Þessi tiltekna grein er opin öllum. Ef þú ert hrifin(n) af því starfi sem hér er unnið er rétt að þú íhugir vandlega að ganga í hóp áskrifenda ritstjórans gegn hóflegu gjaldi og styðja þar með við frjálsa fjölmiðlun í landinu:
Á dögunum birti kærunefnd jafnréttismála úrskurð sinn í máli sem snerist um ráðningu lektors við Listaháskóla Íslands árið 2022.
Þar var ung kona ráðin en ekki miðaldra karl, sem ætti undir öðrum kringumstæðum að vera kærunefnd jafnréttismála fagnaðarefni.
Svo var þó ekki í þessu tilviki.
Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að Listaháskóli Íslands hefði brotið jafnréttislög með því að ráða konuna í stað karlsins enda yrði „að telja að Listaháskólanum hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar fyrrnefndri ákvörðun hans.“
Jafnframt hafi ráðningarferlið hvorki verið hlutlægt né lotið málefnalegum sjónarmiðum.
Þegar þessi ráðning var kærð þurfti Listaháskólinn sem sé að verja nokkrum kröftum til að tína til öll þau gögn sem lágu fyrir um ráðninguna í von um að bera af sér þessar sakir.
Þegar allt var tekið saman hafði ekki tekist „að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar“ ráðningunni.
Því miður, Listaháskóli, gerið svo vel að greiða 250.000 krónur í málskostnað og, ef svo fer, miskabætur fyrir þann óleik sem þér gerðuð viðkomandi miðaldra karli. (Munum að það erum við skattgreiðendur sem borgum þær bætur.)
Þegar maður kemst ekki hjá því að fallast á að leiddar hafi verið líkur
Skólinn vildi greinilega frekar ráða ungu konuna en miðaldra karlinn, þrátt fyrir að miðaldra karlinn virðist samkvæmt gögnunum hafa margfalt meiri reynslu og menntun en konan. En var það vegna kyns hennar eða réðu önnur sjónarmið för?
Athugum að kærunefndin hefur ekki gögn sem staðfesta að kyn hafi ráðið för – en það er ekki nauðsynlegt til að dæma listaháskólann sekan. Það virðist nægja að kærunefndin fái ekki heldur gögn sem staðfesta að kyn hafi ekki ráðið för.
Sekt er sem sagt ekki beint sönnuð en málið er að sakleysi er það ekki heldur.
Sannarlega listrænt sönnunarmat:
Með vísan til þess að [ráðningarferlið hafi ekki verið hlutlægt né hafi það fylgt málefnalegum sjónarmiðum í samræmi við lög] verður ekki hjá því komist að fallast á að leiddar hafi verið líkur að því að mismunun á grundvelli kyns hafi haft áhrif á ákvörðun LHÍ um að ráða konuna, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Samkvæmt því kemur það í hlut LHÍ að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
Listaháskólanum mistókst að sýna fram á þetta – þannig að þar við situr: Það „verður ekki hjá því komist að fallast á að leiddar hafi verið líkur að því að mismunun á grundvelli kyns hafi haft áhrif á ákvörðun LHÍ um að ráða konuna.“
Hætta á bakslagi
Í úrskurðinum er farið ýtarlega í saumana á Hinu Rétta Ráðningarferli akademískra stofnana.
Það sem er ef til vill einna markverðast hér er að það fer ekki á milli mála að gerðar eru strangar kröfur til ráðningarferlis í listaháskólanum. Skólinn er enda sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt samningi við ríkisvaldið „samkvæmt skipulagsskrá“ – en er í raun ekki sjálfseignarstofnun „í atvinnurekstri“ eins og til dæmis Borgarleikhúsið.
Kærandinn heldur því sjónarmiði á lofti að til þess að skólinn fái opinber fjárframlög (sem hann reiðir sig nær alfarið á) þurfi hann að starfa í samræmi við háskólalög, og auðvitað jafnréttislög eins og önnur fyrirtæki í landinu. Úrskurðurinn virðist fallast á þetta.
Því getur skólinn ekki ráðið og rekið menn eins og atvinnurekandi á almennum vinnumarkaði, eins og hann vill þó sjálfur meina í þessum úrskurði.
Þar með virðist það vera skilningur kærunefndar jafnréttismála að listaháskólinn sitji í sömu súpu og hefðbundnar opinberar stofnanir, að þurfa að hlíta ægivaldi jafnréttislaga og annarra formsatriða hins opinbera vinnumarkaðar út í ystu æsar.
Þá er eins gott að skólinn taki það til sín og fari að lögum til að baka okkur skattgreiðendum ekki óþarfakostnað. Hér var það ekki gert og flumbrugangurinn við þessa ráðningu er með ólíkindum, eins og lesa má í úrskurðinum.
Jafnréttislög eru annars auðvitað kostulegt fyrirbæri sem hefur kostað skattgreiðendur töluverða fjármuni á undanförnum áratugum. Hvort raunverulegur ávinningur hafi hlotist af lagasetningunni er með öllu óljóst.
Ef farið hefði verið að jafnréttislögum í þessu tilviki hefði miðaldra karl verið ráðinn. Hefði það ekki verið alvarlegt bakslag? Og þó… kannski einmitt ekki – því að jafnréttislög banna mismunun á grundvelli kyns – sama hvers kyns.