Hverjum heldur þú með í stríðinu?
Það veltur á ýmsu, aðallega upplýsingunum sem þér er leyft að sjá
X logar stafnanna á milli í hatrömmum deilum á milli íslenskra stuðningsmanna Ísrael og stuðningsmanna Palestínu. Gjörið svo vel, djúp heift ef ekki á stundum hreinlega hatur í garð samlanda okkar vegna málefnis sem er okkur ekki með beinum hætti skylt, allt í boði þróaðrar upplýsingatækni.
Ef maður er nógu ötull málafærslumaður getur maður látið hvaða málstað sem er ganga upp, en mest afvopnandi vopnið í svona umræðu eru auðvitað sögur fólks frá fyrstu hendi af því hve svívirðileg skepna andstæðingurinn er.
Maður getur til dæmis ekki annað en fyllst viðbjóði af frásögninni af þýskri konu á ferðalagi í Ísrael, sem Hamas-liðar myrtu og hreyktu sér af því með skrúðgöngu með líkið á pallbíl.
Síðan er það hin hliðin. Í þessu myndbandi heldur Íslandsvinurinn (eins og Viðar Þorsteinsson í Eflingu kallar hann) og palestínski ráðherrann fyrrverandi, Mustafa Barghouti, því fram að í fyrsta lagi séu Palestínumenn ekki að beina spjótum sínum að almennum borgurum og svo í öðru lagi að þvert á móti séu einmitt Ísraelsmenn að gera það.
Með árásum sínum á íbúðarhús hafi Ísraelsmenn til dæmis þegar valdið því að níu manns hafi látist í einni fjölskyldu og tíu manns í annarri fjölskyldu. Maður hlýtur að fyllast einnig viðbjóði við að heyra það.
Svona persónulegar frásagnir gera alla yfirvegaða umræðu um það hvernig Íslendingum ber að nálgast þessa deilu vandasama, enda verður mönnum mjög svo skiljanlega heitt í hamsi. En hvað eiga menn að gera, stríð er í grunninn ávallt persónulegur harmleikur fyrir hlutaðeigandi.
Varist upplýsingaóreiðu! (Sem hugtak)
Eins illa og það lætur okkur líða að innbyrða þessar frásagnir, þá mætti halda því fram að við þurfum á þeim að halda til að geta lagt mat á þróun mála. Ef ekki væri hins vegar fyrir internetið og samfélagsmiðla væru okkur að berast mun takmarkaðri og mun ritstýrðari upplýsingar.
Við fall Sovétríkjanna voru Bandaríkin líklega öflugasta ofurveldi mannkynssögunnar og Vestur-Evrópa sáttur bandamaður. Allt lék í lyndi. Á sama tíma og Bandaríkin glutruðu síðan niður áhrifum sínum víða um heim áratugina á eftir, umbylti internetið upplýsingamiðlun mannkynsins. Líklega hangir þetta líka saman, en það er flóknara mál.
Stjórnvöld beggja vegna Atlantshafs vöknuðu upp við vondan draum kannski fyrir um áratug síðan og áttuðu sig á að með nýrri upplýsingatækni, interneti og samfélagsmiðlum, væri verulega mikið erfiðara að sannfæra fólk um hinn almenna góða málstað ríkisvaldsins.
Tengsl ríkisvaldsins við hina hefðbundnu fjölmiðla höfðu verið kurteislega traust fram að því en með samfélagsmiðlum opnuðust nýjar flóðgáttir sem hefur reynst erfitt að hemja.
Margir áttuðu sig ekki á þessum breytingum fyrr en heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á hér um árið. Stjórnvöld sýndu þar víða um heim að þeim er frjáls tjáning á netinu ekki mjög að skapi ef hún stangast alvarlega á við þeirra málflutning. Tilraunir hafa staðið yfir til að hemja eða jafnvel loka umræddum flóðgáttum.
Jafnvel á stöðum eins og Íslandi, þar sem vel yfir 90% landsmanna treystu meira og minna öllum upplýsingum sem komu frá stjórnvöldum, var forsætisráðherra svo innblásinn af erlendum starfsbræðrum sínum og systrum, að hún lét vinna gífurlega umfangsmikið starf til að kanna „umfang upplýsingaóreiðu um COVID-19.“
Það reyndist auðvitað sóun á skattfé enda kom lítið upp úr dúrnum. Í þessari vinnu var þess sem betur fer enn vandlega gætt að tala aðeins um að „kortleggja“, „efla aðgát“ og „stuðla að vitundarvakningu“ en aldrei að stöðva útbreiðslu upplýsinga með stafrænu handafli. Vissulega voru fjölmiðlar þó hvattir til að leita til stofnunar á vegum ríkisins, Vísindavefsins, til að „sannreyna“ upplýsingar.
Hver mótmælir aukinni vernd barna?
Í Evrópusambandinu eru aðgerðir á þessu sviði komnar mun lengra. Vorið 2022 var leiddur í lög pakki undir yfirskriftinni „Digital Services Act“ – pakki sem var kallaður eins konar evrópsk stjórnarskrá fyrir netheima. Innleiðingarferlið er sagt hafið hér á Íslandi, þótt ekki komi fram til hvaða þátta löggjafarinnar það tekur.
Stafrænulögin eru mikil hagleikssmíði, enda var yfirlýst markmið þeirra í grunninn þrískipt; að vernda fólk og börn frá ólöglegu efni á netinu, að tryggja hagsmuni neytenda gagnvart auglýsendum og loks að berjast gegn upplýsingaóreiðu.
Hver vill ekki vernda börn gegn ólöglegu efni og hver vill ekki aukinn rétt neytenda? Ef þú ert á móti aðgerðum gegn upplýsingaóreiðu, þá viltu líka varnarlaus börn!
Það, þótt aðgerðirnar gegn upplýsingaóreiðu séu sumar harla vafasamar. Í löggjöfinni er til dæmis kveðið á um að stórum tæknifyrirtækjum beri skylda til að fjarlægja „skaðlegt“ efni samkvæmt skipun frá stjórnvöldum með skömmum fyrirvara, ella geti þau vænst sektar upp á 6% af árstekjum sínum.
Því skal alls ekki neitað hér að sitthvað viturlegt leynist í þessum nýju lögum um þessa ógagnsæju tækniofurrisa. En þegar kemur að stórauknum heimildum stjórnvalda til að ritskoða efni með svo beinum hætti, ber að staldra við.
Í góðri samantekt Die Welt er bent á að með þessum heimildum stafrænulaganna geti stjórnvöld einnig hæglega látið tæknifyrirtæki loka á löglegar fréttagreinar í alvöru miðlum, ef þau telja þær raunverulega skaðlegar. Í greininni er rætt við talsmann þýskra fjölmiðlasamtaka, sem segir að hér geti orðið til nýtt skrifræðisskrímsli undir beinni stjórn stjórnvalda.
Hrein og klár afturför fyrir málfrelsi, með öðrum orðum. Í því sambandi er líka bent á þá afhjúpandi Control-F-staðreynd löggjafarinnar, að aðeins einu sinni er minnst á hugtakið „fjölmiðlafrelsi“ í öllum textanum. Á móti kemur er þrettán sinnum á 102 síðum minnst á „upplýsingaóreiðu“. Hvort skiptir þá meira máli?
Lýðræðisríki inspírera einræðisríki
Mér finnst ekki gaman að þurfa að hafa uppi svona Óla-Björns-Kárasonar-lega frasa, en vegurinn til heljar er í alvöru varðaður góðum ásetningi, eins og einmitt þeim ásetningi að „berjast gegn hatri“.
Veigamiklir þættir í stafrænulögunum evrópsku höfðu verið innleiddir í þýsk lög áður en þau voru samþykkt í Evrópusambandinu. Sú löggjöf Þjóðverja átti að tryggja aukna ritskoðun efnis á t.d. Facebook og YouTube einmitt í nafni baráttunar gegn hatri.
Það er síðan lýsandi að sú löggjöf Þjóðverja aflaði sér strax öflugra stuðningsmanna um víða veröld. Í úttekt dönsku lögfræðihugveitunnar Justitia er það rakið að í minnsta lagi þrettán ríki víða um heim hafi innleitt ákvæði þýsku löggjafarinnar í sínar eigin reglur um tjáningu á netinu.
Þar á meðal eru ríki á borð við Rússland, Indland, Kenía, Filippseyjar, Venesúela og Malasía, sem hafa nýtt sér þessi ákvæði í baráttu sinni við til dæmis falsfréttir, áróður gegn stjórnvöldum og hatursorðræðu.
Þýskaland gengur sem sagt á undan með góðu fordæmi. Hér stendur þessi góða fullyrðing: Einræðisríki eru að herma eftir ófrjálslyndum lögum sem eru samin í frjálslyndum lýðræðisríkjum.
Í upptöldum vondum, illum einræðisríkjum blasir við okkur hve hæpnar svona ofsóknir gegn frjálsri tjáningu eru, þótt yfirlýstur ásetningur sé góður, ekki satt? Af hverju þá ekki hjá okkur sjálfum?
Hvað eru skaðleg skilaboð?
Nú þegar Ísrael og Palestína eru formlega komin í stríð, flæðir yfir okkur magn upplýsinga frá báðum hliðum sem miða að því að sannfæra okkur um annan hvorn málstaðinn.
Í ljósi stafrænulaga Evrópusambandsins og breyttra viðhorfa frjálslyndra lýðræðisríkja til frjálsrar tjáningar, er ekki úr vegi að ímynda sér að önnur hliðin í þessu máli myndi hægt og rólega hverfa okkur sjónum á samfélagsmiðlum, eða í öllu falli að það myndi mjög fjara undan henni, ef evrópsk stjórnvöld færu að aðhafast sérstaklega í málinu.
Það yrði líklega hlið Palestínumanna. Eða er ekki mjög auðvelt að komast að niðurstöðu um að skilaboð hryðjuverkasamtakanna Hamas séu í eðli sínu „skaðleg“ og að Ísrael sé aðeins að verja sig?
Og áður en stuðningsmenn Ísrael ylja sér við tilhugsunina um slíka þöggun, skulu þeir af prinisippástæðum reyna að sjá fyrir sér aðra (vitaskuld ólíklega) geópólitíska stöðu, þar sem Evrópusambandið hefði hag af því að styðja frekar við Palestínu í þessu stríði. Væri þá ekki auðvelt að halda því fram að ofbeldisfull nýlendustefna Ísraelsmanna í Palestínu væri „skaðleg“?
Í dystópísku samfélagsmiðlaumhverfi undir algerri stjórn stjórnvalda sæjum við kannski engar fréttir um lík þýska ferðamannsins, heldur aðeins viðtöl við palestínska ráðherra. Eða öfugt. Við sæjum einfaldlega það sem ríkisvaldið leyfði okkur að sjá. Og þótt við teljum okkur sérlega þróaðar vitsmunaverur, er upplifun okkar af stríði aldrei æðri en upplýsingarnar sem við fáum.
Þetta er rétt að byrja
Af hverju ætti ríki, sem getur það með einum tölvupósti, ekki að láta fjarlægja efni af samfélagsmiðlum sem er tilfinnanlega andstætt markmiðum þess? Af siðferðislegum ástæðum? Naumlega.
Ríkisvald hefur sjaldnast annað að leiðarljósi en eigin hagsmuni. Þess vegna á það að hafa takmarkað vald.
Ég tel að á næstu árum munum við þurfa að horfa upp á harða baráttu ríkisvalds gegn tæknifyrirtækjum, þar sem yfirlýst markmið ríkisvaldsins mun heita barátta gegn upplýsingaóreiðu, falsfréttum og hatursorðræðu.
Undirliggjandi markmiðið verður eftir sem áður að færa þegnana úr kaótísku opnu upplýsingaflæði nútímans og aftur inn í lokuð áróðurskerfi. Þau kerfi reyndust mjög áhrifarík á 20. öld – alls ekki síst einmitt á styrjaldartímum.
Er til of mikils mælst að fá hljóðfælinn á spotify?
Er Ritsjórinn ekki að hunsa stærsta vandamálið í þessu samhengi?