Gervikapítalismi, slappur utanríkisráðherra og hatursorðræða ritstjórans
Fréttir vikunnar eru lentar. Í dag beinum við sjónum okkar að nýjum „tímabundnum“ skatti stjórnvalda, stríðsátökum í Palestínu, ritskoðun á samfélagsmiðlum og íslenskri tungu.
Það eru ógurlegir tímar í landinu. Eldgos vofir yfir á Reykjanesskaga og Grindavík stendur auð. Þegar þetta er tekið upp er ekki farið að gjósa, en líkurnar á því eru óbreyttar.
Eitt er víst í málinu og það er að ríkisstjórnin gætir þess að láta þetta neyðarástand ekki fram hjá sér fara. Skattahækkanir.
Ritstjórinn gerir nokkrar athugasemdir við að myndbandi hans frá því í síðustu viku hafi verið eytt útaf TikTok vegna ásökunar um „hatursorðræðu“. Farið er yfir þýðingu svona aðgerðar og auðvitað þýðingarleysi um leið.
Annað: Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra hefur ekki gengið neitt yfirgengilega vel að fóta sig í nýju embætti og hér er gerð tillaga að skýringu á þeim erfiðleikum.
Hér er lauslega það sem sagt er í þættinum. Ef misræmi er á uppskrift og því sem sagt er, skal hafa það sem sannara reynist.
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar.
Það eru ógurlegir tímar í landinu. Eldgos vofir yfir á Reykjanesskaga og Grindavík stendur auð. Þegar þetta er tekið upp er ekki farið að gjósa, en líkurnar á því eru óbreyttar.
Eitt er víst í málinu og það er að ríkisstjórnin gætir þess að láta þetta neyðarástand ekki fram hjá sér fara. Hún hefur ákveðið að hækka skatta á almenning í landinu. Skatturinn er kallaður forvarnargjald - því að hver styður ekki forvarnir, eigum við ekki að standa saman - og skatturinn er sagður vera „til þriggja ára“ en það eru gömul sannindi að ekkert er varanlegra en tímabundnar skattahækkanir. Bjarni Benediktsson var að hækka tekjuskatt á fyrirtæki um eitt prósent fyrr á þessu ári og nú bætist þetta við. Bjarni virðist vera alveg búinn að gleyma því að skattar eru ofbeldi og Sjálfstæðisflokkurinn á að standa með þolendum.
Þessi nýi skattur ríkisstjórnarinnar núna „forvarnargjaldið“ á að færa tæpan milljarð úr vasa almennings og í ríkissjóð á næsta ári – og er sagður munu vera notaður til að byggja varnargarð á Reykjanesskaga til að verja mikilvæga innviði.
Þar er aðallega verið að hugsa til orkuvers HS Orku í Svartsengi. Samkvæmt Viðskiptablaðinu er þetta orkuver metið á fjörutíu milljarða króna og varnargarður á að kosta þrjá milljarða króna. Þannig að: Þú ert með einkafyrirtæki sem er aflögufært með arðbæra starfsemi á hááhættusvæði. Allt leikur í lyndi. Menn græða á tá og fingri. Svo kemur eitthvað upp á og þá kemur sjálfur forsætisráðherra til bjargar og fjármagnar ráðstafanir fyrir þig með „forvarnargjaldi.“ Viðskiptablaðið bendir á að HS Orka er að helmingshluta í eigu bresks vogunarsjóðs, Ancala Partners, og blaðið skrifar: „Mikið hljóta þeir þarna í London að hlæja sig máttlausa yfir heimsku okkur Íslendinga. Að ætla að minnka áhættu þeirra verulega með því að byggja varnargarð og láta einhvern annan borga fyrir hann.“
Já, það eru fleiri skemmtilegar sögur af ríkisstjórninni og einkaframtakinu á Reykjanesi. Á síðasta ári var fyrirtækið Bláa lónið metið á sextíu milljarða króna. Það hagnaðist um þónokkra milljarða á hverju ári árum saman, allt þar til kom að heimsfaraldri Covid-19. Þá tapaði félagið töluverðum fjármunum vegna ferðatakmarkana og stjórnvöld tóku sig til og gáfu því 823 milljónir króna úr ríkissjóði, væntanlega einfaldlega til að það færi ekki á hausinn. Eftir faraldur var það síðan fljótt að jafna sig; strax árið 2022 var reksturinn aftur kominn í hagnað, sem nam þá tveimur milljörðum.
Þannig að: Bláa lónið greiðir út 12 milljarða króna í arð til eigenda frá 2012 til 2019. Svo kemur Covid árið 2020 - babb í bátinn í rekstrinum, eins og það heitir. Og hvað gera stjórnvöld? Heyrðu hérna 800 milljónir króna, er þetta nóg? Eftir faraldurinn hefur ekki heyrst af neinum neyðaraðgerðum stjórnvalda til að skattleggja þennan styrk stjórnvalda aftur út úr fyrirtækinu og aftur til ríkissjóðs. En þegar almenningur er annars vegar virðast stjórnvöld hins vegar alltaf vera í stuði. Borgaðu forvarnargjaldið – eða farðu í fangelsi.
Síðan fjölluðum við hér nýlega um þá kostulegu fullyrðingu Sjálfstæðismanna að ríkið verði að losa sig við þá bráðu áhættu sem fylgir því að eiga Íslandsbanka – sem hefur hagnast um 170 milljarða króna á síðustu tíu árum. Þvílík áhætta. Þá svara ekki mjög gáfaðir hægrimenn væntanlega: “Áhættan birtist ekki þegar fyrirtækið hagnast, heldur þegar eitthvað kemur upp á. Hvað ef þessi banki fer á hausinn? Vilt þú þá eiga hann og taka tapið á þig?”
Hmm. Vil ég að banki sem fer á hausinn sé í ríkiseigu þannig að ég taki á mig gjaldþrotið hans? Nei auðvitað ekki. Frekar að eigandinn taki á sig gjaldþrotið. Auðvitað. En sko í hruninu. Þá áttu einkaaðilar bankana og tóku til sín hagnað af starfseminni á meðan það gekk vel. En þegar bankarnir hrundu og fóru í gjaldþrot – þá fyrst voru þeir þjóðnýttir á ný. Og skattgreiðendur tóku á sig gjaldþrot þeirra. Þannig að það er ekki alveg ljóst hvernig almenningur getur tryggt öryggi sitt. Er það með því að eiga banka eða eiga hann ekki. Kannski er niðurstaðn sú að skattgreiðendur eru einfaldlega aldrei óhultir fyrir sjálfstæðismönnum – kæru vinir. Að svona hafi þetta verið, að svona sé þetta og að svona verði þetta. Einkavæðum gróðann en ríkisvæðum tapið. Það segi ég ekki einu sinni sem lúseravinstrimaður; á þessu stigi er pilsfaldakapítalisminn orðinn svo vandræðalega augljós að Viðskiptablaðið er farið að kvarta undan honum. Þá hlýtur að vera fokið í flest skjól.
Yfir í annað. Gárungarnir eru farnir að spyrja aftur hvort eigi lengra eftir: kálhaus eða Rishi Sunak í embætti forsætisráðherra Breta, eins og grínast var með í tíð Liz Truss, forvera Sunak, sælla minninga. Þar hafði kálhausinn betur. Staða Sunak er ekki með öllu trygg eftir miklar erjur innan stjórnarinnar; hann rak meðal annars úr embætti Suellu Braverman innanríkisráðherra sem hefur síðan ráðist nokkuð hressilega að Sunak í fjölmiðlum og sagt hann svikara.
Gamalkunnur stjórnmálamaður kemur nú inn í bresku ríkisstjórnina, enginn annar en sjálfur David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra. Cameron hefur verið gerður að utanríkisráðherra á þessum örlagatímum, sem Bretar eru að vonum misánægðir með. En einn maður er ánægður með skiptinguna og það er Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. Hann birtir gamla mynd af sér og Cameron á X og óskar honum til hamingju með nýja hlutverkið og segist spenntur fyrir samstarfinu.
Það er kærkomið fyrir Bjarna að hitta fyrir gamlan félaga á alþjóðasviðinu, þannig að þegar hann mætir í utanríkisráðherrapartíin þekkir hann allavega einhvern. Það hefur reynst örlítið erfitt fyrir Bjarna að fóta sig svona á fyrstu vikunum í nýju starfi, skiljanlega; þetta eru auðvitað gjörsamlega sturlaðir tímar til að vera utanríkisráðherra. Ég vona að hann hafi ekki ætlað að tjilla í þessu embætti svona á lokametrunum í stjórnmálunum. Að Bjarni hafi ekki haldið að hann þyrfti bara að fara á fundi í Danmörku og tala um mikilvægi norræns samstarfs. Í staðinn er Bjarni nefnilega að fá bara alvöru þungar spurningar á alþjóðlegum blaðamannafundum. Brot sýnt.
Já þetta fer allt eftir því hvernig þú lítur á það. Árás á flóttamannabúðir eða ekki árás á flóttamannabúðir. Þar liggur efinn. Ekki það mikill efi reyndar, því að Ísraelsher hefur beinlínis lýst þessari árás á hendur sér. Þannig að, já. Það var bara verið að biðja um viðbrögð við því. Viðbrögð við árás á flóttamannabúðir.
Bjarni er kannski ekki alveg að slá í gegn sem utanríkisráðherra, og hluti af ástæðunni er bara að gamla góða aðferðin hans Bjarna virkar ekki jafn vel í útlöndum. Það virkar ekki alveg jafn vel, eins og þið sáuð, að rústa blaðamönnum bara með því að hvessa sig á þá - það er ekki jafn auðvelt að gera þetta þegar maður er ekki þarf að tala ensku í stað móðurmáls síns.
Bjarni er auðvitað í grunninn bara ósköp einfaldur fótboltastrákur úr Garðabæ og hann er ekki lengur á heimavelli, núna þarf hann alltaf að vera speaking english in the press conference about the terrorism and the war. Enskan truflar þessa algengu aðferð hjá Bjarna þegar hann þarf að tala um eitthvað leiðinlegt, sem er að verða bara reiður, pirraður og stór gaur sem talar hátt. Og hver meikar að ganga eitthvað mikið á þannig gaur með frekari erfiðum spurningum? Allavega á Íslandi. Þar er þetta mjög vel heppnuð aðferð og trúið mér, hann gerir þetta, ég hef oft verið fórnarlamb þess sem blaðamannalúser.
En þrátt fyrir framkomu Bjarna, ég hef sagt það, þetta er kristilegur þáttur, ég býð hina kinnina, þrátt fyrir það er ég ekki svo kvikindislegur við Bjarna á þessum erfiðu tímum að taka undir sjónarmið hins síglaða auglýsingamanns Þorvalds Sverrissonar, sem skrifaði á X á dögunum: „Áhugavert að það sé í lagi að Bjarni Benediktsson sé fjármálaráðherra árum saman en ef hann er utanríkisráðherra breytumst við í Austur Tímor á 2 vikum.“ Kommon Þorvaldur. Ómálefnalegt. Við erum þjóð með þjóðum. Við erum ekkert eins og Austur-Tímor. Þú ert leiðinlegur.
Jæja. Illa vegið að Austur-Tímor.
Já. Það er stríðsástand í heiminum. Þegar þetta er tekið upp hafa fleiri en ellefu þúsund látist í Palestínu og fleiri en 1.200 manns í Ísrael í blóðugum átökum á svæðinu. Ástandið er hörmulegt og geta alþjóðasamfélagsins til þess að binda enda á morðæðið allt saman virðist takmörkuð. Ljóst er að gyðingaandúð hefur magnast upp hjá ákveðnum hópum vegna átakanna en hitt er líka ljóst að gagnrýni flestra á aðgerðir Ísraelsstjórnar í stríðinu hefur ekki neitt að gera með gyðingahatur. Hún snýr aðeins að því að stöðva blóðbaðið á Gaza og að sem fæst börn séu drepin með köldu blóði.
Það eru þó dæmi um það að öll gagnrýni á ísraelsk stjórnvöld sé afgreidd sem gyðingahatur og þegar umræðan er svoleiðis er væntanlega lítið hægt að komast áfram. Þá verður þetta einn stór leðjuslagur – óbrúanlegt bil á milli fylkinga.
Í svona ástandi sæta stjórnvöld, í seinni tíð vestræn “frjálslynd” stjórnvöld, þau stjórnvöld sæta í svona ástandi lagi til þess að réttlæta mjög vafasamar aðgerðir gegn borgurum. Eins og ríkisstjóri New York-ríkis, demókratinn Kathy Hochul, sem boðaði á dögunum margþættar aðgerðir „gegn gyðingahatri“ í New York. Sumar þeirra eiga mögulega rétt á sér, en hluti þeirra felur í sér aukið eftirlit með persónulegri notkun fólks á samfélagsmiðlum, þar sem það tjáir skoðanir sínar á stríðinu.
Ríkisstjórinn segir þetta bara berum orðum í ræðu: Samfélagsmiðladeild okkar ætlar að safna meiri gögnum um hvað fólk er að segja á samfélagsmiðlum. Við ætlum að berjast gegn “neikvæðni” og hafa samband við fólk ef við sjáum vísbendingar um hatursorðræðu. Við ætlum einfaldlega að auka eftirlit.
Það er ráðist í þessar aðgerðir undir því yfirskini að stjórnvöld hafi áhyggjur af auknu gyðingahatri, sem getur verið rétt, en þessar aðgerðir snúast ekki um það. Þær ganga út á það að festa aukið eftirlit með tjáningu borgara í sessi. Á sama hátt réðust bandarísk stjórnvöld í umfangsmiklar aðgerðir af þessum sama toga eftir árásina á tvíburaturnana undir yfirskrift The Patriot Act. Þá margfaldaðist rafrænt eftirlit stjórnvalda með borgurum í nafni baráttu gegn hryðjuverkum – og síðan hefur aldrei verið undið ofan af því eftirliti eftir að mesta hættan er liðin hjá.
Eftirlit með tjáningu borgara og viðleitni yfirvalda til að þurrka út ákveðna tjáningu eru tvær hliðar á sama pening. Evrópusambandið leggur þessa dagana hart að Elon Musk eiganda X að eyða út því efni um Ísrael og Palestínu sem ESB telur vera „upplýsingaóreiða“ – en fullt af venjulegu fólki finnst bara vera upplýsingar. Þetta er einkum efni sem styður málstað Palestínumana.
Ritskoðunartilburðina er ekki aðeins að finna í Bandaríkjunum og í Evrópusambandinu. Hjá mér persónulega kom til dæmis upp forvitnilegt atvik á hinum kínverska samfélagsmiðli TikTok í vikunni, þar sem myndband sem ég hafði birt á reikningi mínum var fjarlægt vegna þess að forritið taldi að þar væri „hatursorðræðu“ að finna. Myndbandið fjallar um birtingarmyndir ríkjandi hugmyndafræði í samfélaginu í tjáningu og listsköpun ungs fólks, ég nefni Barnaþing, ég nefni Skrekk, og auðvitað eru ekki allir sammála því sem ég segi, en það er ekki nokkur einasta leið til að komast að þeirri niðurstöðu að í máli mínu sé snefill af “hatursorðræðu”. Bara raunverulega ekki neitt, jafnvel þótt maður virkilega reyni. Ég hef bent TikTok á þetta kurteislega, að þetta sé rangt, og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að þeir breyti ákvörðun sinni eftir að þeir skoða málið betur.
Ég veit reyndar ekki hvernig þeir ætla að fara að því að skoða þetta nánar; TikTok er líklega ekki með starfsmann sem skilur íslensku sem fer yfir myndböndin. Það þýðir líka að þetta er ekki sjálfsprottin ritskoðun, heldur hefur einhver óánægður notandi tilkynnt þetta myndband til TikTok á þeim grunni að í því væri „hatursfull hugmyndafræði“. Gott og vel – kannski eru það nýjar leikreglur okkar samfélagsmiðlakynslóðarinnar, að klaga bara í stað þess að standa fyrir máli sínu.
En ef það er það sem koma skal, er eins gott að allir byrji að passa sig. Í skýringum TikTok stendur að reikningur minn sé kominn með eitt „Strike“ - eitt strik í kladdann fyrir að vera óþekkur, að því gefnu að þeir leiðrétti ekki ákvörðun sína. Og ef svona prakkarastrikum fjölgar, Strikes, segir forritið, mun reikningurinn hægt og rólega missa aðgang að ákveðnum valmöguleikum og aðgerðum í forritinu – og væntanlega að lokum mun ég ekki geta gert nokkurn skapaðan hlut á forritinu.
Prakkarastrik. Alveg ógagnsæ refsing frá tæknifyrirtæki sem mun aldrei svara neinu í smáatriðum. Skammarkrókur. Sífelldur ótti við hvað alsjáandi tækninni í lífi þínu þykir ekki hugnanlegt hverju sinni. Fer þetta ekki að hljóma eins og félagslega stigakerfið, á ensku social credit systemið, sem Kínverjar eru sagðir hafa verið að þróa á undanförnum árum? Þar sem tæknin er alltaf að fylgjast með þér og ef þú talar á hátt sem er ekki þóknanlegur stjórnvöldum, færðu strik í kladdann – og færð þá kannski minni internethraða í eina viku. Ef þú heldur áfram að hegða þér illa – missirðu aðgang að ákveðnum vörum á netinu. Svo missirðu kannski aðgang að almenningssamgöngum. Þetta er eins konar hátæknilegt alræðissamfélag. Hljómar næs. Innleiðum þetta á Íslandi með því að nota kínverska samfélagsmiðla! Snilld. Svo virðast bandarískir samfélagsmiðlar ekki vera skárri í samkrulli sínu við stjórnvöld.
Það versta við svona ritskoðun er hve ófyrirsjáanleg hún er. Þetta veltur allt á duttlungum fyrirtækjanna og breytilegum hagsmunum þeirra hverju sinni. Munið þið eftir því hér um árið, þegar það rataði í fréttir að Andrew Tate samfélagsmiðlastjarna hefði verið bannaður á öllum samfélagsmiðlum, þar á meðal á TikTok. Hvað varð um það bann núna? Andrew Tate er aftur mættur út um allt á samfélagsmiðlum. Greinilega er ekki lengur verið að bjarga okkur frá þeim hættulega manni. Við fjölluðum um þetta á sínum tíma á Stöð 2, glíma ritstjórans við TikTok er ekki ný af nálinni. Brot sýnt.
Já, eins og þið sjáið, við höfum lengi bent á þetta – enda prinsippmál. Hér er alveg sama hvað þér finnst - alveg sama á hvaða hlið þú ert í menningarátökunum - hvort sem þú ert hallur undir Ísrael eða Palestínu í átökunum - hvort sem þú ert til hægri eða vinstri - þú átt ekki sem frjáls borgari í frjálsu landi að sætta þig við inngrip í eðlilega tjáningu fólks á netinu – hvort sem það eru stjórnvöld sem gera það beint eða tæknifyrirtæki í þeirra umboði. Aldrei. Þú átt heldur ekki að beygja þig undir breytilegar reglur þeirra – og sætta þig við að fyrirtækin taki út gjörsamlega eðlilegt efni eftir hentisemi, eins og í mínu tilfelli; alveg meinlaust íslenskt fjölmiðlaefni á léttum nótum um hugmyndafræðilegan þrýsting opinbers rétttrúnaðar.
Sem betur fer erum við hér á ritstjórninni í góðri stöðu. Ef TikTok heldur áfram að eyða færslum ritstjórans út vegna klögumála, skiptir það hann litlu máli. Hann mun hann skrifa úr útlegðinni. Hann verður á X, á ritstjóri.is með áskrifendum sínum, á Instagram og Facebook á meðan það gengur, og þar mun ritstjóranum líða vel. Hann verður eins og þýska skáldið og blaðamaðurinn Heinrich Heine, sem skrifaði í bréfi úr útlegð sinni í París, hann var sem sagt í deilum við þýsk stjórnvöld, Heine skrifaði í bréfi frá París 1832: „Ef einhver spyr þig hvernig mér líður hérna, segðu þá: Eins og fiski í vatni. Eða öllu heldur: Segðu viðkomandi að þegar einn fiskur í sjónum spyr annan fisk hvernig honum líði, að þá sé svar fisksins: Mér líður eins og Heine í París.“
Já, ritstjórinn verður eins og Heine í París. Það er auðvitað ólíklegt að varanleg útlegð í París bíði okkar hér á ritstjórninni fyrir okkar vinalegu umfjöllun um samfélagsmál, ég væri frekar að hugsa um eitthvað í Suður-Ameríku líklega, en svona grínlaust, ef við tökum þessa þróun alla leið, ef stafrænt ægivald erlendra stórfyrirtækja tekur hér endanlega yfir að lokum, getum við huggað okkur við að Morgunblaðið er enn að reka stórar og góðar prentvélar sem við gætum hagnýtt til að miðla upplýsingum hér manna á milli ef stafræn ragnarök bresta á.
Og ef prentvélarnar verða teknar úr sambandi getum við í versta falli vonandi alltaf gert eins og Marteinn Lúter gerði árið 1517: Hann fór að kirkjudyrunum í Wittenberg með lista yfir ókosti kaþólsku kirkjunnar, sem margir voru sammála um, en enginn þorði að tjá, og Lúther negldi einfaldlega sannleikann á hurðina. Það var ekki viturlegt gagnvart valdinu – en hann gerði það samt. Og við það varð til ein áhrifamesta trúarhreyfing í sögu Vestur-Evrópu – sem við köllum núna eftir á að hyggja siðbótina. Já á þessum síðustu og verstu tímum - skulum við muna Lúter – látum aldrei nokkurn tíma þagga niður í okkur – af því að það er hugsanlegt að í því efni sem samfélagsmiðlar og yfirvöld velja að þagga niður núna, geti falist siðbót okkar tíma.
En þaðan yfir í annað mál. Þegar þetta er tekið upp er er dagur íslenskrar tungu. Vika íslenskrar tungu er nú liðin. Og við erum hér að tala um útlegð. Jón Ólafsson ritstjóri sem ég hef nú nefnt áður á þessum vettvangi fór tvisvar í útlegð á sinni ævi, í bæði skiptin fyrir svívirðingar í garð Dana – það var einhver sérstök þjóðrækni í Jóni sem var yfirvöldum ekki að skapi. Hann fór meðal annars í útlegð fyrir að yrkja þessar línur:
Frjáls því að Íslands þjóð
hún þekkir heims um slóð
ei djöfullegra dáðlaust þing
en danskan Íslending.
Já, menn eru ekki að yrkja svona lengur, innblásin ættjarðarkvæði um Dani, nei, stemningin er augljóslega önnur og við Íslendingar lifum við sannarlega við aðra hugmyndafræði og annan söguskilning. Helgi Þorláksson sagnfræðingur heldur því þó fram að svo sé ekki, að söguskoðunin, það hvernig við skiljum sögu landsins, sé í raun ekki mjög breytt frá því sem var í sjálfstæðisbaráttunni hér á sínum tíma.
Helgi lýsir því í nýlegri bók sinni „Á sögustöðum“ að Íslendingar séu enn mjög litaðir af rómantískri söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar; að við upphefjum þjóðveldistímann, landnámið og þegar hetjur riðu um héruð; að við lítum svo á að alltaf þegar Ísland hafi lent undir erlendu valdi, hafi það verið slæmt, að við lítum svo á að Íslendingunum sem mættu hérna fyrst hafi verið þjóðfrelsi og sjálfstæði ofarlega í huga frá upphafi, að við í grunninn lifum í allri almennri umræðu við söguskoðun „mótaða af þjóðernishyggju“ eins og Helgi segir. Helgi segir að fræðimenn í háskólanum hafi hafist handa við það í rólegheitunum fyrir kannski sextíu árum, eftir sjálfstæðisbaráttuna, að vinda ofan af þessari söguskoðun, að benda kurteislega á að Íslandssagan sé kannski aðeins flóknara ferli en hetjuleg hugsjónasaga um frelsisþrá og sjálfstæði; að kannski hafi ekki allt verið alslæmt bara vegna tilfærslu valds til útlanda og að kannski hafi ekki allir Íslendingar frá upphafi tíma alltaf barist sérstaklega fyrir þjóðfrelsi.
Þetta eru tveir skólar, það er hin almenna söguskoðun íslenska plebbans, “Hetjur riðu um héruð, Jón Sigurðsson, sjálfstæði, fullveldi, Íslendingar elska ekkert meira en frelsið” og svo er það hin grandvara og nákvæmnislega söguskoðun háskólasagnfræðingsins um að þetta hafi allt verið mjög flókið. Þið ráðið hvora þið aðhyllist en ég myndi samt segja að ef markmið háskólasagnfræðinganna hafi verið að lækka rostann í söguskoðun plebbans, þá hafi það tekist. Það er ekki mjög mikil almenn stemning fyrir hressandi og rómantískri söguskoðun þessa dagana. Nákvæmnin er aldrei langt undan.
Við ræddum þetta í Skoðanabræðrum, hlaðvarpi mínu og Bergþórs Mássonar bróður míns, aðeins um þessa tilfinningu Íslendinga fyrir sögunni. Þar var gestur okkar Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur og rithöfundur, sem hefur að undanförnu unnið að íslenskri bókmenntasögu fyrir Þjóðverja, meðal annars. Brot sýnt.
Já hvor sagan er skemmtilegri; er það ekki meginspurningin. Hetjur riðu um héruð, segi ég. Ég mæli innilega með viðtalinu við Halldór, þar sem við fjöllum um allt mögulegt tengt Íslandssögunni, bókmenntasögunni, Halldóri Laxness, sem Halldór skrifaði ævisögu um, og margt fleira mjög gott.
Já, dagur íslenskrar tungu. Þetta er ekki dagur fyrir fortíðarþrá heldur ber okkur líka að líta fram á veginn. Getur tungan lifað af? Ekki nema rammar skorður verði reistar við þróun sem er þegar hafin og er þessa dagana ískyggilega hröð. Enskan breiðir úr sér á mörgum sviðum þjóðlífsins og stjórnvöld virðast ekki átta sig á alvarleika málsins og ef þau gera það, eru þau ófær um að bregðast við. Ef við einhvern daginn missum sjálfstæði okkar, verður það vegna þess að við höfum fyrst glatað eigin tungu. Það er ljóst.
Í gær birtist merkilegt viðtal á ritstjóri.is og á hlaðvarpsveitum þar sem Elín Þöll Þórðardóttir málvísindakona og talmeinafræðingur fór yfir stöðu tungumálsins. Við byrjuðum á stöðunni hjá íslenskum börnum, fáum brot.
Já það þarf átak í skólakerfinu vegna innflytjenda en sömuleiðis þarf átak fyrir íslensk börn að sögn Elínar, sem beinir spjótum sínum þar að sjónvarpinu og snjalltækjunum. Fáum annað brot.
Já, það er engin frekja að vilja halda upp á sína menningu; ótrúlegt að þessi sjónarmið séu í raun sjaldgæf í okkar samfélagi. En, hægt og rólega hlýtur það að breytast í þeirri kurteislegu viðhorfsbreytingu sem hlýtur að vera fram undan á öllum sviðum. Ég mæli hjartanlega með að hlusta á viðtali við Elínu Þöll í heild sinni á hlaðvarpsveitum okkar, á ritstjóri.is -, á X eða á YouTube. Þar sem þér finnst þægilegast.
Og þá komumst við ekki lengra með þetta að sinni. Ég minni á samstarfsaðila ritstjórans, Þ. Þorgrímsson, Domino’s Pizza og Hringdu. Um leið minni ég á kjörorð þessa fréttaþáttar; ást á ættjörðu, ást á sannleika, sem væri kannski rétt að leyfa að birtast í upphaflegu samhengi hérna í tilefni dagsins.
Þau eru úr Saknaðarljóði Jónasar Hallgrímssonar frá 1837, þar sem hann syrgir frænda sinn sem lést sviplega á besta aldri í Kaupmannahöfn; Jónas yrkir:
Áþján og ill lygi. Við hljótum að berjast gegn því. Við sjáumst í næstu viku - Njótið föstudags íslenskrar tungu - í bili - Guð blessi ykkur.