Hefði greitt atkvæði með vopnahléi
Steingrímur J. Sigfússon ræðir stríðsátök, hernaðarbandalög, Katrínu Jakobsdóttur, fullveldi Íslendinga, gjöld í sjávarútvegi og krappa stöðu landbúnaðarins.
Góðan dag og gleðilegan nóvember, kæru vinir.
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi forseti Alþingis og einn þaulsetnasti þingmaður Íslendinga frá upphafi, segir í nýju hlaðvarpsviðtali ritstjórans að það sé miður að atkvæðagreiðsla á vegum Sameinuðu þjóðanna um hvatningu til vopnahlés á Gasaströndinni hafi endað í pólitík og skotgröfum.
„Ég hefði greitt atkvæði með þessu, þótt ég skilji upp að vissu marki hin sjónarmiðin. Mitt hjarta slær þar. Ég hef auðvitað eins og allir aðrir verið að fylgjast með þessum miklu hörmungum og maður er lamaður og gráti nær við að fylgjast með þessu dag eftir dag. Þetta er alveg ömurlegt,“ segir Steingrímur.
Katrín Jakobsdóttir hefur lýst því að þetta sé líka hennar afstaða, að greiða hefði átt atkvæði með tillögunni. Það gerðu fulltrúar Íslands á þinginu þó ekki, að undirlagi Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra.
Steingrímur segir þrátt fyrir þetta ekki annað að sjá en að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra farist það vel úr hendi að koma friðarhugsjón Vinstri grænna á framfæri fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. „Þegar öll spjót standa á Katrínu og ég lendi í umræðum um það við gesti og gangandi spyr ég gjarnan á móti: Sérðu einhvern annan sem er líklegur til að gera þetta betur?“ segir Steingrímur.
Spurning: Út á við, það sem margir hugsa um Vinstri græna í þessari stjórn núna er að þið getið ekki sagst vera á móti NATO.
Steingrímur: „Við megum hafa þá skoðun okkar að heimurinn væri betri án vígvæddra hernaðarbandalaga. Það tekur hana enginn frá mér. Aldrei. Og ég ætla að vera talsmaður þess og andæfa vígbúnaðarbrjálæði, sóun og valdbeitingu og ofbeldi í heiminum. Algerlega óháð öllu öðru slíku. Það er bara djúp lífssannfæring mín að tala fyrir þeim gildum og það gerum við áfram,“ segir Steingrímur.
Steingrímur kveðst uggandi um margt sem er í gangi um þessar mundir. „Eiginlega er erfiðara að litast um í heiminum núna en það hefur oft verið á undanförnum áratugum. Ef við horfum bara til þessara skelfilegu stríðsátaka sem víða geisa. Þeirrar staðreyndar að það er verið að segja upp afvopnunarsamningum víða. Það er stóraukið kapp komið í vopnaframleiðslu í heiminum. Nú er verið að hella peningum í að vígvæða heiminn aftur. Þetta er auðvitað skelfileg þróun,“ segir Steingrímur.
„Ég ætla aldrei að gefast upp á meðan ég lifi að reyna að tala fyrir friðsamlegri heimi. Og andmæla vígbúnaðarbrjálæði og valdbeitingu og ofstopa. Frekar vil ég þá hverfa frá þessum heimi heldur en að gefa frá mér þann rétt, að tala gegn vígbúnaðarbrjálæði og öðru slíku.“
Óskastaðan, segir Steingrímur, væri veröld þar sem Atlantshafsbandalagsins væri ekki þörf. „Ég tel að einn veikleiki heimsins núna sé að Sameinuðu þjóðirnar eru of veikar. Heimsskipulagið okkar er ekki að virka nógu vel. Þess vegna myndast vígbúnaðarblokkir og hernaðarblokkir,“ segir Steingrímur.
Hlaðvarpsviðtalið við Steingrím er langt og farið er um víðan völl. Þar á meðal rifjar Steingrímur upp tíma sinn sem fjármálaráðherra, embætti sem hann tók við á stormasömum tíma í febrúar 2009.
Svo að fátt eitt sé nefnt fer Steingrímur einnig yfir nauðsyn þess að Íslendingar búi til sinn eigin mat, standi á eigin fótum sem sjálfstæð þjóð, en ekki sem aðildarþjóð í Evrópusambandinu, rætt er um gamalt sérsvið Steingríms, jarðfræðina, og loks um mál málanna, sjávarútveginn, sem á að borga meira í sameiginlega sjóði að sögn þingforsetans fyrrverandi.