Þú veltir kannski fyrir þér þessi dægrin hvenær allt fór úr böndunum, venjulegt fólk skiptist í fylkingar og tók að saka hvert annað um barnagirnd á báða bóga vegna kynfræðslu í grunnskólum.
Þú veltir kannski fyrir þér hvers vegna það sem fyrir þér og þínum vinum eru augljós sannindi, kallar valdamikill álitsgjafi samsæriskenningu.
Þú veltir kannski fyrir þér hvers vegna hópur samfélagsins vinnur nú að því að umbylta málfræði íslenskrar tungu með bagalegum afleiðingum en óljósum ávinningi, meintu auknu jafnrétti.
Það er ekki nema von að þú veltir þessu öllu fyrir þér og svörin eru ekki alveg augljós. En einhver þeirra kunna þó að leynast í nýlegri greiningu sem bandaríski stjórnmálafræðingurinn Jonathan Askonas hefur gert á skilningi mannsins á veruleikanum á 21. öld.
Askonas heldur því fram að ósköp skýrt sé hvenær þetta fór úr böndunum, nefnilega einmitt með tilkomu internetsins.
Nýr hvati: Margar heimsmyndir, ekki ein stór sameiginleg
Kenning fræðimannsins er á þessa leið: Á 19. og 20. öld sköpuðust einstakar sögulegar aðstæður á sviði tækni, stjórnmála og menningar, sem gerðu manninum í fyrsta sinn í sögunni kleift að skapa nær fullkomið samkomulag um veruleikann fyrir gríðarstóra hópa með fáum frávikum.
Askonas talar um „consensus reality“, þar sem prenttæknin gegndi með sínum bókum og dagblöðum veigamestu hlutverki, enda gat fólk vart nálgast upplýsingar um veruleikann eftir öðrum leiðum.
Tilkoma internetsins (samfélagsmiðlarnir afhjúpa þetta núna, en þetta byrjaði fyrr) hefur brotið niður þær forsendur sem voru fyrir þessu samkomulagi. Dreifing upplýsinga á sér nú stað með dreifstýrðum hætti manna á milli, en ekki með miðstýrðum hætti frá stórum einingum, útgáfufélögum, til smárra eininga, fólks.
Nú höldum við inn í heim hinna fjölmörgu hliðstæðu veruleika að sögn fræðimannsins, þar sem samfélög geta orðið alfarið til á netinu, þrifist á netinu og hagað sér eins og gamaldags veraldleg samfélög; þau geta haldið utan um ný gildi, nýja heildstæða hugmyndafræði og alfarið nýja heimsmynd. Nýja trú.
Askonas segir að á meðan hvati fjöldafjölmiðlunar eins og við þekktum hana hafi verið að styrkja samkomulagið um veruleikann og festa það í sessi, sé hvatinn í netheimum að smærri einingar bjóði upp á nýja heimsmynd og fái fólk í áskrift að henni.
Samkomulag um veruleikann heyrir nú sögunni til samkvæmt Askonas, það er leiftur á horfinni öld. Samkomulagið var ómögulegt fyrir þessar tvær glæstu aldir og það verður ómögulegt eftir þær.
Framtíðin er aftur fortíðin, þar sem hver trúir á eigin drauga, nema nú finnur hann gögn á netinu sem sanna ótvírætt tilvist hans; næsti maður segir gögnin um drauginn „óvísindalegar“, upplýsingaóreiðu, falsfrétt. Allt er rétt.
Kynfræðsla í tveimur veruleikum
Greining fræðimannsins vekur von af því að stundum hleypir skilningur ljósi inn í veröld manns. En þróunin sem hún lýsir vekur mikinn ótta á meðal fólks.
Við horfum daglega upp á það sem líkist einfaldlega árekstrum á milli trúarhópa í íslensku samfélagi. (Nú fyrst öðlast maður skilning á því hvers vegna trúarflokkar börðust um landsvæði fyrr á öldum, en tókst ómögulega að lifa í sátt og samlyndi). Ég sé að minnsta kosti ekki hvað annað en trúarbrögð geta vakið slíkan trúarhita hjá fólki eins og kynfræðsla í grunnskólum gerir greinilega.
Þegar kynfræðsluplaköt fóru í dreifingu á netinu um daginn var skilningur fólks ólíkur; blóðheitir andstæðingar fræðslu Samtakanna 78’ í grunnskólum gengu sumir svo langt að ýja að því að slíkir hópar stundi það sem í bandaríska hægrinu er kallað „grooming“ – að tæla fórnarlömb á barnsaldri inn í kynferðisveröld fullorðinna í ógeðfelldum tilgangi.
Fulltrúar libbanna, frjálslynda trúarhópsins, sem telja þetta, skiljanlega, ekki markmið fræðslunnar, fundu ekki yfirvegaðri andsvör en að saka þessa mótmælendur kynfræðslu um einmitt það sama og þeim finnst svo alvarlegt að verið sé að saka fræðarana um; að vera einhvers konar barnaníðingar.
Svona malar áfram eilífðarvél hliðstæðra veruleika.
Hvað öll athugi
Stór spurning er síðan hvaða fylking með hvaða veruleikaskilning sölsar undir sig ríkisvaldið. Hver er heimssýnin þar? Er hún að byggja upp samheldið og gott samfélag með merka sögu? Eða er hún að standa fyrir viðvarandi heimsmeistaramóti í því hver er áhrifamesta fórnarlamb dagsins; hver er svo jaðarsettur fram á ystu nöf að hann hverfur okkur holdlegum verum sýnum og verður guðlegur?
Í því göfuga augnamiði að jafna ekki aðeins rétt karla og kvenna heldur jafnvel líka „sís karla og allra jaðarsettra kynja“ eins og RÚV orðar það, hefur hið nýja hvorugkyn náð töluverðri (þó vitaskuld aðeins yfirborðslegri) fótfestu á meðal þröngs en áhrifamikils hóps á undanförnum árum. Ekki allir, heldur öll, er grunnmynd þeirrar nýju málhefðar. Sum hafa getað vanið sig á að skrifa oftast svona, fá á að gleyma því ekki stundum og ekkert á að tala svona.
Þótt RÚV hafi leikið lykilhlutverk í að breiða út hið kynjaða hvorugkyn hefur stofnunin ævinlega svarið af sér að það sé viljaverk. Fréttamenn ráði þessu hver fyrir sig. En nú hafa orðið þau tíðindi að fordæmi af sama toga kemur einnig frá sjálfri Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Gísli Sigurðsson, einn þaulsetnasti fræðimaður stofnunarinnar, skrifaði pistil í laugardagsútgáfu Morgunblaðsins á dögunum og þar vekur eftirtekt að tekið er upp hið nýja hvorugkyn: Gísli segir „mörg“ komin með æfingu í útlensku eftir ferðalög um landið í sumar. (Ótengt mál, en er það gleðiefni?) Og „hvað allir athugi“, orð frá bæjarfógetanum í Reykjavík 1848, verða í skrumskælingu Gísla „hvað öll athugi.“
Nú er Gísli auðvitað ekki berum orðum að hvetja til þess að fólk breyti tungumáli sínu til samræmis við hans tungumál, kannski er hann bara að ögra „karlakörlum“, en ef maður ákveður að vera smámunasamur um eins stórt mál og íslenska tungu, þá er auðvelt að benda á að í íslenskum lögum segir að hlutverk Árnastofnunar sé meðal annars að „veita ráðgjöf og leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli.“
Þannig að ef maður lítur svo á að útgefið efni rannsóknarprófessors stofnunarinnar feli í einhverjum mæli í sér slíka „leiðbeiningu um málfarsleg efni“ og ef ríkisvaldið er þar með farið að veita fyrirmæli um kynjamál, hvað verður þá um okkur í hinum veruleikanum, sem neitum að svíkja eigin tungumál?
Sigfús Daðason stórskáld og spámaður bauð okkur í einu og sama ljóði tvær leiðir á krossgötum eins og þessum: „Að segja alltaf færri og færri orð.“ Leið sem margir velja og er ef til vill réttlætanleg á þessum síðustu og verstu tímum. En hinn valkostur Sigfúsar er meira uppörvandi: „Að gefast ekki upp í leit okkar að efnafræðilega hreinu tungumáli til að nota í laumi.“
Netríkið
Ný öld hliðstæðra veruleika dregur menn ekki aðeins í dilka heldur dregur hann dilk á eftir sér. Þetta er ekki bara leikur að skilgreiningum. Að sögn Askonas voru prentvélarnar helsta stoð þjóðríkisins sem ríkjaskipulags og þegar við slökkum á prentvélunum sé hætt við að annað skipulag byggt á nýrri tækni taki við.
Á þeim nótum talar hinn djúpvitri tæknifrömuður Balaji Srinivasen í bók sinni The Network State: How to start a New Country. Balaji hefur gefist upp á Bandaríkjunum, á þjóðríkinu sem skipulagi og segir framtíðina felast í netríkinu.
Listakonan Erna Mist lýsti í ágætri grein á dögunum vandræðum okkar í allri pólaríseringunni og skrifin voru jafnvel ausin lofi af mögulegum næsta formanni Sjálfstæðisflokksins. Inntak greinarinnar er að pólarísering sé vandamál og að manni beri skylda til að bregða sér út úr bergmálshellinum endrum og eins.
Nefndur Balaji hefur annað sjónarhorn og telur að pólaríseringin á Vesturlöndum sé komin handan fyrirgefningar og hefur sagt að pólaríseringin sé í raun góð – hún þýði að minnsta kosti að þú getir skipulagt þig.
Í draumaheimi gætum við Íslendingar skipulagt okkur pólaríseraðir í nokkurn veginn sama liði. Í draumaheimi gætum við áfram reynt að deila nokkrum grundvallarþáttum í okkar eigin hliðstæða veruleika.
Í draumaheimi gætum við komist aftur að samkomulagi um veruleikann en eitthvað segir mér að þessi vegur að heiman sé ekki vegurinn heim.