Fréttir vikunnar | Pólitískir sendiherrar, jólaleiðbeiningar Fjölmiðlanefndar og eldgos
Komið er að síðustu fréttum vikunnar fyrir jól og ritstjórinn er að sjálfsögðu í jólaskapi.
Komið er að síðustu fréttum vikunnar fyrir jól og ritstjórinn er að sjálfsögðu í jólaskapi. Eldgos við Grindavík ber á góma og almannavarnahlutverk RÚV í því samhengi. Því næst er farið yfir leiðbeiningar Fjölmiðlanefndar um hvernig beri að haga sér um hátíðirnar – enga upplýsingaóreiðu í jólaboðinu! Einnig: Erfið staða í Bandaríkjunum, sendiherraskipun utanríkisráðherra og málfrelsi á samfélagsmiðlum.
Hér er uppkast að því sem sagt er í þættinum en ef vísa skal í orð ritstjórans í þessum þætti, skal hið talaða orð gilda, sem sagt úr myndbandinu:
Ritstjórinn er í farsælu samstarfi í nafni málfrelsis við þrjú fyrirtæki sem velja að stuðla að frjálsri fjölmiðlun í landinu. Eitt þeirra er Þ. Þorgrímsson byggingavöruverslun. Meira en 80 ára saga af alvöru þjónustu við alvöru neytendur. Annað fyrirtæki er Domino’s Pizza, þú veist hvaða pizzur ég er að tala um, rótgróin íslensk matarhefð frá 1993. Og loks er það fjarskiptafélag fólksins: Hringdu. Gott verð – og þjónusta sem er þannig að ef þú spyrð vini þína á Facebook hvar þú átt að kaupa net, þá mun gáfaður nörd sem veit allt svara: Hjá Hringdu.
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra föstudaginn 22. desember 2023.
Það dró sannarlega til tíðinda á lokametrunum fyrir jól þegar eldgos hófst á mánudagskvöld á meðan RÚV var í beinni útsendingu með umræðuþátt sinn Silfrið. Ríkissjónvarpið lét þó ekki trufla sig, grípum niður í þáttinn klukkan 22.27 - þegar það var búið að tilkynna að jú vissulega væri eldgos hafið þarna einhvers staðar á Reykjanesskaga, en önnur mál skiptu meira máli.
Nei ekki hægt að deila um að með fjárlögunum séu stjórnvöld á réttri leið í efnahagsmálum… Þú verður að athuga að fjárlögin eru að taka á fjölbreyttum þáttum. Já þetta horfðu áhorfendur á þyrstir í frekari upplýsingar um eldgosið - en ekki fjárlögin - en allt kom fyrir ekki, það var bara minnst á gosið svona við og við. Og svo bara farið í að velta vöngum yfir fylgi Samfylkingarinnar.
Já - þetta var almannavarnahlutverk ríkissjónvarpsins í beinni útsendingu og þetta breyttist ekki út þáttinn - við erum að tala um klukkutíma af stjórnmálaumræðum í miðju eldgosi, sem var að brjótast út. Ritstjórinn benti á það í grein fyrr í vikunni að vafalaust séu einhverjar réttlætingar eftir á tilvist ríkismiðils, en almannavarnahlutverkið er ekki ein þeirra. Að því sögðu, umfjöllun RÚV um eldgosið hefur sannarlega verið prýðileg eftir að hún hrökk í gang, enda auðvitað færir fréttamenn sem þar starfa.
Á þessu stigi, þegar þetta er tekið upp, virðast Grindvíkingar hafa sloppið ágætlega við eldgosið, það hefur dregið verulega úr mætti gossins, en auðvitað vitum við ekkert um það hvenær eða hvar gosið getur hafist á ný. Bryndís Gunnlaugsdóttir Grindvíkingur skrifar færslu á Facebook þar sem hún bendir á að á meðan fólk víða um land líti á eldgosið núna sem ákveðna svona meinlausa afþreyingu til að horfa á í tölvunni, séu fleiri en 3.700 manns, íbúarnir, í miklum tilfinningarússíbana og vita ekki hvort heimili þeirra og samfélagslegt hjarta verði á sínum stað í fyrramálið. Þetta er auðvitað grafalvarleg staða - sem á alls ekki að líta á sem eitthvað flipp á samfélagsmiðlum. Stóra spurningin er útistandandi, sem stjórnvöld þurfa einhvern veginn að svara og hún er: Hvað eiga Grindvíkingar að gera? Stjórnvöld vita náttúrulega ekki, ekki frekar en neinn annar, hvernig á að svara þessari spurningu, enda krefur hún okkur um annað svar: Hvernig munu næstu eldgos haga sér? Það er ljóst að við lifum raunverulega óvissutíma og ritstjórinn sendir sérstaka baráttukveðju til Grindvíkinga og hvetur Reykvíkinga og aðra til þess að taka vel á móti Grindvíkingum á meðan þeir geta ekki snúið aftur til síns heima.
Við ættum að gera ráð fyrir því að eldsumbrot á Reykjanesi verði héðan í frá verulegur hluti pólitískrar umræðu á Íslandi. Í síðasta mánuði sem sagt áður en til þessa eldgoss kom ræddi ég við Steingrím J. Sigfússon fyrrverandi forseta Alþingis og jarðfræðing. Hann sagði þetta, um svona heildarmyndina.
Já, þetta er svona. Og það þarf að taka heiðarlega umræðu um það, um öll svæði á Reykjanesskaga.
*
En yfir í annað. Jólin koma auðvitað, sama hvað, aðfangadagur er ekki á morgun heldur hinn, þannig að þetta er að skella á. Jólin eru auðvitað hátíð ljóss og friðar, í andlegum skilningi ein mikilvægasta hátíð okkar kristinna manna, en í praxís, í veraldlegum skilningi, má auðvitað segja að jólin séu spurning um tvo grundvallarþætti, annars vegar að kaupa hluti og hins vegar að vera í boðum. Að kaupa hluti og vera í boðum. Þessi atriði hljóma einföld, en eins og þið vitið er að mörgu að huga og margt sem getur farið úrskeiðis.
Sem betur höfum við Fjölmiðlanefnd ríkisins, sem hefur gætt þess í aðdraganda jóla að gefa okkur eins ýtarleg fyrirmæli og hægt er, um það hvernig við eigum að hegða okkur á þessari mikilvægu hátíð, einmitt á þessum tveimur sviðum, að kaupa hluti og fara í boð. Og já, einhver gæti spurt: Af hverju er Fjölmiðlanefnd ríkisins að gefa fyrirmæli um það? Og svarið við því er: Af því að það er eðlilegt og samræmist hlutverki nefndarinnar, þetta snýst alls ekki um að Fjölmiðlanefnd sé ríkisstofnun sem gerir það lítið raunverulegt gagn í veröldinni að hún þarf stanslaust að búa sér til verkefni sem eru tiltölulega óskyld kjarnastarfseminni í von um að réttlæta tilvist sína um ókomna framtíð. Snýst ekki um það. Fjölmiðlanefnd er þvert á móti mjög mikilvæg. Eins og þessi fyrirmæli sem ég er að tala um.
Fyrsti hátíðafyrirmælapakkinn frá Fjölmiðlanefnd kom seint í nóvember og það var í grein „sérfræðings í miðlalæsi“ hjá nefndinni, Unnar Freyju Víðisdóttur. Þar vorum við þegnarnir hvattir til þess að „setja upp miðlalæsisgleraugun“ á stóru tilboðsdögunum og vera ekki að versla neitt bara vegna þess að tilboðin virðist svo góð eða verra, að vera ekki að lenda í netsvindli. Unnur Freyja skrifar: „Þegar öllu er á botninn hvolft er ást, umhyggja og gæðastundir það dýrmætasta sem við getum gefið okkar nánustu um jólin og þeim gjöfum er ekki hægt að pakka inn og troða undir tré.“
Takk fyrir það, Fjölmiðlanefnd, það er hætt við að fólk gleymi þessu. Með þessu var nefndin búin að leggja línurnar á innkaupahliðinni strax í nóvember en þá var jólaboðahlutinn útistandandi. Þau fyrirmæli nefndarinnar voru loks birt núna í vikunni, fullseint að mati margra sem ég hef rætt við af því að sum jólaboð eru þegar hafin, en það er þá bót í mæli að þegar fyrirmælin loksins koma eru þau skýr og greinargóð. Og þegar við erum komin svona nálægt jólum, þegar svona mikil alvara hefur færst í leikinn, þá er ekki bara hvaða óbreytti “sérfræðingur í miðlalæsi hjá Fjölmiðlanefnd” sem fær að skrifa greinina, nei, það dugar ekkert minna en sjálfur “verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd.” Verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd, Skúli Bragi Geirdal, kemur jólaboðaleiðbeiningum nefndarinnar mjög skýrt á framfæri í grein sinni „Upplýsingaóreiðan í matarboðinu“.
Svona hefst greinin: „Jæja, nú byrjar hún enn og aftur upplýsingaóreiðan í matarboðinu. Einn ástsælasti samkvæmisleikur þjóðarinnar þar sem öll fjölskyldan keppist heila kvöldstund að skiptast á sláandi staðreyndum, slúðri og sögusögnum án þess að þurfa nokkurn tímann að geta heimilda. “Upplýsingaóreiðan í matarboðinu! Nýtt borðspil fyrir alla fjölskylduna“!“ skrifar Skúli Bragi Geirdal. Þið heyrðuð þetta - fólk er að tala saman í jólaboðum án þess að GETA HEIMILDA. Pælið í miðlalæsinu.
Greinin er rétt að byrja, við höldum áfram að fræðast um borðspilið, Upplýsingaóreiðuna í matarboðinu, Skúli skrifar: „Allir geta tekið þátt og enginn undirbúningur nauðsynlegur. Sigurvegarinn er sá sem hefur hæst, kemur með ótrúlegustu söguna og er duglegastur að þagga niður í öðrum við borðið með sínum eigin sannleik. Dálítið eins og á samfélagsmiðlum...
„Hvar var það... sá ég þetta kannski bara á TikTok? Æi skiptir ekki máli það eru allir að tala um þetta!“
Jú það skiptir máli, skrifar Skúli Bragi Geirdal: „Allir“ þá hverjir? Allir vinir þínir á samfélagsmiðlum, allir í heita pottinum, allir á kaffistofunni í vinnunni eða í síðasta boði sem þú fórst í þar sem leikurinn upplýsingaóreiðan í matarboðinu var spilaður allt kvöldið?“
Tilvitnun lýkur. Skúli birtir síðan alls konar tölfræði frá Fjölmiðlanefnd sem á að sýna fram á magn „upplýsingaóreiðu“ í samfélaginu, eins og að aðeins helmingur fólks segist í skoðanakönnunum alltaf kanna sannleiksgildi frétta áður en þau deila þeim með öðrum - Skúli birtir þetta svona í merkingunni; sjáið þetta bara helmingur fólks kannar sannleiksgildið - Ég spyr mun frekar: Er það ekki bara frekar hátt hlutfall?
Er það ekki bara töluverður metnaður í samskiptum við náungann; ætti ég að henda þessu inn á hópspjallið til strákanna? Nei, ekki fyrr en ég kannað sannleiksgildi fréttarinnar. Já, upplýsingaóreiðan er að mati Fjölmiðlanefndar orðið svo útbreitt samfélagsmein að hún er mjög líkleg til þess að svoleiðis rústa öllum jólaboðin sem við förum í, sérstaklega ef við pössum okkur ekki að vísa í heimildir - eða verra, að dreifa fréttum án þess að kanna sannleiksgildi þeirra með sjálfstæðum hætti fyrirfram.
Skúli Bragi skrifar áfram, og hérna byrjar hann virkilega að leggja spilin á borðið:
„Framundan er vertíð jólamatarboða þar sem á boðstólnum verða nægar kræsingar, á borð við grafinn-hálf-sannleik, súrar-hrútskýringar, purusteiktar-ýkjur, nýbakaðan-rógburð, innbakaðan-uppspuna, úldnar-staðalímyndir, marineraða-fordóma og villibráðar-gaslýsingar. Gjarnan með fyrirvörum eins og „ætla ekkert að vera leiðinlegur en...“ eða „með fullri virðingu en...“ samt án allrar virðingar til þess eins að gefa okkur skotleyfi á allt og alla.”
Tilvitnun lýkur. Marineraðir fordómar - villibráðar-gaslýsingar. Sko við gætum tekið allan þáttinn undir bara þessa grein en förum héðan beint í lokaorðin: „Matarborðið er ekki lengur opinn umræðuvettvangur þar sem allir eru velkomnir. Upplýsingaóreiðan hefur tekið yfir og þeir háværu sem eru enn að spila hafa jafnvel náð nokkrum í lið með sér. Sigurinn í þessum leik ræðst ekki af því að allir gangi sáttir og sælir frá borði í jólaboðinu. Sigurinn fer til þess sem á síðasta orðið þegar að allir hafa fengið nóg…“
Sko ég veit ekki alveg Hvaða matarboðum hefur þessi ágæti maður verið í? hinn ágæti verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd - þau hljóma nokkuð já taugatrekkjandi en ákveðnir þættir í þessu eru samt auðvitað kunnuglegir; ég meina fordómar, rogburður, ýkjur, frekt fólk að þræta í fjölskylduboðum, óljósar vísanir í hitt og þetta úr fréttum og af samfélagsmiðlum og kröftug skoðanaskipti - eru þetta ekki bara lýsingar á mannlegum samskiptum, eins og þau birtast okkur í hversdagslífinu? Er ekki smá langsótt að hér séu upptök alls ills bara í hinni nýtilkomnu “upplýsingaóreiðu” sem hefur smeygt sér inn í fjölskyldur okkar og er að leggja heilu jólaboðin í rúst?
Þetta hugtak, upplýsingaóreiða, þetta er glænýtt og þetta skaut upp kollinum í íslenskum dagblöðum í núverandi merkingu fyrst bara árið 2018 og síðan hefur þetta orðið að miklu tískuorði og að sérstöku áhugamáli „Fjölmiðlanefndar“. En hvað er upplýsingaóreiða, þessi sem nú er orðin að slíku vandamáli að hún er að eyðileggja jólin fyrir hefðbundnum vísitölufjölskyldum, hvað ER upplýsingaóreiða í augum fjölmiðlanefndar?
Í nýlegri könnun Fjölmiðlanefndar á upplýsingaóreiðu var mælikvarðinn á upplýsingaóreiðuna að biðja um afstöðu fólks gagnvart fullyrðingum eins og þessum hér á þessari mynd. Upplýsingaóreiða: Í hversu miklum mæli ertu sammála eða ósammála eftirfarandi fullyrðingum? “Það er margt mikilvægt að gerast í heiminum sem almenningur fær aldrei að vita um.” (78% eru sammála þessu) - “Íslenskar stofnanir halda meðvitað upplýsingum frá almenningi með því að segja ekki frá því sem þær sannarlega vita.” (48% eru sammála þessu) - “Það er algengt að vísindamenn birti aðeins niðurstöður sem styðja þeirra eigin skoðanir.” (48% sammála hér líka) Sko, þetta eru fullyrðingar, beinskeyttar vissulega en líklega sannar að vissu leyti, en ef ég skil framsetningu Fjölmiðlanefndar rétt, þá var upplýsingaóreiðan í þessum fullyrðingum meiri eftir því sem sem fólk var meira sammála þessum fullyrðingum, af því að þær eru auðvitað ósannar í augum nefndarinnar. - samsæriskenningar.
Aðrar fullyrðingar eru greinilega sannar í augum nefndarinnar og þá á fólk að vera sammála, annars er það upplýsingaóreiða, eins og fullyrðingin að “Orkukreppan í Evrópu orsakist af stríðinu í Úkraínu” (þar eru 90% Íslendinga sammála) en er það upplýsingaóreiða að segja nei, ósammála og að átta sig á að það er ekki bara ein orsök að því vandamáli sem er orkukreppan í Evrópu? Heldur kannski líka áratugaraðir af misráðinni orkustefnu evrópskra stjórnmálaleiðtoga í bland við jú núna stríðið? Neibb, þetta er bara Pútín að kenna! Annað er samsæriskenning.
Það eru margar spurningar þarna og mörg dæmi, en ef maður grisjar öll smáatriðin út úr þessu, er niðurstaðan í rauninni sú að „upplýsingaóreiða“ í þeirri mynd sem stjórnvöld og Fjölmiðlanefnd hafa áhyggjur af henni er ekkert annað en mælikvarði á það hversu mikla trú almenningur hefur á fullyrðingum ráðandi afla í samfélaginu um mál sem skipta raunverulegu máli.
Hversu trúaður er almenningur á málflutning og hugmyndafræði ráðandi afla og fylgitungla þeirra í stjórnsýslu, akademíu og fjölmiðlum? Ef almenningur er ekki nógu trúaður, þá ríkir upplýsingaóreiða - annars ekki. Upplýsingaóreiða mælir ekki meðvitund um hinn endanlega sannleika í sjálfum málflutningnum - það væri of flókið að mæla hann - upplýsingaóreiða mælir samhljóm á milli hugmynda valdastéttarinnar og almennings.
Þess vegna er ástæða til að hafa varann á þegar bæði stjórnmálamenn og stjórnsýsla reyna að sjúkdómsvæða eðlileg skoðanaskipti og framsetningu umdeildra skoðana sem “upplýsingaóreiðu.” Við megum setja fram umdeildar skoðanir og líka umdeildar staðreyndir og ef þær reynast rangar, þá mun tíminn og umræðan leiða það í ljós - ekki stjórnvöld. Og ef við föllumst á það yfirhöfuð að upplýsingaóreiða sé raunverulegt fyrirbæri, þá verðum við að minnsta listi að halda því til haga um leið, að við eigum þá fullan rétt á að hafa okkar jólaboð gjörsamlega á floti í upplýsingaóreiðu - alveg án þess að stjórnvöld hafi nokkuð um málið að segja. “Ertu að vísa í heimildir? Bentu mér á greinina á RÚV eða Vísi. Eða í Guardian.” Að lokum; ef þú ert stjórnmálamaður og fólk er hætt að treysta þér, þá er lausnin að sanna að þú sért traustsins verður; ekki að gera út fulltrúa sem eiga að tryggja með innrætingarherferðum að allir lesi bara miðla sem samræmast þinni heimssýn og kalla þá aðgerð svo “miðlalæsi.” Smá endurmenntun í miðlalæsi bara, ekkert að sjá hér.
*
Yfir í annað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið að því á síðari árum að draga úr pólitískum ráðningum í sendiherrastöður og gera þær faglegri, ekki síst til dæmis í ljósi skandalsins sem kom upp í tengslum við berorða frásögn Gunnars Braga Sveinssonar af hrossakaupum Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna með sendiherrastöður á sínum tíma. Guðlaugur Þór Þórðarson þegar hann var utanríkisráðherra árið 2020 setti meira að segja nýjar reglur um skipan sendiherra, sem áttu að tryggja skilvirkari og faglegri umgjörð utan um ferlið til allrar framtíðar. Einn ómálefnalegur sendiherra, Gunnar Pálsson, sagði þá að Guðlaugur vildi í rauninni með þessum breytingum „gera utanríkisráðuneytið pólitískara og skapa aukið svigrúm til að setja í störf pólitíska sendiherra.“ Þetta var auðvitað bull hjá Gunnari Pálssyni, hann var örugglega bara fúll vegna eigin hagsmuna. Nýja kerfið hefur reynst vel - og það er sérstaklega faglegt. Í vikunni lagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins fram tillögu sína að skipun tveggja nýrra sendiherra í utanríkisþjónustunni. Það eru Svanhildur Hólm Valsdóttir í Washington og Guðmundur Árnason í Róm. Þau hafa reynslu af því að reynast Bjarna Benediktssyni vel, Svanhildur Hólm sem aðstoðarmaður hans til margra ára og Guðmundur sem ráðuneytisstjóri hans og náinn starfsmaður í næstum áratug. Já, það eru nýir tímar í Sjálfstæðisflokknum og þetta eru, eins og þið heyrið, svo augljóslega langt frá því að vera klíkuráðningar, að Bjarni vildi að veröldin vissi af þessu. Þess vegna hann valdi þriðjudaginn 19. desember til að tilkynna um málið, innan við sólarhring eftir að eldgos hófst seint um kvöld nærri byggð í Grindavík.*
*
Áfrýjunardómstóll í Colorado-ríki staðfesti í vikunni ákvörðun sína um að fjarlægja nafn Donald Trump fyrrverandi forseta af kjörseðlinum í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum. Þá ákvörðun grundvallar rétturinn á framferði Trump eftir síðustu kosningar, sem rétturinn segir hafa jafngilt uppreisn gegn bandaríska ríkinu. Þetta er kannski einkar áhugaverð ákvörðun í ljósi þess að Trump ætti aldrei séns í Colorado hvort sem væri. Það virðist þó vera að með hverri ákæru sem gefin er út á hendur Trump, aukist fylgi hans á meðal kjósenda, að minnsta kosti á meðal repúblikana. Já staðan er auðvitað orðin ansi flókin í Bandaríkjunum ef eina leið Demókrata til að bjarga lýðræðinu í landinu er að banna andstæðingnum að bjóða sig fram í lýðræðislegum kosningum. Það er illt í efni. Rúm vika í nýtt ár - 2024 - verður örugglega ekki rólegt ár í sögu Bandaríkjanna, það er kosið í nóvember.
*
Yfir í annað en reyndar talandi um bandarísk stjórnmál, það er ekki ósennilegt að miðillinn X reynist mikilvægur vettvangur á því örlagaríka ári sem nú fer í hönd. Margir eru kannski að horfa á þennan þátt akkúrat núna á X, áður Twitter, sem Elon Musk keypti hér um árið á fúlgur fjár. Musk hefur að eigin sögn reynt að endurreisa málfrelsi á miðlinum eftir að hulunni var svipt af því meðal annars á sínum tíma að bandarísk stjórnvöld hafi í gegnum lögregluyfirvöld og leyniþjónustur um árabil skipt sér mjög af því hvaða umræða var leyfð á Twitter og hvaða umræða ekki. Musk birti gögn um þetta samkrull stjórnvalda og stórfyrirtækja og sagði að undir sinni stjórn yrði þetta ekki svona. Málfrelsi ætti að vera lykilstefið. Ekki allir taka mark á þessari hugsjón, heldur líta þeir svo á að Musk sé ekki alveg heill í sinni baráttu fyrir málfrelsi enda sé hann sjálfur tilbúinn að svona hljóðlega fjarlægja alls konar efni fyrir alls konar stjórnvöld ef það hentar hans pólitísku hagsmunum, þannig að það já, við vitum ekki alveg hvort hann muni alveg standa við málfrelsisprinsippið. En við vonum það. Er það ekki? Er málfrelsi ekki af hinu góða, örugglega? Ekki í augum allra, virðist vera – eða það eru alla vega merki um að þetta hugtak málfrelsi, sem hafði alltaf á sér svona jákvæðan frjálslyndan lýðræðislegan blæ sem grunnstoð okkar vestræna samfélagskerfis, að þetta hugtak málfrelsi sé að fá á sig neikvæða merkingu hjá stórum hópi fólks.
Á miðvikudaginn var Rás 2 að fjalla um nýtt útspil Instagram, Instagram Threads, sem er í eigu Meta, og sem margir binda vonir við að geti unnið samkeppnina við X. Þar var til viðtals Tryggvi Freyr Elínarson, tölvukall - þróunarstjóri hjá tæknifyrirtækinu Datera - og hann lýsti mikilli óánægju sinni með umræðuna á X undir stjórn Musk og það var ekki annað að heyra á spyrlunum að þeir væru sama sinnis. Brot spilað.
Já segir Tryggvi Freyr - við getum haldið í vonina um að Evrópubúar færi sig bara yfir á Instagram Threads - af því að þeir “við erum ekki alveg að dansa sama dans og Bandaríkjamennirnir varðandi málfrelsi og hatursorðræðu og annað.” Evrópubúar eru ekki að láta glepjast af þessum þekktu meinsemdum í bandarísku samfélagi, málfrelsi og hatursorðræðu. Þær koma saman í pakka. Já umræðan er sannarlega að breytast hratt á Vesturlöndum, þegar málfrelsi er orðið eitt af stóru vandamálunum í samfélaginu.
*
Hvað um það, hvað um það. Jólin! Þau eru í grunninn komin - og ég ætla að sleppa ykkur í jólafögnuðinn sem þið auðvitað njótið til hins ítrasta með bærilegasta fólki sem þið þekkið. Ég minni ykkur á sem eruð að hlusta á þetta og eruð mögulega ánægð með þetta að besta jólagjöfin til ritstjórans og um leið til ykkar sjálfra - er að koma í áskrift á ritstjori.is og styðja við þetta verkefni. Fréttir vikunnar geta verið kostnaðarlausar þökk sé samstarfsaðilum mínum Domino’s Pizza, Þ. Þorgrímsson og Hringdu. Á meðan ég man fer ég í enn annað sinn með kjörorð þessa fréttaþáttar; ást á ættjörðu, ást á sannleika. Ég óska ykkur gleðilegra jóla kæru áhorfendur - en ekki strax farsældar á komandi ári. Hennar óska ég þegar ég sé ykkur aftur hér í næstu viku í fréttum vikunnar, á þarsíðasta degi ársins 2023. Þangað til þá – Guð blessi ykkur.