Stefnuyfirlýsing ritstjórans
Get ég skrifað hvað sem mér sýnist hingað inn? Það virðist vera. Ég missi smá stjórn á mér við að prófa ritstjórnarkerfið. Fjölmiðlarnir eru að breytast ansi hratt en það er kannski ekki svo slæmt
Að ofan er sem sagt knöpp lýsing á innihaldi hverrar greinar. Ég skil. Þetta er spurning um að læra á ritstjórnarkerfið, bara rétt eins og þegar maður byrjar á nýjum fjölmiðli. Substack er ansi sniðug tækni til þess að skrifa frjálst og jafnvel fá tækifæri til að láta fólk styrkja þessa starfsemi. Um að gera að hvetja til þess hér í þessum fyrstu línum. Fjöldi rithöfunda og blaðamanna um allan heim hafa náð markverðum árangri á þessum miðli og mér er alvara með þessari nýju síðu, eins og ég lýsi nánar neðar í greininni.
Þessi grein er vel að merkja mun lengri en til stóð og því er heitið að greinarnar í framhaldinu verða styttri. En lítum á þennan langhund sem 80% stöðuuppfærslu, 20% stefnuyfirlýsingu and a hundred percent reason to remember the name, eins og skáldið sagði.
Ég hætti á Stöð 2 í maí þar sem ég stýrði ágætum skemmti- og fréttaþætti til þess að fara að finna mér eitthvað annað að gera en að vera blaðamaður. Margt kom til greina, eða þannig. Ég stefndi á eitt og annað og mér duttu á skömmum tíma hundrað og fimmtíu aðrir hlutir í hug til þess að fara að gera. Einhvern veginn reyndist síðan allt ömurlegt sem ekki fólst í að lesa og skrifa eða hlusta og tala og svo spyrja og skrá. Það kann að þýða að ég sé dæmdur til að vera „blaðamaður“ og þá verður ef til vill svo að vera.
Þið forlátið kaldlyndið að geyma þetta mikilsverða starf „blaðamanns“ innan lítilsvirðandi gæsalappa í anda Davíðs Oddssonar blaðamanns, en því verður ekki neitað að undanfarin ár hefur manni fundist stéttin stundum hálfasnaleg í öllum sínum heilagleika, hér og víðar um heim. Kannski hafa myrk öfl þar náð til mín með eitruðum áróðri gegn talsmönnum sannleikans. Kannski er þar verið að fletta ofan af kerfi sem ekki endilega hafði hinn góða sannleika að leiðarstefi. Guð einn veit. Hvort tveggja er sennilegt og hvort tveggja er sorglegt.
Mín upplifun er alla vega sú að hefðbundin fjölmiðlun á undir högg að sækja og menn með almennilega sjálfsbjargarviðleitni eiga að yfirgefa sökkvandi skip. Neinei, það er auðvitað margt gott og mikilvægt sem er gert, en mér var sjálfum farið að þykja þetta endurtakningasamt, fyrirsjáanlegt og yfirborðslegt.
Á meðal keppikefla í daglegu starfi fjölmiðla, einkum ljósvakamiðla en líka annarra, er að afhjúpa með dramatískum hætti einhvern „brest í kerfinu“. Áhrifaríkast er að gera það með öflugri persónulegri og helst gróteskri og hrottafenginni sögu sem sker sig úr í trámahagkerfinu sem er internetið.
Setjum upp dæmi úr raunveruleikanum:
Einhver bíður (stundum) óbætanlegan líkamlegan eða bara sálrænan skaða af einhverju atviki eða aðgerð annarrar manneskju.
Opinbera kerfinu mistekst að mati manna að bjarga eða styðja við viðkomandi með fullnægjandi hætti. Það „skortir úrræði“.
Viðbrögðin láta ekki á sér standa: „Hvar er ráðherra!“ glymur um hið stafræna markaðstorg hugmynda og svo er ráðherra spurður. Ábúðarfullur fréttamaður, helst sjálfur höfundur umræddrar krassandi umfjöllunar, birtir sjónvarpsfrétt með skynsamlega orðaðri spurningu sinni klipptri með svo hún heyrist: „Skortir ekki bersýnilega úrræði hérna? Þinn flokkur hefur stýrt þessu ráðuneyti í áraraðir. Og ekkert gerist! Hafið þið ekki einfaldlega brugðist?“
Ráðherra bregst við eftir tveimur grunnsviðsmyndum.
Nei, þetta er í raun ekki mál og mér er eiginlega sama og ég nenni ekki að taka þetta alvarlega. Kannski smá leiðinlegt að sjá þetta, en nei, við erum ekki að fara að gera neitt.
Já, þetta er mál og við ættum algerlega eitthvað að skoða þetta, jafnvel gera eitthvað í þessu. Sláandi að sjá þetta! (Þessi viðbrögð eru mismunandi sterk eftir atvikum, segjum á skalanum 1-10).
Það líður að afhendingu árlegra blaðamannaverðlauna. Þar er sá líklegastur til að hljóta verðlaun fyrir umfjöllun sína, sem komst hvað efst á skalanum 1-10 innan skrefs 4b. Það er að segja: Neyddist ráðherra til að gera eitthvað, allavega svona að-því-er-virtist-stjórnsýslulega? Ef umfjöllunin leiddi til starfshóps, þá er maður strax orðinn heitur. Skipunar nefndar, enn heitari. Reglugerðarbreytinga, sjóðheitur, og lagabreytinga? Verðlaun í öllum þremur flokkum.
Ég segi svona. Ég skrifa þetta augljóslega bara vegna þess að ég hef aldrei hlotið þessi verðlaun.
Þetta er ekki algild atvikalýsing en svona blasti þetta oft við mér. Þetta er í grunninn ekkert slæmt og líklega bara fínn strúktur í lýðræðislegri umræðu. En það eru fleiri leiðir til að líta á þetta. Nefnum þrjár nálganir af mörgum.
Sú fyrsta er að þetta sé allt saman eintómur kapítalismi, að hin stjórnsýslulega og pólitíska vídd í trámakláminu sé í raun bara til að ljá umfjölluninni lögmæti. Þar fara menn ekki að halda því fram að þetta sé bara innihaldslaus æsingur og um leið getur maður haldið áfram að endursýna trámað með nýjum vinklum í smá tíma og mjólkað meira auglýsingafé eða áskriftarfé út úr efninu. Þessi nálgun er að mínu mati of einföld og ógagnleg. Menn eru ekki í þessu fyrir peningana á Íslandi.
Nálgun tvö er aftur að þetta sé einmitt bara fínn strúktúr í lýðræðislegri umræðu, að fjölmiðlarnir séu varðhundur almennings gagnvart hinu opinbera kerfi og að ef það bregst, þá skuli segja frá því. Samkvæmt þessu tryggja blaðamennirnir að misheiðarlegir stjórnmálamenn komist ekki upp með rugl og fari vel með opinbera sjóði. Þetta er alls ekki galinn skilningur á því sem á sér stað og vel er hægt að halda því fram að svona sé þessu varið á Íslandi. En þetta viðhorf virkar best ef allir ganga út frá því og þykjast ekki „sjá í gegnum þetta leikrit“ fjölmiðlanna.
Þriðja nálgunin þykist einmitt sjá í gegnum leikritið. Þar heldur maður því fram að í þessari atburðarás gegni fjölmiðillinn ekki því hlutverki að vera varðhundur almennings gagnvart ríkisvaldinu, heldur öfugt: Að fjölmiðillinn sé varðhundur ríkisvaldsins gagnvart almenningi. Eini tilgangur fjölmiðlunarinnar sem að ofan er lýst sé að skapa þá sjónhverfingu að fjölmiðlar þjóni almenningi en ekki yfirvöldum. Með henni sé almenningi linnulaust talin trú um að fjölmiðlar séu sannarlega að fylgjast með því að ríkið bregðist ekki skyldum sínum. Að ef það myndist brestir, þá gelti varðhundurinn og það leiði til umbóta í samræmi við vilja fólksins.
Með því að renna í sífellu og dagsdaglega stoðum undir þá hugmynd að ríkið eigi í raun og sann að sjá um að tryggja velsæld borgaranna, er verið að undirbyggja lögmæti núverandi fyrirkomulags. Ef við gefum okkur að ríkið hafi þetta hlutverk, þá er til dæmis um leið búið að réttlæta algerlega þá yfirgengilegu skattheimtu sem Íslendingar búa við. Næstum því helmingur launanna er tekinn af manni áður en maður fær peningana í hendurnar. Sú innheimta færi trúlega að flækjast ef almenningur tryði því ekki að hann þyrfti á stjórnmálamönnum að halda. Og þó. Innheimta ríkissjóðs er reyndar orðin svo ískyggilega smurð með stafrænni tækni að hvergi dugar nú til dags fela birgðir sínar eins og hugvitssamir kotbændur kunnu forðum þegar skattheimtumenn höfðingja börðu að dyrum og fóru með ofbeldi. (Skattar eru í sinni upphaflegu mynd fyrirsjáanlegt og háttbundið ofbeldi í skiptum fyrir vörn fyrir öðru verra og óútreiknanlegu ofbeldi).
Í hvað fer allur þessi skattpeningur Íslendinga? Hér væri einfaldað svar hinna meintu illu fjölmiðla: „Mikilvæg verkefni eins og að tryggja velsæld og öryggi, við lofum. Ríkið er alls ekki að bregðast algerlega fullkomlega á neinum sviðum (eins og þegar kemur að því að tryggja viðgang þjóðtungunnar eða á sviði efnahagsmála), nei, og hér er ekki verið að stunda neina viðvarandi sjálftöku að neinu ráði, en það kann að vera að það verði stundum tímabundin frávik frá góðri frammistöðu hins opinbera. Þar komum við frjálsu fjölmiðlarnir sterkir inn og gætum hagsmuna þinna gagnvart valdinu.“ Bölsýnismaður sem liti veröldina þeim augum að þetta væri blekking fjölmiðlanna, tæki þar með hæglega undir með hinum geðsturlaða ofbeldismanni og franska heimspekingi Louis Althusser, að fjölmiðlar séu bara enn annað hugmyndafræðilegt stjórntæki ríkisins. Þetta er svört pilla að kyngja.
Fyrir gömlum og nýjum róttæklingum og marxistum eru svona pælingar auðvitað eitthvað sem rennur snemma upp fyrir manni á ævinni. Áður gerðist það kannski í hugvísindadeildum háskóla, nú við að horfa freðinn á gömul viðtöl við Noam Chomsky á YouTube. Kannski eru meistararnir á Frjálshyggjufélaginu sammála þessu líka. En fyrir fulltrúum ríkjandi kerfis er svona nokkuð iðulega skotið niður með rökum um að þetta geti tæplega verið það sem vakir fyrir einstökum blaðamönnum, en þar neita menn að sjá virkni kerfa óháð einstaklingum. Það eru bara mörg einstök tré hérna, enginn skógur.
Það er augljóslega ekki uppbyggilegt að missa trú á hefðbundnum fjölmiðlum og ríkisvaldi í sömu svipan. Margir saklausir borgarar misstu að vísu þessa trú í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar. Ætli hluti af því hafi ekki verið réttmætar áhyggjur. Flest líklega ekki, sem betur fer.
Í Kanada fóru stjórnvöld mikinn í að kæfa niður mótspyrnu við sóttvarnaraðgerðum á sínum tíma. Mótmæli vörubílstjóranna fóru í heimsfréttir og bankareikningar þeirra voru frystir, svona eins og maður gerir við mótmælendur stjórnvalda. Á Íslandi var á sama tíma slegið heimsmet í samstöðu með stjórnvöldum og það var ekki mikið um að fólk tæki upp hanskann fyrir þessar kanadísku frelsishetjur hægrisins. Það gerði þó vissulega hinn mæti viðskiptablaðamaður Þorsteinn Friðrik Halldórsson á Innherja. Ég sé nú að Þorsteinn var að stofna eigin miðil, Hluthafann. Áfram Þorsteinn. Og samfélagslega ábyrgt af honum að stofna barátturit fyrir þann ofsótta minnihlutahóp hluthafa.
Í þessari grein Michael Solana, ritstjóra miðilsins Piratewires og náins samstarfsmanns tæknimógúlsins Peter Thiel, hæðist höfundur að nýlegum aðgerðum kanadískra stjórnvalda til þess að fá Facebook til að borga innlendum fjölmiðlum hluta af tekjum sínum. Þetta er krafa sem ég bar lengi í brjósti og er mjög útbreidd á meðal fjölmiðlamanna, að samfélagsmiðlarisar greiði „alvöru fjölmiðlum“ (sorrý aftur gæsalappirnar) skerf af tekjum sínum. Þannig eigi að styðja fjölmiðlana með sanngjörnu gjaldi, af því að samfélagsmiðlarnir hagnist af því að hafa þetta efni þarna inni.
En Michael Solana, líklega skólabókardæmi um tæknibróður úr Kísildalnum (e. tech bro), tekur annan pól í hæðina. Hann segir enga ástæðu til þess að fjölmiðlar eigi frekar en aðrir að fá greitt fyrir efni á samfélagsmiðlum, nema síður sé. Solana gengur svo langt að segja kanadíska ríkisvaldið í seinni tíð sekt um einræðis- og harðstjórnartilburði og að markmið þess með baráttu við Facebook sé ekki að tryggja „frjálsum“ fjölmiðlum tekjur með þessum aðgerðum, heldur fjölmiðlum sem séu í raun ekki annað en áróðursmiðlar fyrir stjórnvöld. Menn séu að sjá um sína innan hins nýstárlega og þversagnakennda frjálslynda framfarasinnaða harðstjórnarkerfis.
Þetta er kannski fullmikið af því góða, en ef fallist er á þessa sýn Solana, eru samfélagsmiðlar ekki endalok lýðræðis vegna áhrifa þeirra á hefðbundna fjölmiðla, heldur kunna þeir til lengri tíma litið að vera hin eina sanna lýðræðisbylting. Þá þarf að vísu að mínu mati að laga grundvallarhvata, en meira um það seinna. (Varúð spilliefni: Þar kemur ómiðstýrð bálkakeðjutækni við sögu). En þessi tæknibróðir myndi líklega fallast á hina þriðju myrku nálgun í vangaveltunum hér að ofan. Hans skrif og þær hugmyndir eiga þá grundvallarhugsun sammerkta, að þar læðist sá óþægilegi grunur að þeim sem hugsar, að fjölmiðlar séu ekki tæki almennings til að hafa stjórn á yfirvöldum, heldur tæki yfirvalda til að stjórna almenningi.
Ofangreint dæmi úr íslenskum miðlum er þó síst óhrekjandi sönnun um samsæri á milli stjórnvalda og fjölmiðla. Þetta eru bara ábyrgðarlausar vangaveltur bloggara. Djók, ég upplifi mig ekki sem bloggara. Ég er blaðamaður og framtíð blaðamennsku er björt, bæði hjá sjálfstæðum lúserum og leiðinlegum meginstraumsmiðlum, enda verður eftirspurn eftir góðri þekkingu ávallt fyrir hendi.
Og svo að það sé sagt, þá er mér, með því að rekja skrif Solana, alls ekki í hug að gera lítið úr þeirri bráðu og augljósu ógn sem stafar af alþjóðlegum tæknifyrirtækjum sem eru ljóslega með sinni einokunarstöðu orðin voldugri en einstök þjóðríki í sumum tilvikum. Við sjáum árangur Kanadamanna við að bjóða þeim birginn; Facebook slökkti á fréttum á Facebook, þannig að fólk fékk ekki fréttir af gróðureldum. Skák og mát.
Hvernig gengur Íslendingum að bjóða þeim birginn? Hér rústa þessir samfélagsmiðlar innlendri margmiðlunarframleiðslu og það er af og frá að stjórnvöld þori að setja þeim minnstu mörk. Eða er það ekki aðför að fullveldi þjóðar þegar börn hafa verið svipt aðgangi að eigin móðurmáli í „snjalltækjum“?
Ég er nokkuð hrifinn af þessum nýja miðli mínum, þið sjáið hér að ofan að ég var bara að prófa mig áfram að skrifa, svolítið eins og maður gerir við fartölvu sem maður er að prófa í tölvubúð. Og það vatt upp á sig í öll þessi skrif, sem er vel.
Í þessum nýja fjölmiðli mínum hyggst ég skrifa nokkrar greinar á miðilinn í viku og taka viðtöl. Einu sinni í viku verða fréttir vikunnar fluttar í hlaðvarpi og mynd og sömuleiðis birtast viðtöl í hlaðvarpsformi. Fjölmiðillinn heitir Ritstjóri og ég er Snorri Másson ritstjóri, loksins! Áfram verð ég einu sinni í viku í Skoðanabræðrum hlaðvarpi með bróður mínum Bergþóri Mássyni, þar sem við höldum uppteknum hætti. Farið inn á Patreon-síðu okkar til að finna alla snilldina þar, sem ég lofa að er stundum bara mjög fín.
Ég upplifi mig sem sagt sem ritstjóra upp frá þessu og vona að menn virði það við mig. Hér verða skrifaðar fréttir um allt á milli himins og jarðar og þær verða að sönnu styttri í framhaldinu. Að hafa þetta svona langt er ekki gott og ekki sjálfbært. En umfjöllunarefnin eru spennandi: Stjórnmál, bókmenntir, fjölmiðlar, menning, hreysti, saga, tunga, tækni, fjármál og svo framvegis og svo framvegis.
Æviferli hins mikilvirka blaðamanns Jóns Ólafssonar ritstjóra (f. 1850, d. 1916) er lýst í eftirmælum um hann í Iðunni árið 1917 og útgáfustarfsemi hans þar sögð mikið þarfaþing fyrir þjóðina á mikilvægum tíma í sjálfstæðisbaráttunni. Sérstaklega í ljósi þess fjölmiðlaumhverfis sem blasti við: „Blöðin voru þá fá á Íslandi og ekki fjöllesin né áhrifamikil, og efni þeirra oft að miklu leyti fjárkláðaþras. Fluttu mjög lítið nýjar hugsjónir, sem vekjandi væru. Hugsjón þjóðarinnar náði það hæst að vonast eftir að geta lifað, þurfa ekki að svelta.“
Þarna er illa vegið að góðu fjárkláðaþrasi, en það fer sannarlega best á því þrasi í góðu hlutfalli við vekjandi hugsjónir. Ígildi fjárkláðaþrass nú á dögum væri líklega umfjöllun um stöðu efnahagsmála, sem ég get reyndar ekki lofað að ég muni ekki bjóða upp á.
Ég gæti meira að segja boðið upp á bókstaflegt fjárkláðaþras. Fjárkláðinn síðari á 19. öld var merkilegt mál, eitt helsta deilumál þjóðarinnar um tíma, og þar skiptust menn í fylkingar eftir því hvort skera ætti niður fé eða reyna að lækna það með tiltækum ráðum. Tveir forfeður Más sonar míns, Jón Thoroddsen skáld forfaðir minn og Halldór Kr. Friðriksson yfirkennari forfaðir konu minnar, voru víst mjög á öndverðum meiði um þetta efni. Jón var sagður hafa húðflett Halldór með níðvísum vegna málsins og Halldór á móti endurgoldið það með rógi um hann og óvild til barna hans. Tuttugustu og fyrstu aldar menn fundu ekki upp pólaríseringu.
Við sjáumst brátt - fáið ykkur endilega áskrift. Hér verða fluttar nýjar hugsjónir. Takið þátt frá upphafi, þetta er rétt að byrja. Eins og Jón Ólafsson ritstjóri var sendur í útlegð fyrir að kveða til Íslendinga 1870: „Vakið! vakið! verka til kveður váleg yður nú skelfinga tíð!“ Má segja að þessi skilaboð hafi lagst í dvala um aldir en vaknað til lífs aftur í reglulegri brýningu Guðmundar Emils Jóhannssonar einkaþjálfara til fylgjenda sinna á Instagram að undanförnu: „Víkingar vakna - við höfum verk að vinna.“
Talandi um Gumma Emil: DV fjallar um að Gummi tiltaki það nú í yfirferð um feril sinn í hringrás sinni á Instagram að hann hafi verið sá sem sannfærði Nikka Fjalar frumkvöðul (áður Nökkva Fjalar) um að fara ekki í bólusetningu við Covid-19. Eins og Nikki hafi ekki fengið nógu hatrömm viðbrögð sjálfur, þá er Gummi svo hollur félaga sínum og sannfærður um málstaðinn að hann lýsir sig meðsekan þessum hugsanaglæp. Bjarni Thorarensen (f. 1786, d. 1841) hefði verið innblásinn af annarri eins játningu:
En þú sem undan ævistraumi flýtur sofandi að feigðarósi lastaðu ei laxinn sem leitar móti straumi sterklega og stiklar fossa!
P.S.
Hvíl í friði Guðbergur Bergsson, það mikla kvikindi. Þýðing hans á Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez olli straumhvörfum í sálarlífi mínu, aðallega síðustu blaðsíðurnar, en ekki síður upphafið: „Á meðan Aureliano Buendía liðþjálfi stóð andspænis aftökusveitinni átti hann eftir að minnast löngu liðna kvöldsins, þegar faðir hans leiddi hann sér við hönd og sýndi honum ísinn.“
Ég lít svo á að lestur þessarar bókar hafi stuðlað ríkulega að þeirri miklu afturför á mínum persónulega ferli, að ég ákvað í skiptinámi á Spáni að fara ekki aftur á náttúrufræðibraut í MR, heldur í fornmáladeild. Ég hefði getað orðið eðlilegur vinnandi maður! Skandinavískur PC tölvukall með alltof góðar tekjur sem setur myndir á X (áður Twitter) af vörubílum sem leggja upp á stétt, og hann kemst ekki leiðar sinnar á hjólinu.
Hamborg, Þýskalandi, 6. september 2023.
Þurfum "óháðan" fjölmiðil sem þorir að fjalla um málefni sem RúV þorir ekki að snerta nema með háði svo sem 3. orkupakka ESB, ACER og Bókun 35. Íslendingar eru að glutra niður fullveldinu án þess að vita af því.
Assgoti er ég ánægð með hugrekki þitt, ritsnilld og já, þinn mikla húmor. Til hjartanlegrar hamingu með nýjan miðil.