Fréttir vikunnar | Raunveruleg upptök kórónuveirunnar (viðtal v. Matt Ridley metsöluhöfund)
Í bókinni Viral, the Search for the Origin of Covid-19, færir Matt Ridley rök fyrir því að kórónuveiran eigi upptök sín í tilraunastofu.
Erum snemma á ferðinni þessa vikuna enda höfum við sérstaklega gott efni undir höndum!
Í fréttum vikunnar er rætt við Matthew Ridley. Matt er blaðamaður, viðskiptamaður og stjórnmálamaður, en fyrst og fremst margverðlaunaður metsöluhöfundur sem hefur selt meira en milljón bækur á fleiri en þrjátíu tungumálum. Ridley er menntaður dýrafræðingur, með doktorsgráðu í heimspeki og bækur hans sem eru á annan tug talsins hafa verið um allt frá kynhegðun, eðlisávísun og erfðafræði til viðskiptafrelsis, nýsköpunar og loftslagsbreytinga.
Síðasta bók hans er bókin Viral, the Search for the Origin of Covid-19 - Leitin að upprunanum, eins og við köllum það á íslensku. Ridley hallast að því að veiran eigi upptök sín í tilraunastofu og í þessum þætti færir hann rök fyrir því.
Ertu þakklátur fyrir þetta efni? Taktu þátt í frjálsri fjölmiðlun í landinu og fáðu efni sem aðeins er fyrir áskrifendur:
Uppruni veirunnar er ekki mikið til umræðu og ef fólk efast um opinberu frásögnina, sem er að þetta hafi ekki byrjað á tilraunastofu, er það gjarnan stimplað sem samsæriskenningasmiðir. En Matt Ridley er ekki fulltrúi jaðarsins í umræðunni, við erum ekki að tala um bara einhvern heima í tölvunni að skrifa um upptök kórónuveirunnar, heldur tekur Matt Ridley vísindaleg vinnubrögð afar alvarlega enda hefur hann fengist við slík störf áratugum saman. Hann er líka sannarlega hluti af stofnanakerfi bresks samfélags, hefur skrifað fyrir rótgróna fjölmiðla, hann var í átta ár með sæti í lávarðadeild breska þingsins, hann er virkur þátttakandi í samfélagsumræðunni og hann þykir marktækur sem slíkur. Þess vegna hafa hans skoðanir á þessu máli töluverða vigt og þær hafa haft töluverð áhrif um allan heim.
Við ræðum margt annað við Matt Ridley, stöðu Íslands og Bretlands í evrópsku samhengi, við ræðum Evrópusambandið, um misfellur í frjálslyndu lýðræði nútímans og margt, margt fleira.