Passaðu þig hvað þú ert með í símanum
Fyrirhuguð hert löggjöf um hatursorðræðu á Írlandi tekur ekki aðeins til efnis sem þú deilir, heldur líka efnis sem þú hefur í vörslu þinni. Þróunin er víti til varnaðar.
„Ef einhverjir velktust enn í vafa, ætti þeim nú að vera orðið það ljóst að löggjöf okkar um hvatningu til haturs er orðin úrelt á tímum samfélagsmiðla,“ er haft eftir forsætisráðherra Írlands í fjölmiðlum.
Ritstjórinn hefur hér vikið nokkuð að aðgerðum vestrænna, „frjálslyndra og lýðræðislegra“ yfirvalda til að stemma stigu við því sem kallað er hatursorðræða, en er í mörgum tilvikum einfaldlega of mikil tjáning borgara sem ekki passar við pólitíska sýn yfirvalda.
Nýjasta dæmið kemur frá Írum, þar sem yfirvöld hafa nú boðað flýtimeðferð á nýrri löggjöf um hatursorðræðu í ljósi mikilla óeirða á götum Dyflinnar undanfarna daga.
Óeirðirnar áttu upptök sín í lífshættulegri árás á grunnskólabörn fyrr í vikunni, þar sem árásarmaðurinn reyndist vera af algerskum uppruna, þótt hann hafi haft írskan ríkisborgararétt og hefði búið þar í meira en tuttugu ár.
Uppþotsmönnum, sem er í nöp við þann mikla fjölda innflytjenda sem streymt hefur til Írlands á undanförnum árum, hugnaðist þetta tilefni til að efna til ofbeldisfullra mótmæla gegn stefnu stjórnvalda, sem hlýtur að teljast ógeðfelld og vanstillt leið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Ólöglegt að hafa „hatursfullt efni“ í símanum
Yfirvöld hafa skiljanlega tjáð sig af mikilli hörku gegn framferði mótmælenda og fjöldi þeirra hefur verið handtekinn fyrir óspektir og ofbeldi. En þau viðbrögð öll væru vart í frásögur færandi ef ekki væri fyrir áform stjórnmálamannanna um að sæta nú lagi og breyta lögum um hatursorðræðu.
Þær hugmyndir stjórnvalda eru ekki nýjar, heldur hafa þær verið í burðarliðnum um nokkurt skeið. Frumvarpið hefur mætt töluverðri mótstöðu en nú þegar ákveðið neyðarástand ríkir, á það að styrkja málstað þeirra sem vilja koma því í gegn.
Hin nýja löggjöf myndi færa yfirvöldum töluvert aukin völd til að sækja fólk til saka fyrir tjáningu, en ekki aðeins tjáningu, heldur líka stafræna vörslu efnis, greina, mynda, myndbanda og meme-a, sem flokkast að mati dómstóla þá stundina sem „hvatning til haturs.“
Í tíundu grein laganna segir að það varði við tveggja ára fangelsi að hafa „hatursfullt“ efni í vörslu sinni og að hinn ásakaði þurfi, til að sanna sakleysi sitt, að sýna fram á að hann hafi ekki haft í hyggju að dreifa efninu.
Það má hafa það til persónulegra nota, en almennt virðist gengið út frá að menn hafi efni í vörslu sinni til að svo dreifa því. Að svo sé ekki þarf hinn grunaði að sanna sérstaklega.
Enn fremur þurfa menn ekki einu sinni að hafa ætlað sér að hvetja til haturs heldur er út af fyrir sig refsivert að vera „gálaus“ um að hvatt sé til haturs með efninu sem þú dreifir eða hefur í vörslu þinni. Þú þarft að gæta þín sérstaklega á hverju þú deilir, því það varðar við fimm ára fangelsi.
Íslensk hatursorðræða
Þetta er aðeins brot af fyrirhuguðum refsingum og þessi lög voru samþykkt með miklum meiri hluta í neðri deild írska þingsins fyrr á þessu ári. Þau bíða enn samþykktar í efri deild þingsins. Forsætisráðherrann hefur sagt að nú, í ljósi ástandsins, verði að koma þessum breytingum til leiðar.
Margir hafa orðið til þess að benda á hve gífurlega varasöm þessi þróun er á Írlandi, enda eru engar fullnægjandi skorður reistar í þessari lagasetningu við pólitískri misnotkun stjórnvalda á þessum stórlega hertu refsingum við tjáningu af ýmsum toga.
Ritstjórinn ítrekar þá afstöðu sína að leiðin til almennrar upplýsingar og bættrar veraldar er mun heldur með frjálsum orðaskiptum borgara en ekki stórhertu eftirliti opinberrar löggæslu með tjáningu.
Á Íslandi hefur þessi þróun sem betur fer ekki gengið svona langt, en engu að síður hefur sitjandi forsætisráðherra látið hjá líða að fordæma þau ummæli þingflokksformanns síns, að gagnrýni á Vinstri græna séu hatursorðræða. Eins gott að sú orðræða varði ekki við fimm ára fangelsi.
Farið var ítarlega yfir samband Vinstri grænna við hatursorðræðu hér á sínum tíma:
Allt að 12 mánuðir í fangelsi fyrir að neita að opna símann sinn ef maður er grunaður um hatursorðræðu.
Einnig 12 mánuðir i fangelsi fyrir að neita ríkinu um að lesa skilaboð milli þín og maka þíns.
Þetta er geðveiki!
Þessi grein er hatursorðræða ;)