Íslenski draumurinn
Nú þegar húsnæðiseigendur standa margir frammi fyrir mikilli hækkun á greiðslubyrði hafa stjórnvöld ekki aðra lausn en að ýta fólki út á leigumarkað.
Að baki er afar skemmtileg helgi; vorum að hittast allir frambjóðendur Miðflokksins á laugardag og fara yfir helstu mál, og svo var ýmislegt háleynilegt brallað núna í gær. Þið sjáið afrakstur þess von bráðar.
Viðbrögðin við framboðinu og ýmsum viðtölum hingað til hafa verið afar góð úr allflestum áttum og ég hvet ykkur lesendur mína hér til að hafa samband við mig ef þið eruð ánægð með framtakið og viljið jafnvel leggja baráttunni lið. Þetta eru mikilvægar kosningar og við þurfum að fá alla um borð ef bjarga á landinu.
Annars, elskulegir lesendur, hér er þessi grein, sem birtist í Morgunblaðinu um helgina (2. nóvember) en hefur elst ágætlega.
Upp úr tvítugu fer ungt fólk á Íslandi ýmist að leita æðri menntunar eða tínist inn á vinnumarkað. Fyrr en varir tekur að glitta í alvöru lífsins. Það gengur ekki að búa hjá mömmu og pabba að eilífu og jafnvel gæti maður hreinlega hugsað sér að eignast sjálfur börn. Áður en maður veit af þráir maður ekkert heitar.
Þetta er gangur lífsins. Að axla ábyrgð í samfélaginu, finna sér hlutverk í gangverkinu, að ramba allt í einu á lífsförunaut, að stofna fjölskyldu og að eignast heimili. Gamanið er ekki búið! Það er rétt að byrja. Alvara lífsins er ævintýri lífsins. Ákveðin grunnatriði þurfa þó að vera í lagi svo að allt gangi upp.
Þjóðin vill búa í eigin húsi
Landsmenn hafa á þessari öld og þeirri síðustu lifað við það sem kalla má íslenska drauminn. Venjulegt fólk hefur átt raunverulegan kost á að kaupa sitt eigið húsnæði og búa þar við alvöru öryggi. Um 80% Íslendinga eru húsnæðiseigendur og það hlutfall er með því hæsta í heiminum. Þannig að þótt við köllum þetta íslenska drauminn hefur þetta verið íslenski veruleikinn.
Nú er þessi veruleiki þó að verða sífellt fjarlægari fyrir sífellt stærri hópi. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Sú helsta er stefna stjórnvalda. Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir og Framsókn hafa á undanförnum sjö árum unnið markvisst gegn þeirri hugsjón að fólk geti eignast eigið húsnæði.
Stjórnvöld breyttu um stefnu
Í stað þess að stuðla að því að fólk eignist eigið húsnæði, skapi alvöru eign, geti lifað góðu lífi með tilheyrandi utanlandsferð við og við, ágætum bíl og takmörkuðum áhyggjum af húsnæðisöryggi hafa aðgerðir hins opinbera flestar miðað að því að gera landsmenn upp til hópa að leiguliðum.
Allt ber að sama brunni. Ofuráhersla á sífellt hærri niðurgreiðslu stjórnvalda á leigu fólks í gegnum bætur, sem hækkar á endanum leiguverð, veruleg útgjöld ríkissjóðs til stofnunar leigufélaga og svo lagabreyting sem hleypir lífeyrissjóðum út í fjárfestingar í leiguhúsnæði.
Allt ber að sama brunni. Ofuráhersla á sífellt hærri niðurgreiðslu stjórnvalda á leigu fólks í gegnum bætur, sem hækkar á endanum leiguverð, veruleg útgjöld ríkissjóðs til stofnunar leigufélaga og svo lagabreyting sem hleypir lífeyrissjóðum út í fjárfestingar í leiguhúsnæði.
Nýjasta aðgerð stjórnvalda sendir síðan einna skýrustu skilaboðin, að banna fólki að nýta sér séreignarsparnað til að greiða niður húsnæðislán sín. Þessi möguleiki hefur reynst fjölda fólks afar vel í erfiðu efnahagsástandi. Dæmi eru um venjuleg hjón sem hafa getað greitt auka 62.500 krónur inn á lánið í hverjum mánuði. Það munar um minna.
Nú þegar húsnæðiseigendur standa margir frammi fyrir afar sársaukafullri hækkun í greiðslubyrði hafa stjórnvöld ekki aðra lausn en að ýta fólki út á leigumarkað. Þótt hver og ein aðgerð geti virst meinlaus út af fyrir sig eru skilaboðin öll á sama veg.
Þróunin er ekki bara tilfinning, heldur sýna gögnin þetta svart á hvítu. Á árinu 2022 runnu til að mynda aðeins um 40% af öllum húsnæðisstuðningi hins opinbera til eigenda. Meðaltal áranna 2003-2016 var rúmlega 80% í sama flokki. Hér varð því stefnubreyting.
Hagfræðingur stéttarfélagsins Visku hefur varað við því að á næsta ári verði stuðningur stjórnvalda við húsnæðiseigendur sá langminnsti á þessari öld. Með afnámi séreignarúrræðisins hverfur helmingur þess stuðnings í einu vetfangi. Í staðinn á að byggja meira leiguhúsnæði. Ekki er deilt um ágæti trausts leigumarkaðar en sú áhersla má ekki vera á kostnað séreignarstefnunnar, sem hefur reynst okkur vel.
Betra samfélag í eigin húsnæði
Þótt Miðflokkurinn vilji halda í skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lánin er meginsýn flokksins ekki sú að leysa eigi húsnæðisvanda með sífellt meiri beinum stuðningi eða inngripum stjórnvalda. Vandamálið hafa stjórnvöld sjálf skapað, meðal annars með lóðaskorti og óaðgengilegum byggingarreglugerðum.
Í þessu ástandi er engin furða að fjárfestar kaupi upp nýjar eignir í stórum stíl. Þau miklu uppkaup eru einkenni sjúkdómsins en ekki rót vandans, sem er framboðsskortur. Fjárfestar sjá einfaldlega langvarandi fyrirsjáanlegan skort í kortunum. Að fjárfesta í svo yfirgengilega eftirsóttri vöru í slíku ástandi er einfaldlega öruggt veðmál, ekki síst núna þegar vextir munu lækka með tilheyrandi húsnæðisverðshækkunum. Lausn þessa vanda fæst með því að lækka verðbólgu með því að hemja ríkisútgjöld og stórauka síðan framboð á húsnæði.
Ég tel að ef markaðnum verði leyft að bjóða upp á hina eftirsóttu vöru séreignarhúsnæði muni hann gera það. Ofuráhersla stjórnvalda á leiguúrræði brenglar ástandið og það með vöru sem nánast enginn vill. Aðeins 8% þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar. Langflestir vilja eigið húsnæði.
Fólk byggir upp betra samfélag í eigin húsi. Það hefur öðruvísi metnað fyrir nærumhverfi sínu. Stjórnvöldum hefur mistekist að útvega þennan möguleika og við í Miðflokknum teljum það fyrsta mál á dagskrá að taka rækilega til hendinni á þessu sviði. Blásum nýju lífi í séreignarstefnuna.
Leyfum fólki að nota séreignarsparnaðinn. Íslenski draumurinn á að vera fyrir fjölskyldur en ekki bara fjárfesta. Förum að byggja.