Fréttir vikunnar: Hrun siðmenningar og sigur upplýsingaóreiðunnar
Raunveruleg upplýsingaóreiða á stríðstímum og síðan ekki endilega svo raunveruleg upplýsingaóreiða á tímum heimsfaraldurs.
Gleðilegan föstudag, kæru vinir ritstjórans. Þetta hefur verið góð vika sem hefur litast af nauðsynlegri umræðu um íslenska tungu, sem ég lofa ykkur að er aðeins rétt að byrja. En í fréttum vikunnar hlífi ég ykkur þó að miklu leyti við því alvarlega máli.
Umfjöllunarefnin þessa vikuna: Raunveruleg upplýsingaóreiða á stríðstímum og síðan ekki endilega svo raunveruleg upplýsingaóreiða á tímum heimsfaraldurs (opinberir starfsmenn eru farnir að tala gegn bólusetningu ungra manna). En helst beinum við athygli okkar í vikunni að hruni í frjósemi á meðal Íslendinga og líka Evrópubúa og förum yfir það hvað hægt er að gera í málinu. Afleiðingar þess að aðhafast ekki hljóta að verða mjög miklar.
Þátturinn á X:
https://twitter.com/5norri/status/1715277144928981306
Þátturinn á Spotify:
Þátturinn á YouTube:
Ég var beðinn um að hafa með texta að fréttum vikunnar fyrir þá sem ekki komast yfir hálftíma af ljósvakaefni. Hann fylgir hérna, en ef velja skal endanlega gerð textans, þá skal miðað við myndbandið, en ekki þessa grófu uppskrift.
Komið sæl og verið hjartanlega velkomin í Fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra, þetta er mikilvægasti vettvangurinn eins og þið vitið til að fá allar mikilvægustu fréttirnar á einu bretti, án þess að þurfa að liggja yfir miðlunum alla vikuna, sem getur verið skaðlegt.
Þráður sem dreif á daga ritstjórans á Twitter á dögunum lýsir þessu vel; eins og skáldið sagði; oft ratast nafnlausum rafmyntarfjárfestum á Twitter satt á munn, þessi skrifar: „Ég held að hinn almenni mannshugur sé einfaldlega ekki gerður til að geta lagað sig að því sem er í raun ótakmarkað magn óstaðfestra upplýsinga sem gefa sig út fyrir að vera fréttir, alls ekki síst á tímum gervigreindarframleiðslu frétta sem birtast stanslaust alls staðar allan sólarhringinn alla vikuna alla daga ársins.”
Atburður sem fjárfestirinn tekur sem dæmi um skerta möguleika okkar á að draga vitrænar ályktanir í upplýsingaflóðinu er sprenging á sjúkrahúsi á Gasa-svæðinu sem varð á þriðjudaginn, þar sem fleiri hundruð manns létust. Fleiri hundruð manneskjur létu lífið vegna þess að sjúkrahús var sprengt í loft upp. Heilbrigðisyfirvöld á Gasa-svæðinu og Hamas samtökin sögðu bæði strax að þar hefði Ísraelsher verið að verki, sem er eðlileg ályktun að draga þegar sá her er að ráðast að svæðinu, en Ísraelsher sagði um hæl að Hamas-hryðjuverkamenn hefðu verið að verki. Við að sprengja sjúkrahús á eigin svæði. Við þetta flæktist málið.
Eins og fjárfestirinn umræddi segir: Við svona atburð afhjúpast ólíkur skilningur okkar á veruleikanum þessa dagana: „Í raun er þetta núna allt spurning um orð á móti orði,“ skrifar fjárfestirinn. „Líklega ákváðu um 80% fólks strax eftir að hafa lesið fyrstu færsluna sem samræmdist þeirra fyrirframskoðun á átökunum hvað væri hið rétta í málinu.” Það er að segja, hver hefði sprengt sprengjuna.
En hvað er satt og logið? Við vitum það ekki enn þá. Við vitum það raunar svo lítið að á þessari síðu Manifold er boðið, og ég veit að það er gjörsamlega ógeðslegt, þar er boðið upp á veðmál um það hvort þetta hafi verið ísraelski herinn eða ekki. Svo mikil er upplýsingaóreiðan.
Vegna fyrirframskoðana fólks myndu líklega margir vilja að ég segði hér hvað gerðist, eða sem sagt hvað mér fyndist um það hvað gerðist. Ég gæti annaðhvort vísað í myndband á Twitter sem sannaði að Ísraelsmenn hefðu gert þetta – eða í álit bandarísku leyniþjónustunnar, sem hafnar því að Ísraelsmenn hafi gert þetta. Ég þyrfti að velja mér veruleika. Raunin er þó sú að eitthvað gerðist – og það sem mér finnst um það hvað það var er ekki í svona tilfellum nauðsynlegar upplýsingar frá blaðamanni. Hann veit það ekki og ef hann lætur eins og hann viti eitthvað sem hann veit ekki, er hann að ljúga.
Ég veit hins vegar að það er ýmis tvískinnungur á lofti í sambandi við þau tvö stríð sem við fylgjumst helst með héðan frá Íslandi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem var utanríkisráðherra þar til á mánudag hefur ítrekað lýst þeirri afstöðu íslenskra stjórnvalda að hafna stríðsrekstri Rússa í Úkraínu, einkum á forsendum þeirrar hugsjónar að það beri að fordæma tilraunir hernaðarlegra ofurvelda til þess að vega í ósamræmi við alþjóðalög alvarlega að sjálfstæði annarra minni þjóða með stríðsrekstri. Ísrael, þrátt fyrir að upphaf átakanna nú hafi verið ógeðfelld hryðjuverkaárás Hamas-liða, hefur auðvitað árum saman sem hernaðarlegt ofurveldi reynt að grafa undan sjálfstæði Palestínu – og í stríðinu núna er reynt að leiða það mál til lykta. Þórdís Kolbrún hefur ekki sagt annað en að Ísrael hafi skýran rétt til þess að verjast hryðjuverkaárásum, en veltir ekki því ekki sérstaklega fyrir sér hvort það sem Ísrael sé að gera núna sé mögulega eitthvað annað og meira en að verjast árásum hryðjuverkamanna.
Í grunninn: Ef maður „heldur með” bæði Úkraínu og Ísrael - þá getur það eiginlega ekki verið vegna þess að maður einfaldlega styður alltaf lítilmagnann sem berst fyrir sjálfstæði sínu af einskærri hugsjón, heldur er það af einhverri annarri ástæðu. Það væri gaman að vita hver sú ástæða er.
Hún getur vel verið sú að menn bara styðji Ísrael í þessum átökum. Það er skoðun margra. Bara einfaldlega að styðja Ísrael gegn óvinum þess ríkis. Það er skiljanlegt. En þá er maður ekki að styðja lítilmagnann í þessum tilteknu átökum. Aðrir eru róttækari af ýmsum ástæðum og vilja að Ísrael gangi eins langt og þarf til að ná endanlega stjórn á þessu svæði, sama hvað það kostar, þar á meðal sumir bandarískir stjórnmálamenn. Þá er meiri bragur yfir því að segja hlutina bara beint út, eins og Lindsey Graham öldungardeildarþingmaður Repúblikana í Suður-Karólínu: „Þetta er stríð á milli trúarbragða, ég stend með Ísrael, gerið hvað svo sem í ósköpunum þið þurfið að gera til að verja ykkur; Jafnið þennan stað við jörðu.“
Að jafna staðinn við jörðu. Önnur nálgun sem fer ekki mikið fyrir er að krefjast einfaldlega vopnahlés strax og að alþjóðasamfélagið sýni aftur einhvern minnsta áhuga á að finna lausn á deilunum á þessu svæði, enda mun þetta alls ekki enda vel ef þetta heldur áfram svona. Bara hugmynd, bara ein af mörgum nálgunum.
En nóg um það, við ætlum að byrja, eins og venjulega, á því helsta sem gerðist í vikunni, eins og við gerum alltaf hér í upphafi þáttar.
Ég vísaði hér í ráðherraskipti. Sitjandi ríkisstjórn kom fram á blaðamannafundi síðustu helgi og gaf það hálfpartinn upp að hún væri hætt við að slíta stjórninni, af því að að væru svo mörg mikilvæg verkefni fram undan. Þrátt fyrir það fæst ekki séð að ríkisstjórnin sé fær um leysa nein meiriháttar verkefni, eins og til dæmis að koma böndum á efnahagsástand sem hún sjálf ber ábyrgð á (linnulaus peningaprentun í faraldrinum til að halda öllum góðum - peningaprentunin og ríkisútgjöldin voru það mikil að varla eitt fyrirtæki fór á hausinn í miðri efnahagskrísu - er það eðlilegt? Nei - en er hægt að kippa efnahagskerfi svona úr sambandi með handafli og peningaprentun án þess að það leiði til verðbólgu, nei það er ekki hægt, þannig að við skulum muna að ástæður þess að við erum nú að verða sífellt fátækari vegna verðbólgu og kaupmáttarrýrnunar eru aðgerðir og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og vangeta þeirra til að takast síðan á við vandamálin sem ákvarðanirnar skapa).
Og talandi um faraldurinn þá birtist viðtal á RÚV í vikunni við Davíð Ottó Arnar, yfirlækni á hjartadeild Landspítalans, sem sagðist líklega mundu mæla gegn því í dag að ungir karlmenn færu í bólusetningu við Covid-19. Það eru önnur fyrirmæli en stjórnvöld gáfu á sínum tíma, þegar menn á þessum aldri voru hvattir til að fara ítrekað í bólusetningu. Nú hefur komið á daginn að tölfræðilegur toppur varð í tilvikum hjartavöðvabólgu í kringum þriðju bólusetninguna við Covid-19 og það er ástæða þess að þessi læknir segist nú myndu mæla gegn því að ungir karlar fengju sér bólusetningu. Þar með talar hann á svipuðum nótum og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar gerði í viðtali í Skoðanabræðrum í sumar.
En sem sagt, góð vika fyrir Covid-nöttara, sem vöruðu við áhrifum bóluefnanna. Vel að merkja; við tölum stundum um upplýsingaóreiðu hér í þessum þætti: Var það ekki talin upplýsingaóreiða að vara við áhrifum bóluefna á hjörtu fólks áður en starfsmenn ríkisstofnana fóru að vara við þessum sömu áhrifum? Skrýtið hvernig upplýsingar hætta að vera upplýsingaóreiða og verða bara upplýsingar, þegar hið opinbera fer að birta þær. Upplýsingarnar sjálfar breytast samt ekki, heldur bara hver er að birta þær.
Hildur Sverrisdóttir alþingismaður lagði fram frumvarp á Alþingi sem fól í sér þær breytingar að taka greiðslur stjórnvalda, sem fara í að niðurgreiða ófrjósemisaðgerðir fyrir karla, herraklippingar, og hefja í staðinn að styðja tæknifrjóvganir fólks. Sem sagt að hætta að borga fyrir að fólk eignist ekki börn, og byrja að borga fyrir að fólk eignist börn. Hljómar skynsamlega. Fjöllum meira um málið hér rétt á eftir.
Þingmaður Framsóknarflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis hélt því fram að fjöldagjaldþrot blasi við í íslenskum landbúnaði vegna breytts efnahagsástands. Hann segir tollverndarkerfið núna ekki uppfylla hlutverk sitt og fullyrðir raunar að líf íslensks landbúnaðar hangi á bláþræði. Ritstjórinn segir: Gerum eitthvað í þessum málum áður en það er of seint og leitum nýrra og frumlegra lausna.
Hagspá Landsbankans fyrir næstu þrjú ár var birt í vikunni þar sem okkur er sagt að verðbólgan muni hjaðna og vera að jafnaði 5,3 prósent á næsta ári. 4,3% á árinu 2025.
Við gætum glaðst yfir þessari spá en ættum líklega ekki að gera það, miðað við það hvernig aðrar hagspár hafa ræst. Sama spá Landsbankans í fyrra sagði að verðbólga myndi mælast að jafnaði 6,5% á þessu ári, árinu 2023. Ekki aðeins hefur verðbólga aldrei á þessu ári mælst 6,5%, heldur er meðalverðbólgan á árinu hingað til búin að vera hærri en níu prósent. Átti að vera 6,5 prósent, var meira en 9 prósent.
Hér er oft fjallað um stöðu tungumálsins. Ritstjórinn fagnar liðsauka í yfirvegaða, rólega en mögulega vonlausa baráttu hans gegn handstýrðum tilgangslausum breytingum á tungumálinu. Vísað til Þórarins Eldjárn í Kiljunni sem sagðist mótfallinn kynjamálinu og hugðist bíða það af sér.
Nú, Orkuveitan hélt Orku- og vísindadaginn hátíðlegan í Elliðaárdalnum á dögunum, sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að í Facebook-færslu um viðburðinn var birt mynd af þessum flöskum. Live. Laugh. Veitur. Það er semsagt öll fréttin; þessar flöskur eru til og það þýðir að einhver hafi tekið ákvörðun um að búa þær til. Live. Laugh. Veitur.
Larry Fink, forstjóri BlackRock eins stærsta fjárfestingafélags heims, sagði í vikunni að hann merkti nú ákveðinn flótta á meðal fjárfesta úr hefðbundnum fjárfestingum og yfir í rafmyntafjárfestingar vegna óvissu á veraldarsviðinu; styrjaldarátaka og efnahagsþrenginga. Fink, sem rafmyntarmenn hafa lengi bundir miklar vonir við sem stuðningsmann þeirra málstaðar, gerist sífellt gjöfulli í þeirra garð með lofsamlegum ummælum sínum; umræddum flótta yfir í rafmyntir lýsti hann sem flótta yfir í „gæði.“ Það er enn annar gæðastimpill fyrir þessa tækni.
Og talandi um rafmyntir, þá hefur ritstjórinn áður otað að lesendum sínum pælingum hins umsvifamikla bandaríska alhliðatæknibróður og meðal annars rafmynta-fjárfestis Marc Andreessen, en að mínu mati sætir það ávallt tíðindum þegar hann uppfærir fylgjendur sína um það nýjasta í hans framsýnu heimsmynd. Hann hefur nú gefið út það sem hann kallar Stefnuyfirlýsingu bjartsýnismannsins gagnvart tækni; The Techno-optimist Manifesto. Lesningin er mikilvæg áminning, á tímum þar sem okkur er sagt að tækni muni taka af okkur störfin, lækka launin okkar, auka ójöfnuð og ógna heilsu okkar; þá er þessi stefnuyfirlýsing mikilvæg áminning um hina hliðina; að tæknin er alveg eins líkleg til þess að frelsa okkur; hún er það eina sem muni gera okkur kleift að gera meira með minna. Að leysa vandamál, það er í grunninn meginhlutverk tækninnar. Andreessen segir: Myrkur var vandamál, þannig að við fundum upp rafmagnslýsingu. Hiti var vandamál, þannig að við fundum upp loftkælingu. Nú er fátækt vandamál, þannig að við þurfum að finna tækni sem býr til nóg fyrir alla. Já, þeir áhorfendur sem eru uggandi yfir yfirtöku gervigreindarinnar, ykkur er bent á þessa stefnuyfirlýsingu manns sem sannarlega þekkir til málanna; hún gæti hresst ykkur við og hver þarf ekki á hressingu að halda?
Talandi um gervigreind, Hörður Ágústsson tísti í vikunni einni nýjustu afurð gervigreindarinnar. Hann setur fram tvo punkta. Gervigreind mun bjarga okkur eða eyða okkur - ritstjórinn segir bjarga. Tvö, skrifar Hörður: Þýska er betra tungumál en enska og sænska/danska má skammast sín. Ritstjórinn er sammála því, að þýska ber sannarlega höfuð og herðar yfir önnur tungumál. Spiluð gervigreindarþýðing á lagi Notorious B.I.G. á fjórum tungumálum.
Já nú er nóg komið af gamanmálum, við ætlum að fara hérna aðeins nánar út í mikilvægt mál. Upplýsingar ritstjórans innan úr þinginu eru þær að þar sé bara fjallað um þingmannafrumvörp þessa dagana sem allir vita samt að verði líklega ekki að veruleika, af því að þingmenn hafa engin stjórnarfrumvörp til að fjalla um, frumvörp sem er líklegra að verði að veruleika. Mér er sagt að stjórnarfrumvörp séu ekki að rata inn í þingið vegna þess að stjórnin er ekki sammála um neitt. En þetta er líklega hreinn og klár stjórnarandstöðuáróður.
Eitt af þessum þingmannafrumvörpum, sem sagt frumvörpum sem koma frá óbreyttum þingmönnum en ekki ráðherrum í ríkisstjórn, er mál Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Það frumvarp er reyndar kannski líklegra en önnur frumvörp af sömu gerð, enda þingmenn úr fjölda flokka sem eru meðflutningsmenn. Frumvarpið snýst um að niðurgreiða frjósemisaðgerðir, tæknifrjóvganir, í stað ófrjósemisaðgerða, herraklippinga.
Þetta sætir nokkrum tíðindum og það má setja þetta í samhengi við það sem örmiðillinn Hluthafinn benti á í grein um hinn sífellt alvarlegri frjósemisvanda á Íslandi á dögunum. Hluthafinn benti á að þrátt fyrir umfang vandans hafi enn sem komið er enginn íslenskur stjórnmálaflokkur sett málið á oddinn. Þótt flokkar mæli fyrir aðgerðum sem gætu spornað við þróuninni er aukin frjósemi aldrei yfirlýst markmið aðgerðanna.
Hildur segir í samtali við fréttastofu ritstjórans, að frumvarpið sé ekki til höfuðs herraklippingum í sjálfu sér, sem séu sjálfsagður réttur fólks, heldur sé þetta spurning um forgangsröðun opinbers fjár. Frjósemisaðgerðir, sem eru nauðsynlegar fyrir marga, séu meira aðkallandi en valkvæðar ófrjósemisaðgerðir.
Eins og Hluthafinn segir að sé yfirleitt raunin, er yfirlýst markmið þessara aðgerða því ekki aukin frjósemi í sjálfu sér, en Hildur segir þá hliðarafleiðingu þó engu að síður af hinu góða. Og hún er sammála ritstjóranum um að meira þurfi til.
Hildur:
„Ég er auðvitað algerlega með opin augu fyrir því að auðvitað hjálpar mitt frumvarp í þessu heildarsamhengi þótt ég sé kannski fyrst og fremst að horfa á þetta gagnvart því fólki sem þarf þessa aðstoð. Við höfum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins rætt þetta að það megi setja meira mengi í kringum fjölskyldur. Hvað þurfa þær og hvernig þurfum við að hjálpa þeim?“ segir Hildur.
„Þar má nefna fæðingarorlofið. Þar er ástandið náttúrulega ótrúlegt gagnvart mörgum fjölskyldum. Þetta er jafnréttismál og þetta setur ungar fjölskyldur sem oft eru tekjulægri í mikinn vanda. Við sem velferðarsamfélag og prógressíft samfélag við verðum bara að gera eitthvað í þessu. Það segir sig sjálft. Við erum í samkeppni um fólkið okkar við heiminn og þarna erum við bara ekki að standa okkur.“
Já, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vill gera meira fyrir barnafjölskyldur. Þó það nú væri. Það er markvert að þessi ágæta sjálfstæðiskona gengst við ömurlegum veruleika margra sem hætta að geta staðið straum af útgjöldum sínum á þessum síðustu og verstu tímum þegar tekjur þeirra breytast í orlofsgreiðslur. Þær greiðslur nema að hámarki 600 þúsundum króna á mánuði og oft fær fólk minna. Í okkar vaxtaumhverfi og á okkar leigumarkaði gengur dæmið ekki upp.
Formaður Sjálfstæðisflokksins kynnti það nýlega sem sérstaka verðbólguaðgerð að hækka þessar hámarksgreiðslur EKKI í samræmi við verðlag, eins og hefur þó verið trassað í fjögur ár. Neibb, fáið ekki meira. 600 þúsund kall. Greiðslurnar ættu að ná upp í 775 þúsund krónur samkvæmt útreikningum og líklega meira.
Samfylkingin hefur lagt til að upphæðin sé endurskoðuð á hverju ári við fjárlagagerð og ritstjórinn, ég, ritstjórinn styður þá tillögu. Það væri það eina sanngjarna í stöðunni. Maður heyrir það aðeins á tungutaki Hildar, velferðarsamfélag og tekjulágar ungar fjölskyldur, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekkert á móti því að toga sumt það venjulega fjölskyldufólk sem nú daðrar við að kjósa Samfylkinguna, aftur heim í Sjálfstæðisflokkinn.
Það er reyndar alveg óljóst hvort hægt sé að stóla á Sjálfstæðisflokkinn að gefa sig af alvöru að þessu þjóðþrifamáli, enda er hann þessa dagana eins og skepna sem stýrist af þeirri einu eðlishvöt að koma bönkum úr eigu almennings. En ef við ætlum að vera sanngjörn hérna þá er auðvitað fyrsta skrefið að viðurkenna vandann, eins og Hildur gerir.
Ef við ætlum að vera ósanngjörn hins vegar en um leið aðeins raunsærri, þá hefur fólk almennt litla trú á að Sjálfstæðisflokkurinn sé líklegur til að leysa vandræði barnafjölskyldna. Eitt skýrasta dæmi þess er fylgi flokka í Reykjavíkurborg, sem var kannað í skoðanakönnun Maskínu sem var birt núna í vikunni.
Þar er hulunni svipt af þeirri sturluðu staðreynd að Samfylkingin hefur bætt við sig fimm prósentum af fylgi frá því í síðustu kosningum. Þeir fengu 20 prósent fylgi í kosningunum 2022 og núna mælast þeir með 25%. Á miðju kjörtímabili. Þetta gerist á meðan leikskólamál eru í algjörum ólestri, fólk er að detta útaf vinnumarkaði og flytja heim til foreldra sinna vegna þess að það fær ekki pláss fyrir börnin sín, en engu að síður eykst fylgi borgarstjóraflokksins sífellt. Sjálfstæðisflokkur í stjórnarandstöðu er greinilega það ósannfærandi á þessu sviði að fólk beinlínis fylkir liði til að styðja Samfylkinguna, sem er að klúðra málum á ýmsum sviðum?
Hinn íslenska frjósemisvanda má augljóslega setja í samhengi við ófullnægjandi innviði Samfylkingarinnar í borginni. En frjósemisvandi er þó staðreynd um víða veröld og orsakir hans eru ekki óumdeildar.
Bandaríski fræðimaðurinn Robin Hanson telur þetta helst hugmyndafræðilegan lífstílsvanda; að gildi vestræns nútíma valdi hvert á sinn hátt þessu hruni; borgarlífstíllinn, getnaðarvarnir, ofurkröfur til umönnunar foreldra, ofuráhersla á menntun, áherslan á að „finna sjálfan sig“ fyrir hjónaband, andúð á trúarbrögðum, andúð á skipulögðum hagsmunahjónaböndum og andúð á hefðbundnum kynjahlutverkum. Hanson segir að til þess að snúa þróuninni við, þ.e.a.s. til að bjarga samfélögum okkar, gætum við þurft að líta á einhver þessara gilda og hugsa, heyrðu já. Þú, kæra gildi, þú ert gott gildi, en þú ert að valda fæðingarhruni hjá okkur og við getum því miður ekki haft þig að leiðarljósi lengur. Þannig að þið megið velja, hvaða gildi viljum við fleygja? Það er erfið spurning. Byrja aftur að henda í hagsmunahjónabönd? Hætta að finna okkur áður en við giftumst? Hverfa aftur til hefðbundinna kynjahlutverka? Þetta er hlaðborð valkosta.
Síðan er ekki víst að það virki að skipta bara um lífsgildi á einni nóttu. Það er um það bil ár liðið frá því að hin róttæka þjóðernissinnaða íhaldskona Giorgia Meloni tók við lyklunum í forsætisráðuneyti Ítalíu. Hún rak kosningabaráttu, einmitt, á öðrum gildum en hinum almennu vestrænu frjálslyndu gildum, meðal annars með því að tala af einurð fyrir hefðbundnum kynjahlutverkum og hefðbundnum fjölskyldumynstrum. Meloni bar þá von í brjósti að snúa fæðingartíðni Ítala á rétta braut, en hún hefur lengi verið sú allra lægsta í Evrópu og hefur dalað sífellt frá 1994.
Í grein sem blaðamaðurinn Thomas Fazi skrifar í breska tímaritið Unherd er farið yfir þetta fyrsta embættisár Meloni og spurt: Eru önnur og íhaldssamari lífsgildi á Ítalíu nóg til þess að snúa fæðingartíðninni við? Svarið: Varla. Fazi segir að fyrsta verk forsætisráðherrans hafi verið að svipta fátækt fólk ýmsum opinberum stuðningi, sem hafi verið það eina sem hélt stórum hópi fólks utan fátæktarmarka. Síðan hafi vissulega væg smáatriði ratað inn í fjárlög sem átti að vera táknrænn stuðningur við fjölskyldufólk, en það hrökk skammt. Annað hafi í raun ekki komið til.
Hin raunverulega staða sé síðan sú að á Ítalíu er 20% atvinnuleysi á meðal ungs fólks, laun eru ein þau lægstu í Evrópu og 10% íbúa búa í sárri fátækt. Þannig að Fazi skrifar: „Ítalir þurfa enga áminningu um að “börn séu afurð sambands á milli karlmanns og konu.” Þeir þurfa stöðugri og betur launaðar vinnur, alvöru innviði fyrir fjölskyldur og eftir atvikum, fjárstuðning frá hinu opinbera.“ Hann heldur áfram: „Þegar allt kemur til alls er aðeins ein alvöru “fjölskylduvæn” stefnubreyting sem getur snúið þróuninni við; það er að snúa gjörsamlega við af braut nýfrjálshyggju sem Ítalía hefur einkennt ítölsk stjórnmál síðustu 20 ár.”
Já, það er leiðinlegt þegar menn eru orðnir peppaðir fyrir popúlisma og róttækum breytingum að segja þeim að leiðin að markmiðum þeirra sé ekki endilega að breyta alveg um áferð og lífsgildi, heldur bara aukinn jöfnuður og ríkisaðgerðir í efnahagsmálum að hætti óspennandi og andlausra vinstrimanna. En samkvæmt þessu er það staðan á Ítalíu; árangurinn er ekki mikill hjá Meloni.
Í sumum tilvikum má segja það um nýja róttæka flokka á stjórnmálasviðinu að kjósendur þeirra lendi stundum í því sama og lífsglaður hundur sem hendir sér af stað á eftir ruslabíl sem keyrir fram hjá. Hundurinn eltir bílinn af ákafa, en raunin er þó sú að hundurinn vill í rauninni ekki ná bílnum, af því að það er ekkert gaman að vera kominn upp í ruslabíl. Vond lykt. Allt ömurlegt. En eltingaleikurinn er skemmtilegur. Að kjósendur ákveði að fylgja glænýjum flokkum á markaðnum getur verið svipuð atburðarás. Það er gaman á meðan allt er að gerast, maður er að elta bílinn, en maður vill ekki endilega ná honum. Maður vill ekki endilega sjá hvað gerist þegar þeir komast til valda, af því að oft eru það vonbrigði.
Já, en áður en við hættum í leikskóla- og frjósemismálunum, þá gleymdi ég, alveg ótengt hundum og kjósendum sem vilja ekki ná ruslabílunum í raun og veru, þá gleymdi ég að fara yfir stöðu Framsóknarflokksins í borgarmálunum hér áðan. Þar virðast kjósendur hafa orðið fyrir verulegum vonbrigðum með flokkinn eftir kosningarnar; þeir náðu 18,7 prósentum atkvæða í kosningum og mælast nú með sex prósent fylgi. Úr 18,7 prósentum í sex prósent. Það er hrun. En eins og ég segi, ég átti bara eftir að nefna þetta með Framsókn, og ég er ekki að setja það í samhengi við kjósendur og hunda að elta ruslabíla og ég er ekki að setja það í samhengi við viðbrögð kjósenda nýrra flokka eftir kosningar, sem fatta að fólk sem lofar breytingum getur oft ekki staðið við það. Þetta er alveg ótengt, ég átti bara eftir að nefna þetta.
Já, ef einhver er með lausnina við leikskólamálunum í borginni eru það Vinstri grænir sem segja núna: Gefumst upp á þessu og sameinumst við Mosfellsbæ og Seltjarnarnes. Ritstjórinn mælir gegn þessu, enda væri þetta pirrandi fyrir Reykvíkinga sem hafa það eina úrræði að skrá lögheimili sitt hjá ættingjum í þessum sveitarfélögum fyrir leikskólapláss - þar með væru þeir hópar búnir að missa einu lausnina í leikskólamálunum, en það hljóta að vera leikskólar fyrir þá á til dæmis Suðurlandi. Farið þangað, frekjudollurnar ykkar, eða hættið að eignast öll þessi börn.
"Formaður Sjálfstæðisflokksins kynnti það nýlega sem sérstaka verðbólguaðgerð að hækka þessar hámarksgreiðslur EKKI í samræmi við verðlag, eins og hefur þó verið trassað í fjögur ár. Neibb, fáið ekki meira. 600 þúsund kall. Greiðslurnar ættu að ná upp í 775 þúsund krónur samkvæmt útreikningum og líklega meira."
Æ æ æ hvað ég vorkenni hátekjufólkinu mikið sem fær ekki hærra niðurgreitt frí frá ríkinu. Vona að Ritstjóranum svelgist ekki á silfurskeiðinni sinni.