og óskilvirkt leyfisveitingarferli þegar kemur að virkjunum“ á Íslandi. Samfylkingin styður aukna orkuöflun, segir í fyrirsögninni. Þeir vilja virkja greinilega - og það strax. Þetta er auðvitað glænýr flokkur sem er þarna á ferð og nú hefur næsta stóra skrefið í vegferðinni verið stigið, að lofa kjósendum að rústa íslenskri náttúru í meiri mæli á næsta kjörtímabili vegna yfirvofandi orkuskorts. Og ég veit það ekki, er áróðurinn farinn að ná tökum á mér, eða er það kannski bara rétt að við þurfum að fara að virkja meira hérna í stað þess að knýja síldarvinnslu á Austfjörðum með olíu vegna orkuskorts? Gætum hætt að selja stóriðjunni orku ódýrt í staðinn - fáum samt mjög mikinn pening úr því. Jæja. Flókið mál! Samfylkingin hefur tekið afstöðu. Skemma landið! Nei djók. Samt ekki alveg djók.
Þarna er flokkurinn auðvitað aðeins verið að klípa til sín miðjusinnaða hópinn í Sjálfstæðisflokknum, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að mælast mjög illa í skoðanakönnunum og er orðinn stressaður. Það hjálpar honum að vísu að unga fólkið í Heimdalli er farið að storka náttúrulögmálunum aðeins. Náttúrulögmálin kveða sem sagt á um að hægrimenn geti ekki búið til fyndin meme á netinu. The Right Can’t Meme er lögmálið á ensku. En er það að breytast? Það kæmi ekkert á óvart svo sem, eftir að hin stóra almenna hægrisveifla varð og íhaldssemin varð nýja róttæknin. Út frá því eru Heimdellingar orðnir róttæklingar og þar með kannski komnir með smá vott af húmor. Að vísu held ég að Heimdellingar séu margir hálfgerðir libbar sem ættu allt eins heima í Viðreisn, en að þetta séu almennt alls ekki almennilegir íhaldsmenn í neinum veigamiklum atriðum.
En allavega, hægrimenn geta ekki búið til meme - það er staðreynd málsins - en samt varð þetta hér til, sem er auðvitað alls ekki mjög fyndið, en samt ekki þannig ófyndið að manni blæði í augun við að sjá þetta, sem er óvenjulegt fyrir grín frá Sjálfstæðismönnum. Brot sýnt.
Já money please. Eins og ég segi: Þetta er auðvitað ekki mjög fyndið, en þetta svona gengur allavega upp. Þetta er að minnsta kosti mikil framför frá því bara í ágúst á þessu ári, þegar við fengum svona grín frá Ungum sjálfstæðismönnum. Brot sýnt.
Malmövik. Töluvert ófullkominn húmor þarna á ferð. Þannig að við verðum að hrósa fyrir það sem er vel gert. Það eru bætingar. Hitt er mun skárra, þetta grín með rithöfundana. Þótt það sé reyndar auðvitað ekki fallegt að níðast á bláfátækum ríkisskáldum sem hafa það nógu skítt nú þegar, bæði fjárhagslega og andlega sumir.
Það liggur fyrir að margir rithöfundar upplifi þetta þannig að þeir lifi í raun við tvöfalda ritskoðun í kerfinu, sem launþegar frá ríkinu; fyrst er það sem sagt ritlaunanefndin sem ákveður formlega hvaða verk fá styrk, hvaða verk fá að koma út og hvaða hugmyndir birtast í þeim, og svo eru það höfundarnir sem þá ritskoða sig sjálfa til að þess að verkin falli að líklegum hugmyndum ritlaunanefndarinnar. Hvaða hugmyndir eru það? Ja, það er mikil tilviljun í málinu að hin opinbera ritlaunanefnd á það til að vera ansi hrifin af svona ríkjandi meginstraumshugmyndafræði hjá hinu opinbera - þannig að ef þú víkur mikið frá henni, þá ertu kannski ekki mjög góður rithöfundur í augum nefndarinnar. Þíns framlags er ekki óskað. Að þessu sögðu; rithöfundar þurfa laun, en hvernig við eigum að skaffa þau án þessarar ritskoðunar - það er opin spurning.
Annað mál frá því í vikunni, að vísu tengt Sjálfstæðisflokknum líka, því að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra varð fyrir því í vikunni alveg óvænt að veist var að honum á málfundi og stráð yfir hann rauðu glimmeri. Gerandinn var aktívisti sem berst fyrir hagsmunum Palestínumanna. Eins góður og gildur og sá málstaður kann að vera, þá er ritstjórinn greinilega svo gamaldags í sér að eðlisávísun hans hugsaði þegar hann sá þessar aðfarir: Takið þessa konu fasta og farið með hana í fangaklefa. Strax!” Það er svona fyrstu viðbrögð og kannski yfirdrifin en samt. Margrét Blöndal, sem var á meðal þeirra sem tóku yfir málfundinn, var í viðtali í kvöldfréttum RÚV þennan sama dag, bara já, hver var svona pælingin hjá ykkur með því að ráðast á ráðherra? Er einhver skemmtileg saga af því?
Við þurftum að ná eyrum fólks. Ákváðum bara að ráðast á ráðherrann. Um að gera að taka viðtal við mótmælendur en það vantaði kannski aðeins upp á, já, alvarleika málsins. En það er bara þannig. Mörgum fannst greinilega bara allt í góðu að ráðist sé á ráðherra ríkisstjórnarinnar, svo lengi sem tilgangurinn helgar meðalið. Því er ég persónulega hjartanlega ósammála. Það er alveg sama hvaða málefni er undir, það er af og frá að stjórnmálamenn eigi að venjast því að óttast um öryggi sitt á almannafæri af því að einhver af því að hann er með nógu rétta skoðun telur sig þar með hafa rétt á að skvetta óskilgreindum efnum á þá. Hvernig átti Bjarni eða aðrir viðstaddir að vita það frá upphafi að um glimmer hafi verið að ræða, en ekki bara eitthvað allt annað?
Þaðan förum við yfir í annað mál, en ekki alveg ótengt, af því að ef svona atvik halda áfram að koma upp þarf augljóslega að auka mjög öryggisstig í kringum ráðherra ríkisstjórnarinnar. Þannig að jafnvel þótt ekki væri fyrir bara sparnað á því sviði, ættu menn að hafa sóma til að koma málstað sínum á framfæri með siðuðum hætti. Það er í alvöru ekki hægt að bæta miklu við útgjöldin við að halda úti öllum þessum ráðherrum. Í vikunni kom út skýrsla frá Ríkisendurskoðun, þar sem niðurstaðan var sú að ráðherrakapallinn sem við fengum hérna eftir kosningar 2021, þegar ráðuneytum var skipt upp í ný og fleiri ráðuneyti í mjög óljósum tilgangi, niðurstaða Ríkisendurskoðunar er sú að þessi ráðherrakapall hafi verið illa undirbúinn, skapað mikinn rugling og að kostnaðurinn geti orðið meiri en 1,7 milljarðar króna eins og gert var ráð fyrir í einhverri áætluninni. Meira en 1,7 milljarðar af okkar peningum og ávinningurinn? Það liggur ekki fyrir. Enn sem komið er er eini ávinningurinn sem við vitum af, eini ávinningurinn af ráðherrakapalnum, eru einfaldlega tvö auka ráðuneyti á kostnað skattgreiðenda og vegna þeirra ráðuneyta, örlítið minni niðurlæging Vinstri grænna eftir ósigur í kosningum. Þetta erum við að borga fyrir.
Yfir í annað: Reykjavíkurborg hefur ákveðið að skóladagur unglinga muni í fyrsta lagi hefjast klukkan 8.50 að morgni héðan í frá og breytingin tekur gildi strax næsta haust. Þetta var alltaf 8.20 en verður nú 8.50. Þriggja ára tilraunaverkefni meðal annars til að sjá hvort „meiri svefn“ bæti „andlega líðan“ unga fólksins, sem er auðvitað ekki mjög góð. Þessar breytingar eru mikið högg, eins og Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur lýsir á X, högg sérstaklega fyrir þá foreldra sem hafa sagt börnum sínum hingað til að lausnin við því að maður sé of þreyttur í skólanum á morgnana sé að fara fyrr að sofa. „Skulda ég börnunum mínum þá afsökunarbeiðni?“ spyr Margrét - sem hefur alltaf sagt börnum sínum að axla sjálf ábyrgð með þessum hætti – af því að það er augljóslega komið á daginn að lausnin við þreytunni er ekki að fara fyrr að sofa, heldur bara að væla nógu mikið yfir þreytu í skoðanakönnunum þar til skólayfirvöld breyta öllu kerfinu til að koma til móts við þig. Já, þetta er fullnaðarsigur unga fólksins, nú er það aukahálftími á TikTok á hverju kvöldi að ég veit það ekki, skoða nýjan TikTok-dans! Þessi er sniðugur. Neinei, börnin eru auðvitað að gera ýmsa uppbyggilega hluti á Tiktok, eins og að horfa á ritstjórann á TikTok og kommenta hvað hann er í fyrsta lagi ógeðslegur og í öðru lagi heimskur. Kannski rétt, en hann er allavega ekki aumingi sem getur ekki farið á fætur. Neinei, ég segi svona. En það er ljóst að aumingjavæðingin er líklega rétt að byrja. Haldið ykkur fast.
Hér rétt að lokum; Atli Steinn Guðmundsson er einstæður maður. Líklega með einstæðari núlifandi Íslendingum, ef þú spyrð mig. Þið hafið mögulega rekið augun í nafn hans við grunsamlega vel stílaðar fréttagreinar, einkum um Norðurlöndin á mbl.is og í Morgunblaðinu, en annars mögulega rekist á hann í öðrum hlutverkum í gegnum tíðina. Atli Steinn á mjög ófyrirsjáanlega samsett lífshlaup, hann var dyravörður, vaxtarræktarmaður, djammari, tollvörður, starfsmaður á olíuborðpalli, lagerstarfsmaður í kaffibrennslu, og svo er hann ekki sjaldséð sjón á meðal útigangsmanna á torgum norsku smáborgarinnar Tönsberg, þar sem hann er núna búsettur. Stundum tekur hann viðtöl við þessa sömu útigangsmenn og stundum er hann bara að spjalla. Einhvern veginn eiginlega meðfram öllu þessu rugli hefur Atli allan tímann verið einn nákvæmasti prófarkarlesari landsins og einn allra ritfærasti blaðamaður landsins. Hann býr semsagt nú í Noregi, flúði þangað í hruninu, og er þar enn, nú í fullu starfi hjá Morgunblaðinu; hann er verkamaður orðsins, eins og við köllum okkur stundum, við Atli. Við bræður tókum greinargott viðtal við Atla Stein í hlaðvarpi okkar Skoðanabræðrum á dögunum. Hann skrifar töluvert um glæpamál á Norðurlöndum, hér er brot af samtali okkar.
Mjög athyglisvert, Svíar misstu tökin, þátturinn er alls ekki um glæpagengi á Norðurlöndum heldur um margt annað. Ég spurði Atla líka, sem er menntaður íslenskufræðingur, stuttlega út í kynjamálið svokallaða; hið meinta kynhlutlausa mál sem nú ríður húsum; öll í stað allir þar sem það á ekki við samkvæmt hefðbundinni málfræði. Fáum stutt brot.
Já sorglegt sagði maðurinn. Þórarinn Eldjárn vill helst ekki tala um þetta, telur að þetta gangi yfir. Sjáum til með það – maður myndi frekar óttast hitt, að þetta verði sífellt útbreiddara, oft kannski vegna þess að fólk lætur undan þrýstingnum. Þurfum ekki að láta undan þrýstingnum, kæru áhorfendur, munum það. Við erum frjálst fólk í frjálsu landi. Við skulum njóta þess á meðan varir. Við komumst ekki lengra með þetta að sinni. Ég minni á samstarfsaðila ritstjórans, Þ. Þorgrímsson, Domino’s Pizza og fjarskiptafélagið Hringdu. Svo eru það kjörorð þessa fréttaþáttar; ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við sjáumst hér í næstu viku, Guð blessi ykkur.
Based Bonus!