Hin rammíslenska barátta gegn vókisma (endurbirting)
Hugsað til Gísla Pálma í viku íslenskrar tungu. Hvað finnst okkur um átak stjórnvalda af þessu tilefni? Og voru Ástríkur og Steinríkur „woke“?
Á heilögum frídögum leggur ritstjórinn það í vana sinn að birta eldri grein sem áður var læst og hafa hana þá opna öllum, líka þeim sem ekki eru enn komnir í greidda áskrift. Viltu samt ekki gera það til þess að raunverulega stuðla að frjálsri fjölmiðlun í landinu? Þá opnast gáttirnar að tugum svona greina – um aðskiljanlegustu málefni.
Fyrst birt 13. nóvember 2023: Góðan daginn og gleðilega viku íslenskunnar, kæru vinir ritstjórans og auðvitað óvinir líka, sem hingað koma í reglubundið eftirlit.
Það er ekki vanþörf á heilli viku undir íslenska tungu en auðvitað er aðaldagurinn á fimmtudaginn, dagur íslenskrar tungu, á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember.
Á vef Stjórnarráðsins getur að líta þessa mynd úr nýlegu átaki stjórnvalda:
Hlíðin er slay, myndi nútímamaður eins og Patrekur Jaime segja. Gunnar á Hlíðarenda lýsti þessu sama með öðru orðavali á sínum tíma: „Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun ég ríða heim aftur og fara hvergi.“
Báðar fullyrðingar standast vel og fjalla um að elska hlíðina og að elska landið sitt. Átaki stjórnvalda er ætlað að „ýta við fólki, stjaka við því, hnippa í það og jafnvel gefa því olnbogaskot.“
Ætli maður þurfi ekki bara að rúlla með höggunum, eins og Birnir rappari talar um í öðru samhengi.
Stjórnvöld hefðu getað valið hvaða svið íslenskunnar sem er, til að leggja áherslu á við þetta tilefni en þetta varð fyrir valinu.
Það er ekkert út í hött, þótt vissulega geti þetta haft öfug áhrif og einfaldlega aukið enn á gullaldarglýjuna hjá okkur sumum. En því verður ekki neitað að framtíðin býr í unga fólkinu. Mögulega er þeirrar málamiðlunar einfaldlega þörf, að leyfa þeim að misþyrma tungumálinu aðeins, svo fremi sem þau lofa að nota það.
Þrátt fyrir allt eiga fleiri þjóðskáld eftir að fæðast og sum þeirra eru jafnvel á meðal okkar núna og láta lítið á sér bera þessa dagana, eins og Gísli Pálmi:
Anaconda 12. hæð, svalirnar opnar Kallinn er svalur eins og bakhlið á kodda Læt kampavínið flæða Þar til glasið það brotnar Kann ekki að stoppa Svíf um, flýgur sem þota Læt það fossa Þú lætur dropa og nærð varla að loftast Og hverjum er ekki fokk sama? Tíu flöskur, þarf ekki að tala um hvað það kostar bruh' Þarf ekki að tala um hver er flottastur Nokkrar stelpur tilbúnar til brottfarar Þekkið hundinn, í húsasundi með stuttklippt Skilorðsbundinn, puffin' eins og lundinn Þú kemur að mér svölum eins og kuldinn Því ég rukka inn allar skuldir Þegar ég er cuttin' up that good shit
Höfundar hinnar opinberu herferðar núna hafa eins og margir Íslendingar í gegnum tíðina sótt innblástur í Gunnar á Hlíðarenda. Það gerði líka Jónas Hallgrímsson í Gunnarshólma, þegar hann gerði hólmann að tákni sjálfs þjóðarandans:
Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll árstrauminn harða fögrum dali granda; flúinn er dvergur, dáinn hamratröll, dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda; en lágum hlífir hulinn verndarkraftur hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.
Er ekki eitthvað yfirþyrmandi við að aldin sólroðin fjöll sem við sjáum þegar við ökum í kvöldsumarsól um þjóðvegi landsins séu beinlínis þau sömu og Jónas sá og þau sömu og Gunnar sá? Sumt breytist bókstaflega aldrei. Þetta breytist reyndar ekki heldur: „Hnipin þjóð í vanda!“
Baráttan gegn vókisma
Við lifum alþjóðlega tíma og baráttan gegn glóbalismanum er brekka. Hugmyndafræðileg barátta okkar tíma er að stórum hluta alþjóðleg og þess vegna eru allir alls staðar að rífast um það sama. Svo saka allir hver annan um „innflutning“ á hinum og þessum sjónarmiðum og átta sig ekki að þetta er allt einn stór vígvöllur.
Þetta skapar sífellda knýjandi þýðingarþörf. Hvernig eigum við að þýða orðið „woke“ – sem er áríðandi hugtak í samfélagsumræðu dagsins? Kristján Kristjánsson, prófessor í Birmingham, reynir í þessari grein að þýða það sem vekni og andstæðan er þá andvekni.
Þetta er lofsverð viðleitni, en „vekni“ er smá eins og „fetch“ í Mean Girls:
Stefán Pálsson, friðarins maður og sagnfræðingur, notar í Facebook-status slettuna „vókisma“ og sú þýðing eða aðlögun er sigurstranglegust á þessu stigi.
Þar er Stefán að fjalla um nýja bók um Ástrík og Steinrík og skírskotar í því efni beint til sjálfs ritstjórans:
Ástríkur og Steinríkur eru ósnortnir af þessu öllu saman, þeir eru Snorrar Mássynir sinnar kynslóðar og átta sig á að vókismi og rassvasasálfræði muni gera alla að aumingjum.
Ritstjórinn fagnar því að sagnfræðingurinn átti sig á þeim mikilvægu sannindum að barátta gegn vókisma er ekki niðurrifsstarfsemi, heldur uppbyggingarstarfsemi til lengri tíma litið.
Þar fyrir utan er mikill heiður að verið sé að spyrða mann saman við ekki minni menn en Ástrík og Steinrík. Ég hef meira að lofsungið þessar evrópsku fornaldarhetjur á opinberum vettvangi.
Það gerði ég í Safnahúsinu í nóvember 2022, þar sem verið var að fagna nýrri heildarútgáfu Íslendingasagnanna. Ljúkum umfjöllun dagsins á hluta þess erindis:
Ég óttast að við nálgumst þennan arf eins og var miðað við í formála Fjölnis árið 1835, þar sem segir: „Hver sem les íslensku sögurnar með athygli, í honum verður að kvikna brennandi ást á ættjörðu sinni, eða hann skilur þær ekki sem vera ber.” Fullyrðingin stenst svo sem alveg, eins og fyrir tæpum tvö hundruð árum - en vandinn er bara að núna eru svo miklu miklu fleiri sem bara hafa ekki forsendur til að „lesa sögurnar með athygli” og „skilja þær eins og vera ber.”
Hvað skilur ungt fólk í staðinn? Ég sat um daginn með þremur fjögurra ára piltum, reyndi að velja sjónvarpsefni og eftir miklar deilur féllust þeir á að ég kveikti á Ástríki og Steinríki, franskri kvikmynd frá 1976 með íslensku tali.
Á meðan myndin hófst voru enn ekki allir alveg á eitt sáttir um myndina þannig að ég fór að tala hana upp og sagði já, sjáið þennan með víkingahjálminn að sigla og kominn inn í tjald með stóra exi. Smá efasemdir enn þá – „nei, mig langar að horfa a Youtube“ mun einn hafa sagt - en svo kvað annar upp: „Þetta er maðurinn sem fann Ísland. Hann fann Ísland, þessi víkingur!“
Þar var hann vissulega að vísa til franskrar fornaldarhetju, sem aldrei kom til Íslands, þannig að staðreyndir málsins höfðu riðlast. En piltarnir æstust upp: Hann fann Ísland! Eftir þetta voru allir sáttir við myndina.
Þannig að þetta vakti sannarlega upp smá „ást á ættjörðu” og þeir voru til í að horfa. Þannig að ég hugsaði: Er ég að vera óheiðarlegur að reyna að búa til stemningu í kringum landnám á fölskum forsendum?
Nei, hugsaði ég á móti, því að hvers konar bolabrögðum eru alþjóðlegu tæknifyrirtækin að beita? Eina markmið þeirra fyrirtækja er að leita algerlega allra leiða til að hafa fólk og börn fast í forritunum þeirra eins margar sekúndur og mögulegt er, til að svo safna gögnum og svo selja auglýsingar.
Og hvað erum við að gera á meðan? Gæta vísindalegrar nákvæmni í okkar söguskoðun og lesa upp úr Íslenskum fornritum með samræmdri stafsetningu fornri? Það gengur auðvitað ekki.
Það sem við þurfum er herferð þar sem við beitum sömu fantabrögðum og hinn alþjóðlegi afþreyingariðnaður. Æsilegt barnaefni, sjónvarpsefni, tölvuleikir, TikTok, Instagram, YouTube, barnabækur. Þór, norrænar ofurhetjur, Víkingar, dýrar bækur, Árni Magnússon kóngur, Bruninn í Kaupmannahöfn og svo framvegis og svo framvegis.
Þetta þarf að byrja á leikskóla og standa út grunnskólann og svo þegar þar að kemur er hægt að pína fólk í gegnum upphaflegu texta Íslendingasagnanna, sem er falleg reynsla þrátt fyrir allt.
Við erum í harðari samkeppni en við áttum okkur á, en það þýðir ekki að við getum ekki náð talsverðum árangri. Við skuldum börnunum okkar og komandi kynslóðum að kynna þau fyrir sögu okkar.
Það er ekki sjálfsagt en gott uppeldi er einfaldlega ekki sjálfsagt. Það þýðir samt ekki að við gefumst upp á því.