Leiðinlegasti maður Íslandssögunnar hefur óvart rétt fyrir sér
Hvað verður um Vínbúðina þegar hún verður bara orðin hver önnur vínbúð? Dýrt að vera með óstarfhæfa ríkisstjórn
Ég skil vel ef þú, kæri lesandi, kemst ekki hjá því að fá vissan plebbahroll yfir auglýsingum netverslana með áfengi. Í öllum grundvallaratriðum er bannað að auglýsa áfengi á Íslandi en þó er það vitaskuld lykilatriði fyrir fyrirtækin, þannig að þeim er mikil vorkunn.
Það er mikil þversögn að ætla að auglýsa undir rós.
Þessi viðleitni verslana er ólíkt vel heppnuð eftir atvikum; sumar auglýsa sérstaklega að þær megi ekki auglýsa áfengi og aðrar reiða sig á Brandenburgarlega orðaleiki.
Þótt yfirbragð þessara auglýsinga sé yfirleitt ófullnægjandi, verður baráttuþrek verslananna ekki af þeim tekið.
Samkeppnin er ærin frá ríkisvaldinu og hér skulu lesendur hvattir til að temja sér, frekar en að býsnast yfir ólöglegum auglýsingum, að fá þennan sama plebbahroll yfir brotum sjálfrar áfengisverslunar ríkisins á þessum sömu reglum.
Gleymum því ekki að engin áfengisverslun hefur verið atkvæðameiri á auglýsingamarkaði í gegnum tíðina en einmitt ÁTVR og þeim herferðum hefur ekki síst verið beint að ungu fólki.
Árni Guðmundsson aktívisti
Á þessari stundu er það stundað af hörku að selja áfengi í smásölu í netverslunum, viðskipti sem komu í upphafi til vegna glufu sem heimilaði áfengissölu erlendra netverslana beint til íslenskra neytenda.
Menn fóru að nýta sér þá sömu heimild fyrir innlenda (en skráða erlenda) netverslun fyrir nokkrum árum og enn er álitamál hvort þessi viðskipti séu lögleg. Dómsmálaráðherra telur að svo sé og viðskiptin færast verulega í aukana.
Að mati þeirra sem fíla netverslun með áfengi er „leiðinlegasti maður Íslandssögunnar“ enginn annar en sjálfur „formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum“, maður að nafni Árni Guðmundsson.
Í mótmælaskyni gegn netverslun með áfengi, sem hann telur ólöglega, ákvað Árni á dögunum að kaupa kippu af bjór frá sitthvorri versluninni og gefa sig svo fram við lögreglu vegna lögbrotsins. Svo veitti hann viðtöl.
Ritstjórinn hefur auðvitað ánægju af allri borgaralegri andspyrnu af þessum toga, en hér þrái ég þó ekki það sama og Árni, sem vill að lögreglan taki við sér og fari að refsa fyrir téða netverslun.
Öllu heldur hallast ég að því, að minnsta kosti í einhverju óábyrgu skúmaskoti sálar minnar, að allt eins sé gott að lögleiða sölu áfengis fyrir einkaaðila með eðlilegum takmörkunum. Leyfa bara taugaeitrinu að flakka í matvöruverslunum, fyrst við ætlum að búa hér á annað borð. En þegar ég segi það, gæti ég reyndar alveg látið sannfæra mig um annað viðhorf.
Tapa fyrirtækinu og fá ekkert fyrir það
Það er rétt hjá Árna að eðlilegt væri að ríkið tæki af skarið og segði með lagasetningu hvað mætti og hvað mætti ekki. En það er fátt sem bendir til þess að Árna Guðmundssyni verði að ósk sinni um að löggjöf eða eftirlit með netverslun verði hert svo að nokkru nemi, enda svo margir farnir að stunda þessi viðskipti og neytendur virðast ánægðir.
Það er því einnig rétt sem Árni bendir á, að ríkisvaldið er í vissum skilningi að „mylja niður gildandi lög með afskiptaleysi.“ Það er nefnilega strangt til tekið ólöglegt að selja áfengi í smásölu í innlendum netverslunum.
En það mætti hæglega lögleiða það, svo að þessi fjöldi íslenskra fyrirtækja þyrfti ekki lengur að greiða tekjuskatt og endurskoðunarvinnu í til dæmis Frakklandi. Ef maður er stjórnmálamaður og vill breyta einhverju fyrirkomulagi, þá breytir maður lögunum. Maður byrjar ekki að segja að eitthvað ólöglegt sé ekkert það ólöglegt.
Dómsmálaráðherra má eiga það að hún er sögð undirbúa frumvarp sem heimilar alveg innlenda netverslun með áfengi. Árangurslíkur þess frumvarps eru þó nokkuð óljósar, enda virðist engin leið fyrir stjórnarliða að ná samstöðu um þennan málaflokk.
Hitt er víst, að ríkið má engan tíma missa. Eins og annar maður, Hermann Guðmundsson, sá þaulreyndi viðskiptamaður, sagði í viðtali í Þjóðmálum á dögunum: „Ég lagði til fyrir fimm árum að ríkið myndi auglýsa Vínbúðina til sölu og koma sér bara út úr þessum business. En nú stefnir allt í það að þeir muni bara tapa þessu fyrirtæki og fá ekkert fyrir það.“
Og hverjir tapa þá í raun? Skattgreiðendur, í þessu tilfelli mögulega sæmilega verðmætu vörumerki. Því að það er rétt að ef þróunin heldur áfram, og ég tala nú ekki um ef netverslun með áfengi verður formlega leyfð, verður Vínbúðin von bráðar verðlaus.
Hún er reyndar þegar rekin með tapi í áfengishlutanum (niðurgreitt með tóbakshlutanum) og eðli máls samkvæmt yrði einokunarleyfið sjálft ekki selt, þannig að við erum ekki að tala um mikil verðmæti hér, en samt. Allt er hey í harðindum.
Sama hvað manni finnst um einkasölu ríkisins á áfengi, er ljóst að ríkisvaldið þarf að hrökkva eða stökkva. Sýna afgerandi stefnufestu í málaflokknum. Líklegt…