Fréttir vikunnar | Slúður um Pírata, sjálftaka Sjálfstæðisflokksins og víkingar vakna
Slúður um handtöku Pírata, afnám styrkja til stjórnmálaflokka sem Sjálfstæðisflokkurinn hagnast mest á, fullveldisdagurinn og í því samhengi: Víkingar vakna, og loks kynjamál Ríkisútvarpsins.
Í fréttum vikunnar er töluvert á seyði; allt frá meintu slúðri um handtöku Pírata, sem reyndist ekki vera alveg á sandi byggt, og til rannsóknarblaðamennsku Heimildarinnar í því máli. Þá er vikið að raunverulegum fórnarlömbum Klaustursmálsins og afdrifum þeirra á vettvangi atvinnulífsins.
Fjallað er um hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um að afríkisvæða stjórnmálaflokka, sem er kerfi sem þeir hafa hagnast hvað mest á. Einnig: Fullveldisdagurinn er í dag. Er það ekki framsal fullveldis að vera í Atlantshafsbandalaginu? Einu sinni þótti það vera það. Loks: Þýskt dagblað brennir sig á kynjamáli og hættir því, en áskrifendur íslenska ríkismiðilsins geta því miður ekki beitt sama þrýstingi.
Hér er uppkast að því sem sagt er í þættinum en ef vísa skal í orð ritstjórans í þessum þætti, skal hið talaða orð gilda, sem sagt úr myndbandinu:
Ritstjórinn er í farsælu samstarfi í nafni málfrelsis við þrjú fyrirtæki sem velja að stuðla að frjálsri fjölmiðlun í landinu. Eitt þeirra er Þ. Þorgrímsson byggingavöruverslun. Meira en 80 ára saga af alvöru þjónustu við alvöru neytendur. Annað fyrirtæki er Domino’s Pizza, þú veist hvaða pizzur ég er að tala um, rótgróin íslensk matarhefð frá 1993. Og loks er það fjarskiptafélag fólksins: Hringdu. Gott verð – og þjónusta sem er þannig að ef þú spyrð vini þína á Facebook hvar þú átt að kaupa net, þá mun gáfaður nörd sem veit allt svara: Hjá Hringdu.
Samstarf við þessi góðu fyrirtæki gerir okkur kleift að færa þér fréttir vikunnar á hverjum föstudegi, þér að kostnaðarlausu.
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar þann 1. desember 2023.
Í dag fögnum við 105 ára afmæli íslensks fullveldis, sem fékkst þann 1. desember 1918. Þann dag tók Magnús Ólafsson þessa sögulegu ljósmynd, sem lítur þannig út að það hafi ekki verið margt um manninn við Stjórnarráðið þennan örlagaríkan dag. Það eru hins vegar falsfréttir, hann náði bara ekki betri vinkli en þetta – það var fullt af fólki þarna til hægri inn Lækjargötu og upp Bakarabrekkuna. Upplýsingaóreiða er ekki bara að segja rangt frá, Magnús, heldur flokkast misvísandi fréttir líka undir upplýsingaóreiðu.
En já, þetta fengum við eftir mikla baráttu – fullveldi íslensku þjóðarinnar – og þótt margir séu svo vitlausir að gera lítið úr því stöndum við enn í þessari baráttu á hverjum degi, eins og Milan Kundera sagði: „Sú spurning: að vera eða ekki, er án afláts borin upp við litla þjóð.“ Á þessu stigi er stóra spurningin um stöðu tungunnar, sem er ógnað bæði hér í samskiptum innanlands og í netheimum. Ríkisstjórnin kynnti loksins aðgerðaáætlun fyrir íslenskuna í þessari viku og við vonum að henni fylgi fjármagn og raunverulegur árangur. Hingað til hefur ekkert sem stjórnvöld gera til að styðja við tungumálið borið mikinn árangur, að því er virðist. Án tungunnar erum við auðvitað ekki þjóð, eins og Snorri Hjartarson orti: „Land, þjóð og tunga – þrenning sönn og ein.“ Já, þótt menn yrki ekki svona lengur – og þótt andi sjálfstæðisbaráttunnar hafi legið í dvala á okkar ævitíma – þá er aldrei útilokað að okkar kynslóð muni nú á næstunni eiga sína eigin friðsamlegu þjóðlegu vakningu.
Þegar Danakonungur féllst á að leyfa Íslendingum að hafa þinghald á Þingvöllum um miðja nítjándu öld var hundrað prósent þjóðleg vakning í gangi og þegar tíðindin um þingið bárust peppaðist Jón Sigurðsson forseti töluvert í bréfi til vinar síns og skrifaði: „Nú er tíð til að vakna og bera sig að taka á móti eins og menn, ef menn vilja ekki liggja í dái til eilífðar!“
Já nú er tíð til að vakna skrifaði Jón Sigurðsson árið 1840 og enn er tilefni til að vakna, sjáum Guðmund Emil einkaþjálfara og afkomanda Egils Skallagrímssonar, eins og hann kynnir sig jafnan til leiks. Brot sýnt.
Víkingar vakna, segir Gemil, það hlýtur að vera betra en að liggja í dái til eilífðar. Og já farðu á stigavélina - ritstjórinn tekur undir þessa ráðgjöf - það er frábær líkamsrækt.
Hér áðan nefndi ég ljóðlínur Snorra Hjartarsonar: “Land, þjóð og tunga – þrenning sönn og ein.” Það er oft vísað til þessara orða í íslenskum hátíðarræðum – en þau eru ekki alltaf skoðuð í sínu upprunalega samhengi. Þetta ljóð, sem heitir 30. marz 1949, var fyrst birt í sérstöku hefti Tímarits Máls og menningar þar sem skrifað var af hörku gegn inngöngu Íslendinga í Atlantshafsbandalagið.
Harkan í þeirri deilu allri vill gleymast, þjóðin var sannarlega klofin í herðar niður. Á meðan hægrimenn tóku fagnandi þessu „vestræna samstarfi“ eins og þeir kölluðu NATO - skrifaði Halldór Laxness í þetta sama tölublað af Tímariti Máls og menningar 1949 að Atlantshafsbandalagið væri „bandalag gegn alþýðu heimsins“ og „óyndisúrræði stjórnmálalegrar fáfræði og sálfræðilegrar blindu“ – sem væri í grunninn ekkert annað en „amerískur þvingunarsáttmáli.“
Halldór skrifar að með inngöngu í NATO væru borgaralegar ríkisstjórnir víðsvegar um Evrópu, eins og Ísland, þar með „fúsar til að afnema fullveldi landa sinna og útrýma því þjóðernisstolti sem hefur verið fjöregg margra þessara þjóða um þúsund ára skeið og sumstaðar lengur.“
Já - það er áhugavert hvernig tímarnir breytast og hvernig það gleymist að barátta gegn NATO var í hugum margra barátta fyrir fullveldi Íslendinga. Þegar við tölum um fullveldi árið 2023 er sjaldan vikið að þátttöku okkar í hernaðarbandalaginu NATO. Sú þátttaka okkar er varla rædd. Það er enginn stjórnmálaflokkur á Alþingi sem talar lengur fyrir því að Ísland standi utan Atlantshafsbandalagsins - jú nema “Vinstri grænir.” Það er auðvitað ekki til marklausara og ótrúverðugra þvaður en þegar Vinstri grænir halda því fram að það sé raunverulegur vilji þeirra að ganga úr NATO – og þar fyrir utan eru Vinstri grænir töluvert meiri glóbalistar en aðrir flokkar – „Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna!“ Hvað er það einu sinni? Katrín talar um Sameinuðu þjóðirnar við hvert tækifæri - af hverju þurfa Sameinuðu þjóðirnar að segja okkur hvað við eigum að gera?
Síðan er markvert að þeir flokkar, sem eru svona þjóðræknir allavega á yfirborðinu og í orði kveðnu, sem gefa sig helst út fyrir að vera hinir einu sönnu útverðir íslensks fullveldis – Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn – beina spjótum sínum BARA að Evrópusambandinu. Miðflokksmenn festa ekki svefn - beinlínis vaka alla nótt niðri á Alþingi - í mótstöðuaktívisma gegn Evrópusambandinu - sem er vissulega verðugur og góður - en þeir velta eiginlega aldrei fyrir sér því mikla eiginlega framsali fullveldis sem vera okkar í Atlantshafsbandalaginu er.
Það sama gildir um Morgunblaðið, það annars frábæra dagblað. Hið vaska tvíeyki, mínir ágætu fyrrverandi kollegar, Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson, tóku viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson í vikunni. Þar var ekki laust við að spyrlarnir hafi hreinlega farið að dilla rófunni af spenningi þegar þeir náðu forsetanum fyrrverandi á flug um ókosti Evrópusambandsins, sem var svo slegið upp á forsíðu blaðsins. „Hvað ættum við að græða á Evrópusambandinu“ spyr Ólafur - sem er aftur, vissulega góð spurning.
Þetta hugsanlega framsal fullveldis til ESB er nefnt nánast daglega í Morgunblaðinu – sem er fínt – en þversögnin í málinu er sú að á SAMA tíma er Morgunblaðið smá bara eins og hálfgerð hugveita fyrir Atlantshafsbandalagið á Íslandi – og flytur boðskap bandalagsins eiginlega alveg fyrirvaralaust í öllum málum. Já framsal fullveldis - öll utanríkismál Íslendinga sem skipta einhverju raunverulegu máli í höndum erlendra manna hjá Atlantshafsbandalaginu - skiptir ekki máli - hérna, leiðari númer 390 um Þriðja orkupakkann! Aftur, fínt að berjast gegn Þriðja orkupakkanum – en það er samt greinilega ekki alveg sama hvaða fullveldi við framseljum og til hverra. – Það getur reyndar vel verið þegar ég segi það að Morgunblaðið hafi alveg rétt fyrir sér um það hvert við eigum að framselja vald. Smá til NATO, ekkert til ESB. Allt spurning um hagsmunamat.
*
Jæja. Þaðan förum við yfir í næsta mál. Framsal valds, já. Ónefndur rithöfundur sagði eitt sinn við ritstjórann að hann væri einlægt þeirrar skoðunar að hann vildi í raun framselja eins mikið vald úr landi og hægt væri, bara svo að íslensk stjórnmálastétt hefði þá minni völd. Þótt þetta sé auðvitað galin hugmynd, er það alveg rétt að við erum kannski ekki að senda okkar besta fólk inn á Alþingi. Rétt rúmur þriðjungur fólks treystir Alþingi samkvæmt skoðanakönnunum. Þriðjungur. Þriðjungur, er það þá ekki eiginlega jaðarskoðun? Að treysta Alþingi? Þetta er ekki nógu mikið rætt.
Alveg óháð þeirri staðreynd var í vikunni sagt frá ógöngum Arndísar Önnu Pírata á skemmtistaðnum Kiki í miðbæ Reykjavíkur um síðustu helgi. Fyrst Klaustursmálið, nú Kíkí-málið. Á Kíkí var Arndís Anna handtekin af lögreglu fyrir að vera, eins og er helst að skilja á fyrstu yfirlýsingunni í málinu, of lengi inni á klósetti. Hljómaði eins og það vantaði eitthvað inn í þetta – margir hafa verið lengi á klósettinu á skemmtistað, fæstir þeirra hafa verið handteknir.
En þrátt fyrir að ástæða handtökunnar væri samkvæmt þessu býsna óljós, kvaðst Arndís Anna þakklát fyrir viðbrögð lögreglu, sem er áhugavert. Þakklæti er ekki beint á topp tíu lista tilfinninga sem fólk fær þegar það er leitt út af skemmtistað af lögreglu. En Arndís var þakklát fyrir að vera handtekin – hversu stjórnlaus er maður þá orðinn? Handtakið mig! Neinei, ég er auðvitað að taka orð hennar úr samhengi, þakklætið fólst að hennar sögn líka í að það væri gott að lögregla sæi sér fært um að mæta á hinsegin skemmtistaði. Eins og hinseginmál komi þessu við á einhvern hátt. En - hví ekki að hafa þau með? Alltaf betra.
Nú, þessi fyrsta yfirlýsing Arndísar Önnu skildi eftir fleiri spurningar en svör. Af hverju var þingmaðurinn handtekinn fyrir að vera lengi inni á klósetti? Vefmiðillinn Nútíminn undir nýrri stjórn Frosta Logasonar fjallaði um það strax í upphafi að Arndís hefði verið ofurölvi inni á baðherberginu og raunar sofið þar áfengisdauða. Miðillinn vísaði máli sínu til stuðnings til heimildarmanna innan lögreglunnar. Fyrstu viðbrögð Arndísar við þeirri frétt, var að kalla hana bara slúður en í yfirlýsingu númer tvö frá Arndísi gaf hún meira upp en í þeirri fyrstu, þar skrifaði hún: „Ég var búin að drekka of mikið og brást illa við þegar dyraverðir opnuðu hurðina á klósettinu, ég var dónaleg og streittist á móti.“
Já hér eru töluvert meiri upplýsingar en í fyrstu yfirlýsingunni - af þessari viðurkenningu að dæma virðist nokkuð til í umfjöllun Nútímans, að þingmaðurinn hafi verið ofurölvi inni á baðherberginu “drekka of mikið” og látið illa við dyraverði “dónaleg og streittist á móti”. Þar með er umfjöllunin að því er virðist ekki slúður, heldur bara umfjöllun, byggð á frásögn heimildarmanns innan lögreglunnar.
Svoleiðis virkar þetta – skandall kemur upp – fjölmiðlar bæta við upplýsingum um málið eftir föngum – meira og minna sama hvaðan þær upplýsingar eru fengnar, svo lengi sem þær eru réttar. Þetta er viðtekið kerfi. En ekki allir eru sáttir við þetta í þessu tilfelli, eins og rannsóknarblaðamenn Heimildarinnar. Í rannsóknarblaðamennsku Heimildarinnar um framferði Arndísar á Kiki hefur mest orka verið sett í að ganga á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að finna út úr því hvað lögreglumaðurinn, heimildamaður Nútímans, hafi eiginlega verið að spá að leka þessum upplýsingum og brjóta þar með trúnað.
Tilfinningin sem maður fær af umfjöllun Heimildarinnar er að þetta sé svolítið alvarlegur leki - að lögreglumaður hafi upplýst blaðamann um atburðarás í einhverju máli undir nafnleynd – “Ummæli um þingkonu til skoðunar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.” Heimildin segist í greininni hafa spurt sérstaklega í fyrirspurn til lögreglunnar hvort „það samræmdist vinnureglum lögreglunnar að gefa það upp við Nútímann í hvers konar ástandi þingmaðurinn var í þegar hann var handtekinn“. Það er fókusinn hjá Heimildinni. Vinnureglur lögreglunnar – heimildarmaðurinn sjálfur. Sem er áhugavert, af því að, eins og ég segi, almennt gildir það um svona blaðamennsku að blaðamönnum er svona innan skynsamlegra marka tiltölulega sama um það hvaðan upplýsingar eru fengnar, svo lengi sem þær eru réttar.
Af öllum miðlum er Heimildinni virkilega sama hvaðan upplýsingar koma. Stundin, sem var áður Heimildin, var allavega ekki mikið að pæla í því á sínum tíma hvort það samræmdist –ekki vinnureglum, heldur lögum, þegar Bára Halldórsdóttir uppljóstrari hljóðritaði einkasamtal þingmanna á öldurhúsinu Klaustri hér um árið – sem síðar varð að Klaustursmálinu. Persónuvernd mat þá upptöku hennar ólöglega - talandi um illa fengnar upplýsingar hjá Stundinni. En þau prinsipp blaðamennskunnar virðast ekki gilda hjá Heimildinni þegar þingmaðurinn er Pírati – þá ég segi ekki skýtur Heimildin sendiboðann, heimildarmannin, en hún sendir alvarlegar fyrirspurnir á vinnuveitanda hans, hvort það sé nú í lagi að vera að leka svona um háttvirtan þingmann Pírata. Leyfa þessum löggubjána að svitna aðeins…
Já, það eru margar hliðar á Kíkí-málinu. Það hlýtur auðvitað að ýfa upp gömul sár hjá fórnarlömbunum í Klaustursmálinu, eins og Sigmundi Davíð. Brot úr Silfrinu.
Já fórnarlamb afbrots - það er kannski svolítið dramatískt. En engu að síður. Kannski er eitthvað til í þessu eftir á að hyggja. Mögulega var eitthvað skrýtið við að láta eins og það hafi talist fullkomlega eðlilegt að taka upp einkasamtal fólks á öldurhúsi og birta það bara í heild sinni í fjölmiðlum af því að manni fannst það svo ósmekklegt.
Það er ekki út í hött að líta svo á að birting fjölmiðla hefði átt að einskorðast við ummæli Gunnars Braga um að hann hafi gert Geir Haarde að sendiherra gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi síðar gera hann að sendiherra. Reyndar það versta sem gat gerst við þann díl var að þessar upplýsingar lækju. Gunnar Bragi er einmitt nýkominn heim úr skammlífu giggi sem hann fékk í staðinn fyrir sendiherrastöðuna sem hann fékk aldrei, sem var að vera sérstakur ráðgjafi framkvæmdastjóra Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um eyðimerkursamnginn. Áhugaverður starfstitill: Hvað ætlar þú að vera þegar þú ert stór? Sérstakur ráðgjafi framkvæmdastjóra Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um eyðimerkursamnginn. Já, ákveðin eyðimerkurganga þar hjá Gunnari Braga, en henni er lokið. Gunnar Bragi er kominn aftur til starfa fyrir Miðflokkinn. Hringurinn lokast. Jæja. Yfir í næsta mál.
*
En talandi samt áfram um traust almennings á stjórnmálunum – Íslenskir stjórnmálaflokkar þiggja ekki mikið af framlögum félagsmanna eða stuðningsmanna, heldur draga þeir í staðinn fé úr vasa skattgreiðenda upp á fleiri hundruð milljónir króna á ári - sem þeir nota í flokksstarfið. Frá 2010 til 2022 tóku stjórnmálaflokkar til sín meira en sjö milljarða króna. Þetta er ekki óumdeilt fyrirkomulag og margir vilja gera breytingar á því, meðal annars greinilega Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. TikTok sýnt.
Já, Diljá Mist, flokkarnir hafa í raun verið ríkisvæddir, segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. En hver ríkisvæddi stjórnmálaflokkanna og gerði þessa styrki að skrímslinu sem þeir eru árið 2006? Hver myndi eiginlega lögfesta svona háa styrki? Og hvaða flokkur var í fjármálaráðuneytinu árið 2017 þegar fjárhæð þessara styrkja jókst um meira en 100% á milli ára? Hmm.. hvaða mikli frjálshyggjuflokkur var það aftur?
Diljá Mist nefnir líka Sósíalistaflokkinn og bendir á að sá flokkur hafi þegið nokkuð fé úr ríkissjóði af því að hann fékk meira en 2,5% atkvæða í kosningum. ÞESS vegna vill Diljá breyta lögunum - til þess að gera Sósíalistaflokkinn gjaldþrota. En hvernig væri samt að ganga lengra, ekki bara svipta flokka með lítið fylgi framlögum, heldur líka til dæmis að afnema styrki fyrir flokka sem eiga til dæmis mjög ríka kjósendur og bakhjarla? Það myndi miklu meira sparast með þeirri aðgerð því að hvaða flokkur er það sem hefur þegið langmest úr ríkissjóði frá því að framlögin hófust? Jú, Sjálfstæðisflokkurinn – breiðfylking hins frjálsa framtaks á Íslandi – sem hefur þegið 1744 milljónir króna frá skattgreiðendum frá 2010 til 2022. Langmest allra flokka.
Heiðar-legir sjálfstæðismenn eins og Heiðar Guðjónsson viðurkenna að þetta sé allt saman stórslys – og að sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgðina.
Vísað í viðtal okkar Skoðanabræðra við Heiðar Guðjónsson frá því í sumar - mæli með. Skoðanabræður - Heiðar Guðjónsson. Stjórnmálaflokkar fóru frá því að vera utan kerfis, þar sem þeim var ætlað að hafa áhrif á kerfið - í að verða að kerfinu. Stjórnmálaflokkar verða að kerfinu – og svo kemur einhver að utan og gagnrýnir það: Hættulegur popúlisti! Jæja. Það er allt annar vandi, meira um það síðar.
*
Við ætlum að fara yfir í næsta mál, talandi um skattfé. Því er ekki alltaf vel varið. Við fjölluðum um það á ritstjóri.is í vikunni að skrifstofustjóri í atvinnuvegaráðuneytinu hafi fengið 24 milljónir króna í skaðabætur frá ráðuneytinu vegna þess að ekki var nógu vel staðið að uppsögn hans. Ráðuneytið grunaði hann um að láta tengsl við gamlan samstarfsmann, sem þá var farinn að vinna fyrir laxeldisfyrirtæki, hafa áhrif á sig þegar hann frestaði gildistöku laga um fiskeldi. Sá frestur skrifstofustjórans olli því að eldisfyrirtæki gátu sótt um nýtt leyfi á grundvelli gamalla laga - sem var hagstæðara.
Nú, þegar ráðuneytið fór að gruna skrifstofustjórann um að hafa ekki „gætt réttra hátta“ í þessari ákvörðun, þá réðst ráðuneytið ekki í formlegt ferli og rannsakaði skrifstofustjórann – heldur setti það upp leikrit og þóttist vera að fara í skipulagsbreytingar, af því að hitt ferlið, hið lögboðna rannsóknarferli sem „lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins“ kveða á um - var of tímafrekt, flókið og dýrt. Í stað þess braut ráðuneytið lögin – sagði honum upp án rannsóknar og áminningar – skrifstofustjórinn höfðaði mál – og vann það. 24 milljónir í skaðabætur.
Það hefur oft verið bent á að þessi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins séu alltof íþyngjandi og að það sé bara ekki hægt að reka neinn. Það er augljóslega rétt. En það þýðir ekki að við eigum að horfa á svona mál og hugsa: “Bölvaður skrifstofustjórinn hvað er hann að mergsjúga almenning með því að fá frá okkur bætur?” Við eigum frekar að hugsa: Hvað er Kristján Þór Júlíusson þáverandi ráðherra að spá, að fylgja ekki landslögum þegar hann ákveður að segja upp starfsmanni vegna trúnaðarbrests? Ef þú ert stjórnmálamaður og þú ert ósammála lögunum, þá breytirðu þeim – en þú brýtur þau ekki og lætur okkur skattgreiðendur borga skaðabæturnar.
*
Enn annað mál. Víða um heim er svonefnd hatursorðræða mjög til umræðu í tengslum við alls konar ummæli sem fólk lætur falla á internetinu. Á Írlandi hefur allt logað í mótmælum hægrisinnaðra andstæðinga mikils fjölda innflytjenda. Í ljósi þeirra mótmæla og þess sem sagt er um þau á netinu, hyggjast stjórnvöld flýta í gegnum þingið lagasetningu sem herðir mjög refsingar við því sem stjórnvöld líta á sem hatursorðræðu. Í lagasetningunni er farin sú leið að refsa fólki ekki aðeins fyrir að fara viljandi með ummæli sem „hvetja til haturs“ heldur einnig dreifingu efnis sem hvetur til haturs, jafnvel þótt dreifandinn sé gálaus um þau áhrif. Að auki þarftu ekki einu sinni að dreifa „hatursfulla“ efninu til að vera sekur í skilningi laganna, heldur er nóg að hafa það bara á símanum eða tölvunni; ef þú ert gripinn með slíkt efni, þarftu að sanna sérstaklega að þú hafir ekki haft í hyggju að dreifa því. Þótt svona aðgerðir séu mögulega, alls ekki örugglega, gerðar með hag almennings að leiðarljósi, er miklar hömlur á tjáningarfrelsi fólks aldrei góð hugmynd – og vert er fyrir þá sem styðja svona lagasetningu að ímynda sér að önnur stjórnvöld taki við, sem skilgreina hatursorðræðu alveg upp á nýtt – í samræmi við sína pólitík.
*
Yfir í annað: Við ræddum ég og Bergþór Másson bróðir minn við bardagakappann, frumkvöðulinn og mataræðisfrömuðinn Ívar Orra Ómarsson í þætti Skoðanabræðra sem kom út í dag. Ívar Orri, einnig kallaður Seiðkarlinn, kafaði ofan í allt mögulegt tengt mataræði eftir að hann greindist með sykursýki – og lærði margt, sem hann deilir nú með fylgjendum sínum á Instagram. Hér er brot úr viðtalinu, þar sem við förum yfir það mikilvæga mál sem er testósterón hjá karlmönnum.
Já þetta var sturluð staðreynd dagsins. Sífellt fleiri að leiða hugann að testósteróni þessa dagana. Ég mæli með að hlusta á viðtalið við þennan mikla lífsspeking – Skoðanabræður á hlaðvarpsveitum.
*
Áður en ég sleppi ykkur að þessu sinni vildi ég stuttlega lauma að ykkur áhugaverðum fjölmiðlamola frá Þýskalandi úr þessari viku. Hið rótgróna Berlínarblað, Der Tagesspiegel, með víðlesnari dagblöðum Þýskalands, tilkynnti í vikunni að tekin hefði verið ritstjórnarleg ákvörðun um að láta alveg af notkun svokallaðs „kynjamáls“ í blaðinu. Í þýsku felst þetta kynjamál í að bjóða í flestum fleirtölumyndum upp á báðar útgáfur hvers orðs í hvert skipti sem það er notað almennt - þannig að þegar maður talar um stjórnmálamenn - Politiker - segir maður ekki almennu fleirtöluna - Politiker - heldur Politiker*innen - með stjörnu á milli í ritmáli, pólitíkusar og pólitíkusarynjur. Notkun svona kynjamáls er útbreidd í menntastétt og stjórnmálastétt og á meðal sumra blaðamanna, en kynjamálið er samkvæmt skoðanakönnunum illa þokkað af öllum almenningi. Það hefur ritstjórn Tagesspiegel nú fundið á eigin skinni, því að tveimur árum eftir að kynjamálið var innleitt í prentútgáfuna hefur síminn ekki stoppað vegna kvartana – og áfram heldur uppsagnahrina rótgróinna áskrifenda af þessari orsök. Markaðurinn hefur talað – og nú bregst blaðið við og breytir þessu. Hér á Íslandi er það einkum einn fjölmiðill sem hefur reynt að keyra í gegn breytingar af svipuðum toga á íslensku máli en það er hið „kynhlutlausa hvorugkyn“ sem er notað af miklum hluta frétta- og dagskrárgerðarmanna Ríkisútvarpsins. Að segja „allir en ekki öll – mörg en ekki margir“. Því miður erum við áskrifendur Ríkisútvarpsins ekki jafnheppnir og áskrifendur Tagesspiegel að geta haft áhrif á þennan fjölmiðil sem við erum öll í lagalegri skylduáskrift að – og borgum fyrir 20.200 krónur á ári. Þannig að ef við ætlum að kjósa með buddunni gegn þessum róttæku handstýrðu pólitísku grundvallarbreytingum á tungumálinu og neita að greiða útvarpsgjaldið, þá gætum við endað í fangelsi. Það er oft talað um mikilvægi RÚV fyrir lýðræðið – samband hins einkarekna þýska dagblaðs Tagesspiegel hljómar eins og það sé lýðræðislegra.
Jæja – við komumst ekki lengra með þetta í fréttum vikunnar að sinni. Ef þú ert að horfa á YouTube – í alvöru hlustaðu – gerðu þá Subscribe. Ef þú ert að horfa á X eða á Ritstjóra . is, endilega fylgdu mér og ef þú ert að hlusta í hlaðvarpi, fylgdu mér líka! Það eru stórkostlegir tímar fram undan hérna hjá þessu litla fjölmiðlafyrirtæki – sem er sífellt að stækka. Njótið fullveldisdagsins og desembermánaðar með bærilegasta fólki sem þið finnið – ég verð hér aftur í næstu viku – í millitíðinni, Guð blessi ykkur.