Sannleikurinn um þriðju vaktina og lausn við klámvandanum
Fréttir vikunnar. Kvennaverkfallið var fyrirferðarmikið í vikunni og ritstjórinn neyðist á því sviði til þess að vera leiðinlegur í vondu skapi á meðan allir aðrir eru jákvæðir í góðu skapi.
Fréttir vikunnar eru á sínum stað á föstudagsmorgni. Horfa má á þáttinn strax hér að neðan.
Einnig má prófa að fara leið sem ritstjóranum hefur verið tjáð að margir stundi, að geyma sér þáttinn þar til um kvöldið og njóta hans þá í faðmi fjölskyldunnar í sjónvarpinu, hvort sem það er í gegnum YouTube eða X.
Kvennaverkfallið var fyrirferðarmikið í vikunni og ritstjórinn neyðist á því sviði til þess að vera leiðinlegur í vondu skapi á meðan allir aðrir eru jákvæðir í góðu skapi. Þar með rækir hann hlutverk sitt, annað en hinir miðlarnir! Jafnlaunavottun er gagnslaus.
Einnig fer ritstjórinn yfir framtíðaráform nýs fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins um að selja Íslandsbanka sama hvað það kostar. Loks förum við yfir nauðsyn þess að stofna mögulega íslenskan her, bara upp á stemninguna. Þetta og margt fleira.
Hér er þátturinn á X:
Hér er þátturinn á YouTube:
Hér er þátturinn á Spotify:
Lausleg uppskrift þess sem hér er sagt:
Ritstjórinn er í farsælu samstarfi í nafni málfrelsis við þrjú fyrirtæki sem velja að stuðla að frjálsri fjölmiðlun í landinu. Eitt þeirra er Þ. Þorgrímsson byggingavöruverslun. Meira en 80 ára saga af alvöru þjónustu við alvöru neytendur. Annað fyrirtæki er Domino’s Pizza, þú veist hvaða pizzur ég er að tala um, rótgróin íslensk matarhefð sem hefur verið að bjarga málunum frá 1993. Og loks er það fjarskiptafélag fjölskyldumannsins, fjarskiptafélag háskólanemans, fjarskiptafélag fólksins: Hringdu. Gott verð – og þjónusta sem er þannig að ef þú spyrð vini þína á Facebook hvar þú átt að kaupa net, þá mun gáfaður nörd sem veit allt svara: Hjá Hringdu.
Samstarf við þessi góðu fyrirtæki gerir okkur kleift að færa þér fréttir vikunnar á hverjum föstudegi, þér að kostnaðarlausu.
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni.
Þrjár stuttar fréttir áður en við förum í stór og mikilvæg mál.
Jarðskjálftar hafa mælst aftur á Reykjanesskaga, það er mögulega að koma gos, samt enginn gosórói enn þá, öllum er smá sama, þetta er samt alvarlegt mál í alvöru, það er gostímabil hafið á svæði þar sem er fullt af mikilvægum innviðum.
Innflytjendum fjölgaði aftur um rúmlega 10.000 á Íslandi á síðasta ári, eins og hefur gerst á hverju ári í nokkur ár núna. Þeir eru orðnir 18,4% íbúa á Íslandi, 70.000 manns.
Sagt var frá því að stjórnvöld hyggjast áfram niðurgreiða kaup fólks á rafbílum í nafni orkuskipta, sem er greinilega orðið þjóðaröryggismál líka ef marka má umhverfisráðherra. Nú eiga rafbílakaupendur að geta fengið allt að 900 þúsund krónum í styrk til að kaupa rafbíl, sem er mjög mikilvægt fyrir öll sem eru fjárhagslega jaðarsett. Það var yfirvofandi bakslag fyrir þau í rafbílamálum, en því hefur verið afstýrt.
Maður hefði haldið að efnahagsástandið væri letjandi fyrir frumkvöðla og að í svona árferði yrðu fá ný fyrirtæki til, en það er ekki svo. Fyrirtækið Heimavinna fyrir Cash hóf starfsemi í vikunni og eins og titillinn gefur til kynna bjóðast starfsmenn þess fyrirtækis til að taka að sér heimavinnu grunnskóla- og framhaldsskólanema gegn greiðslu. Fyrirtækið hefur greinilega á að skipa úrvalsnámsmönnum, því að það lofar endurgreiðslu ef unnið verkefni fær undir 6,5 í einkunn. Ritstjórinn er talsmaður verkaskiptingar og sérhæfingar í hagkerfinu og svona útvistun verkefna fellur vel að þeim sjónarmiðum. Við styðjum þetta, þótt þetta sé reyndar enn ein staðfestingin úr okkar samtíma á algjöru og endanlegu hruni klassískra mennta eins og við höfum þekkt þær á Vesturlöndum í þúsund ár og í staðinn er ekkert fram undan nema stafræn síörvun, tæknidýrkun og andlegur dauði. En enga neikvæðni! Við hvetjum áhorfendur okkar til að skoða Heimavinnu fyrir Cash. Passið bara að láta þau ekki vinna verkefnin of vel – kennarann ykkar gæti farið að gruna eitthvað.
Sjálfstæðismenn ætla greinilega alls ekki að gefast upp á að selja Íslandsbanka. Þið sáuð að Bjarni hætti sem fjármálaráðherra bara til þess að einhver annar gæti klárað þetta stóra mál, sem hann gat ekki klárað. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýr fjármálaráðherra hyggst halda áfram að selja bankann, sama hvað það kostar. Kannski af því að hún vill selja vinum sínum bankann, eins og ómálefnalegir vinstrimenn segja stundum. Nei, ekki rétt. Þórdís Kolbrún er ekki að gera þetta fyrir vini sína, hún er að gera þetta fyrir almenning í landinu. Klippa úr Silfrinu.
Já auðvitað snýst þetta um að losa almenning og skattgreiðendur við bráðu áhættuna sem fylgir eignarhaldi á bönkum. Reyndar ef við segjum að Þórdís Kolbrún sé að selja vinum sínum bankann, eins og ómálefnalegir vinstrimenn, er Þórdís þá ekki vondur vinur? Hvers konar vinur færir svona mikla áhættu frá ríkissjóði og yfir á vini sína?
En án gríns. Þetta er alvöru áhætta. Bankarekstur er áhætturekstur, eins og Sjálfstæðismenn eru alltaf að segja okkur. Ríkissjóður á ekki að vera í áhætturekstri.
Tökum Íslandsbanka. Eigendur Íslandsbanka (ríkissjóður er enn þá stærsti hluthafinn) lentu til dæmis í því í fyrra að hagnast um 23 milljarða króna. Á einu ári. Þið sjáið áhættuna er það ekki. Og þetta er ekki nýtt. Það sama gerðist árið á undan, 24 milljarðar króna í hagnað. Þetta hefur lengi verið svona í bankastarfsemi, það getur allt gerst. Árið 2020 varð bankinn fyrir því áfalli að hagnast bara um 6,8 milljarða. Árið 2019 voru það 8,5 milljarðar. Síðan hagnaðist hann um 10,6 milljarða árið 2018, 13,2 milljarða árið 2017, 20,2 milljarða árið 2016, 20,6 milljarða árið 2015, 22,7 milljarða árið 2014 og 23,1 milljarð árið 2013.
Á tíu árum eru það samtals meira en 170 milljarðar króna. 170 milljarðar af hreinum hagnaði. 170 milljarðar króna í hagnað á tíu árum.
Nú skaltu spyrja þig, kæri skattgreiðandi. Er þetta, 170 milljarðar, er þetta áhætta sem þú vilt hafa hangandi yfir þér og yfir ríkissjóði eins og óveðursský á næstu árum, eða er kannski betra að vinir fjármálaráðherra, sem kunna að stunda viðskipti, taki þessa áhættu á sig? Að þeir taki það af óeigingirni á sig að bera þennan kross í þágu almennings? Ég held að þú vitir svarið við þessari spurningu.
Yfir í annað, frétt fréttanna í vikunni auðvitað. Fjölmennt kvennaverkfall var haldið í miðbæ Reykjavíkur í gær þar sem þetta var hápunkturinn. Myndband spilað.
Nei þetta var það sem á gervigreindarmáli heitir Deepfake, það hefur verið átt við myndefnið, því miður gerðist þetta ekki í alvöru. Prettyboitjokko harmaði það á X að hafa ekki tekið sitt besta lag Gugguvaktina á Arnarhóli, sem er rétt, það hefði verið gott. Fáum brot úr því lagi. Gugguvaktin spiluð.
Já ekki vera að trufla mig, er á gugguvaktinni, þetta er óður til einhleypa íslenska karlmannsins á 21. öld, kófsveittur allar helgar að leita að draumadísinni á AUTO eða American Bar allt eftir stéttastöðu - ritstjórinn sendir baráttukveðjur til þeirra sem standa gugguvaktina allar helgar, sem ef við eigum að vera hreinskilin hérna, er mun erfiðari en “þriðja vaktin”. En hún fær ekki sömu athygli, ekki var gugguvaktinni mótmælt í kvennaverkfallinu, kannski var henni mótmælt í 20 manna karlaverkfallinu sem karlréttindasinnar héldu.
Þriðju vaktinni var hins vegar mótmælt opinberlega í kvennaverkfallinu, sem er smá skrýtið. Af hverju ferðu að mótmæla þessu opinberlega, talaðu bara við lata manninn þinn? Sko, auðvitað er vinna að skipuleggja fjölskyldulíf en hvað ef, bara hvað ef „þriðja vaktin“ er bara vel heppnað áróðursbragð markaðsafla sem vilja sannfæra þig um að stóra vandamálið í lífi þínu sé makinn þinn og hans hegðun frá degi til dags, en ekki bara ömurlegi vinnustaðurinn þinn sem tekur alla orkuna frá þér af því að þú þarft að mæta þangað á hverjum degi frá níu til fimm á meðan börnin þín eru geymd á stofnun og svo færðu þau pirruð í fangið og þarft svo að þrauka það sem eftir lifir dags í því andrúmslofti til þess eins að gera þetta allt strax aftur daginn eftir?
Gæti verið að vandamálið í lífi þínu sé bara að öll orkan þín sé þegar farin í tilgangslausu tölvupóstavinnuna þína, en að vandamálið sé ekki það að maðurinn þinn hafi ekki frumkvæði að því að kaupa gjöf fyrir afmæli sem er eftir tvær vikur.
Með þessu er ég alls ekki að segja að karlar mættu ekki auðvitað reyna að vera minna heimskir og tregir og ömurlegir, það er alltaf ástæða til að minna á það. En við verðum alltaf að muna að það eina sem fyrirtækin vilja er að þú haldir áfram að setja vinnuna þína í forgang, haldir áfram að mæta og haldir áfram að búa til peninga fyrir þau. Þess vegna eru þau og allir til í að gera mál úr þriðju vaktinni - það beinir athygli okkar frá alvöru vandamálum, of mikilli vinnu fyrir of lítinn ávinning, og að auðveldasta skotmarki dagsins, “illu karlmönnunum sem gera aldrei neitt á heimilinu.” Látum ekki útsmoginn sálfræðihernað sá fræjum sundrungar á heimilum landsins.
Já, Þriðja vaktin, nei, því miður er það ekki hlutverk okkar gagnrýnu blaðamannanna sem stöndum vörð um lýðræðið á hverjum degi að lepja bara upp það sem valdhafar segja um atburði líðandi stundar, eins og kvennaverkfallið núna. Við eigum frekar að vera leiðinlegir í vondu skapi þegar allir aðrir eru í góðu skapi. Ríkisútvarpið hins vegar lítur ekki á þetta sem hlutverk sitt í þessu máli, að fjalla gagnrýnið um mál, heldur var efnt til meiriháttar hátíðarhalda þar á bæ vegna kvennaverkfallsins í gær. Allt í einu var sjálfur útvarpsstjórinn mættur í útsendingu, farinn að taka viðtöl.
Þarna er Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, fyrrverandi lögreglumaður, já við búum í þannig samfélagi, heilbrigðisráðherra okkar er fótboltaþjálfari, dómsmálaráðherra okkar hafði fram að embættistöku starfað við að selja rjómaís og útvarpsstjóri ríkismiðlilsins er lögreglumaður, en hvað um það; Stefán Eiríksson var mættur að taka viðtal? Af hverju, jú, hann var að leysa Sigurlaugu Jónasdóttur af, sem var farin í kvennaverkfall.
Sko. Ef punkturinn með verkfalli er að lama vinnustaðinn, hefur þá ekki útvarpsstjórinn unnið fullnaðarsigur hérna? Hann fær ekki aðeins að eyða áhrifum verkfallsins, með því að ganga í störf Sigurlaugar, heldur er honum hampað sem jafnréttishetju á meðan hann er að því. Konur fara í verkfall, það verkfall hefur engin áhrif af því að ég geng í störfin, og ég er jafnréttishetja. Fínn díll. Og reyndar á meðan ég man; ritstjórinn spyr: er til of mikils ætlast að það sé alger eldveggur á milli útvarpsstjóra og forsætisráðherra alltaf, svo að áróðurshlutverk ríkismiðilsins sé ekki svona grátlega augljóst? Eða erum við hætt að reyna að halda þeirri sjónhverfingu á lofti?
Það er kannski ekki við Stefán útvarpsstjóra að sakast, hann féll í sömu gryfju og þónokkrir aðrir “mjög sís” karlar gerðu í aðdraganda kvennaverkfallsins. Þeir ofpeppuðust einfaldlega, eins og besti maður á Íslandi Haraldur Þorleifsson, sem ætlaði að sýna stuðning með smá auglýsingabrellu á veitingastað sínum Önnu Jónu. Þar ætlaði Halli að láta ofurhæfa listamenn og ríka meistara ganga í störf lúserakvenna á veitingastaðnum sínum til að sýna hvað karlarnir væru krúttlegir klaufar að þjóna til borðs.
Síðan ætlaði hann að bjóða upp á 21% afslátt fyrir konur, sem virðist byggt á muni á atvinnutekjum, en ekki leiðréttum launamun kynjanna. Ef menn færu með þessa hugmynd alla leið ættu þeir í raun og veru að tengja alla verðlagningu við tekjustig allra viðskiptavina alla daga. Þá fyrst værum við að tala um félagslegar framfarir.
En þetta var sem sagt hugmyndin hjá Halla, að láta fræga karla ganga í störf kvennanna, þar til frænka mín Sóley Tómasdóttir gerði hann afturreka með þessa hugmynd, karlar ættu ekki sviðið í dag – allt væri þetta mikið bakslag. Í kjölfarið kom frá Halla svo tæmandi og svo afdráttarlaus afsökunarbeiðni að hann gat hætt að hafa áhyggjur af málinu.
Í tilfelli útvarpsstjórans og forsætisráðherrans er eins og kvennaverkfall sé svo heilagur málstaður að allt sem á að heita hlutlaus nálgun fréttamiðla sé bara látið lönd og leið. Eins og þetta sé bara ekkert pólitískt mál. En jafnrétti er mjög pólitískt mál.
Nú eiga konur auðvitað að fá sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar og ritstjórinn myndi aldrei tala fyrir öðru. Í flestum tilvikum vonar hann að þetta sé raunin og þar sem svo er ekki, hlýtur markaðurinn að leiðrétta það að lokum.
Vel að merkja, ég var að tala hérna um fjölhæft ráðherralið okkar, fótboltaþjálfarana og ísgerðarkonurnar. Þorsteinn Víglundsson er mjög gott konsept líka. Steypufyrirtækisgaur sem vill evru vegna viðskiptasjónarmiða, fer í pólitík í pásu frá rekstrinum fyrir Viðreisn, er allt í einu orðinn jafnréttismálaráðherra Íslands og býr til eitthvað yfirborðslegt vottunarbull fyrir PC fyrirtæki.
Allavega. Þessi jafnlaunavottun átti að staðfesta með vottunarferli að atvinnurekendur væru með ferla sem tryggðu að ákvarðanir í launamálum fælu ekki í sér kynbundna mismunun. Stjórnvöld voru mjög áfram um að fyrirtæki gengju í gegnum þessa vottun og á tímabili var meira að segja til umræðu að gefa skattaafslátt í staðinn.
Árangurinn var mikill, eða þrýstingurinn, eftir því hvernig maður vill líta á það. Í október 2023 höfðu 557 íslensk fyrirtæki innleitt þessa jafnlaunavottun í gegnum þartilgerða vottunaraðila. 557 fyrirtæki af svona sirka 1200 sem gætu innleitt þessa vottun. Meðalkostnaður við innleiðinguna nemur um 16 milljónum króna. Það þýða þá 8,9 milljarðar króna frá fyrirtækjum og stofnunum landsins í jafnlaunavottun.
8,9 milljarðar króna. Og líklega meira af því að það kostar að endurnýja vottunina á þriggja ára fresti.
Frá því að Þorsteinn Víglundsson færði okkur jafnlaunavottunina, hefur hann horfið af þingi. Þannig að enginn hefur getið dregið hann til ábyrgðar eftir að það kom í ljós, í sérstakri rannsókn Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, að jafnlaunavottun hefur ekki haft bein áhrif á launamun kynjanna. Munurinn á fyrirtækjum sem hafa fengið vottun og fyrirtækjum sem hafi ekki fengið vottun er eitt prósentustig, sem er varla marktækur munur.
Þannig að löggjöf sem átti að draga úr kynbundnum launamun hefur ekki gert það. En hún hefur hins vegar kostað íslensk fyrirtæki níu milljarða króna fyrir ekki neitt. Þau halda áfram að borga, af því að þau þora ekki öðru.
Eðlileg viðbrögð við þessari niðurstöðu félagsvísindastofnunar væru: Ókei, þetta virkar ekki, hættum þessu strax. En nei, rannsakendur í þessari rannsókn Háskóla Íslands segja: „Við viljum benda stjórnvöldum á að það sé hægt að gera ákveðnar úrbætur til að samræma vinnulagið við vottunarferlið sjálft til þess að tryggja að vottunarferlið sjálft verði ekki eins einhvers konar hraðsuða.“ Ah, þar liggur vandinn. Vottunarferlið er of hraðvirkt. Þetta er of einfalt. Hlaut að vera. Hér þarf augljóslega að flækja ferlið. Jafnlaunavottun er bara of einfalt ferli. Það þarf að vera flóknara og dýrara. Þá mun jafnlaunavottun fyrst frelsa okkur.
Nei en svona grínlaust. Ritstjórinn beinir því til stjórnvalda sem segja að þeim sé annt um jafnrétti að greiða ómenntuðum verkakonum í mikilvægustu störfunum mannsæmandi laun. Á leikskólum til dæmis. Því að þegar þeir hætta að starfa um miðjan dag, eins og margir gera oft þessa dagana, hver þarf þá að vera heima með börnin? Og á sjúkrahúsum. Þetta var staðan á Landspítalanum í kvennaverkfallinu. „Ekki öll komast frá á Landspítalanum og þær konur og þau kvár sem föst eru á vakt eru hvött til að deila mynd á samfélagsmiðla með yfirskriftinni #ómissandi.“ Hm Hm. Þetta er ekki geðveikt augljós stéttakúgun ef við notum kynhlutlaust mál og inngildum kvár, er það nokkuð? Er þetta ekki bara lúmskt? Á sama tíma og þessi mynd var tekin voru samkvæmt heimildum ritstjórans flestar menntaðar konur í stjórnunarstöðum á spítalanum fjarverandi í kvennaverkfalli. Ekki var annað að sjá en að spítalinn hafi rúllað ágætlega, enda voru hinir sönnu lykilmenn á myndinni á vaktinni. „Þeir komast ekki frá,“ sagði forstjóri Landspítalans. Þeim var bannað að fara úr vinnunni.
Yfir í annað: Utanríkismál koma vinsælustu sjónvarpsstjörnum Bandaríkjanna áfram í vandræði, sama hvar í pólitík þeir standa. Það var fyrr á þessu ári sem Tucker Carlson var látinn fara af Fox News, en hann hafði lengi verið háværasta rödd á fjölmiðlasviðinu þar í landi sem fór gegn ríkjandi stefnu Bandaríkjastjórnar í utanríkismálum. Nú hefur Jon Stewart, sem má segja að sé allt sem Tucker Carlson er ekki, líka verið látinn fara. Jon Stewart hafði verið með þátt á streymisveitu Apple frá 2020, tiltölulega vinsælan, en þeim þætti var á dögunum slaufað. Samkvæmt fjölmiðlum kom það til vegna deilna Stewart við Apple um ritstjórnarlegar ákvarðanir hans í umfjöllun um Kínverja og gervigreind. Eins og þekkt er er Apple að miklum hluta til í raun kínverskt fyrirtæki, þar sem verulegur hluti framleiðslunnar fer fram þar í landi. Þá getur maður ekki haft frjálslyndan Bandaríkjasinnaðan þáttarstjórnanda í heimalandinu sem gengur of langt í svívirðingum við Kínverja.
Já er glóbalisminn að koma okkur um koll? Eigum við að vinda ofan af honum? Þessa dagana eru eins og við vitum blikur á lofti í alþjóðamálum og þar mætast stálin stinn. Menn eru ekki alveg jafnmiklir vinir allir og þeir voru hérna framan af á 21. öld, voru það allavega á yfirborðinu. Þetta með Jon Stewart gerist í Bandaríkjunum - vafasöm tengsl við Kínverja - en hver er staða Evrópu í þessu öllu saman. Janis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja, hefur ekki mikla trú á Evrópu í alþjóðamálunum. Klippa sýnd.
Já sendum þau til Brussel þar sem við heyrum ekki í þeim öskra. Maður spyr sig: Ef þetta er staða Evrópusambandsins – sem Ísland reiðir sig mjög á í alþjóðamálum – ESB-þjóðirnar eru líka stór hluti Atlantshafsbandalagsins – hver er þá staða Íslands? Getum við reitt okkur á Evrópu? Getum við reitt okkur á Atlantshafsbandalagið ef það kemur til stríðsátaka?
Ef ekki, og ef nú fara í hönd styrjaldartímar, er ekki tímabært að við ræðum það af alvöru hvort við þurfum að stofna eigin her?
Það er ekki mín hugmynd, heldur kom hún núna síðast frá Arnóri Sigurjónssyni, sem hefur starfað við íslensk varnarmál í meira en fjörutíu ár. Hann kynnir nýlega bók sína um nauðsyn íslensks hers til leiks með þessum spurningum: „Hvað ef Atlantshafsbandalagið hætti að starfa og varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna yrði sagt upp?“
Já, hvað ef? Ritstjórinn telur í seinni tíð að það gæti verið skemmtileg hugmynd að stofna íslenskan her, ekki aðeins af strategískum ástæðum, heldur mun frekar líka af stemningsástæðum. Sjáið stemninguna í norska hernum. Myndband sýnt.
Sammen. For det vi tror pa. For det vi ar. Áhrifaríkur áróður.
Það ætlar enginn að segja mér að íslenskir karlmenn á herskyldualdri, sem lifa margir nú þegar hvort eð er í varanlegri hernaðarfantasíu í tölvuheimum, væru ekki margir svoleiðis sólgnir í þessa stemningu. Eftir að ég skrifaði grein um þetta mál fékk ég til dæmis póst frá gaur fæddum 2005, hann sagði: „Ég sem 18 ára drengur myndi hiklaust taka a.m.k. eitt ár í hernum eftir að ég útskrifast. Bókað mál.“
Þið sjáið.
Við gætum auðvitað breytt engu, leyft þessum ungu mönnum að ganga endanlega frá dópamínkerfum líkama síns með tölvuleikjum og klámi og skellt svo alltaf í okkar árlega málþing þar sem við komum alltaf jafnmikið af fjöllum og spyrjum: Hvað er eiginlega að hjá strákunum okkar?
Eða við getum stofnað lítinn sakleysislegan íslenskan þúsund manna her, þar sem við komum lífsorku þessara ungu manna í heilbrigðan farveg; setjum þá í stranga líkamlega þjálfun við smá klikkaðar aðstæður úti í íslenskri náttúru, kennum þeim raunverulegan aga og sjálfsstjórn, byggjum upp líkamlega heilsu, sköpum praktíska þekkingu á innviðum landsins hjá stórum hópi og fáum fram smá samheldni og metnað til að vinna störf í þágu samfélagsins. Eftir herskylduna kæmu þeir svo ferskir heim, reynslunni ríkari. Sumir myndu gera herinn að ævistarfi.
Raunverulegur hernaður yrði vonandi eftir sem áður fantasía, rétt eins og hann er það núna í tölvuleikjunum. En ef eitthvað gerðist, bara ef, væri þá ekki alveg eins gott að hafa beislað alla orkuna í alvöru undirbúning fyrir stríð? Að við værum þá tilbúin með allavega þúsund gaura í viðbragðsstöðu í höfuðstöðvum íslenska hersins á Reykjanesskaga, þekkingarmiðstöð íslenskrar hernaðarlistar, musteri líkamlegrar hreysti? Bara pæling.
Yfir í annað mál: Erna Mist Pétursdóttir listakona hefur vakið athygli að undanförnu vegna pistlaskrifa sinna í Vísi og Morgunblaðið og víðar. Dagvinnan hennar er að vísu myndlist, hún málar listaverk og lifir á því að selja þau, ágætlega vel heyrist mér. En Erna er sjálfstætt hugsandi og sjálfstætt skrifandi sem er ritstjóranum og áhorfendum hans auðvitað að skapi. Hún var til dæmis á meðal fárra sem skrifuðu gegn lokunum í Covid-faraldrinum. Síðan skrifar hún reglulega greinar sem mikil ánægja er með, hún skrifaði til dæmis ágæta grein á dögunum um pólaríseringu í okkar samfélagi. Erna skrifar:
Þeir sem bera svarthvíta heimsmynd í höfði sér eru ekki menn heldur gangandi bergmálshellar. Vinstrimenn sem halda að hægri menn séu vondir eru gangandi bergmálshellar. Hægrimenn sem halda að vinstrimenn séu vitlausir eru gangandi bergmálshellar. Eldri kynslóðir sem halda að yngri kynslóðir eigi sér engin gildi eru gangandi bergmálshellar. Frjálslyndir vinstrimenn sem halda að kristilegir demókratar séu rasistar eru gangandi bergmálshellar. Góða fólkið sem heldur að aðrir séu vonda fólkið eru gangandi bergmálshellar.
Erna Mist var gestur minn og bróður míns í Skoðanabræðrum í vikunni, þar sem við ræddum þessi skrif. Myndbrot sýnt.
Já hver og einn gleypir svörtu pilluna á ólíkum tíma og af ólíkum ástæðum. Sumir aldrei - það er öfundsverður lífstíll. Viðtalið við Ernu Mist má finna á hlaðvarpsveitum Skoðanabræður - best er að fara inn á Skoðanabræður Patreon.
Við komumst ekki mikið lengra með þetta á þessum fallega föstudegi, kæru áhorfendur. Ef þið eruð að horfa á YouTube, gerist endilega áskrifendur. Ef þið eruð á X, fylgið mér og hið sama gildir um Instagram, TikTok og Facebook og alla þessa yndislegu miðla. Ég minni á samstarfsaðila ritstjórans, Þ. Þorgrímsson, Domino’s og fjarskiptafélagið Hringdu. Án þeirra væri þessi þáttur ekki þér að kostnaðarlausu í hverri viku. Komdu síðan endilega í áskrift að ritstjóra punktur is ef þú vilt allan pakkann. Við sjáumst hér aftur í næstu viku – í millitíðinni bið ég ykkur að hafa að leiðarljósi í öllum ykkar daglegu athöfnum kjörorð þessa fréttaþáttar: Ást á ættjörðu, ást á sannleika. Þangað til næst; Guð blessi ykkur.
Evrópa 👏 þarf 👏 sterkari 👏 Þýskalandskanslara! 👏
Haha, Bankar = Áhættufjárfesting. Og hvað gerðist í hruninu? Bankarnir fóru ílla, ríkið tók yfir Bankana og skuldbindingar þeirra.
Er ekki bara betra að rikið eigi bankana og taki þá afleiðingum gjörða sinna ef allt fer í bál og brand.
Í stað þess að leyfa öðrum að hagnast á þeim og þurfa svo aftur að taka við þeim ef allt fer til helvítis??
Maður spyr sig!