Hver ætlar að ráðast á ritstjórann?
Enginn og í bili skálum við í kampavíni. Hugsað um endurreisn Alþingis á föstudagskvöldi. Senn verður ásýnd vefsins minna sjálfhverf
Kampavínið er í frystinum, það var steik í matinn og ég skrifa mínum góða lesendahópi kveðju eftir magnaðan fyrsta dag. Viðtökurnar fóru fram úr mínum björtustu vonum; ég er kominn í beint tölvupóstsamband við gríðarstóran hóp.
Þakka ykkur kærlega fyrir að taka þátt í þessu strax frá upphafi.
Eftir mikið strit í undirbúningi er nú ekki efasemdarþráður eftir í mér um að þetta sé framtíðin. Boltinn er farinn að rúlla og nú ætla ég að verja mínum kröftum í að þjóna ykkur vinum ritstjórans.
Ef til vill er hin mikla ánægja með þetta til marks um að öld einstaklingsins sé runnin upp í fjölmiðlun.
Það þýðir þó ekki að hinir ágætu stofnanamiðlar sem hingað til hafa þjónað þjóðinni hafi ekki staðið sig í stykkinu við að gera grein fyrir þessu nýja fyrirtæki mínu. Ég þurfti ekkert að væla um viðtöl!
Enginn veit neitt og allir eru bara að gera sitt besta
Minn gamli kollegi, lærifaðir og stólpi í íslenskri blaðamennsku Jakob Bjarnar sló á þráðinn hjá mér í morgun. Þar sagði ég: „Það er alltaf verið að draga fólk í dilka. Sem er ótrúlega ógjöful aðferð til að skilja veruleikann. Þar sem þú ert hluti af þessum hópi ertu vondur. Góður ef þú tilheyrir öðrum. Ég held að manneskjan viti ekki neitt, við erum að reyna að fóta okkur.
Án þess að ég sé að vera nein pínu-listhneigð-enginn-veit-neitt-og-allir-eru-bara-að-gera-sitt-besta-sjálfstæðisskvísa, þá stend ég við það að mannskjan veit ekki neitt.
Eins og hinn merki líbanski líkindajöfur Nassim Nicholas Taleb orðar það: „Við mennirnir með okkar takmörkuðu þekkingu og allt sem við getum ekki skoðað, séð eða kynnst, við leysum stóru flækjurnar með því að þjappa lífinu og heiminum niður í skýrar og handhægar hugmyndir.“
Ætli sé ekki rétt að berjast gegn þessari hvöt til einföldunar. Markmið ritstjórans er ævinlega að leita einhvers í ætt við sannleikann, frekar en að hamast við að renna stoðum undir hitt eða þetta hugmyndakerfi með því að sanna að sá sem víkur frá því sé vondur.
Mínir fögru bakhjarlar
Heimildin sló því réttilega upp í góðri frétt að ég leiti nú að ríkum og vondum bakhjörlum, en gömul samstarfskona mín Ragnhildur Þrastardóttir er þar blaðamaður. Það sem dreif ekki í viðtalið var skýring mín á því hvers vegna umræddir ríkir bakhjarlar yrðu helst að vera vondir. Það er vegna þess að það er fátt tortryggilegra en gott ríkt fólk. Í því sambandi hef ég tilhneigingu til að brjóta eigin reglur og sletta torþýdda orðinu „creepy.“
Síðan var þar haft eftir mér að ég hataði Alþingi, sem er öðrum þræði rétt eins og þingstörfin horfa við manni á þessari stundu. Alþingi núna: „Hrafnaþing kolsvart í holti“ (ísl. slappt). Alþingi eftir að það hefur verið endurreist á Þingvöllum, eins og ég og bróðir minn tölum fyrir: „Haukþing á bergi“ (ísl. dýrðlegt).
Bent hefur verið á ískyggilegan mun á þýðingu orðanna „lýðræði“ og „pólitík“ í huga okkar. Lýðræði er fagurt og frítt en pólitík er hálfógeðsleg. Lýðræði er það sem við vildum óska okkur, en pólitík er það sem við fáum. En er pólitík eitthvað annað en lýðræði? Auðvitað ekki. Lýðræði er þar með hálfógeðslegt líka, en það hefur gefist vel sem slíkt. Það er hins vegar hluti af mikilvægum mýtum samfélagsins að hefja það upp til skýjanna.
Hér á landi hefur það reynst vel og við erum lánsöm að verja ekki tíma okkar nú um mundir í að deila um grunnþætti lýðræðisins, eins og gert er beggja vegna Atlantshafs. Í þeirri umræðu er allt svolítið brjálað.
Og alls ekki frekara efni í föstudagspistil. En á meðan við erum að tala um lýðræðið, borgaðu mér (fjölmiðli) peninga, því þá bjarga ég lýðræðinu! (Epísk viðskiptahugmynd hjá fjölmiðlamógúlum að sannfæra fólk um þetta á sínum tíma þegar ég hugsa út í það).
Við sjáumst á mánudaginn kæru vinir ritstjórans. Vel að merkja. Ég var ávarpaður með þessum hætti nokkrum sinnum í dag: Ritstjórinn! Þetta byrjar sem grín, en áður en við vitum af festist þetta. Er það vel.