SKÚBB (og árétting): Arnþrúði VAR SLAUFAÐ
Athugið að fyrirsögnin er ádeila á slúðurmiðlana. Arnþrúði Karlsdóttur útvarpsstjóra var eftir allt slaufað af Samfylkingunni. Og: hvernig geta mistök ritstjórans sýnt fram á mikilvægi hans?
Þar hlaut að koma að því að ritstjóranum yrði á í messunni, að hann gerðist sekur um einn alvarlegasta glæp okkar tíma í hugum yfirvalda víða um heim, að hann flytti sannkallaða falsfrétt.
Mér til varnar var það óvart. Ég fékk ábendingu um það í morgunsárið frá ungum kóngi í Samfylkingunni að, öfugt við það sem haldið væri fram í fréttum vikunnar, hefði Arnþrúði Karlsdóttur sannarlega verið slaufað af viðburði hjá Samfylkingunni. Hann sagði mér að pallborði sem ég sagði hana hafa tekið þátt í, hafi verið breytt og að hætt hafi verið við að hafa Arnþrúði. Þetta hef ég nú fengið staðfest.
Athugum samt að innslagið stendur, enda eru grunnskilaboðin enn dagsönn að Samfylkingin hefur breytt pólitík sinni í leit að nýjum kjósendum. Flokkurinn mætir í viðtöl til Arnþrúðar. En Samfylkingin virðist þó vera að fara eilítið hægar í sakirnar inn á öfgamiðjuna en ritstjórinn dró rangar ályktanir um á grundvelli ófullnægjandi gagna. Það er enn þá ótti í mönnum við réttsýnu deildina í flokknum.
Þegar blaðamenn fá ábendingar um staðreyndavillur, eru fyrstu viðbrögðin vörn. Ef engum vörnum verður við komið á að taka við sársaukafull sjálfsskoðun – og svo skal játa ósigur sinn opinberlega og gefa út leiðréttingu, sem má kalla áréttingu ef maður finnur slíkan flöt á raunveruleikanum.
En það er sjaldgæft að svona svona mistökum fylgi valdefling. Sú var þó raunin þegar ritstjórinn gerði sín fyrstu mistök.
Ritstjórinn las nefnilega einhvers staðar í athugasemdakerfum að til þess að teljast sannkallaður fjölmiðill í almennt samþykktum (í grunninn einnig úreltum) skilningi, þyrfti maður að stunda það sem kallast „frumvinnsla frétta“. Á okkar tímum hefur þetta sannarlega orðið loðnara; er frumvinnsla fréttar að skrifa hana upp úr samfélagsmiðlum? Ekki alveg, að mati flestra. Menn líta almennt svo á að frumvinnsla frétta felist helst í að taka upp símann og hringja. Eða taka sjónvarpsviðtöl. Fá eitthvað nýtt staðfest og bera það á borð.
Ritstjórinn gerði sér í upphafi ekki grillur um að hann yrði endilega mjög mikið í „frumvinnslu frétta“ enda taldi hann sitt hlutverk frekar að setja almennt fyrirliggjandi atriði í skiljanlegt samhengi. Því var vitaskuld þráður í honum sem óttaðist að vera jaðarsettur af stofnunum samfélagsins sem „bloggari“.
Þar komum við aftur að máli Arnþrúðar. Fjölmiðlaumhverfi sem ekki segir frá því að stjórnmálaflokkur aflýsi viðburði vegna þrýstings, þarf greinilega á nýjum miðli að halda. (Talandi um nýstárlega fleti á raunveruleikanum, þau mistök ritstjórans að treysta fyrirliggjandi upplýsingum sanna mikilvægi hans!)
Vonbrigðin eru þó þau að þessi nýi miðill hér neyðist greinilega til að stunda einnig frumvinnslu frétta. Það er orðið ljóst að fyrirliggjandi upplýsingar sem ég hugðist reiða mig á hafa reynst brotakenndar, þannig að ég þarf að taka að mér frumvinnslu frétta samhliða túlkuninni.
Frumvinnslan er óttalegur barningur, þannig að þetta kallar eiginlega á að við færum út kvíarnar. Farið í áskrift og þá getum við ráðið blaðamenn í aukna frumvinnslu! Lofum að hafa þá ekki dauðhrædda þó, eins og sumir blaðamenn eru, því að dauðhræddur er það sama og dauður.
P.S. (og talandi um frumvinnslu) hér er svar frá Jóhanni Páli Jóhannssyni þingmanni Samfylkingarinnar til ritstjórans um ástæður þess að Arnþrúður tók ekki þátt í pallborðinu. Þið metið sjálf hvort þið takið mark á skýringunnni:
„Flokkurinn ákvað að nýta þennan vettvang á Fundi fólksins öðruvísi og bjóða núna upp á milliliðalaust samtal við formann um hvað hefur breyst í Samfylkingunni og hvert við stefnum, frekar en að fá utanaðkomandi álitsgjafa.“
P.P.S. Ótengt þessu máli öllu hafði Arnþrúður mín góða vinkona samband við mig fyrr í vikunni til að koma í viðtal á Sögu. Kíki þangað í næstu viku. Spenntur!
Þurfa saurþjapparar að stjórna öllu á íslandi?