Hagræðingarstjórn gerir undantekningu fyrir stjórnarliða
Forvitnilegu frumvarpi var dreift á Alþingi rétt í þessu.
Forvitnilegu frumvarpi var dreift á Alþingi rétt í þessu.
Hin yfirlýsta hagræðingarstjórn hefur gert hlé á hagræðingarstörfum og ákveðið að fara í hina áttina í einu mikilvægu máli.
Þar er það sjálfur stjórnarmeirihlutinn sem nýtur góðs af – og uppsker meiri launuð nefndarstörf.
Nú á að festa í sessi hina nútímalegu „framtíðarnefnd“ út kjörtímabilið, í stað þess að leyfa henni að renna sitt skeið á enda um áramót líkt og til stóð að óbreyttu.
Um leið á að veita formanni nefndarinnar sérstaka tíu prósenta launaviðbót, sem hefur ekki verið, en kemur nú í hlut háttvirts nefndarformanns Jóns Gnarr.
Frá því að nefndin, sem hefur verið lýst sem gjöf Vinstri grænna til Pírata, hóf störf árið 2018 hefur margt verið brallað. Ófáar málstofurnar verið haldnar með ófáum hagaðilum um allt frá lýðræði og mannréttindum og til loftslagsmála. Farið í nokkrar skemmtilegar ferðir.
Allir sem ég ræði við, úr öllum flokkum, eru þó sammála um að gagn nefndarinnar hafi því miður verið lítið sem ekkert.
Þar með er ekki gert lítið úr góðum pælingum góðs fólks, eins og til dæmis þeirri sviðsmyndagreiningu í síðustu framtíðarnefndarskýrslu að ef Íslendingar næðu að gerast „kyndilberar í loftslagsmálum“, myndi íbúasamsetning landsins mögulega þróast í þá átt að hér myndi ríkja fjölmenning þar sem við myndum njóta „fjölgunar innflytjenda sem aðhyllast grænar lausnir.“
Óneitanlega er það ein sviðsmynd.
En hún breytir ekki þeirri staðreynd að starfið hefur verið í hæsta máta ómarkvisst frá upphafi. Þrátt fyrir það fórum við í Miðflokknum með mjög opinn hug og af okkar alkunnu víðsýni inn í starf nefndarinnar nú í upphafi þings ef ske kynni að eitthvað kynni að breytast, en eftir þá athugun er orðið augljóst í okkar augum að best fer á að leggja nefndina niður.
Kröftum okkar alþingismanna og enn fremur fjármunum skattgreiðenda er betur varið í eitthvað annað miklu gagnlegra en framtíðarnefnd. Þessari tilraun ætti að ljúka hér.
(P.S. Þessi nálgun okkar Miðflokksmanna er alfarið byggð á málefnalegum grunni og tengist ekki á nokkurn hátt vonbrigðum okkar með að nefndarmenn hafi hafnað tillögu okkar um að breyta nefndinni í fortíðarnefnd.)