Fréttir vikunnar | Óttinn við 100% verðbólgu, hugmyndin um landamæri og photoshop-fíkn
Flóttamannamál, ákvörðun RÚV um mögulega þátttöku í Eurovision, landamæri í nýjum skilningi Samfylkingarinnar, Grindavík og Vestmannaeyjar og svo fræg Photoshop-mynd vikunnar.
Í fréttum vikunnar er farið yfir flóttamannamál, ákvörðun RÚV um mögulega þátttöku í Eurovision, landamæri í nýjum skilningi Samfylkingarinnar, Grindavík og Vestmannaeyjar og svo fræga Photoshop-mynd frá því í vikunni.
Samstarfsaðilar ritstjórans í fréttum vikunnar eru Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson og Hringdu.
Ef þú ert hrifin(n) af því starfi sem hér er unnið er rétt að þú íhugir vandlega að ganga í hóp áskrifenda ritstjórans gegn hóflegu gjaldi og styðja þar með við frjálsa fjölmiðlun í landinu:
Eftirfarandi er lausleg uppskrift af köflum úr þættinum, en ef hún stingur í stúf við talað orð, skal hafa það sem sannara reynist. Djók. Talað orð gildir!
Það er auðvitað ein mest afgerandi frétt síðari ára á Íslandi að gosið hafi inni í byggð í Grindavík á dögunum og þúsundir manna eru nú í ekki minni óvissu um framtíð sína en þeir voru þá og hafa raunar verið undanfarna mánuði – jafnvel ár, fyrir þá sem tóku þessum umbrotum öllum alvarlega frá fyrstu stundu. Við erum að tala um í kringum 4.000 manns sem bjuggu í Grindavík þar til þetta skeði – og auðvitað eru fleiri þúsundir, já örugglega tugir þúsunda, sem tengjast þessum Grindvíkingum fjölskyldu- og vinaböndum, þannig að ástandið hefur veruleg dagleg áhrif á verulegan hóp fólks. Eins og svo oft hefur verið sagt, kemur vel til greina að menn flytji aftur til Grindavíkur þegar ástandið skýrist, en höfum það í huga að Vestmannaeyjar hafa enn ekki náð upp í fyrri íbúafjölda eftir að þar gaus árið 1973.
Ástandið er auðvitað flóknara núna en þá; núna er í vissum skilningi eins og hamfarirnar séu hvorki alveg hafnar né sé þeim lokið, þegar gosið í Heimaey var á sinn hátt afmarkaðri atburður með skýrt upphaf og skýran endi. Þá voru viðbrögð stjórnvalda og alls samfélagsins líka töluvert fumlausari; daginn eftir að gosið hófst var stofnuð Vestmannaeyjanefnd þann 24. janúar 1973 sem starfaði þar til hinn svonefndi Viðlagasjóður tók við 13. febrúar 1973. Það sem Viðlagasjóði var ætlað að gera var bara að byggja, byggja, byggja fyrir Eyjamenn. Sendinefnd var send til Norðurlanda að skoða tilbúin einingarhús – og svo bara hófust menn handa í einum umfangsmestu byggingarframkvæmdum eins aðila hér á landi fram að þeim tíma. Núna, tíu dögum eftir að eldgos hófst inni í byggð – vita Grindvíkingar enn ekki hvað stjórnvöld ætla að gera við fasteignir þeirra, þótt vissulega sé búið að lofa þeim að þeim verði gefið tækifæri til að koma sér fyrir á öðrum stað með aðstoð stjórnvalda. Hvernig þetta verður gert - sem skiptir verulegu máli - er enn þá eiginlega alveg óljóst.
Kannski er það skiljanlegt, það skiptir nefnilega miklu máli að vandað sé til verka – til þess að þetta valdi ekki uppnámi bæði í ríkisfjármálunum og almennt á húsnæðismarkaði. Aðgerðir vegna Vestmannaeyja - og já auðvitað einfaldlega sá alvarlegi atburður sjálfur - leiddu til mikils samfélagslegs kostnaðar fyrir Íslendinga á sínum tíma, að sjálfsögðu.
Það er forvitnilegt að fletta í gegnum umfjöllun Gylfa Magnússonar á Vísindavefnum, hagfræðings, fyrrverandi ráðherra og núverandi formanns bankaráðs Seðlabankans – þar sem Gylfi er fenginn til að bera saman þessa tvo atburði, Vestmannaeyjar þá og Grindavík nú. Það er reyndar eitt sem maður verður að nefna sem er mjög fyndið í inngangi hans að þessu svari, sem er að hann tekur sérstaklega fram að umgjörð peningamála sé allt önnur nú en hún var fyrir fimmtíu árum og Gylfi skrifar: „Fyrir 50 árum réðust vextir og gengi krónunnar ekki á markaði heldur voru teknar ákvarðanir um slíkar hagstærðir á vettvangi stjórnmálanna.“ - Svolítið gott að formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, stjórnsýslueiningarinnar sem ræður vöxtum á Íslandi - og hefur þar með líka mikil áhrif á gengi krónunnar - segi að nú ráðist þær hagstærðir á markaði, en ekki vettvangi stjórnmálanna eins og fyrir fimmtíu árum. Það er smá eins og menn séu í afneitun um það að við búum enn þá í verulega miðstýrðu hagkerfi þegar kemur að verðinu á einni mikilvægustu vöru í okkar hagkerfi - það er að segja verðinu á lánsfjármagni - við gerum það núna - og við gerðum það þá. Ókjörnir fulltrúar á vegum hins opinbera ráða gífurlega miklu um þróun efnahagsmála hér á landi - og þegar þeir standa sig illa, er mjög erfitt að draga þá til ábyrgðar. En hvað um það. “Ræðst allt á frjálsum markaði!” segir formaður bankaráðs Seðlabankans. “Hitt var bara í gamla daga.”
Allavega. Gylfi Magnússon fer vel yfir aðgerðir stjórnvalda þegar gaus í Eyjum. Þá voru ýmsir skattar hækkaðir til að mæta þessum útgjöldum og um leið var gengið fellt um 10% eins og tíðkaðist í þá daga.
Svo skrifar Gylfi: “Verðbólga hafði verið erfitt viðfangsefni fyrir gosið í Heimaey en hún jókst til muna í kjölfar þess. Þótt ekki verði hér fullyrt neitt með vissu um orsakasamband þar á milli þá hafði gosið veruleg áhrif á fjárhag hins opinbera til hins verra sem hjálpaði ekki í baráttunni við verðbólgudrauginn. Verðbólgan árin 1971 og 1972 var að jafnaði tæp 8% en rauk upp árið 1973 og var komin yfir 50% árið 1974. Hún var svo mikil áfram næstu ár og náði hámarki í 100% um áratug eftir gosið. Þessi mikla verðbólga lék sparifé landsmanna grátt, enda var vöxtum haldið lágum. Raunvextir voru þannig neikvæðir árum saman sem eyðilagði sparnað og lán gufuðu upp. Nýstofnað almennt lífeyrissjóðakerfi landsmanna var meðal annars hart leikið og eignir þess litlar í lok áttunda áratugarins þrátt fyrir að hafa þá tekið á móti iðgjöldum í áratug.“
Já, eyðilagður sparnaður, eyðilagt lífeyrissjóðakerfi og 100% verðbólga. Það er ljóst að margt getur farið úrskeiðis þegar ríkisvaldið glímir við náttúruhamfarir - eins og það gerði á þessum tíma eftir Vestmannaeyjagosið. Nú þarf að taka erfiðar ákvarðanir af yfirvegun og standa við þær. Sem betur fer erum við með þessa traustu og samheldnu ríkisstjórn, með þetta örugga pólitíska umboð frá almenningi, sem enginn efast um að muni ganga fumlaust til verka á næstu misserum.
*
Talandi um ríkisstjórnina; Flóttamannamálin hafa verið til umræðu í vikunni og ég hef vikið að þeim í skrifum mínum - oft við mikla óánægju ákveðinna hópa, sem er auðvitað skiljanlegt - í sumum tilvikum er þetta spurning um grundvallarskilning á þjóðríkinu sem ríkjaskipulagi. Menn skiptast sannarlega í hópa gagnvart útlendingamálum, og hluti af þeim klofningi er einfaldlega spurningin um það hvort þeir trúi á landamæri sem fyrirbæri yfirleitt - eða ekki. Eru landamæri til? Ég hef rætt við vini á undanförnum dögum sem trúa ekki á landamæri – finnst þau bara óþarfur manngerður hugarburður – sem er bara ein leið og í sjálfu sér gild leið, allavega svona heimspekilega séð, til að skoða heiminn - ef maður trúir því finnst manni að sjálfsögðu gagnslaust að menn velti fyrir sér til dæmis fjölda hælisleitenda sem Ísland tekur við – það skiptir engu máli – þetta er allt á sömu plánetu. Ég sjálfur trúi á landamæri (við búum á eyju) og mér sjálfum finnst ástæða til að hafa landamæri á Íslandi og standa vörð um landamæri á Íslandi og velja það af kostgæfni og virðingu hverjum er hleypt inn í landið til þess að setjast hér að. Hver mörkin eru þar fram og til baka eftir ýmsum mælikvörðum er spurning um niðurstöðu sem íslenskt samfélag kemst að í lýðræðislegum kosningum. Þess vegna þurfa íslenskir stjórnmálamenn að gera grein fyrir því hvernig þeir vilja hátta landamæravörslu – og svo er ágætt að fá það frá þeim hvort þeir taki þetta fyrirbæri yfirleitt alvarlega, landamæri per se.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar virðist líta svo á að landamæri séu til - það er nýja Samfylkingin. Kristrún var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í vikunni og var þar spurð út í umdeildan málflutning Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra um að komið væri í óefni í útlendingamálunum. Kristrún skammaði Bjarna aðeins fyrir orðræðu og orðbragð og svona - en tók að öðru leyti undir það að hælisleitendakerfið á Íslandi sé ósjálfbært á þessu stigi máls. Hún segir að það þurfi að breyta reglunum til að laga það. Annars ákvað Kristrún í þessu viðtali að benda á að heildarmynd útlendingamála skipti líka máli á Íslandi, þ.e. þetta er ekki aðeins spurning um flóttamenn og hælisleitendur heldur líka innflytjendur í atvinnuleit. Brot spilað.
Nei - það er rétt. Langflestir innflytjendur sem hingað hafa komið eru í atvinnuleit - en ekki í flóttamannakerfinu.
Við rekum stórar atvinnugreinar hér sem eru drifnar áfram af störfum sem við viljum sjálf - við Íslendingar - ekki vinna. Það hljómar eins og Kristrún átti sig á að sú staða sé ekki sjálfbær og sérstaklega ekki til lengri tíma út frá allri samfélagsþróun. Það er annars ekki algengt að stjórnmálamenn geri grein fyrir afstöðu sinni til þeirrar þróunar að svo margir innflytjendur vinnuafls hafi flutt hingað á undanförnum árum og áratugi. Almennt er viðkvæðið bara: Við þurfum þetta fólk. Auðvitað eigum við bara að flytja eins mikið af fólki inn til landsins og hægt er. Til að sinna störfum, einmitt, sem við Íslendingar viljum ekki sinna.
Taka vel á móti öllum. Sýna mannúð. En - er þetta mannúðleg samfélagssýn? Að samfélag okkar skiptist í grunninn í tvo hópa; íslenskumælandi innfædda yfirstétt, sem ef hún vinnur vinnur hugvitssamleg hálaunastörf; og svo útlenskumælandi, réttlausa verkalýðsstétt, sem þjónar þörfum yfirstéttarinnar án þess að kvarta? Er það það sem við eigum við þegar við segjum: Við þurfum þetta fólk? Er það mannúðleg samfélagssýn? Mér sýnist ekki – en þetta verður að lokum mögulega niðurstaðan.
Allt stefnir í þetta - eins og sakir standa - og í einhverjum skilningi er þetta nú þegar staðan. Við ætlum að efla íslenskukennslu, segja stjórnvöld - en ef það hefur ekki tekist hingað til að fá nýbúa til að læra íslensku, þá verður það sífellt ólíklegra með hverju árinu sem líður án þess að róttækt stórátak komi til. Og stjórnvöld hafa nóg á sinni könnu nú þegar – þau hafa aðeins sagt að það þurfi að gera eitthvað, þau hafa ekki gert eitthvað sem hefur áhrif. Og við þurfum að muna að við eigum að skoða kerfi út frá þeim árangri sem þau sýna; ekki út frá þeim hugsjónum sem þau boða. Og kerfið sem á að grípa innflytjendur og kynna þá fyrir íslensku samfélagi í víðum skilningi – einkum á sviði tungumálsins – það ber engan árangur.
Ég benti á það í grein í vikunni að þegar Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir útlendingamál komin í ógöngur hér á landi víkur hann aldrei að spurningunni um erlent vinnuafl.
Þar skrifaði ég að það sé vel skiljanlegt að þessi hópur hafi leitað hingað á undanförnum árum og að hann hafi sannarlega unnið mikið þrekvirki í þágu alls hagkerfisins á síðustu árum. Engu að síður eru mörk fyrir því hve langt er æskilegt að ganga í innflutningi vinnuafls.
Sjálfstæðisflokkurinn ræðir þau mörk aldrei; mögulega einmitt vegna þess að allt þetta nýja vinnuafl gerir flokknum kleift að segja: Hér er alltaf hagvöxtur. Og það er rétt, það er kannski hagvöxtur, en hagvöxtur er takmarkaður mælikvarði. (Þetta segi ég ekki í sömu merkingu og Katrín Jakobsdóttir þegar hún segir að hagvöxtur sé ekki aðalmælikvarðinn á árangur samfélags, heldur líka umhverfismál og geðheilsa, heldur er ég að tala um aðra efnahagslega mælikvarða).
Ég held mig sem sé við efnahagslega mælikvarða, en á því sviði er framleiðni mun áhugaverðari mælikvarði en hagvöxtur, ef framleiðni eykst þýðir það að við sem hagkerfi séum að verða þróaðri og að við séum að búa til meira dót með minni vinnu.
Þetta er eitt allra mikilvægasta heilbrigðismerki í hagkerfi og þarna föllum við á prófinu. Framleiðni hefur staðið í stað á undanförnum árum og jafnvel dregist saman. Þetta er mjög alvarlegt: Við erum ekki að nýta nýja tækni eða uppfinningar eða nýsköpun til að búa til gjöfulla og fjölbreyttara og nútímavæddara hagkerfi, við erum bara að tryggja hagvöxt með því að flytja inn rosalega mikið af fólki í láglaunastörf.
Kom Sjálfstæðisflokkurinn ekki að því að móta þessa atvinnustefnu? Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá…
Jæja. Samfylkingin með 26 prósenta fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 16,6 prósenta fylgi í skoðanakönnunum Maskínu – Miðflokkurin rís, eins og segir á Vísi - kominn með 12 prósenta fylgi. Við þurfum að átta okkur á að þetta hangir allt saman, atvinnustefnan, innflytjendamál, efnahagsmálin – stóra myndin. Pólitíkin er að breytast svolítið – það er ljóst að þessi ríkisstjórn er það síðasta sem við sjáum af þessari samsetningu.
*
Á meðan við erum að tala um útlendingamálin, þá standa þau auðvitað í samhengi við Ísrael og Palestínu þessa dagana, þar sem báðir hóparnir hér á Íslandi saka hinn stanslaust um hatursorðræðu. Hatursorðræðu. Við höfum auðvitað lengi bent á það hve vafasamt hugtak þetta er í meðförum stjórnmálamanna. Núna er umræða til stuðnings Palestínu víða um hinn vestræna heim til dæmis skipulega ritskoðuð af yfirvöldum og tæknifyrirtækjum – sem er vítaverð skoðanakúgun. Sú kúgun er framkvæmd, oft að tilefnislausu, undir formerkjum meintrar „hatursorðræðu“.
Og það hefur heldur komið í hlut hægrimanna hingað til að lýsa efasemdum um hatursorðræðuáhuga vestrænna yfirvalda, eins og fyrirhuguðu hatursorðræðunámskeiði forsætisráðherra hér á landi, sem hún vill skikka að því er virðist flesta vinnandi Íslendinga á.
En ég skrifaði í vikunni að núna kann það að renna upp fyrir báðum endum hins pólitíska kvarða, vinstrimönnum líka, að hatursorðræðuvopninu getur verið og verður beitt gegn öllum andstæðingum ríkjandi yfirvalda ef frjálst fólk lætur glepjast af þessu sannarlega áhrifamikla orði.
Þar ítrekar ritstjórinn þetta grundvallaratriði: Við megum setja fram umdeildar skoðanir og líka umdeildar staðreyndir og ef þær reynast rangar, þá mun tíminn og umræðan leiða það í ljós, en ekki stjórnvöld.
*
Fjallað um hækkanir á markaðsvirði Alvotech.
*
Yfir í annað; vitur maður sagði eitt sinn við mig: Það er ekkert mál þegar manni gengur illa, hverjum sem er má ganga illa - þú þarft fyrst að byrja að gæta þín þegar þér byrjar að ganga vel. Það er þá sem þeir koma á eftir þér. Þetta er hárrétt og maður var minntur á þetta þegar hælbítarnir í íslensku samfélagi fóru í vikunni að hæðast að frumkvöðlinum og stofnanda Dineout Ingu Tinnu Sigurðardóttur fyrir photoshoppaða mynd á Instagram. Ingu gengur vel, fyrirtækinu gengur vel og hún er komin með flottan mann, engan annan en Loga Geirs. Þannig að þetta var fyrirséð – að hatararnir kæmu á eftir henni fyrir smámuni.
Að vísu - við verðum að fallast á það, þetta er mjög skringilega fótósjoppuð mynd - Smartland fjallar um að þetta sé mynd frá einhverju öðru hóteli þótt Inga Tinna hafi raunar dvalið sjálf á ágætlega fínu hóteli - og svo er það hulstrið á símanum sem er mjög illa photoshoppað. En það er ekkert svona sem er verið að sýna með photoshoppinu sem er svo glæsilega frábært eða dýrt að maður hefði ekki getað náð því fram án photoshopps. - Bara með því að taka mynd af sér einhvers staðar. Þannig að af hverju photoshop? Mér sýnist þetta vera eins og þegar menn ljúga bara til að ljúga – lygasýki eins og það heitir. Nema þetta er photoshopsýki. Lygasýki – eins og Aron Can í Iceguys. Brot spilað.
Já Iceguys - vel að merkja frábær innlend framleiðsla sem nær til fólks. Eitthvað við þetta.
*
Að þessu öllu sögðu… ég vísaði hér fyrr í þættinum til kerfisfræðilegrar kenningar… - Þið vissuð ekki af því af því að þetta hljómar ekki endilega eins og kerfisfræðileg kenning nema maður taki það fram, þetta hljóma eins og augljós sannindi, kenningin er svohljóðandi: „Tilgangur kerfis er það sem kerfið gerir.“ - Á ensku: The purpose of a system is what it does. Það er að segja tilgangur tiltekins kerfis eru þau áhrif eða sá árangur sem kerfið raunverulega framkallar. Þetta er alvöru kenning - hún er eignuð kerfisfræðingnum Stafford Beer sem kynnti hana til leiks árið 2001. Og þetta er skemmtileg kenning - það er skemmtilegt að beita henni á ýmsa þætti í okkar samfélagi, eins og til dæmis: Leikskólakerfið. Við ræddum þetta, ég og Frosti Logason fjölmiðlamaður í þætti hans á hlaðvarpsveitunni Brotkasti í vikunni. Brot spilað.
Lögfesta þetta - væri það ekki allavega stefnumál flokks sem setti fjölskyldumálin á dagskrá?
*
Fjallað um ákvörðun Rúv.
Takk fyrir góðan þátt! Það er ekki sama kjarkleysinu fyrir að fara hjá þér eins og hjá RÚV. Þeir sögðu reyndar upp áskriftinni minni hjá RÚV vegna gagrýni minni á þá stofnun. (djók! bara eintóm óskhyggja).