Fréttir vikunnar | Stóri kynjaklofningurinn, vanþakklátir þingmenn og loftslagsprestar
Bændamótmæli, vanþakklátir þingmenn í nýju húsi, pólitísk gjá á milli ungra karla og ungra kvenna, kúgunartilburðir í Evrópusambandinu og loks líkurnar á að loftslagsprestar taki yfir biskupsembættið.
Ef þú ert hrifin(n) af því starfi sem hér er unnið er rétt að þú íhugir vandlega að ganga í hóp áskrifenda ritstjórans gegn hóflegu gjaldi og styðja þar með við frjálsa fjölmiðlun í landinu:
Í fréttum vikunnar er fjallað um bændamótmæli, vanþakkláta þingmenn í nýju húsnæði, pólitíska gjá á milli ungra karla og ungra kvenna, kúgunartilburði í Evrópusambandinu og loks líkurnar á að loftslagsprestar taki yfir biskupsembættið.
Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Reykjavík Foto, Þ. Þorgrímsson og Hringdu.
Eftirfarandi er lausleg uppskrift af köflum úr þættinum, en ef hún stingur í stúf við talað orð, skal hafa það sem sannara reynist. Djók. Talað orð gildir!
Við byrjum hér; það logar allt í bændamótmælum í Evrópu; í Hollandi, í Þýskalandi og í Frakklandi; og þar er deilt um ýmsa styrki og ýmis kjör, en það sem mér finnst vera grundvallarspurning í þessu er spurning sem hollenskur bóndi varpaði fram í viðtali, þar sem hann sagði: Við hollenskir bændur búum til nóg af mat fyrir alla Hollendinga, af hverju ættum við að kaupa matinn að utan? Pæling sem gleymist – þetta er jafnvægið sem við veltum fyrir okkur í þessum málum; alþjóðavæðing hefur auðvitað fært framleiðslu úr heimalandinu og annað þangað sem hún er ódýrari þá stundina; en það síðan skaðar framleiðsluna sem eftir er í heimalandinu; og það er flókið að feta góðan milliveg. Það sama gildir um Ísland; þótt okkar bændur séu ekki að mæta á traktorunum niður á Austurvöll, eru auðvitað miklar áhyggjur á meðal bænda um afkomu núna og á komandi tímum; og landbúnaðurinn er á mörgum sviðum einfaldlega í mjög slæmri stöðu. Í Bændablaðinu finnur maður sjónarhorn bænda og fyrr á þessu ári var fjallað um að tollar, sem eiga til dæmis að verja innlenda framleiðslu nautakjöts, séu sífellt áhrifaminni og gagnslausari. Mér finnst ein staðreynd varpa nokkuð skýru ljósi á stöðuna - að á árinu 2024 er bæði fyrirséður samdráttur í framleiðslu íslensks nautakjöts og spáð áframhaldandi fjölgun ferðafólks á Íslandi. Framboð er því að dragast saman á sama tíma og eftirspurn er að aukast, eins og segir í Bændablaðinu. Þá hlýtur málunum einhvern veginn að vera stillt upp bændum í óhag – sem er vafasamt – hvað ef annar innflutningur bregst og hér er enginn við matarframleiðslu lengur?
Já bændur og þeirra staða; ég fjallaði um það í vikunni á ritstjori.is að mótmælendur sem berjast fyrir heilnæmari fæðu frá bændum (óljós málstaður) skvettu súpu á málverkið af Monu Lisu í Louvre í París. Hvað drífur menn til slíkra voðaverka? Ég setti þetta í samhengi við kenningar um að í raun séu lífsskoðanir okkar, líka í pólitík, að ýmsu leyti trúarlegar í grunninn. Eins og svona umhverfismál. Aðeins trúarleg sannfæring fær menn til að ganga svona langt. Ég vísaði í franskan fræðimann á 19. öld sem hélt því fram að trúarbrögð og sértrúarsöfnuðir hafi verið grundvöllur allra stjórnmála í Grikklandi og í Róm til forna og svo benti ég á að rétt eins og trúarbrögðin voru grundvöllur alls hjá Rómverjum og Grikkjum til forna, má halda því fram að kennisetningar okkar þúsund litlu sértrúarsöfnuða séu stóru átakamálin í stjórnmálum okkar og samfélagi frá degi til dags.
Ef einhver vill hafna því að okkar tímar einkennist af trúarlegri skuldbindingu okkar við hinn og þennan málstaðinn, hvernig útskýrir hann þá framferði mótmælendanna sem hér hefur verið vísað til, umhverfisaktívista sem eru margir trúarlega sannfærðir um að móðir jörð sé í raun heilagri en maðurinn – raunar svo miklu heilagri, að rétt þykir að mennirnir fórni miklu og jafnvel sjálfum sér fyrir þetta náttúrugoðmagn?
Á sama hátt er það mjög í anda trúarbragða hve gaumgæfilega margir velta fyrir sér næringunni sem þeir fá; hvort hún sé heilnæm, hrein og jákvæð fyrir umhverfið. Sumir hafna því sömuleiðis alveg að drepin séu dýr fyrir fæðu og stundum má aðeins drepa ákveðin dýr, þau sem ekki eru heilög.
Svo segjast menn vera trúlausir! Hér er spurningin: Er vegan trúleysingjapírati virkilega trúlaus – eða getur verið að hann sé raunar margfalt trúaðri en „kristni“ en að öðru leyti andlausi meðaljóninn í næsta raðhúsi?
Áleitnar spurningar… Getur trúleysi orðið að trúarbrögðum?
*
Er pólitík okkar trúarbrögð? Pólitíkin, talandi um hana – merkileg tölfræði Gallup sem fjallað hefur verið um í Financial Times nýlega leiðir í ljós djúpa og dimma gjá sem er að myndast um allan heim í stjórnmálaskoðunum ungra karla annars vegar og ungra kvenna hins vegar. Það er þekkt mál að konur eru jafnan aðeins meiri libbar en karlar; femínismi, umhverfismál, mannúð og bla bla bla; og að karlar séu svona almennt hallari undir að vera svolítið raunsæir, fara rólegar í allar breytingar – að vera ekki að rasa um ráð fram. Þetta er þekkt, konur frjálslyndar, karlar íhaldssamir.. þetta hefur lengi verið svona. En – þetta hefur aldrei verið jafn mikið svona. Samkvæmt rannsókninni er á undanförnum svona tíu árum eins og karlar hafi gjörsamlega radíkalíserast í átt að meiri hægristefnu, meiri íhaldssemi, en konur einmitt í öfuga átt, meiri vinstrimennsku, meiri libbaskap.
Dæmi eru tekin í rannsókninni frá Suður-Kóreu, Bandaríkjunum, Þýskaland og Bretlandi – þar maður sér alls staðar það sama; hrun niður á við í átt að íhaldssemi á meðal karla á meðan konur rjúka upp í frjálslyndum viðhorfum.
Þarna er því miður ekki verið að mæla viðhorf Íslendinga en ég meina, sér maður þetta ekki í kringum sig að einhverju leyti? Ungar konur eru að verða sífellt meiri Píratar - þið sjáið instagram storýin þeirra, Palestína, Black Lives Matter og póstar frá Karlmennskunni - og ungir karlar eru að verða sífellt meiri Sjálfstæðismenn eða Miðflokksmenn - þeir pósta engu í story nema kannski ef þeir eru á lausu, þá er föstudagsmynd steikinni og rauðvínsglasi við hliðina. Ég er á djamminu.
Já við vonum auðvitað að þessi gjá haldi ekki áfram að stækka – það gæti endað með ósköpum.
*
Í millitíðinni gengur lífið sinn vanagang í íslenskum stjórnmálum; stjórnarliðar rífast sín á milli í fjölmiðlum; blaður blaður blaður; en það sem vakti athygli mína í vikunni voru fréttir frá Alþingi, það er að segja byggingunni, þinghúsunum, þingmenn eru að koma sér fyrir í nýrri skrifstofubyggingu Alþingis í hinni svonefndu Smiðju, nýbyggingu sem er á móti ráðhúsinu og já skiptar skoðanir eru á þessari byggingu og aðstöðunni þar inni. Vanþakklæti hefur einkennt alla orðræðu þingmanna um þessa nýbyggingu Alþingis; í viðtölum hafa menn líkt vistinni á nýjum skrifstofum við fangelsisvist og svo birtist á miðvikudag melódramatískt viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í Morgunblaðinu, þar sem við fáum beina tilvitnun í Sigmund sem er eins og hann sé að skrifa fyrstu blaðsíðuna í hæglátri póstmódernískri skáldævisögu: „Ég sit hér á skrifstofunni minni gömlu þar sem húsgögnin hafa horfið eitt af öðru sem og ýmsir aðrir munir. Ég leysti það að hluta með því að sækja gamla sófasettið hennar ömmu og þar sit ég núna. En svo tóku þeir málverkin mín sem mér þótti skrýtið, en það má víst ekki hengja upp myndir í nýja húsinu. Síðan hvarf eitt og annað og nú síðast skrúfuðu þeir fyrir internetið. Næst verður það væntanlega rafmagn og hiti og svo vatn. Svo verð ég borinn út.“ Já, gæti þess vegna verið smásaga eftir Friðgeir Einarsson.
Sigmundur er auðvitað sérstaklega sár vegna þess að hann komst ekki alla leið á sínum tíma með eigin áform um eigin skrifstofubyggingu, sem hann vildi reisa á sama stað eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Það verður að fallast á að sú hefði líklega komið miklu betur út en fyrir flestum er eins og „nútíminn“ sé óhjákvæmilegur þáttur í öllum arkítektúr, þótt hann sé ljótur.
Mér verður annars einkum hugsað til samtals míns við Steingrím J. Sigfússon fyrrverandi forseta Alþingis frá því í vetur, en það var hann sem kom þessum áformum í gegn, en eins og hann bendir á leysir þessi nýja skrifstofubygging ekki vanda þingsalarins sjálfs, sem er orðinn nett úreltur – sjáið franska þingsalinn, þýska, spænska – alvöru rými sem þjóna þörfum nútímans. Kannski ekki alveg þessir frönsku eða spænsku en þó. Annars ætti Alþingi náttúrulega að vera á Þingvöllum. Fáum brot frá Steingrími. Róttækar hugmyndir þarna… Stækka þingsalinn, segir Steingrímur J.
*
En þetta er yfirborðslegt allt saman, umgjörð – við tölum um alvöru pólitík í þessum þætti hér. Við fjölluðum hér í síðustu viku aðeins um þann mikla fjölda innflytjenda sem hefur flutt hingað á síðustu svona tíu fimmtán árum - og bentum á áskoranir sem þessu fylgja – álag á innviði og annað slíkt – en hér höfum við helst velt fyrir okkur áhrifunum sem þetta hefur haft á menningu okkar og daglegt líf – ef þróunin heldur áfram eins og hún hefur verið minnka sífellt líkurnar á að raunhæft sé að hafa íslenska tungu áfram sem almennt mál allra í samfélaginu. Sumum finnst þetta óþarfar áhyggjur hjá mér – og það er þeirra réttur að hafa þá skoðun – en um það verður ekki deilt, að þetta er verulega mikill fjöldi innflytjenda, í tísti frá Björgvini Inga Ólafssyni meðeiganda hjá Deloitte og samfélagsspekingi má sjá að frá 2013 hefur mannfjölgun á Íslandi verið ¾ innflytjendur (1. og 2. kynslóð) en ¼ íbúar með íslenskan bakgrunn að hluta til eða í heild.
Björgvin skrifar: „Vöxtur ferðaþjónustu, byggingageirans, fólk á flótta etc.. að gjörbreyta íbúasamsetningu.” Já, sannarlega – og það gengur illa að fá menn til að læra íslensku. Það er fyrst og fremst vegna þessarar fjölgunar sem íbúafjöldi landsins nálgast nú 400 þúsund mun fyrr en mannfjöldaspár höfðu gert ráð fyrir – og já - þessu fylgja miklar áskoranir. Í umfjöllun Kastljóss á RÚV í vikunni um þennan yfirvofandi áfanga - 400 þúsund íbúar - var gengist við því að miklum fjölda innflytjenda fylgi ákveðnar áskoranir og þar var svona þetta klassíska nefnt að jú réttur erlends verkafólks væri oft fyrir borð borinn, það séu stundum einhverjir fordómar á kreiki, stundum einangrun, en að öðru leyti vakti það athygli mína að RÚV treysti sér ekki frekar en fyrri daginn að taka það til umræðu hvaða áhrif þetta kynni að hafa á þá sem fyrir eru – hvaða áhrif þetta hefur á okkar menningu. Einmitt – munum við áfram tala sama tungumálið á öllum stigum okkar samfélags, eða mögulega alls ekki? Hvað finnst fólki um það ef það verður ekki þannig? Nei – það var engin slík umræða í innslagi RÚV, en þar var tækifærið hins vegar nýtt til að fá prófessor við háskólann til að útskýra fyrir Íslendingum að þeir væru ekki nógu duglegir að breyta sinni menningu frá degi til dags til að koma til móts við þá sem hingað flytja. Brot spilað.
Já, stóra úrlausnarefnið hérna á komandi tímum liggur þá fyrir, að efla mætingu á fjölmenningarkvöld á Borgarbókasafninu. Þið heima - þið vitið upp á ykkur skömmina, maður hefur ekki séð mikið af ykkur á safninu síðustu misseri.
Bentum á það hérna í síðustu viku að nánast eini stjórnmálamaðurinn sem hefur svo mikið sem leyft sér að velta fyrir sér hversu mikið af innflytjendumí atvinnuskyni er sjálfbært að taka við hér á landi sé engin önnur en Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar – sem er kannski óvænt afstaða, allavega frá Samfylkingunni sem var – það þarf auðvitað að ræða þetta mál. Að snúa sér bara í hina áttina og láta eins og það sé ekki hægt að ganga of langt í þessum málum er verulega óábyrgt.
*
Það er sannarlega nokkur viðkvæmni fyrir því að ræða þessi mál og hefur lengi verið, og hún hefur ágerst undanfarin ár. Leiðum þessa viðkvæmni hjá okkur. Vitum það nú auðvitað að áherslur fólks eru auðvitað misjafnar og ólíkt hverju menn hafa áhyggjur af í lífinu en af því að við erum að ræða þetta, innflytjendamálin, OG af því að nú spretta fram vongóðir biskupsframbjóðendur með reglulegu millibili, það á að kjósa nýjan biskup, þá dettur mér í hug að rifja upp samskipti mín við einn þeirra sem nú vilja verða biskup Íslands, séra Bjarna Karlsson, sem ég mætti í Silfrinu á RÚV hitt í fyrra, sem sagt í október 2022. Semsagt útlendingamál – og málefni þjóðkirkjunnar – já – minntu mig á þessi, vægast sagt eftirminnilegu samskipti. Brot spilað úr Silfrinu.
„Fyrirgefðu, má grípa hérna inn – ég bara verð að fá andmæla þessu. Ég get bara ekki setið undir því að þú sért hérna að tala um að þú viljir að móðurmál þitt lifi af miklar samfélagsbreytingar – móðurmál þitt sem er bara einhver grundvöllur sjálfsmyndar þinnar og grundvöllur andlegrar tilveru þinnar og lykillinn að samfélaginu sem þú ólst upp í og lífræn tenging þín við forfeður þína í þrjátíu kynslóðir – ég verð að grípa inn í hérna – hvernig dirfistu að setja svona aukaatriði á dagskrá þegar við erum hérna með vistkerfisvandann og fátæktarvandann – og hugarfarið sem veldur vistkerfisvandanum er sama hugarfar og veldur fátæktarvandanum“ – já, ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvernig Bjarna Karlssyni datt þessi romsa í hug – vistkerfisvandinn – fátæktarvandinn – stjórnlyndið – þá hafði hann sem sagt skömmu áður en þetta viðtal fór fram varið doktorsritgerð sem hafði yfirskriftina: Vistkerfisvandi og fátækt. Já þetta eru málin sem verða á dagskrá ef Bjarni Karlsson verður biskup – vistkerfisvandinn! Ég minnist þess þegar Agnes fráfarandi biskup – sá innblásni orkubolti – sagði þegar ég var að taka viðtal við hana: Að þjóðkirkjan væru í raun stærstu umhverfissamtök landsins. Af því að margir eru í þjóðkirkjunni og hún þykist hugsa um umhverfismál. Já, það er gott að vita; ef þjóðkirkju mistekst að sameina Íslendinga í miðstöð þjóðtrúarinnar og því sem ætti að vera musteri andlegrar iðju á Íslandi – ef kirkjan missir sjónar á tilgangi sínum – þá veit maður allavega að hún getur þá í versta falli farið að kalla sig umhverfissamtök. Farið að fást við vistkerfisvandann – og fátæktarvandann. Orðið endanlega að ómarktæku hylki fyrir hugmyndafræðilega tískustrauma Sameinuðu þjóðanna og forystu Vinstri grænna á hverjum tíma; það mun væntanlega trekkja að á þessum erfiðu tímum hjá þjóðkirkjunni. Ekki það, Bjarni Karlsson hefur nú sögulega séð verið Samfylkingarmaður. Aukaatriði.
Nú, áður en við hætttum þessu getum við aðeins velt aftur fyrir okkur alþjóðamálunum; við fjölluðum um það hér fyrir skemmstu að stuðningur við Úkraínu er af skornum skammti á meðal vestrænna stjórnvalda beggja vegna Atlantshafs þessa dagana, alla vega miðað við stemninguna sem ríkti framan af. Bandaríkin eru meira að segja að heykjast á að senda þeim skotfæri og vopn. Evrópusambandið hefur verið að reyna að samþykkja stuðningspakka við Úkraínu upp á fimmtíu milljarða evra – sem flest ríkin virðast styðja, en ekki Ungverjar. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverja, sem hefur verið sagður sá þjóðarleiðtogi í Evrópusambandinu sem heldur hvað bestum tengslum við Rússa þessa dagana, neitar að samþykkja stuðningspakkann – hann segir hann of dýran, að sambandið hafi ekki efni á honum og setur óuppfyllanleg skilyrði fyrir því að leggja blessun sína yfir pakkann.
Orban er sem sagt eins og oft áður að reynast helstu ráðamönnum innan ESB óþægur ljár í þúfu – og í þetta skiptið ætlar Evrópusambandið að reyna að beygja hann til hlýðni. Í Financial Times er hulunni svipt af leynilegum áformum ráðamanna ESB um að eins og það er orðað „leggja hagkerfi Ungverja í rúst“ ef Ungverjar fallast ekki á þennan stuðningspakka. Í áætlun embættismannanna er rætt um að beina spjótunum beint að helstu veikleikum í hagkerfi Ungverja, koma þjóðargjaldmiðli þeirra í uppnám og valda hruni í trausti fjárfesta til svæðisins til þess að stöðva vöxt í hagkerfinu og koma í veg fyrir að ný störf verði til.
Financial Times. Þetta eru sem sagt raunveruleg áform raunverulegra starfsmanna Evrópusambandsins sem stendur til að grípa til gegn ríki innan Evrópusambandsins. Nú er maður enginn sérstakur andstæðingur ESB - jújú fíla pælinguna takmarkað - en samt: Hvers konar ríkjasamband er þetta, sem segir í opinberum markmiðum sínum að tilgangur sambandsins sé að „bæta samfélagslega, landfræðilega og efnahagslega sátt og samtakamátt ríkja innan sambandsins?“ – og leggur svo á ráðin um að leggja eitt hagkerfi í rúst til að kúga það til hlýðni? Eins og fræðimaðurinn Philip Cunliffe bendir á í umfjöllun sinni á breska miðlinum Unherd eru þessi áform ESB gegn Ungverjum til marks um dvínandi ítök yfirstjórnar Evrópusambandsins – að ráðast beint gegn bandalagsríki hlýtur að vera til marks um mikla örvæntingu.
Já Evrópusambandið – ætli allir séu ekki vinir þar til þá greinir á – þá mun þetta vera spurning um mátt hins sterka. Spurning hvernig okkur Íslendingum myndi reiða af í þessu sem virðist hafa nokkurn vilja til að vera frekar sambandsríki – frekar en ríkjasamband, eins og var lagt upp með. Jæja. Meira um þetta síðar.
OK, sannleikurinn er sagna bestur
Kæri ritstjóri. Þér varð á í messunni. Útvarp saga (ÚS) fær enga ríkisstyrki og er rekin af fólkinu í landinu eins og þú. Öfundarmenn hafa reynt að smætta ÚS því þar talar fólkið í landinu og ríkisskoðunin hefur ekki yfirhöndina sem kom berlega fram í umræðunni um 3. orkupakka ESB og nú um Bókun 35 o.fl
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/11/04/Nidurstodur-uthlutunarnefndar-um-rekstrarstudning-til-einkarekinna-fjolmidla-2023/