Hvaðan koma skoðanir þínar?
Það er oft þungbært að svara þeirri spurningu. En við fáum aðstoð í nýrri bók Magnúsar Sigurðssonar, framúrskarandi íslensks skálds
Ritstjórinn er í jólaskapi og lætur það eftir sér að draga ályktanir af áhugaverðri bók sem rekur á fjörur hans í bókaflóðinu…

Við fylgjumst öll betur með ákveðnum einstaklingum en öðrum. Segjum að við fylgjumst á netinu vel með tilteknum rithöfundi, stjórnmálamanni, blaðamanni, líkamsræktarjötni eða þess vegna skoðanaglöðum listamanni.
Spyrjum okkur, til gamans: Fylgjumst við með viðkomandi vegna þess að við aðhyllumst skoðanir hans eða aðhyllumst við skoðanir hans vegna þess að við fylgjumst með honum?
Við teljum okkur trú um hið fyrrnefnda, að við fylgjumst með viðkomandi vegna þess að okkur líkar það sem hann segir. En við föllumst ekki eins auðveldlega á hið síðarnefnda, að við látum einhvern úti í bæ móta skoðanir okkar.
Skoðanir okkar, viljum við halda, eru sprottnar af sjálfstæðri lífssannfæringu okkar og þær eru okkar eigið höfundarverk, mótað eftir frjálsum vilja okkar.
Þetta er auðvitað aldrei alveg rétt. Að því gefnu að við séum ekki þeim mun einstæðari snillingar, hljóta skoðanir okkar að eiga sér einhver ytri upptök, er það ekki?
Þessi upptök eru dularfull ráðgáta.
Hér er ljóð úr nýútkominni bók eftir mann sem verður að kalla eitt allra áhugaverðasta skáld okkar Íslendinga um þessar mundir, Magnús Sigurðsson:
EITTHVAÐ ÓX
Eitthvað sem þú heyrðir, eitthvað sem þú sérð, tekur sér bólfestu í dýpstu kimum hugans og vex.
Mörgum árum seinna ertu ekki lengur sama manneskjan. En hvað var það? Hvaða rökkurþyrstu rætur hefur hugur þinn vökvað öll þessi ár? Hvað setti umbreytingarferlið af stað?
Engin leið að vita. Bara eitthvað sem þú heyrðir, eitthvað sem þú sást. Sem tók sér bólfestu og óx.
Nokkuð hrollvekjandi spurning: Hvaða rökkurþyrstu rætur hefur hugur þinn vökvað öll þessi ár? Það er erfitt að svara þessu: Radíkalíseraðist ég eða voru það hinir sem radíkalíseruðust? Eitthvað óx, alla vega, og það hjá öllum.
Svona erfiðar spurningar, svona bókmenntalegar árásir á lesandann eiga auðvitað að vera eitt helsta hlutverk góðs skáldskapar, að „fá mann til að hugsa“ – svona í alvöru. Frekar en að ala mann upp.
Ritstjórinn hefur áður kvartað yfir því að listsköpun nútímans er í of mörgum tilvikum ætlað að hafa hálfpólitískt uppeldishlutverk frekar en fagurfræðilegt gildi og Magnús Sigurðsson kemur einmitt inn á það í öðru ljóði í þessari sömu bók:
BÓKHALD (II)
Þessi skerti „matseðill“ heimsbókmennta síðustu ára og áratuga, sem samanstendur svo oft af bjargvættum og siðapostulum sem segjast komnir til að afhjúpa vonsku veraldar og gera heiminn betri: fullnægir hann þér sem lesanda? Eða hungrar þig kannski líka (án þess að vilja viðurkenna það) í bókmenntir sem vegsama hið illa, hið andstyggilega, hið ósiðlega, í stað þess uppbyggilega, þess fallega, þess góða?
Því góðu englarnir gráta. En þeir vondu syngja.
Magnús Sigurðsson (f. 1984) er doktor í bókmenntafræði, skrifaði doktorsritgerð um ljóðskáldið Emily Dickinson, og hefur starfað sem rithöfundur, þýðandi og kennari.
Bækur hans á undanförnum árum hafa verið undarlegt sambland ljóða og alls kyns fundinna texta, en ég komst sjálfur fyrst á bragðið þegar ég sá frábæra umfjöllun Magnúsar um Hannes Hafstein ráðherra í bókinni Húslestur sem kom út árið 2022:
HARMAR
Ei skal herma hörmum frá harma nokkra flestir biðu.
Þannig orti Hannes „stormur“ Hafstein, hið mikla skáld karlmennskunnar. En misskipt er mannanna láni – og hörmum. Í tilviki Hannesar ber þar helst að nefna fimm systur sem allar dóu, hver á fætur annarri. Þá tvö af hans eigin börnum. Og loks eiginkonu hans þar á eftir, 42 ára gömul, eftir löng og erfið veikindi. En Hannes lét það allt saman „óhermt“ í sínum skáldskap. Fyrir utan þessa almennu athugasemd, það er að segja.
Hannes var greinilega bældur á nútímamælikvarða. En hann hafði öðru að sinna en að herma frá hörmum, hann var til dæmis fyrsti íslenski ráðherrann og svo var hann bankastjóri.
Í nýrri bók Magnúsar Sigurðssonar, Lexíurnar – stafrófskver, er að finna safn magnaðra ljóða og smáprósa um allt mögulegt. Magnús er mjög bókmenntafræðilegt ljóðskáld. Utanaðkomandi textar eru fengnir að láni og hafðir að útgangspunkti og eru mikil uppistaða í verkum hans á síðari árum, en í Lexíunum er eins og meira komi frá brjósti höfundarins.
Ég, sem hélt að ég kynni best við Magnús þegar hann er að „kafna úr sjervisku“ eins og Konráð Gíslason forðum, hef komist að því að mér finnst hann jafnvel öflugri þegar hann er á mun persónulegri nótum. Hér er loksins lykillinn að hamingjunni, til dæmis:
GULLGERÐARLISTIN
fyrir FP
Og hvað lærðirðu svo af þessu lífi, sem var ekki beinlínis líf sem nokkur hefði óskað sér eða valið, en þú valdir samt að lifa, í þrjóskufullri von um að leyndardómarnir lykjust upp að lokum? Ekkert. Ekkert sem var ekki alkunna áður ekkert sem hefur ekki verið endurtekið ótal sinnum fyrr á öllum tímum Sem er að enginn finnur til í annars sári að enginn veit til angurs fyrr en reynir að viljugur skal hver bera það sem verður að vera og að sá er eldurinn heitastur sem á sjálfum brennur því enginn þekkir sársauka annarrar manneskju til hlítar En hamingja hennar hins vegar, verðskuldi maður þá gjöf: hún getur orðið manni að fullu lifandi ljós Og orðið um leið, svo lengi sem hún varir (sem er líka hinn eini sanni leyndardómur, hin eina sanna alkemía) að fullu og öllu manns eigin
Allir sem þekkja hina oft og tíðum vonlitlu leit að hamingjunni (og gera það ekki allir sem eru yfir höfuð nógu truflaðir til að leita í ljóðlist á okkar tímum?) hljóta að hafa beðið þessarar greinargóðu niðurstöðu lengi. Hún býr í hamingju annarrar manneskju. Já, í sumum kvæðanna er sannarlega eins og hver sjái sjálfan sig, eins og Fjölnismenn sögðu oft. Magnús skrifar á öðrum stað:
HIÐ ÓSEGJANLEGA (I)
Ég skrifa um mig.
Þú lest um þig.
– Håvard Rem
Mannkynssagan verður aldrei sögð út frá þínu þrönga sjónarhorni.
En ekki þín eigin saga heldur.
Góðfúsi lesandi, það er engin önnur leið: þú verður að leita sjálfan þig uppi í verkum einhvers annars.
Þú verður að finna sjálfan þig í annarra manna orðum.
Þetta er mjög vel til fundið og hér er hugsunin að vissu leyti ítrekuð frá fyrsta ljóðinu sem hér var vísað til, um að maður heyri eitthvað hjá öðrum og það verði hluti af manni sjálfum.
Þetta er líka spurning um hænuna eða eggið. Maður getur auðvitað hafnað því að maður verði endilega fyrir yfirdrifnum áhrifum af því sem maður les. Kannski hefst sú hugsun á röngum enda; kannski leitum við einfaldlega í efni sem passar við hugsunarhátt okkar eins og hann er nú þegar. Hugsunin er bara betur felld í orð hjá öðrum og að því leyti þurfum við að „leita sjálf okkur uppi.“
Kveðskapur Magnúsar Sigurðssonar er kjörið leitarsvæði lesenda að sjálfum sér, en ég óttast að hann sé ekki nægilega vel þekktur höfundur á meðal manna. Lexíurnar eru tvímælalaust ein allra vandaðasta jólabók ársins, ef þú spyrð ritstjórann, og hann hvetur lesendur sína til að lesa hana og gefa.
Maður finnur strax að Magnús er sjálfstætt hugsandi. Það er meira að segja ekki laust við að það örli á ákveðnu óþoli fyrir þrýstingi pólitísks rétttrúnaðar okkar tíma í verkum hans, sem er auðvitað eilítið óvæntur þráður í verkum meinleysislegs bókmenntafræðistráks frá Ísafirði sem setur saman doktorsritgerðir um skáldkonur frá 19. öld á milli þess sem hann yrkir ljóð um stafrófið.
Í Lexíunum lofar Magnús skáld liðinna alda fyrir að vinna af „ástríðu sjálfstæðrar hugsunar“ en ekki „undirgefni fylgispektarinnar“. Hann kvartar undan fólki sem setur annað fólk á „svarta listann“ vegna rangra skoðana og minnir þar á þá „grundvallarreglu að það eigi að hata syndina en elska syndarann.“
Þetta er undirtónn, frekar en þras, en í einu ljóðinu finnst manni Magnús vera að vara við því að fólk sjái um að ritskoða sig sjálft; að það láti hægt og rólega undan öllum þrýstingnum:
VARHUGAVERÐ ÞRÓUN (I)
Að verða, með tímanum, sinn eigin ákærandi.
Að hætta, með tímanum, að taka til varna.
Að gangast, með tímanum, við hverri falskri sök.
Að leggja, með tímanum, hrísinn á eigin hrygg.
Rétt í lokin: Talandi um rétttrúnað okkar tíma, ég verð að bæta við búti úr annarri bók Magnúsar, Húslestri, þar sem fjallað er í stuttu textabroti um bréf sem bóndinn Marka-Bjarni reyndi að senda djöflinum þar sem hann óskaði eftir því að hann gerði konu á næsta bæ ástfangna af sér:
GLÆPUR OG REFSING
[…] Sendibréf þetta fannst að nokkrum dögum liðnum, mýrarblautt og velkt. Var því komið í hendur kirkjunnar manna og beindust böndin fljótt að Marka-Bjarna. Töldu grandvarir Þingeyingar að þess háttar dufli við myrkraöflin skyldi mæta með ærlegu straffi, syndaþrjótnum til betrunar og öðrum til varnaðar. En sú var blessun Bjarna að galdrabrennur höfðu verið aflagðar í landinu í rúmar tvær aldir þegar þetta var, og honum því ekki hegnt með öðru en áframhaldandi piparsveinalífi þar í sveitinni.
Marka-Bjarna var með öðrum orðum „slaufað“ af sveitungum sínum, einsog sá refsidómur heitir nú á dögum á blómamáli, þegar snyrtileg slaufa er bundin á æru manna og hún send norður og niður með bögglapósti útskúfunarinnar. En ekkert varnaði því að áfram óx fjárstofn hins góða hirðis. Sauðkindin stóð utan refsiramma útlegðarinnar, þótt engin væri húsfreyjan á bænum til að deila fégróðanum með Marka-Bjarna.
Þetta er nú of djúpt fyrir mig!