Fréttir vikunnar | Jólaskatturinn, gaslýsingar og valdalaus forsætisráðherra
Í fréttum vikunnar: Skattur á jólagjafir fyrirtækja til starfsmanna, gaslýsingar hins opinbera, PISA-kannanir og ástæður hrunsins og loks nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum.
Enn er komið að fréttum vikunnar á föstudegi og þar ber margt á góma. Við byrjum á nýjum skatti á jólagjafir fyrirtækja til starfsmanna, sem ríkisvaldið hefur nú tekið að innheimta. Á sama tíma gefur ríkið ríkulega jólabónusa eins og í Landsbankanum – en það er ALLS EKKI til marks um að kjör séu að verða aðeins of góð á opinberum markaði!
Næst er vikið að hrikalegum niðurstöðum Íslendinga í nýrri PISA-könnun og að sjálfsögðu hefur ritstjórinn öll svörin í þeim málaflokki og greinir hér frá þeim. Vísbending: Forréttindapýramídinn! Einnig er fjallað um meint valdaleysi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þegar það hentar henni og hennar stjórnmálahreyfingu. Loks: Bitcoin er að hækka töluvert þessa dagana. Hvers vegna?
Hér er uppkast að því sem sagt er í þættinum en ef vísa skal í orð ritstjórans í þessum þætti, skal hið talaða orð gilda, sem sagt úr myndbandinu:
Ritstjórinn er í farsælu samstarfi í nafni málfrelsis við þrjú fyrirtæki sem velja að stuðla að frjálsri fjölmiðlun í landinu. Eitt þeirra er Þ. Þorgrímsson byggingavöruverslun. Meira en 80 ára saga af alvöru þjónustu við alvöru neytendur. Annað fyrirtæki er Domino’s Pizza, þú veist hvaða pizzur ég er að tala um, rótgróin íslensk matarhefð frá 1993. Og loks er það fjarskiptafélag fólksins: Hringdu. Gott verð – og þjónusta sem er þannig að ef þú spyrð vini þína á Facebook hvar þú átt að kaupa net, þá mun gáfaður nörd sem veit allt svara: Hjá Hringdu.
Samstarf við þessi góðu fyrirtæki gerir okkur kleift að færa þér fréttir vikunnar á hverjum föstudegi, þér að kostnaðarlausu.
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar þann 8. desember 2023.
Jólin nálgast. Sagt var frá „lúmskum“ skattabreytingum í vikunni, þar sem ríkisvaldið fattaði skyndilega fyrst núna í ár að vinnuveitendur stundi það að gefa starfsmönnum til dæmis inneignarkort hjá banka um jólin sem svona lítinn jólaglaðning frá fyrirtækinu. Hingað til hafa sívökular krumlur ríkisvaldsins ekki náð taki á þessum gjöfum í formi skattlagningar, en með breytingum á skattmati ríkisskattstjóra hefur það loks tekist. Framvegis verða svona gjafir skattskyldar.
Þannig að ef þið fenguð fallega jólagjöf frá ykkar vinnuveitanda þessi jólin – þykir mér leitt að tilkynna ykkur það, en þetta var ekki gjöf, heldur voru þetta tekjur, að mati ríkisvaldsins. Eins og hinn ágæti skattaráðgjafi Deloitte, Guðbjörg Þorsteinsdóttir, orðaði það í grein: „Það er alveg ljóst að nú er búið að takmarka það hversu skemmtilegur eða gjafmildur vinnuveitandinn má vera.“ Já, er þetta nú í anda jólanna?
Það eru ákveðnar þversagnir í þessu reyndar því að á sama tíma er ríkisvaldið sjálft stórtækt í jólabónusum, gjafir liggja ekki fyrir enn þá, en allavega bónusar, það hefur verið greint frá bónusum. Fjallað var um jólabónus Landsbankans til síns starfsfólks í vikunni, sem nemur þetta árið í kringum 200 þúsund krónum fyrir alla starfsmenn í fullu starfi. Þetta er auðvitað ágætlega vel útilátið EN eins og stéttarfélög opinberra starfsmanna geta útskýrt fyrir þér er ekkert af þessu til marks um sífellt betri kjör opinberra starfsmanna samanborið við starfsmenn á almennum markaði. Allt sem gefur það til kynna er misvísandi tölfræði!
Opinberir starfsmenn hafa það alls ekki gott, eins og þessi hagsmunafélög munu segja þér, og það er mjög eðlilegt og mikilvægt að lög eiginlega verndi þá eiginlega alveg frá uppsögn jafnvel þótt mjög mikið af gögnum bendi til þess að launakjörin séu bara að verða mjög svipuð hjá hinu opinbera og á almennum markaði. Þannig að pælingin með að starfsöryggi vegi upp á móti aðeins lægri launum er eiginlega fallin um sjálfa sig, ef launin eru jafnhá.
Nei, ekkert að sjá hér, það er rangt sem forstjóri Festar sagði í viðtali í vikunni um að „hið opinbera sé komið í harða samkeppni við einkageirann um starfsfólk á ýmsum sviðum og að hið opinbera hafi verið leiðandi í launahækkunum, og ekki bara í launum heldur kjarabótum ýmiss konar, aukafrídögum og fleiru sem einkageirinn á erfitt með að keppa við.“
Þetta er rangt, þetta er rangt, þetta er rangt, eins og bankastjóri Landsbankans segir í viðtali um þennan tvö hundruð þúsund króna jólabónus: „Með þessari greiðslu erum við að hluta til að koma til móts við sjónarmið um að bæta þurfi kjörin til að þau uppfylli betur það sem kemur fram í starfskjarastefnu bankans um að kjörin eigi að vera samkeppnishæf en hófleg og ekki leiðandi.“
Samkeppnishæf, en hófleg og ekki leiðandi. Samkeppnishæf en hófleg og ekki leiðandi. Hvað getur maður sagt við þessari orðsnilld? Þetta er auðvitað ákveðin tegund af gaslýsingu gagnvart almenna markaðnum og gaslýsing er auðvitað að mati ritstjórans alltaf alvarleg. Ég ætla að leyfa mér að að vísa í því samhengi í fjölmiðilinn Karlmennskuna, því að nú fær ritstjórinn reglulega kostaðar auglýsingar frá því mikilvæga batteríi á samfélagsmiðlum. Í þessari auglýsingu hér segir skýrt: „Hrútskýrarar og gaslýsendur eru fyrirstaða jafnréttis.“ Hrútskýrarar og gaslýsendur eru fyrirstaða jafnréttis - hljómar smá eins og það þurfi að útrýma þessari fyrirstöðu - sama hvað það kostar - en þetta er auðvitað rétt – Hrútskýrarar og gaslýsendur eru fyrirstaða jafnréttis – Landsbankanum til varnar eru þessi orð aðeins nokkurra ára gömul en það breytir því ekki að þetta eru mikilvæg skilaboð. Ekki vera fyrirstaða jafnréttis – allra síst þegar kemur að jafnrétti á milli almenns og opinbers vinnumarkaðar. Við erum að fylgjast með þér. Ætlar þú að vera fyrirstaða?
*
Það vakti mikil viðbrögð þegar niðurstöður PISA-könnunar á Íslandi voru birtar á þriðjudaginn, sem sýndu að aðeins 60% íslenskra grunnskólanema búa yfir grunnhæfni í lesskilningi við fimmtán ára aldurinn. Frá 2012 hefur þetta hlutfall hrapað úr 79% í já, 60%. Athugum að stúlkurnar hífa þar meðaltalið upp, 68% þeirra hafa þessa grunnhæfni en aðeins 53% drengja. Annar hver drengur getur ekki lesið sér til gagns fimmtán ára.
Nú, þegar svona svört skýrsla kemur fram reynir fólk að sjá fyrir sér hvað veldur.
Grundvallarspurningin sem er gegnumgangandi er það hvort þetta sé skólunum að kenna eða foreldrunum að kenna? Ólöf Sigurbjörg Sigurðardóttir, áður skólastjóri í Flataskóla, er á því að börn þurfi að verja meiri tíma með fullorðnu fólki, eins og hún skrifar á Facebook: „Skólinn getur gert betur í mörgum þáttum en vandinn byrjar strax á fyrstu 1000 dögum barnsins, þegar það þarf mjög mikla málörvun.“ - Ólöf segir að það sé þreytt að því sé sífellt haldið fram þegar niðurstöður PISA-kannana koma fram “kerfið sé að bregðast” og að það þurfi bara meiri pening í skólana - mun frekar þurfi fólk að taka til heima hjá sér fyrst.
Þetta er verðugur punktur hjá Ólöfu Sigurðardóttur – sem veit auðvitað hvað hún syngur eftir áratugastarf í skólum.
Annar reynslubolti á menntasviðinu nálgast málið úr allt annarri átt, nefnilega Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri í Réttarholtsskóla. Hann segir stórfurðulegt að að firra skólakerfið ábyrgð á þessum árangri með því að vísa málinu bara til heimilanna. Í viðtali við Morgunblaðið segir Jón Pétur: „Þegar við erum að eyða tæplega 200 milljörðum í skólakerfið þá er þessi árangur langt frá því að vera boðlegur. Ég spyr bara: Hver ætlar að taka ábyrgð á þessum árangri?“
Jón Pétur heldur áfram: „Ef eitthvert fyrirtæki sýndi þennan árangur þá væri einfaldlega búið að láta alla fara. Þetta er bara ekki boðlegt. Að bjóða börnum upp á þetta í tíu ára skyldu- námi.“
Já. Þar að auki gagnrýnir Jón Pétur það harðlega að skólar fái ekki afhendar eigin niðurstöður úr PISA-könnuninni, heldur læsi Menntamálastofnun niðurstöðurnar ofan í skúffu. Stofnunin hefur nefnilega haft þann háttinn á í síðustu PISA-könnunum, sem er upphaflega gert að beiðni skólastjórnenda og kennara, að sögn Björns Bjarnasonar fyrrverandi menntamálaráðherra. Jón Pétur segir að þessar upplýsingar gætu gagnast skólum við að vinna að úrbótum, en nei. Þeir sem vilja fara með árangur einstakra skóla sem ríkisleyndarmál, segja að skólar eigi ekki að vera að keppast innbyrðis um árangur. En maður spyr sig á móti: Væri kannski bara fínt ef þeir væru að gera það? Gæti verið að smá heilbrigður samanburður gæti verið gagnlegur? Staðan er smá orðin þannig núna að bara hvað sem er sem gæti hvatt menn til dáða ætti að vera gert.
Jón Pétur Zimsen er svona í hópi kennara og kennslufræðinga sem hafa verið að pönkast aðeins í skólakerfinu á undanförnum árum – og hann hefur gagnrýnt það harðlega þegar fræðimenn háskólans og starfsmenn sveitarfélaga gera að hans sögn lítið úr þessum PISA-niðurstöðum. Það er forvitnileg frétt á mbl.is frá því fyrr á þessu ári þar sem Jón Pétur gagnrýndi Heiðu Björg Hilmisdóttur, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúa Samfylkingarinnar til margra ára, (ábyrg fyrir skólakerfinu í Reykjavík) af því að Heiða var að taka undir slík sjónarmið á samfélagsmiðlum, að það væri ekki að marka einhverja tölfræði frá PISA. Jón Pétur gekk á eftir svörum frá Heiðu um það hvort hún teldi þessar tölur allar raunverulega úr lausu lofti gripnar. Og hver voru viðbrögð Heiðu Bjargar? Hún blokkaði Jón Pétur á Facebook. Það er kannski ekki furða að ástandið sé svona þegar vili stjórnmálastéttarinnar til að hlusta á þá sem eru að leggja til breytingar á kerfinu er svona mikill.
Já, við vitum ekki hvað veldur ömurlegum árangri Íslendinga í menntamálum. En það breytir því ekki, að þeirri spurningu þarf að svara strax. Það er eitthvað virkilega mikið að þegar tölfræðin sýnir okkur að danskir og norskir innflytjendur ná betri árangri í lesskilningi en íslenskir strákar hér heima í íslensku, eins og Jón Pétur vísar til.
Athugum líka að ekki aðeins ná bara 60% nemenda grunnfærni í lesskilningi, heldur eru Íslendingar líka að slá met í að vera með fáa afburðanemendur. Aðeins 3% íslenskra nemenda býr yfir afburðahæfni við fimmtán ára aldurinn samanborið við 7% á Norðurlöndunum og í OECD-ríkjunum. Íslendingar eru sem sagt ekki bara bestir í að vera verstir heldur líka verstir í að vera bestir.
Við fjölluðum hér í seinasta mánuði um hinn svonefnda forréttindapýramída Reykjavíkurborgar, sem grunnskólabörn voru látin gera á svona samvinnudögum einhverjum hjá borginni, þar sem ólíkum þjóðfélagshópum var raðað skipulega eftir magni forréttinda. Mesti yfirgangsforréttindahópurinn var efstur í pýramídanum, þá hafði maður mest forréttindi og það voru karlar, með hvítan húðlit, fjárhagslega sjálfstæðir, með meistaragráðu eða doktorsgráðu og svo framvegis. Og eftir því sem maður fór neðar í pýramídann urðu hóparnir jaðarsettari og svona þóknanlegri þessari hugmyndafræði að því meiri forréttindi sem þú hefur, því verri ertu og öfugt, því minni forréttindi, því göfugra er það.
Og maður veltir fyrir sér, ef þetta er hugmyndafræðilega uppeldið sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar býður upp á – er þá mikil furða að börn leggi það ekki á sig að skara mikið fram úr í námi? Þú ert smá á milli steins og sleggju þarna – af því að ef þú skarar fram úr í námi, þá hlýturðu að enda ofarlega í forréttindapýramídanum sem afburðanemandi. Sem er strax ekki eftirsóknarvert, að vera fremstur í flokki forréttindapésa. En við það bætist, að fyrst þú ert kominn ofarlega í forréttindapýramídann, þá er samkvæmt skilgreiningu ekki ástæða til að meta meta frammistöðu þína að verðleikum, af því að þú ert augljóslega bara afburðanemandi af því að þú ert í svo mikilli forréttindastöðu. Þú hafðir ekkert fyrir þessu – þú ert bara forréttindapési. Þannig að ef við segjum að viðurkenning frá öðrum sé óneitanlega hvati til þess að skara fram úr í námi, sem hún er, erum við þá ekki með forréttindapýramídanum að taka þann hvata hálfpartinn úr sambandi í öllu skólastarfi? Maður spyr sig.
*
Yfir í annað. Mál tveggja palestínskra drengja sem vísa á til Grikklands samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar hefur verið til umræðu í vikunni – og sú umræða blandast auðvitað umræðunni um afstöðu Íslendinga til hörmunganna á Gazasvæðinu nú um mundir. Margir eru ósáttir við afstöðuleysi íslenskra stjórnvalda og beina þar gremju sinni til forsætisráðherrans, eðlilega. En það líkar Vinstri grænum ekki. Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna skrifaði grein á Facebook síðu sína í vikunni, sem virðist að vísu vera horfin af síðunni núna en hún skrifaði hana og birti, þessa grein þar sem hún biðlaði til fólks að vera ekki pirrað út í VG fyrir aðgerðaleysi stjórnvalda í þessu máli, Jódís skrifaði: „Að beina vanmættinum og reiðinni að VG eða Katrínu er í mínum huga ekki uppbyggileg leið til að vinna úr þessum flóknu tilfinningum.“ – þetta eru auðvitað flóknar tilfinningar – ég skil ykkur – Alveg sama hvort Katrín beri ein langmesta ábyrgð á öllu dæminu, þá er þetta bara ekki uppbyggileg leið, því miður. Þetta er bara ekki uppbyggileg leið. Nei.
Já, það er forvitnilegt að sjá þingmann Vinstri grænna viðurkenna þarna að það sé ekki Katrín sem ráði, heldur Bjarni. Eða er það karlremba hjá mér að segja það? Nei! Ég vísa bara í Óskar Stein Gestsson, rótgróinn fulltrúa Samfylkingarinnar á X, sem skrifaði: „Það er kvenfyrirlitning að segja að Katrín Jakobsdóttir ráði engu í þessari ríkisstjórn en þegar kemur að palestínskum börnum á flótta þá er Katrín allt í einu orðin valdaminnsta manneskja í heimi.“ Úbbs, ræð ekki neinu.
Já það er þetta með ráðherra og einstök mál í útlendingamálunum. Eins mikið og Vinstri grænir tala um mannúð á Facebook er staðreyndin sú að ríkisstjórn þeirra er núna að herða verulega tökin í útlendingamálum með nýrri löggjöf, þar sem íslensk stjórnvöld eru sögð geta orðið að „lægsta samnefnara réttinda flóttafólks á Norðurlöndum.“ Það er að segja ömurlegasta staðnum fyrir flóttamenn á öllum Norðurlöndum.
Nýjum tillögum dómsmálaráðherra, sem eru ekki enn orðnar að veruleika, taka það fram, er ætlað að bregðast við fordæmalausri fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd. Þar er þrengt mjög að öllum réttindum þeirra sem hingað leita í von um einmitt alþjóðlega vernd. Það er að vísu bót í máli fyrir þá sem hryllir við tilhugsunina um enn harðara kerfi, að nýtt fyrirkomuleg virðist að minnsta kosti eiga að fækka tilvikum þess að fólk dvelji hér mánuðum og árum saman án þess að fá niðurstöðu, fái svo niðurstöðuna og sé þá fyrst sent úr landi eftir að hafa aðlagast. Þetta virðist ætla að verða sjaldgæfara með nýjum reglum, ef það er einhvers virði.
Það er einmitt oftast í þeim málum sem fólk kallar eftir því að ráðherrar blandi sér sérstaklega í ákvarðanir Útlendingastofnunar, eins og núna, sem er auðvitað já, ekki alltaf umræða sem ber mikinn ávöxt. Fólk kallar eftir faglegri stjórnsýslu á alla kanta en sú krafa víkur oft þegar niðurstöður þessarar faglegu stjórnsýslu eru ekki fólki að skapi. Við sjáum þetta oftast í útlendingamálunum, oft kannski skiljanlegur tilfinningahiti í þeim hræðilegu málum, en þessi tilhneiging er greinilega að breiða úr sér. Nú er meira að segja fólk að kalla eftir því að ráðherrar blandi sér sérstaklega í einstök forræðismál og ekki bara það: Í vikunni lá líka við að ráðherra yrði kallaður að borðinu þegar Gyrðir Elíasson fékk ekki skáldalaun frá hinu opinbera eins og síðustu ár. Sú ákvörðun er reyndar skandall – enda Gyrðir óneitanlega á meðal allra fremstu skálda Íslendinga. Ástæðurnar fyrir því að Gyrðir var sniðgenginn þarna á hátindi ferilsins tengjast því að mati manna að fyrir nokkrum árum var RANNÍS - Rannsóknarmiðstöð Íslands - falið að fara yfir umsóknir um listamannalaun í stað gamla Launasjóðsins. Hjá RANNÍS er úrvinnsla umsókna getum við sagt vísindalegri, kerfislegri og flóknari. Eftir breytingarnar segir Einar Kárason rithöfundur að þjóðin velji að styðja fólk til ritstarfa eftir því hversu flinkir og færir rithöfundarnir eru í að útfylla umsóknir; „hitt hvort þeir hafi sýnt sig góða í að skrifa bókmenntaverk er þá kannski minna atriði,“ segir Einar. Eins og Guðjón Ragnar Jónasson kennari og rithöfundur benti á ætti að senda rithöfunda á endurmenntunarnámskeið í rannísku – sem sagt mállýsku sem virkar í umsóknum til RANNÍS. RANNÍS er reyndar skrefi á undan - tvö svona umsóknanámskeið voru bókstaflega haldin bara núna í seinasta mánuði. Já, Ísland í dag - gerum umsóknaskrifræðið enn skrifræðislegra.
*
Annað mál. Áhugaverð frétt birtist í Heimildinni nú á dögunum um að sódavatnið Klaki sé komið með 25% markaðshlutdeild á íslenskum vatnsmarkaði. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem framleiðir Klaka er þarna ansi kokhraustur í viðtalinu og fullyrðir að það hafi haft töluverð áhrif á kauphegðun Íslendinga, að Toppur hafi breytt nafni sínu í Bonaqua, eins og greint var frá á dögunum. Það er ekki oft sem maður fær svona frá sölustjóra um samkeppnisaðila, tilvitnun hefst: „Við finnum fyrir því að Íslendingar eru ekki ánægðir með þessa breytingu hjá þeim. Bara mjög óánægðir. Sem er mjög gott fyrir okkur.“ Frískandi heiðarleiki þarna.
Ölgerðin er einnig spurð álits í þessu viðtali á breytingum Bonaqua og hún segir einnig að sala á Kristal hafi aukist. Loks er ákveðið í greininni að velta starfsmanni Coca Cola, sem selur Bonaqua, áður Topp, upp úr málinu og þar fæst staðfest að salan hefur dalað frá því að nafninu var breytt í Bonaqua. Þetta allt saman eru ágætar fréttir fyrir þá sem áttu erfitt með þessa nafnbreytingu á sínum tíma og töldu hana ekki samræmast góðri þjóðrækni. Verst að Bonaqua er eiginlega besta sódavatnið, en við látum gæðin ekki trufla ákvarðanir okkar sem neytendur - heldur byggjum við þær auðvitað alltaf fyrst og fremst á málverndarsjónarmiðum.
*
Það skiptast á skin og skúrir í sorphirðu Reykjavíkurborgar, stundum stenst hún og stundum stenst hún ekki – en eitt breytist aldrei og það er að sorphirðugjaldið hækkar alltaf. Frá og með áramótum hækkar sorphirðugjald í Reykjavík miðað við venjulegt parhús úr 52.600 krónum í 73.500 krónur, sem eru tæpar tvö þúsund krónur aukalega á mánuði fyrir venjulegt heimili. Þessi verðhækkun fylgir að sögn Morgunblaðsins innleiðingu á nýju flokkunarkerfi sem hefur vart farið fram hjá neinum, þar sem fólk er hvatt að flokka úrgang í fjóra flokka.
Í skaðabætur eigum við að sögn samskiptastjóra Sorpu áfram rétt á ókeypis bréfpokum fyrir matarleifar að minnsta kosti næstu ár. Við vonum reyndar að fólk fari að nálgast þá rausnarlegu gjöf hins opinbera af aukinni virðingu, það vantar upp á það – í vikunni var sagt frá því að fólk sé farið að hamstra þessa poka. Kannski geta yfirvöld sjálfum sér um kennt, því að það er auðvitað varasamt að bjóða upp á ókeypis poka í matvöruverslunum þar sem allir pokarnir annaðhvort sökka eða eru mjög dýrir, ritstjórnin hér vonar að hún hafi ekki valdið hömstruninni með þessari umfjöllun hér á sínum tíma. Umfjöllun sýnd. Já, góðar minningar – og ég stend við þetta – vel að merkja, þetta var fyrsti þáttur frétta vikunnar hjá ritstjóranum, komnir meira en tveir mánuðir – tíminn flýgur.
*
Annað mál; aftur hefur komið til átaka á milli Bjarna Benediktssonar og ríkismiðilsins sem hann nær ómögulega stjórn á þrátt fyrir að vera alltaf að hvessa sig hann, eftir að Kveikur birti langt innslag um að stórfyrirtæki á Íslandi geri upp í evrum en almenningur í krónum, eins og er auðvitað vitað mál. Bjarni ekki ánægður með eitthvað diss á krónuna, þið sjáið hann hér á kosningaplaggati frá vorinu 2009 að tala fyrir evrunni - tímarnir breytast og mennirnir með. En, hér á þessum vettvangi höfum við í sakleysi okkar reynt að beina sjónum líka að öðrum nýrri og meira spennandi gjaldmiðlum en krónunni og evrunni.
Virði rafmyntarinnar Bitcoin stendur þegar þetta er tekið upp í um 44 þúsund Bandaríkjadölum - en áður hafði rafmyntin ekki farið yfir 40 þúsund Bandaríkjadali í meira en eitt og hálft ár. Það er því greinilega eitthvað á seyði. Ein helsta orsök verðhækkunar Bitcoin núna er talin vera leyfisumsókn bandaríska fjárfestingarsjóðsins BlackRock, eins allra stærsta fjárfestingarsjóðs heims, sem vill nú fá að stofna kauphallarsjóð í bandarísku kauphöllinni þar sem fjárfest verður beint í Bitcoin. Slíkur kauphallarsjóður með rafmyntir væri í raun sambærilegt við það sem þekkist þegar í íslensku kauphöllinni, þar sem fjöldi fólks á í hlutabréfasjóðum, sem aftur eiga síðan hlutabréf í íslenskum og erlendum félögum.
Svona kauphallarsjóðir eru útbreitt fyrirkomulag fyrir fólk til peningageymslu og fjárfestingar, en þeir eru í mörgum eignaflokkum tiltölulega nýir af nálinni.
Þeir sem eru vongóðir um að bandaríska fjármálaeftirlitið samþykki umsókn BlackRock um að stofna svona rafmyntasjóð í kauphöllinni, benda á hvað gerðist við gull sem eignaflokk eftir að fyrstu sérstöku sjóðirnir sem áttu gull voru skráðir í bandarísku kauphöllina árið 2004: Allar götur síðan hefur gullverð hækkað stöðugt í verði. Það er þó alls ekki víst að þarna sé orsakasamhengi á milli – og það gæti raunar verið öfugt orsakasamhengi, eins og einhverjir hafa líka bent á: Um leið og Bitcoin verður komið inn í kauphallarsjóði, halda sumir því fram að töfrarnir hverfi. Þeir segja að maður eigi að eiga Bitcoin sjálfur og geyma á USB-lykli, en ekki að geyma það í kauphallarsjóðum. Bent er á að með svipuðum hætti séu verðmætin í gulli þau að þú getur geymt það heima hjá þér og þú getur alltaf stungið af með það í farteskinu. Þú vilt ekki eiga gull í einhverjum sjóði lengst í burtu.
En Bitcoin er á leiðinni upp og þar hjálpa væntingar markaðarins um að bandaríski seðlabankinn sé hættur að hækka vexti í bili. Þá muni fjárfesting leita inn í slíkan áhættuflokk í auknum mæli nú þegar menn munu hafa meira á milli handanna. Við það bætist að svokölluð Bitcoin-helmingun á sér stað í apríl 2024, sem sögulega séð hefur keyrt upp verðið á Bitcoin. Um þetta allt skrifar Guðlaugur Steinar Gíslason, einn af stofnendum rafmyntarsjóðsins VISKU á Íslandi: „Það má segja að nýr kafli sé að hefjast í rafmyntaheiminum þar sem fjármálafyrirtæki hafa aukið þátttöku sína umtalsvert á sama tíma og fjárfestingar stofnannafjárfesta hafa aukist til muna.“
Áhugaverð þróun. Já. Í fjármálafréttum er það annars líka helst, og ekki ótengt þessu, að kílóverðið á gulli hefur aldrei verið eins hátt, sem greiningaraðilar rekja til óvissu með ákveðna þjóðargjaldmiðla, til stríðsreksturs og átaka milli heimsvelda. Virðist vera tíminn til að grafa gull í garðinum. Jæja.
*
Skulum reyna að taka hugsanir um hugsanlega yfirvofandi heimsstyrjöld ekki með okkur inn í helgina, það er ekki sérlega uppbyggilegt að vera með hugann við það á meðan maður sinnir heimilisverkunum eða grillar. Nýtur samvista með bærilegasta fólki sem maður þekkir. Ég minni hér í lokin á samstarfsaðila þessa fréttaþáttar Þ. Þorgrímsson, Domino’s og fjarskiptafélagið Hringdu. Ég nefni kjörorð þessa fréttaþáttar; ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við sjáumst hér á sama tíma í næstu viku; Guð blessi ykkur.