Fréttir vikunnar: Forréttindapýramídinn og enn um þriðju vaktina
Nýr sneisafullur þáttur af efnismiklum fréttum og málefnalegum persónuárásum. Þriðja vaktin, forréttindapýramídi Reykjavíkurborgar, stríð og rafmyntir.
Alltaf er kominn föstudagur á nýjan leik sem þýðir aðeins eitt fyrir vini ritstjórans: Nýr sneisafullur þáttur af efnismiklum fréttum og málefnalegum persónuárásum.
Að þessu sinni taldi ritstjórinn þörf á að svara þeim örfáu sem gerðu lítillegar athugasemdir við umfjöllun hans í síðustu viku um hina svonefndu þriðju vakt. Hér er vakin athygli á þeirri samsæriskenningu, sem sumir halda á lofti, að einhverjir sem fari fram af hörku í því máli kunni að hafa annarlegra hagsmuna að gæta.
Síðan er fjallað um nýjung í menntastefnu Reykjavíkurborgar, sem er að þjálfa grunnskólabörn í gerð þess sem kallað er „forréttindapýramídi“ þar sem samfélagshópum er raðað skipulega upp í von um að varpa ljósi á nánast glæpsamleg forréttindi ákveðinna hópa. Þessi iðja má segja að sé afurð nokkuð útbreiddrar hugmyndafræði í íslensku samfélagi, sem snýst öll um minni forréttindi eða minni.
Önnur umfjöllunarefni: Stríðsrekstur, Bandaríkin og rafmyntir.
Fréttir vikunnar á YouTube:
Hér er uppskrift þess sem fram kemur í þættinum að ofan, þótt ekki sé hún nákvæm:
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar.
Það var mikil og almenn ánægja með fréttir vikunnar hérna í síðustu viku þar sem við fjölluðum meðal annars um „þriðju vaktina“ og bentum á hvað það væri stundum vafasamt að beina athyglinni í sífellu að slíkum hugtökum í stað þýðingarmeiri vandamála. Þýðingarmeiri vandamál eins og efnahagslegum aðstæðum fólks sem þarf sumt að vinna alltof mikið í störfum sem hafa kannski ekki mikla þýðingu fyrir þau, en hafa samt mikla þýðingu fyrir fyrirtækin sem þau vinna hjá. Fyrirtækin græða, fólkið vinnur of mikið og getur ekki átt ánægjulegt persónulegt líf.
Punkturinn var að maður ætti að taka því með fyrirvara þegar „femínísk fyrirtæki” otuðu að manni glænýjum hugtökum eins og „þriðju vaktinni“ – hugsanlega til að telja okkur trú um að vandamálið í lífi kvenna sé einhvern veginn að karlar hugsi ekki nógu mikið um afmælisgjafir fram í tímann – en ekki bara að við höfum ekki nægan tíma eða orku til að sinna því sem skiptir okkur máli í lífinu.
Örfáir voru óánægðir með þessar hugmyndir ritstjórans og það er allt í lagi, hann er vanur því. Við getum sagt að fyrst og fremst hafi þrír aðilar verið óánægðir með fréttaflutninginn. Í fyrsta lagi var það Haukur Bragason - gaurinn sem var alltaf með bindi, kallaði sig Séntilmennið og er í Ásatrúarfélaginu - gott og vel - það er trúfrelsi á Íslandi - Haukur, sem er svona áberandi PC-maður á Twitter og starfar við textagerð hvers konar - hann var enn þá að hugsa um þennan fréttaflutning minn á þriðjudaginn, hann birtist á föstudegi, á þriðjudegi fór Haukur að leggja mér þau orð í munn að ég teldi að konur ættu að vera heima með börn á meðan ég væri í vinnunni að senda tölvupósta. Þetta er rangt. Þetta er alrangt. Mér finnst leiðinlegt að senda tölvupósta og ég vil alls ekki vinna við það.
Þar að auki tel ég ekki að konur eigi að vera heima með börn, þó að konan mín sé vissulega heima með börnin. Hún er reyndar í fæðingarorlofi. Allir rólegir. Þetta er tímabundið. Í þokkabót notaði Haukur síðan trúðakallinn - trúðatjáknið - sem ég álít hatursorðræðu.
Í öðru lagi var það Hulda Tölgyes sálfræðingur sem tók umfjöllun mína mjög alvarlega. Hún sakaði mig um „hópgaslýsingu“ á reynsluheimi kvenna – annað nýtt hugtak, hópgaslýsing – og skrifaði svo að gaslýsing væri ofbeldi. Ok, þannig að ég er þá með umfjöllun minni um samfélagsmál að beita ofbeldi, hugsaði ég? Smá svona látið liggja á milli hluta þarna hjá Huldu en svo fengum við staðfestingu – já, ég er með umfjöllun minni að beita ofbeldi – þar komum við að þeim þriðja sem gagnrýndi þetta hvað harðast – Þorsteini V. Einarssyni, Þorsteini karlmennsku, eins og hann er kallaður, sem er eiginmaður Huldu – hann deildi ummælum Huldu á X og staðfesti þessa ásökun hennar í minn garð um ofbeldi: Þorsteinn kvaðst dást að konunni sinni fyrir að „segja mönnum að grjóthalda kjafti og hætta að beita ofbeldi.“
Þar höfum við það. Þá er maður bara orðinn ofbeldismaður. Nú, það vill svo til að öll þessi þrjú Haukur Bragason, Hulda Tölgyes og Þorsteinn karlmennska eru höfundar að bók um Þriðju vaktina þessi jólin. Haukur Bragason er sem sagt ritstjóri bókarinnar og hin tvö höfundar. Og nú er verið að auglýsa þessa bók grimmt á gramminu og þar er auglýsingunum sérstaklega beint til vinnustaða. Til fyrirtækja. „Tilvalin jólagjöf til starfsfólks frá vinnustöðum” segir í færslunni.
Vinnustaðir eru sem sagt hvattir til að panta bók til að gefa öllum starfsmönnunum sínum bók um þriðju vaktina. Það er að segja, bók um jafnrétti inni á heimilum starfsmannanna. Ekki bók um jafnrétti í fyrirtækjunum. Heldur inni á heimilum starfsmanna fyrirtækjanna. Sem fyrirtækið á greinilega samkvæmt þessu að reyna að blanda sér í.
Já, maður veltir fyrir sér af hverju fólk er svona viðkvæmt fyrir því að sakleysislegur blaðamaður eins og ég fjalli á léttum nótum um skringilegan áhuga „femínískra fyrirtækja” á að blanda sér í einkalíf fólks með því að standa fyrir sífelldri umræðu um vafasöm glæný hugtök eins og þriðju vaktina, sem tengjast alls ekki rekstri fyrirtækjanna?
Af hverju er fólk svona viðkvæmt fyrir því? Ég veit það ekki. Ef þetta væri samsæriskenningaþáttur myndi ég líklega fara að velta því upp hérna hvort þessi viðbrögð höfundanna tengdust hreinlega persónulegri afkomu þeirra. Að ef þriðja vaktin er afhjúpuð sem einhvers konar nýfrjálshyggjufemínísma-sálfræðihernaður á vegum Corporate Íslands, þá sé auðvitað ekki hægt að mokselja heila bók um málið og þar með séu allar jólatekjurnar farnar í vaskinn. Að þetta fólk hafi einfaldlega beina og augljósa fjárhagslega hagsmuni af því að þriðja vaktin sé tekin alvarlega sem hugtak. En við heyrum að þetta er langsótt samsæriskenning. Þetta getur ekki verið ástæðan fyrir viðbrögðunum. Þetta hlýtur bara í alvöru að hafa verið hópgaslýsing og ofbeldi hjá ritstjóranum. Já.
Vel að merkja – þegar einhver sakar mann gjörsamlega út í bláinn um ofbeldi á netinu, þá myndi minni maður fara í meiðyrðamál – en ekki ritstjórinn, nei, fréttir vikunnar er nefnilega kristilegur þáttur þannig að ég býð hina kinnina og ég fyrirgef. Ég fyrirgef. Og held áfram með lífið.
Eitt sem situr reyndar smá í mér í þessu máli öllu og það var að einhver sagði, í tilefni af þessari umfjöllun sem sagt, einhver sagði að það væri ljóst að ég þyrfti að hafa yfir mér ritstjóra. Illa vegið að ritstjóranum, sem upplifir sig sem ritstjóra sjálfur! Sko ritstýrðir miðlar eru svooo leiðinlegir! Eins og nú þegar við förum yfir í næsta mál, haldið þið til dæmis að einhver hefðbundinn fjölmiðil hefði getað gert hrekkjavökuhelginni í miðbæ Reykjavíkur betur skil en óritstýrður ónefndur einstaklingur á TikTok; sem birti þessa umfjöllun. Sýnt brot.
Já við skulum ekki gleyma því að miðbær Reykjavíkur að næturlagi er ógeðslegur staður. En það er fínt að þetta er eini hryllingurinn í okkar lífi miðað við styrjaldarástand víða um heim, eins og hér hefur verið fjallað um er Ísland í öfundsverðri stöðu - fjarri vígaslóð. Og fleiri og fleiri eru farnir að átta sig á þessu. Sýnt brot frá Joe Rogan.
Já menn eru hreinlega að hugleiða að flytja til Íslands til að flýja hamfarirnar, ef þær verða. Kjarnorkustyrjöld til dæmis. En um allt slíkt er ómögulegt að spá á þessu stigi.
Það er þó ljóst að stemningin fyrir stríði í heiminum hefur margfaldast, eins og Steingrímur J. Sigfússon lýsti í samtali við ritstjórann í hlaðvarpsviðtali í vikunni. Sýnt brot.
Þessi tilfinning Steingríms er ekki byggð á engu. Eins og Steingrímur benti á í viðtalinu eru vopnaframleiðendur að eiga góða daga í rekstrinum þessa dagana, hvort sem það er á Norðurlöndum eða í Bandaríkjunum. Góðir íslenskir libbar hafa á síðustu árum lifað í þeirri trú að til dæmis stuðningur Bandaríkjanna við Úkraínumenn gegn Rússum snúist um ást Kanans á lýðræði og frelsi. Hið rétta er auðvitað að sá stuðningur snýst um þá beinu hagsmuni sem Bandaríkjamenn telja sig hafa af því að veita þennan stuðning.
Hér lýsir Mitch McConnell, öldungardeildarþingmaður Repúblikana, sjónarmiðum Bandaríkjamanna í þeirri baráttu af meiri tilfinningakulda en gengur og gerist.
„Engir Bandaríkjamenn eru að deyja í Úkraínu. Við erum að endurnýja hergagnaiðnaðinn okkar. Og Úkraínumenn eru að ganga frá her eins okkar helsta óvinar. Ég á erfitt með að sjá eitthvað slæmt við þetta,“ segir Mitch McConnell.
Hvað gæti mögulega verið slæmt við mjög mikið mannfall í fjarlægu Evrópulandi?
Það er erfitt að mótmæla þessum rökum og þegar allt kemur til alls er ekki útilokað að þessi sturlun sé raunverulega taktískt sniðug fyrir Bandaríkin – og þar með mögulega okkur sem hernaðarlegan skjólstæðing þeirra.
En opinská yfirferð McConnell fær mann til að hugsa. Á hverju ætli sjónarmið Bandaríkjanna byggi þegar kemur að stuðningi við Ísrael? Þar eru þeir enn ákveðnari.
Hér lýsir Mike Johnson, forseti fulltrúadeildar þingsins, því að Bandaríkjamenn muni sannarlega standa með mikilvægasta bandamanni sínum í Miðausturlöndum, Ísrael.
„Við vonum vissulega að það komi ekki til þess að bandarískir hermenn þurfi að mæta á staðinn,“ segir þingforsetinn og slær það þó alls ekki út af borðinu.
Bandaríkjamenn tala sem sagt um það af nokkurri léttúð að þeir gætu þurft að ráðast inn í Miðausturlönd.
Við skulum ekki halda að „hin hliðin“ – þeir sem styðja Palestínumenn á Gasa heils hugar – taki svona skilaboðum af léttúð. Sjáum Erdogan á fjöldafundi í Tyrklandi, að kalla Ísraelsmenn stríðsglæpamenn.
Þarna er talað yfir á frönsku - þið afsakið það, tæknimenn ritstjórans fundu ekki annað myndband, en þarna er Erdogan Tyrklandsforseti sem sagt að segja: „Vesturlönd eiga mesta sök á slátruninni á Gasaströndinni. Vesturlönd, viljið þið virkilega hefja upp á nýtt baráttuna á milli krossins og hálfmánans?“ Hann er þar að tala um stríð á milli trúartákna kristinna manna og múslima.
Já, svona er umræðan og þetta er ekki bara umræða. Þetta er stemning – og stríð eru afurð stemningar. Þegar hingað er komið, þarf ekki fókus Íslendinga að einskorðast við að stöðva öll frekari stríðsátök eftir fremsta megni, svo að við fljótum ekki sofandi inn í þriðju heimsstyrjöld, eins og sumir vara við?
Það er stóra spurningin í þessu. Ísland gat ekki greitt atkvæði með vopnahléi af hugmyndafræðilegum ástæðum í vikunni. Hinn friðarsinnaði forsætisráðherra fékk engu um það ráðið. En staðan er þó einfaldlega sú að ef skref í átt að friði í heiminum er að styðja vopnahlé, sem það virðist sannarlega vera, þá þurfum við Íslendingar að styðja vopnahlé.
Yfir í annað - árið er 2023 - og fyrir fimmtán árum var árið 2008. Sem var viðburðaríkt ár, ekki síst í sögu Íslands. Ritstjórinn mælir með nýju hlaðvarpsviðtali við Steingrím J. Sigfússon á okkar veitu, þar sem við förum yfir tíð Steingríms sem fjármálaráðherra árið 2009 og árin þar á eftir. Það er mögnuð frásögn um ástandið í hruninu – eða hinni alþjóðlegu fjármálakreppu eins og hægrimenn segja stundum til að minna okkur á að það var ekkert sérstakt við hrunið á Íslandi, sem var í þokkabót engum hér að kenna, heldur vorum við fórnarlömb þessarar alþjóðlegu lausafjárkreppu.
Já, árið 2008 - þetta var markvert ár. Ein afurð hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu var rafmyntin Bitcoin, sem leit dagsins ljós þetta sama ár tveimur mánuðum eftir hrun Lehman-bræðra. Þá - 31. október 2008 - birti óþekktur aðili stjórnarskrá þessarar nýju tækni á spjallborði á netinu og þar með hófst mögulega hin mikla öld rafmynta, sem kannski verður skráð svoleiðis í sögubækur framtíðarinnar. Ritstjórinn skal ekki segja hvort það verði raunin.
En það eru sjónarmið sem mæla með því að svipta misvitur stjórnvöld valdi yfir þeim gjaldmiðli sem notaður er á hverjum stað – og leyfa þar með hagkerfinu sjálfu að stýra gjaldmiðlinum, eins og á að vera hægt með ómiðstýrðri mynt eins og Bitcoin. Áhorfendur þessa þáttar hafa ástæðu til að kynna sér þessa merku tækni, ekki af því Bitcoin er núna að hækka aðeins í verði, sem það er vissulega að gera, heldur bara tækninnar vegna. Hún er bylting.
Í bili erum við auðvitað með krónuna, við spurðum fjármálaráðherrann fyrrverandi aðeins út í þann gjaldmiðil. Sýnt brot.
Já – er sjálfsákvörðunarrétturinn okkar sem gengur undir nafninu krónan að gera okkur fátækari? Þá væri illt í efni, því ekki gefum við hann frá okkur. Jæja – óleysanlegt mál – þannig að við ætlum að fara yfir í annað.
Forvitnileg uppákoma varð á persónulegri Facebook-síðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra í vikunni, þar sem hún deildi mynd af sér og móður sinni, þær saman á ráðherraskrifstofunni og Þórdís skrifaði: „Bring your to mom work kinda day.“ Nú, við ætlum ekki að gera athugasemd hérna í dag við að háttvirtur ráðherra birti færslur um svona „kinda day“ eða hinsegin „kinda day“ á Facebook, það er efni í annan þátt, heldur var annað sem vakti athygli ritstjórans í þessari færslu.
Það var athugasemd Elíasar nokkurs Þorsteinssonar, virks í athugasemdum, greinilega, sem skrifaði: „Það er aðeins ca 5-8% forréttindafólks á Íslandi sem getur tekið foreldra sína með sér í vinnuna og haft það huggulegt á kostnað almennings. Hroki og mikilmennskubrjálæði einkennir meira og minna sérstaklega ráðherra ríkisstjórnarinnar.“
Þar höfum við það; Það er aðeins ca 5-8% forréttindafólks á Íslandi sem getur tekið foreldra sína með sér í vinnuna. Þarna erum við með hávísindalegt hlutfall - þetta hefur greinilega verið kannað samkvæmt Elíasi - 5-8 prósent forréttindafólks - sem getur tekið foreldra sína með sér í vinnuna. Það er sláandi að sjá loksins tölfræði um samfélagsmein sem við höfum lengi vitað af.
Suma dreymir alla ævi um að geta tekið foreldrana með sér í vinnuna, en fá kannski aldrei tækifæri til þess. Sá hópur - 92 eða 95 prósentin - sá kúgaði hópur - þarf í ofanálag oft að sætta sig við að mæta kannski á sína vinnustaði frá degi til dags og vera umkringdir foreldrum forréttindafólksins, foreldrunum sem fá að koma með börnunum sínum í vinnuna.Þetta var alvarleg ábending sem Elías kom með þarna við færslu Þórdísar Kolbrúnar. Og hvernig átti hún að svara? Það hefði verið eðlilegt ef hún hefði orðið alveg kjaftstopp, en nei.
Hún svaraði. Hún skrifaði í svari til þessa manns: „Móðir mín keyrði til Reykjavíkur í sínum frítíma í vaktavinnu sem sjúkraliði til að taka viðtal með mér til stuðnings góðs málstaðar. En takk fyrir hlýja kveðju.“ Já. Þetta drepur eiginlega alveg pælingu Elíasar. Þórdís er ekki alltaf með foreldrana í vinnunni, heldur bara einstaka sinnum, af því að foreldrarnir eru í annarri vinnu. Sem sagt: Ekkert það mikil forréttindi hjá Þórdísi Kolbrúnu og hennar fjölskyldu, er það. Mamman er sjúkraliði. Vaktavinna. Það má segja að þessi blanda: Sjúkraliði + vaktavinna + landsbyggð hafi gjörsamlega rústað þessu kommenti Elíasar. Þórdís fékk 93 læk - hann bara þrjú. Ásökun um forréttindi snérist í höndunum á honum.
Þetta þótti slíkur sigur að DV birti þá smekklegu fyrirsögn um þetta mál að Þórdís Kolbrún hafi “skúrað gólfið með virkum í athugasemdum”. Ráðherra skúrar gólfið með virkum í athugasemdum.
En af hverju er þetta mál forvitnilegt, kynni einhver að spyrja, hvaða máli skiptir þetta, eru þetta bara fréttir af Facebook hjá þér, herra ritstjóri? Nei. Þetta skiptir máli. Þetta mál er forvitnilegt vegna þess að það varpar ljósi á útbreidda hugmyndafræðilega lífssýn margra Íslendinga, sem gengur út á að samfélagið skiptist í grunninn í hópa eftir forréttindum, eftir ólíkum forréttindastigum. Það er að segja: Ákveðnir hópar eru með forréttindi, þeir eiga að átta sig á þeim og þeir eiga að skammast sín. Aðrir kúgaðir hópar eru ekki með forréttindi, þeir eru göfugir og þá skal upphefja með trúarlegri lotningu.
Ef einhver sakar þig um forréttindi þá er eina leiðin til að komast undan slíkri ásökun að benda á svið í þínu lífi þar sem þú hefur ekki forréttindi, eins og Þórdís Kolbrún gerði. Það er eina svarið, að sýna fram á raunveruleg óforréttindi sín. Þetta er þekkt mál. Þið munið eftir viðtali Sindra Sindrasonar vinar míns við Töru Margréti líkamsvirðingaraktívista. Sýnt brot.
Nei, við skulum ekki fara þangað – frábært augnablik í sjónvarpssögu Íslendinga.
Hvernig komst samfélagið að þessari hugmyndafræðilegu niðurstöðu, að allt sé þetta spurning um ólíkt stig forréttinda? Það er góð spurning. Menn hafa ekki alltaf hugsað svona. Hvaðan koma forréttindafræðin?
Ein kenning er sú að þetta byrji í skólakerfinu – og sú kenning er ekki galin miðað við færslu á netinu frá því í vikunni. Reykjavíkurborg deildi á vefsíðu sinni fréttagrein um „vinnusmiðju um lýðræðislega virkni“ fyrir grunnskólanema í Reykjavík á vegum skóla- og frístundasviðs borgarinnar. Þar voru börn látin ráða ráðum sínum um alls konar hagsmuni unga fólksins og svo voru þau látin vinna verkefni. Þar á meðal voru þau greinilega, eins og dæma má af ljósmyndum úr fréttagreininni, látin setja saman svonefndan Forréttindapýramída og Mannréttindapýramída. Það var eitt verkefnið í lýðræðissmiðjunni.
Já, hver man ekki eftir því í gamla daga í skólanum: Oh þurfum við að gera forréttindapýramídann aftur. Mannréttindapýramídann. Nei maður var meira bara að læra um stærðfræði, málfræði, Íslandssögu í skólanum í gamla daga og síðan varð einhver róttæk breyting, virðist vera.
Í forréttindapýramídanum var körlum auðvitað raðað efst, og hvítum húðlit, ófötluðum og gagnkynhneigðum. Og svo eftir því sem maður fikrar sig niður eftir forréttindapýramídanum fær maður svona hægt og rólega dekkri húðlit, verður kynsegin og trans, fatlaður, fátækur, talar ekki íslensku, er með verri menntun, á ekki húsnæði, er feitur og svo framvegis og svo framvegis. Það sama er gert í mannréttindapýramídanum, það er ekki ljóst hver munurinn er á þessum tveimur pýramídum. Það er smá flókið að lesa í forréttindapýramídann – þið sjáið að karlar eru þarna efst og svo konur fyrir neðan, en á milli karla og kvenna stendur „ófatlað fólk.“ Þýðir það þá að það séu meiri forréttindi að vera fatlaður karl en ófötluð kona? Það virðist vera samkvæmt þessu, en eins og ég segi: Ég lærði bara stærðfræði og málfræði í grunnskóla og hef alltaf verið lélegur í forréttindapýramídanum.
Já, svona eru börnin sem sagt fengin til þess að vera sífellt á varðbergi gagnvart öllum gerðum af forréttindum, þau eru fengin til að kortleggja hvern einasta áhættuþátt sem hugsast getur ef það skyldu leynast einhver vafasöm forréttindi í lífi þeirra. Í fréttagrein Reykjavíkurborgar segir síðan að hugmyndirnar sem urðu til í vinnusmiðjunum fari til baka inn í skólana og félagsmiðstöðvarnar „þar sem verður leitað leiða við að koma þeim í framkvæmd.“ Menn spyrja sig þá auðvitað: Hvernig kemur maður forréttindapýramídanum í framkvæmd inni í skóla? Ég sé enga praktíska útfærslu svona í fljótu bragði, en borginni hlýtur að detta eitthvað í hug.
Það er óljóst á þessu stigi hvort forréttindapýramídinn sé endilega uppbyggileg leið til að sjá veröldina - hvort pýramídinn eigi eftir að hvetja menn til dáða. Við eigum eftir að sjá frammistöðu komandi kynslóða. En við vitum hins vegar að það er eitthvað bogið við það hvernig börnunum okkar líður. Eins og Ingvar Birgisson lögmaður og fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra bendir á á X í vikunni eru börn kvíðin, þunglynd og stórt hlutfall þeirra byrjar á geðlyfjum í grunnskóla. Samt höfum við aldrei verið með betri stuðning en í dag.
“Það er eitthvað að í þjóðarsálinni,“ skrifar Ingvar og vísar í nýlega tölfræði úr skólakerfinu sem sýnir að kostnaður vegna stuðningsþjónustu í skólum hafi sprungið á undanförnum árum. Stöðugildum í stuðningsþjónustu í grunnskólum hefur fjölgað um sjötíu prósent á tuttugu og fimm árum á meðan nemendum hefur fjölgað um ellefu prósent. Þannig að við sturtum peningum í „stuðning“ sem er vel að merkja auðvitað oft nauðsynlegur - en hlutirnir versna bara. Þarf þá ekki að líta í eigin barm og virkilega komast að því hvað er að?
Þegar stórt er spurt. Það er ekki laust við að ritstjórinn fari í smá sjálfstætt hugsandi andlegan sjálfshjálpargír þegar hann stendur frammi fyrir svona risavöxnum vandamálum. Í dag birtist viðtal mitt og bróður míns Bergþórs Mássonar við sjálfshjálparhöfðingjann og lífsþjálfarann Guðna Gunnarsson í hlaðvarpi okkar Skoðanabræðrum.
Grunnhugmynd Guðna er að menn ráði því ekki hvort þeir verði fyrir sársauka, en að þeir ráði því hvort þeir verði fyrir mikilli þjáningu. Sársauki er óumflýjanlegur - þjáning er val. Þetta sé spurning um viðhorf – hvort maður ætli að vilja sjálfan sig og lífið eða hafna sjálfum sér og lífinu. Guðni telur að samfélagið þurfi að vakna til vitundar um þessi viðhorf – og hann segir mikilvægt að foreldrar kenni börnunum sínum að hugsa svona um lífið. Að enginn annar geti borið ábyrgð á tilveru þinni, hvorki hinu jákvæða né hinu neikvæða, heldur getir aðeins þú sjálfur borið ábyrgðina. Vandamálið í samfélagi okkar er að sögn Guðna hugarfar fólks, ábyrgðarleysi, en ekki endilega geðheilsa þess. Sýnt brot.
Já, hvernig tölum við um okkur og hvernig kennum við börnunum okkur að hugsa um lífið? Erum við fórnarlömb sem bara skortir forréttindi eða ábyrgar verur með verðleika og vilja til athafna? Kannski erfið spurning - en kannski líka nauðsynleg sjálfshjálp fyrir ykkur kæru áhorfendur. Mæli með að hlusta á viðtalið við Guðna Gunnarsson í Skoðanabræðrum.
Það er ekki mikið meira að frétta hér á þessum vettvangi frétta vikunnar að sinni, við komumst ekki lengra með þetta í dag – heldur geymum við okkur frekara blaður þar til í næstu viku. Ég minni á samstarfsaðila ritstjórans Þ. Þorgrímsson, Domino’s Pizza og Hringdu. Við sjáumst hér aftur næsta föstudag og í millitíðinni hvet ég ykkur eins og endranær til að hafa hugföst kjörorð þessa fréttaþáttar; Ást á ættjörðu, ást á sannleika. Í bili - Guð blessi ykkur.
Óheppinn var ég að missa af forréttinda pýramídanum. Munaði bara örfáum árum.
Þorsteinn V(agina) er stærsti grifter á Íslandi.