Katrín er í alvöru hættu
Fimm dagar eru til mest spennandi forsetakosninga á síðari tímum. Getur uppgangur Höllu Tómasdóttur heitið óvæntur ef hún hefur gert þetta áður?
Einstaka greinar eru færðar lesendum sem ekki greiða fyrir áskrift að www.ritstjori.is – þessi er ein af þeim. En ef þú vilt fá alvöru efni oft í viku, komdu í mjög ódýra áskrift:
Er mér að skjátlast með að þjóðin eigi eftir að kjósa Katrínu Jakobsdóttur þegar á hólminn er komið? Ég sagði hana svo göldrótta að henni tækist á undraverðan hátt að dáleiða jafnvel íhaldssama hægrimenn til fylgis við sig. Sem hún og gerir, en nægir það til þess að tryggja henni forsetaembættið?
Það er alls ekki öruggt. Mögnuð könnun Prósents fyrir Morgunblaðið:
Halla Hrund Logadóttir sækir á aftur, að því er virðist á kostnað Katrínar og líklega einnig á kostnað Jóns og Baldurs.
Nú hafna fræðimenn því að skoðanakannanir hafi mælanleg skoðanamyndandi áhrif, en ég fullyrði fyrir mitt leyti að ég skipti um skoðun við hverja skoðanakönnun. Skoðanakönnunin setur sviðið fyrir allar hugsanir manns um þessar kaotísku kosningar.
Er Halla Hrund kannski bara ásættanleg? er áleitin vangavelta þegar maður sér hana mælast efsta. Það er að minnsta kosti ekki gott fyrir sjálfsvirðinguna að ætla að sætta sig við hið óásættanlega.
Stóra fréttin í þessari könnun er þó ekki Halla Hrund, heldur nafna hennar sem er meistari þolinmæðinnar nú eins og í seinustu atlögu hennar árið 2016. Staðan var þessi í byrjun apríl, Halla Tómasdóttir með 4,3% fylgi:
Frelsi einstaklingsins
Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir eru mjög ólíkar. Halla Tómasdóttir var harðkjarnaviðskiptalífstýpa hér á árum áður og fór fyrir Viðskiptaráði á róttækum tímum fyrir hrun, talaði þar fyrir öllum helstu frjálshyggjupunktunum.
Arnar Sigurðsson frumkvöðull skrifar: „Var rétt í þessu að kjósa Höllu Tómasdóttur sem er eini frambjóðandinn sem á möguleika á að sigra Katrínu Jakobsdóttur. Katrín er drifin áfram af heift og hatri á frelsi einstaklingins, þ.m.t. mannréttindum á borð við atvinnufrelsi. Hún stendur í vegi efnahagslegra framfara og ber ábyrgð á hnignandi menntun íslenskra barna.“
Kannski fullbeinskeytt, en þetta eru sjónarmið. Katrín er í grunninn sósíalisti og ritstjórinn hefur heyrt það frá fólki í viðskiptum að það bindi ekki miklar vonir við Katrínu þegar kemur að því að beita sér fyrir íslenskum fyrirtækjum á erlendri grundu. (Það er verra, þar sem útflutningur skiptir máli í raunheimum).
Arnar er að kjósa taktískt, sem er sjaldgæft í fari Íslendinga. Þeir eru of einlægir! Ólafur Þ. Harðarson benti á það í viðtali á Samstöðinni að þegar Vigdís Finnbogadóttir keppti við Guðlaug Þorvaldsson á sínum tíma hafi legið ljóst fyrir að baráttan væri í raun aðeins á milli þeirra tveggja. Þrátt fyrir það stóðu stuðningsmenn Alberts Guðmundssonar (19.8%) og Péturs J. Thorsteinssonar (14.1%) þétt við bakið á sínum mönnum.
Ef allir andstæðingar Katrínar Jakobsdóttur (meira en 40% vilja ekki sjá hana sem forseta) hefðu útsjónarsemi til að fylkja sér að baki einum verðugum andstæðingi, ætti Katrín ekki séns. Hennar björgun er sem sé að Íslendingar kjósa ekki taktískt – hún deilir og drottnar.
Elíta og utangarðsmenn
Það yrði nokkuð sérstakur viðburður í okkar sögu ef Halla Hrund Logadóttir yrði í alvörunni forseti lýðveldisins, eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hún var lítið þekkt fyrir þessar kosningar, er rétt skriðin yfir fertugt og hefur enga reynslu úr stjórnmálum.
Það er eins og henni fyrirgefist reynsluleysið vegna þess að fólk vill fá einhvern sæmilega frambærilegan „utan elítu“. En af hverju er hún utan elítu? Er ekki markið sett inn í elítuna; loftslagsmál, Harvard, Arctic Circle, World Economic Forum? Ég á erfitt með að gleypa við þeim fágæta eðlisþætti í fari hinnar hjartahreinu Höllu Hrundar, sem fúlsar við allri elítu og sér ekkert nema „fólkið í landinu“. Hún hlyti að þiggja sætið ef það byðist.
Að öðru leyti… Ætli fólki finnist Baldur ekki bara fínn en alls ekki nóg. Jón Gnarr hefur ekki sýnt að hann eigi neitt erindi í forsetastól. Að því takmarkaða leyti sem fólk hefur áhuga á að fá utangarðsmann til að brjóta upp stemninguna á Bessastöðum, þá er Jón Gnarr ekki utangarðsmaður í neinum áþreifanlegum skilningi. Hann er frjálslynd elíta.
Ef einhver er utangarðsmaður í hugmyndafræðilegu tilliti er það Arnar Þór Jónsson, sem sækir lítillega í sig veðrið í könnunum. Hann er ekki í sömu kategóríu og efstu fimm, en hann er vanmetinn frambjóðandi sem syndir á móti meginstraumnum.
Arnar Þór skapar ákveðna lágmarkskjölfestu fyrir kjósendur sem hafa gleypt svörtu pilluna á ýmsum sviðum stjórnmála á undanförnum árum. Án Arnars Þórs sætum við uppi með afar einsleitan hóp frambjóðenda, þar sem enginn hefði húmor fyrir öðrum fjölmiðlum en RÚV og New York Times. Þótt Arnar komist augljóslega ekki á Bessastaði hefur töluvert verið lagt í að kynna hann í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og hann fer frá borði ágætlega vel búinn undir næstu þingkosningar.