Skrúflykill á milli tannhjóla Samfylkingarvélarinnar
Alls ekki uppskrúfuð leið til að lýsa atburðarás undangenginna daga!
Ef menn eru óvissir hvað þeim á að finnast um fléttu borgarstjóra, má byrja á að horfa til þess hve mjög svo froðufellandi margur libbinn er þessa stundina. (Sýnidæmi: „undirförull!“ - „karlakarl“ - „Sússi minn hvað þetta er aumt!“) Djók, auðvitað er það alls ekki málefnaleg leið til að komast að niðurstöðu. Forðumst pólaríseringu.
Málefnaleg athugun leiðir hins vegar þetta í ljós: Ef við horfum alveg fram hjá verkum Framsóknar á síðustu árum og jafnframt fram hjá þeirri annarlegu stöðu sem drífur Einar til þessarar ákvörðunar, stendur eftir að hann hefur unnið þarft verk.
Nú er búið að fleygja langþráðum skrúflykli á milli tannhjóla Samfylkingarvélarinnar í Reykjavíkurborg. Það partí virðist vera búið í bili.
Enginn veit hvað tekur við í millitíðinni en aðeins rúmt ár er til kosninga. Nú þarf að fara alla leið með verkefnið í Ráðhúsinu, velta við öllum steinum, sparka kurteislega upp nokkrum hurðum, svipta hulunni af ruglinu og svo hefja allsherjartiltekt. Þar hljóta kjósendur að leita til flokka sem boða ekki aðeins „breytingar í borginni“ þegar þeim hentar að segja sem svo.