Miðstýrt ríkishagkerfi og sannleikurinn um samfélagsábyrgð fyrirtækja
Illa heppnaður áætlunarbúskapur Seðlabankans og nýr forseti Argentínu sem vill leggja niður seðlabanka. Einnig: Dagur erlendrar tungu og brellan sem er „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja.“
Fréttir vikunnar á föstudegi eru lentar og þar er að finna þéttan pakka af öllu því helsta.
Seðlabankinn ákvað að þyrma Íslendingum og hækka ekki vexti að sinni vegna óvissunnar í Grindavík – en ástandið varpar ljósi á stöðu Íslendinga sem lifa við hagkerfi sem er í raun bara áætlunarbúskapur ókjörinna fulltrúa – miðstýrt hagkerfi. Nýkjörinn forseti Argentínu vill leggja niður seðlabanka Argentínumanna, hvað sér hann fyrir sér að komi í staðinn?
NOVA hélt upp á dag erlendrar tungu í viku íslenskrar tungu – hér er kallað eftir því að fyrirtæki eins og NOVA leggi minni áherslu á samfélagslega ábyrgð. Einnig er framkvæmd nánari greining á því hugtaki.
Hvað eiga Snoop Dogg og fréttastofa RÚV sameiginlegt og hvernig tengist það Gretu Thunberg? Og: Þrotabú Fréttablaðsins nær nýjum botni í leit sinni að peningum.
Hér er lauslega það sem sagt er í þættinum. Ef misræmi er á uppskrift og því sem sagt er, skal hafa það sem sannara reynist.
Ritstjórinn er í farsælu samstarfi í nafni málfrelsis við þrjú fyrirtæki sem velja að stuðla að frjálsri fjölmiðlun í landinu. Eitt þeirra er Þ. Þorgrímsson byggingavöruverslun. Meira en 80 ára saga af alvöru þjónustu við alvöru neytendur. Annað fyrirtæki er Domino’s Pizza, þú veist hvaða pizzur ég er að tala um, rótgróin íslensk matarhefð frá 1993. Og loks er það fjarskiptafélag fólksins: Hringdu. Gott verð – og þjónusta sem er þannig að ef þú spyrð vini þína á Facebook hvar þú átt að kaupa net, þá mun gáfaður nörd sem veit allt svara: Hjá Hringdu.
Samstarf við þessi góðu fyrirtæki gerir okkur kleift að færa þér fréttir vikunnar á hverjum föstudegi, þér að kostnaðarlausu.
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra. Í dag er föstudagur 24. nóvember 2023.
Verðbólga minnkaði lítið á milli mánaða í októbermánuði – hún er enn þá að minnka hægar en menn höfðu vonað – og ef ekki hefði verið fyrir óvissuna á Reykjanesskaga, hefði Seðlabankinn að öllum líkindum haldið áfram að hækka stýrivexti. Í staðinn standa þeir í stað – áfram í 9,25% og breytilegir vextir á húsnæðislánum þar með í kringum 10,75%.
Hart er lagt að íslensku viðskiptabönkunum að koma til móts við Grindvíkinga, sem eru nú í mikilli óvissu bæði með eignir sínar og framtíðartekjur. Rætt er um ýmis úrræði – niðurfellingu skulda, greiðsluskjól, lægri vexti og þar fram eftir götum. Bankarnir hafa þegar kynnt að vextir verði felldir niður í þrjá mánuði til að byrja með – en meira þarf líklega að koma til. Sumar kröfur í þeim efnum eru skynsamlegar, sumt er raunhæft og annað ekki. Staðan er einfaldlega mjög flókin.
Einfaldast væri auðvitað að fara þá leið sem Örn Arnarson blaðamaður á Viðskiptablaðinu leggur til á X, sem er nokkuð frumleg lausn : „Af hverju lækkar Seðlabankinn ekki bara stýrivexti á Grindvíkinga?“ Örn segir þetta auðvitað í grunninn í frústrasjón hægrimanns sem tekur því persónulega þegar bankarnir eru krafðir um aðeins minni yfirgang gagnvart viðskiptavinum sínum. En í leiðinni bendir Örn auðvitað á hið rétta, sem er að viðskiptabankarnir fylgja auðvitað bara Seðlabankanum í öllum meginatriðum. Seðlabankinn ræður.
Sannleikurinn er sá að íslenskir viðskiptabankar starfa aðeins að takmörkuðu leyti sem fyrirtæki á frjálsum markaði. Helsta varan þeirra, lánsfjármagn, er nefnilega algerlega háð verðstýringu Seðlabankans í formi stýrivaxta. Og við, rétt eins og þegnar annarra ríkja í sömu stöðu, erum gjörsamlega samdauna því að ríkisvaldið stýri verðinu á lánsfjármagni, einni allra mikilvægustu vöru í okkar hagkerfi.
Hinn líbanski líkinda- og talnaspekingur og stórhöfundur Nassim Nicholas Taleb bendir á í bók sinni Antifragile að ef þú myndir fara að venjulegum Bandaríkjamanni og leggja til við hann að sjálfstæð ríkisstofnun með miklar valdheimildir, sem þyrfti lítið að svara afskiptum kjörinna fulltrúa, tæki að sér að stýra verðinu á bílum, dagblöðum eða víni; þá myndi þessi venjulegi Bandaríkjamaður stökkva upp á nef sér og hrópa: “Kommúnisti! Ég vil ekki sjá þetta!” Sem svar við kommúnistaásökuninni mælir Taleb með að útskýra rólega fyrir Bandaríkjamanninum, að nú þegar sé svona sjálfstæð ríkisstofnun með miklar valdheimildir og mjög óháð kjörnum fulltrúum með einmitt þetta vald til að miðstýra verðlagningu lánsfjármagns með stýrivöxtum. Það er bandaríski seðlabankinn.
Það sama gildir um Ísland. Við búum við áætlunarbúskap ókjörinna sérfræðinga í Seðlabankanum, sem væri útaf fyrir sig kannski fínt ef niðurstaðan væri alltaf frábær. En hvernig líður okkur með niðurstöðurnar þessa dagana? Við búum við verðbólgu, sem orsakast líklega að stórum hluta af öfgafullum vaxtalækkunum sjálfs Seðlabankans í faraldrinum, og svo búum við núna við gífurlega íþyngjandi stýrivexti, sem er ætlað að leysa þetta vandamál sem Seðlabankinn tók þátt í að skapa.
Og ef þessi staða hljómar eins og Seðlabankinn viti ekki hvað hann er að gera, skoðaðu þá spádómsgáfu Seðlabankans á sviði verðbólgu. Valdimar Ármann fjármálaverkfræðingur og forstöðumaður eignastýringar hjá Arctica Finance fjallar um það á X að Seðlabankinn hefur verið með afleitar verðbólguspár frá 2020. Á öllum þessum tíma hefur bankinn ekki einu sinni náð því að spá verðbólgu eitt ár fram í tímann svo að spáin lendi einu sinni í námunda við það sem reynist síðan vera verðbólgan.
Valdimar birtir þessa mynd, þar sem við sjáum að spá bankans í febrúar 2022 var að verðbólgan í fyrsta ársfjórðungi 2023 yrði 3,7% – hún var 10%. Bankinn spáði 4,4% verðbólgu í lok þessa árs 2023 – en bent er á að hún verður líklega nær 7,9%.
Þetta eru allt vondar fréttir og svo eru fleiri vondar fréttir frá Seðlabankanum, ekki að við getum endilega tekið mark á þeim lengur, en þær eru að bankinn var að hækka spá sína fyrir lok árs 2024 úr 3,9% í 4,9%!
Næs. Þetta er sífellt að versna – sem þýðir að kannski séu vaxtahækkanirnar bara rétt að byrja. Seðlabankinn sagði einmitt í yfirlýsingu sinni á miðvikudaginn: „Þótt áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram benda verri verðbólguhorfur til þess að það gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar.“ Ah, gamla góða taumhaldið, taumhald peningastefnunnar – fallegt orð yfir fjárhagslega kyrkingaról um háls venjulegs launafólks.
Já við lifum sem sagt í áætlunarbúskap ókjörinna fulltrúa sem, af þessu að dæma, vita ekki alveg hvað þeir eru að gera, þótt auðvitað reyni þeir sitt besta. Kannski munum við einn daginn horfa til baka til misvelheppnaðra miðstýrðra fjármálakerfa eins og okkar og hugsa: Hvernig sætti fólk sig við þetta meingallaða kerfi? Hitt er þó líka víst að ef menn vilja koma á kerfum þar sem ríkisvaldið á ekki fyrsta og síðasta orðið, þá eiga þeir harðan slag fram undan.
Það er heldur ekki alveg víst hvað á að koma í staðinn eða hvort það verði betra, en hörðustu talsmenn dreifstýrðra rafmynta eins og Bitcoin halda því fram að vel sé hægt að reka hagkerfi án miðstýrðs seðlabanka. Hugmyndin um að minnka völd seðlabanka er auðvitað gömul, en Bitcoin-tæknin, bálkakeðjutæknin, er að mati sumra sú tækni sem gerir það mögulegt. Bitcoin sé gjaldmiðill sem geti í raun stýrt sér sjálfur. Og það eru ekki lengur bara cryptobræður í myrkum skúmaskotum internetsins sem halda þessu fram, heldur þjóðhöfðingjar vestrænna lýðræðisríkja, eins og nú síðast Argentínu. Hér er nýkjörinn forseti Argentínu Javier Milei, spurður út í Bitcoin. Brot.
Já, segir nýkjörinn forseti þessa 46 milljóna íbúa ríkis, “Bitcoin er náttúrulegt viðbragð við svikamyllunni sem eru seðlabankar og lagalegri einokun ríkisvaldsins á gjaldmiðlum, sem gerir því kleift að ræna þig í sífellu með skattlagningu sem er kölluð verðbólga.” Þetta segir forseti Argentínu. Eins og einhver sagði: Megir þú lifa áhugaverða tíma. Við virðumst vera að gera það. Reyndar þegar maður sér þetta þá er líklega ekki óumdeilt hjá Milei að allt hefjist þetta á Ítalíu á 15. öld en hann hefur rétt á sinni söguskoðun sem hagfræðingur. Nálgun hans er allavega bærilegri en á Íslandi, þar sem umræðan um rafmyntir er ekki þroskaðri en svo að stjórnmálamenn vita flestir ekki meira um þær en bara: “Já eru þær ekki geggjað óumhverfisvænar? Styð það ekki.”
Við höldum áfram að fylgjast náið með því hvað í ósköpunum gerist í Argentínu á næstu árum undir stjórn Milei – það er allrar athygli vert, þótt alls ekki sé víst að það verði nokkuð gott miðað við ástandið þar núna. Milei segir ýmislegt - og sumt sem hljómar klikkað í eyrum okkar í Evrópu. Þannig að við eigum eftir að sjá til hvort allt séu þetta bara orðin tóm hjá Milei, bara performans, eins og Ólafur Ragnar Grímsson hrífst greinilega af í fari Argentínumannsins. Sjáum smá brot - sem Ólafur deildi á X.
Nú förum við yfir í annað. Við vorum að spá hérna fyrir um verðbólguna við árslok 2024 - mikilvægari spurning er auðvitað alltaf: hver verður staða íslenskrar tungu við árslok árið 2024? Í síðustu viku héldu Íslendingar, íslensk fyrirtæki og íslenskar stofnanir upp á dag íslenskrar tungu hver með sínum hætti. Þar á meðal var ISAVIA - fyrirtæki í eigu ríkisins sem sér um rekstur Keflavíkurflugvallar - sem tilkynnti það með sérstakri viðhöfn á þessum degi að það ætlaði nú að láta af því sem má mögulega túlka sem lögbrot - hingað til hefur enska nefnilega verið ofar íslensku á upplýsingaskiltum í flugstöðinni, þótt lög kveði á um að íslenska sé mál stofnana sem veita almannaþjónustu hér á landi. “Keflavíkurflugvöllur hefur íslenskuna á loft” er yfirskrift tilkynningar ISAVIA á degi íslenskrar tungu – þar sem segir að nú verði íslenskan sýnilegri á flugvellinum - og í fyrsta sæti á öllum upplýsingaskiltum fyrir árslok 2024 – á heildina litið verði íslenskan „mikilvægur þáttur í upplifun gesta flugvallarins.“
Fjórum dögum síðar birtist næsta frétt á vef ISAVIA um nýja verslun ELKO í komusal flugvallarins. Myndir fylgja af nýju versluninni þar sem sjá má að ELKO býður upp á mikið úrval allt frá Phones, Gaming, Audio, Personal Care, Coffee Makers, Speakers og margt margt fleira. Ætli við þurfum ekki líka að bíða til ársloka 2024 eftir að þessi glænýja verslun hafi einhver minnstu einkenni þess, að vera á Íslandi.
Því hefur verið haldið fram að stærsta hættan sem steðji að íslenskri tungu séu viðhorf okkar sjálfra til tungunnar. Það er ekki galið. Á meðan ISAVIA virðist að minnsta kosti meina vel með sinni herferð, eru önnur fyrirtæki sem nálgast málið úr annarri átt. Símafélagið NOVA taldi ástæðu til þess að halda ekki upp á dag íslenskrar tungu þetta árið, heldur notaði fyrirtækið tækifærið í viku íslenskunnar til að halda upp á “dag erlendrar tungu” - sem var auglýstur grimmt á strætóskýlum og á samfélagsmiðlum. Dagur erlendrar tungu, sagði NOVA: „Í dag fögnum við fjölmenningu og upplifum allt það jákvæða frá ólíkum menningarheimum. Opinn hugur auðveldar okkur að læra nýja hluti, öðlast innsýn og upplifa nýja spennandi hluti.“ Dagur erlendrar tungu. Maður veltir því fyrir sér hvaðan eftirspurnin eftir svona átaki kemur, ekki sér maður fyrir sér að viðskiptavinir séu sérstaklega að kalla eftir því við fyrirtækið taki að sér að kenna þeim að vera víðsýnni og jákvæðari - ætli flestir vilji ekki bara kaupa hjá fyrirtækinu nokkur mánaðarleg gígabæt til að komast á TikTok – og óski ekki sérstaklega eftir hugmyndafræðilegu uppeldi í kaupbæti. Og þar fyrir utan eru skilaboðin óskiljanleg: Ef við ætlum að „virða ólíka menningarheima“, þýðir það að við eigum að taka upp erlent tungumál á Íslandi?
Sko. Ritstjórinn er í ýmsum skilningi íhaldssamur fjölmiðlamaður, þannig að hann er einmitt markhópurinn fyrir svona átak ef eina markmið þess er að láta íhaldssama fjölmiðlamenn bregðast hina verstu við, veita málinu athygli og hrópa “hvers konar þjóðníðingsháttur er þetta eiginlega - við eigum að slíta viðskiptum við svona fyrirtæki” og þar fram eftir götum. En í dag ætlum við ekki að bíta á agnið hjá NOVA og við ætlum ekki að stökkva upp á nef okkar. Við ætlum bara að hunsa þetta útspil, sem er náttúrulega misheppnað í sjálfu sér - það er enginn að tala um þetta. Nema jú kannski ég hér - en ekki meir, höfum ekki fleiri orð um þetta mál. Gleymum því.
Það er kannski eitt sem ég myndi vilja bæta við, líka svona í víðari skilningi: Ef svona átök eru dæmi um hina margumræddu „samfélagslegu ábyrgð” sem er alltaf verið að tala um að fyrirtæki eigi að sýna, held ég að ég vilji núna bara fá að biðja um að fyrirtæki hætti því bara alveg að sýna “samfélagslega ábyrgð” og fari aftur að einbeita sér BARA að því að skila hluthöfum sínum arði.
Því að „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“ snýst almennt ekki í raun og veru um að taka raunverulega ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut, heldur er „samfélagsleg ábyrgð“ í flestum tilvikum einfaldlega bara hluti af almannatengslum fyrirtækja. Samfélagslega ábyrgðin er í grunninn útgáfustarfsemi, sem felst í að þar er tekinn einhver nytsamur sakleysingi á sjálfbærnisviði, sem heldur raunverulega að hann sé að bjarga heiminum, það er það sorglegasta, og hann er látinn, þessi nytsami sakleysingi, semja árlega „sjálfbærni- og samfélagsskýrslu“ sem er ekkert annað en listilega orðuð samantekt um það að öll starfsemi fyrirtækisins á árinu hafi í raun smellpassað við stefnuskrá Vinstri grænna í umhverfis- og samfélagsmálum. “Obb, þvílík tilviljun! Við sem vorum ekki að gera þetta fyrir ásýndina - heldur fyrir samfélagið. Auðvitað, ef þetta þýðir líka að við kaupum okkur frið frá PC lífeyrissjóðum og ráðandi elítu í stjórnmálum og stjórnsýslu, þá er það auðvitað bara bónus.” Er þetta ekki bara í grunninn samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja?
Eins og ég sagði - ekki fleiri orð um þetta! Rapparinn Snoop Dogg gaf það út á föstudaginn í síðustu viku að hann hygðist leggja reykinn á hilluna – en hann hlýtur að vera einn þekktasti og ötulasti kannabisneytandi heims. Hann sagði á ensku „I’ve decided to give up smoke“ – ég hef ákveðið að leggja reykinn á hilluna. Og orðalagið er almennt; hann segir ekki: Ég er hættur að reykja maríjúana, hann segir: Give up smoke. Heimsmiðlar eins og CNN tóku þetta upp, lásu á milli línanna og sögðu rapparann hættan að reykja gras.
Síðan, örfáum dögum síðar birti Snoop Dogg myndband á X.
Já, þú náðir okkur Snoop. Kemur sem sagt eins og þið sáuð þarna í ljós að Snoop Dogg var ekki að tala um að hann væri hættur að reykja gras. Solo Stove kamínan – þeir lögðu reykinn á hilluna. Þetta var allt brella – og internetið féll fyrir henni. Snoop Dogg náði okkur. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa: “Snoop Dogg arinninn” hjá Solo Stove er uppseldur. They took out the smoke. Reyndar ágætis vöruþróun ef þú spyrð mig. Reyklaus arinn.
En sama hversu vel þetta tókst hjá Snoop Dogg núna - þá nærðu eiginlega bara að gabba fólk einu sinni með svona brellu. Næst þegar Snoop Dogg segist ætla að leggja reykinn á hilluna, mun enginn taka mark á honum – þetta er klassískt, þetta er sagan af Úlfi úlfi.
Og Úlfur úlfur er auðvitað víða… Sjáum fréttir RÚV frá því á mánudaginn.
Já, hversu oft höfum við ekki heyrt þetta – við erum alltaf á síðasta séns með að ná samstöðu í loftslagsmálunum. Við uppflettingu fann ritstjórinn þetta sama orðalag í grein Vísis frá árinu 2015 - þá var COP 21 í París síðasta tækifærið til að ná samstöðu ríkja, sem var reyndar sagt hafa tekist.
Síðasta tækifærið - já, þetta er smá eins og foreldrar þekkja, maður er að reyna að siða barnið til, það fær síðasta tækifæri, og svo hlýðir það samt ekki, þannig að þá fær það kannski annað síðasta tækifæri og jafnvel nokkur síðustu tækifæri í viðbót. Í yfirfærðri merkingu hérna eru alþjóðlegar valdastofnanir foreldrarnir og við valdalausir þegnarnir börnin – og stofnanirnar eru að ala okkur upp. Fallegt. Reyndar mörgum sem finnst raunverulega að þannig eigi samfélagið að vera byggt upp. “Síðasta tækifærið.”
Ég er auðvitað ekki að segja að hér sé ekki allt að fara til fjandans - það getur vel verið að svo sé og ef marka má ýmsa tölfræði er það bara alls ekki ósennilegt. En þeir sem hafa sig frammi á þessu sviði ættu kannski að temja sér aðeins varkárara orðalag, af því að svona heimsendaspár - síðasta tækifærið - þær geta náttúrulega elst nokkuð illa.
Ef þær eldast illa er reyndar alltaf hægt að gera eins og Greta Thunberg - talandi um íhaldssama fjölmiðlamenn, “ég þoli ekki Gretu Thunberg” – en já Greta Thunberg tók sig til hér um árið og eyddi gömlu tísti frá 2018 þar sem hún vísaði í fullyrðingu vísindamanns sem hélt því fram að ef við hættum ekki að nota jarðefnaeldsneyti á næstu fimm árum, myndu loftslagsbreytingar að lokum þurrka út mannkynið. Það er að segja: Við hefðum þá fimm ár til að hætta að nota jarðefnaeldsneyti, annars myndu, á einhverjum tímapunkti, loftslagsbreytingar þurrka út mannkynið. Þetta var 2018 og nú er 2023. Fimm ár liðin. Við erum enn að nota jarðefnaeldsneyti. Eins og einhver benti á, er mannkynið enn þá hérna á sínum stað – það eina sem er búið að þurrka út er tíst Gretu Thunberg. Ég veit ekki hvernig maður á að lesa í þetta, en þetta eru staðreyndir málsins.
Annað mál. Nú er svo komið að allir stærstu fjölmiðlar landsins eru í sinni starfsemi orðnir háðir ákvörðunum Úthlutunarnefndar Fjölmiðlanefndar um ríkisstyrki á hverju ári og jafnvel með þá styrki er staðan víða ekki falleg. Hún er alls ekki falleg hjá þrotabúi Fréttablaðsins, sem fór á hausinn fyrr á þessu ári, og þar með lauk þrautagöngu Helga Magnússonar fjárfestis sem eiganda miðilsins. Blaðið gjörsamlega hrundi til grunna á örfáum árum eftir að hann keypti það af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Ekki góð ákvörðun eftir á að hyggja hjá Helga að kaupa þennan ónýta prentmiðil. Hmm, ætli ég geti komið Íslandi inn í Evrópusambandið og komið út í plús í leiðinni? Neibb, alls ekki góð pæling. Eftir milljarðatap Fréttablaðsins á örfáum árum er staðan sú að meira að segja Samfylkingin er hætt að vilja fara inn í Evrópusambandið.
Nú, eftir gjaldþrot Fréttablaðsins og Hringbrautar voru ýmsar vísbendingar um að þrotabúið myndi koma sér undan því að greiða starfsmönnum einhver laun, eins og maður ímyndar sér þegar félagið er bútað niður til að halda áfram rekstri í ákveðnum einingum en aðrar eru settar í þrot. En fáir bjuggust líklega við að þrotabúið myndi ganga svo langt í bókhaldsbrellum að ekki aðeins greiða starfsfólki ekki áunnin laun – heldur líka fara aftur í tímann og rukka fólk um launin sem það þó fékk. Margrét Erla Maack, sem var sjónvarpskona á Hringbraut, og Njáll Gunnlaugsson, sem var bílablaðamaður á Fréttablaðinu, hafa bæði verið krafin um fleiri hundruð þúsund króna í endurgreiðslu, sem þau höfðu fengið í laun fyrir febrúarmánuð, Margréti Erlu krefur félagið um 700 þúsund krónur, einstæða móðurina. Svona framganga er auðvitað fyrir neðan allar hellur og á ekki að tíðkast á íslenskum atvinnumarkaði. Við vorum að tala hér um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja – ef hún er einhver, þá er hún þessi: Ef þú rekur fyrirtæki, tekur þú áhættuna.
Yfir í annað hér að lokum. Hárið er mikilvægt tákn fyrir karlmenn og hefur lengi verið… Við getum tekið frásögn frá Gasa-ströndinni fyrir langalangalöngu: Í Biblíunni var Samson dómari kraftmikill maður og óvinir hans áttu erfitt með að finna hvaðan kraftarnir komu, svo að þeir gætu komið höggi á hann. Tálkvendið Dalíla var send til hans og hún veiddi það upp úr honum að kraftarnir lægju í hárinu.
„Aldrei hefir rakhnífur komið á höfuð mitt,“ sagði Samson við Dalílu „því að ég er Guði helgaður frá móðurlífi. Væri nú hár mitt skorið, þá hyrfi afl mitt frá mér og ég gjörðist linur og yrði sem allir menn aðrir.“
Dalíla seldi þessar upplýsingar til óvina hans, sem skáru af Samsoni árið og náðu þar með að lokum að granda honum. Í þessari frásögn úr Gamla testamentinu er boðskapurinn einfaldur: Þú mátt ekki missa hárið.
Síðan hafa flestir karlmenn kviðið því að missa hárið og verða sköllóttir á einum tímapunkti eða öðrum. Á síðari árum er því fagnaðarefni að margir þeirra geta sveigt þau náttúrulögmál með sífellt fullkomnari hárígræðsluaðgerðum.
Ég ræddi í sérstöku viðtali á ritstjóri.is og í hlaðvarpi við Eirík Atla Hlynsson, sem er 27 ára íslenskur verkfræðingur og iðnaðarmaður sem á og rekur fjölskyldufyrirtækið Vinnumenn. Hann hefur tekið þennan boðskap Biblíunnar alvarlega því hann sest í nýju viðtali niður með ritstjóranum og ræðir mikið ferðalag sitt til Istanbúl í Tyrklandi, þar sem hann fór í sérstaka hárígræðslu.
Já meira um þetta mál í viðtalinu við Eirík á ritstjóri.is eða á hlaðvarpsveitum eða á YouTube Snorri Másson ritstjóri. Merkilegt fyrirbæri.
Fleira var það ekki hjá okkur í fréttum vikunnar að þessu sinni. Ég minni ykkur kæru áhorfendur á að skella ykkur inn á ritstjóri . is og skrá ykkur á póstlista minn. Þar getið þið líka komið í áskrift og fengið efni sem er bara fyrir áskrifendur, og um leið stutt við frjálsa fjölmiðlun í landinu.
Við sjáumst hér í fréttum vikunnar í næstu viku. Ég minni á samstarfsaðila þessa fréttaþáttar, Þ. Þorgrímsson, Domino’s Pizza og Hringdu. Ég minni líka auðvitað á kjörorð þessa fréttaþáttar – ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við sjáumst hér að viku liðinni – í bili, Guð blessi ykkur.
"Síðan hafa flestir karlmenn kviðið því að missa hárið og verða sköllóttir á einum tímapunkti eða öðrum. "
Hár er hégómi. Ritsjórinn ætti að taka bróður sinn til fyrirmyndar og raka af sér hárið - síðan lægi beinast við að endurkskíra hlaðvarpið "Snoðanabræður".