Jákvæð umfjöllun í Vikunni með Gísla Marteini
Það er frábært að þetta sé ímynd fólks af nútímamanninum
Ég horfði á nokkrar góðar mínútur af Vikunni með Gísla Marteini í beinni á föstudag. Halla T. forseti vor var furðufersk og talaði af sannfæringu um að samheldni, jákvæðni og kærleikur ættu að vísa veginn í okkar samfélagi. Fín skilaboð á tímum þar sem flestir láta voveifleg tíðindi í samfélaginu hafa töluverð áhrif á sig.
Svo var eitthvað tal um internetið og neikvæð áhrif þess.
Bergur Ebbi, einn gestanna, sagði meðal annars: „Við sjáum að það eru róstur í samfélaginu varðandi stjórnarsamstarf og fleira. Við erum að takast á um mjög mikilvæg mál, eins og varðandi hælisleitendur, innflytjendur og hvernig samfélagi við viljum búa í. Ég held að við hljótum að vera sammála um að fólk getur verið með ólíkar skoðanir á pólitík en að einhvers konar mildi, fyrirgefning, mennska og gæska hlýtur að vera leiðin í gegnum það.“
Lengra komst ég ekki í þættinum enda var eiginkona mín syfjuð eftir langa viku á vettvangi atvinnulífsins.
Komið hefur í minn hlut síðustu misseri að hafa það náðugt með yngri syni okkar yfir daginn og af þeim sökum hefur takturinn breyst aðeins hér á vefnum um skamma hríð. Það stendur nú til bóta, enda hef ég fundið viðeigandi vistunarúrræði fyrir drenginn.
Í morgun fékk ég svo ábendingu um að síðar í þessum sama spjallþætti hafi verið spilað innslag, þar sem fjallað var í gamansömum tóni um tilteknar hugarfarsbreytingar:
Berglind Festival fór að venju á stúfana og brá rannsóknarauga sínu í þetta sinn að karlmennskunni. Hún brá sér í líki íslenska nútímamannsins og upplifði hvernig lífið horfir björtum augum við þessum samfélagshópi.
„Víkingar vakna, guð er góður, kex er eitur og ég er bestur,“ segir nútímamaðurinn Berglind Festival. „Ég geri það sem ég vil, ég segi það sem ég vil, aðrir stjórna mér ekki og skoðanir annarra skipta mig ekki máli.“
Berglind Festival fer sem sagt í dulargervi hlaðvarpara og TikTok-ara, sem borðar ekkert nema kjöt. Þessi meistari segir það sem hann vill og talar meðal annars fjálglega um aðkomu konu sinnar að kaffihúsum. Þarna má meðal annars greina skuggamyndir af Aroni Kristni vini mínum, Bergþóri Mássyni bróður mínum og jafnvel mér sjálfum, í sakleysi mínu að tala um kaffihús.
Ert þú nútímamaður? Taktu þátt í frjálsri fjölmiðlun í landinu og fáðu efni sem aðeins er fyrir áskrifendur:
Grunnatriðið er eins og Berglind segir: „Karlmenn virðast vera að eiga sterka endurkomu eftir erfið ár. Víða um land eru menn að rísa upp, upphefja karlmennskuna og endurskapa sig sem nútímamenn.“
Allt er þetta sett fram í festivalskri satíru, en eftir að nokkur lög af kaldhæðni hafa verið flysjuð af efninu, eiga skilaboðin auðvitað að vera þau að þessi nýi nútímamaður er ekki æskilegt fyrirbæri.
Þeim sem benti mér á þetta innslag þótti nálgunin þar hafa stangast á við boðskapinn fyrr í sama skemmtiþætti um mildi og gæsku. Hann vildi meina að Berglind færi einmitt ekki mildum orðum um þennan nútímamann með vafasömu lífsviðhorfin.
Á verri degi kynni ég að leggja sama skilning í málið og sæi þá tilefni til að taka þessa þversögn sérstaklega til athugunar.
En ég horfði á innslagið og komst að annarri niðurstöðu. Hvað er í raun verið að segja um nútímamanninn þarna?
Hann les styrkjandi bókmenntir, er ánægður með málfrelsi á samfélagsmiðlum, velur holla næringu, stendur með sjálfum sér, heldur úti vinsælu hlaðvarpi og iðkar líkamsrækt.
Kemur í ljós að þetta er lofsamleg umfjöllun! Það er ekki hægt að taka henni illa. Hún er jákvæð frá upphafi til enda. Allt sem nútímamaðurinn í innslaginu gerir meikar sens.
Handritsteyminu gengur sem sagt ekki að finna trúverðugan höggstað á nútímamanninum. Ég sjálfur kom hins vegar auga á eitt atriði sem var að sönnu vafasamt í fari mannsins í innslagi Berglindar. Hann virtist vera starfsmaður Ríkisútvarpsins.
Það passar ekki. Nútímamaðurinn myndi alltaf telja eðlilegra að flytja sinn umdeilda hugmyndafræðilega boðskap í prógrammi sem almenningur væri ekki látinn niðurgreiða með þvingunargjöldum.