Ákall til íslenskra auðmanna
Hvað er meira niðurdrepandi en stjórnvöld að tala um að aðgerðaáætlun sé alveg að lenda? Við þurfum að taka málin í eigin hendur
Þau er sannarlega skrifuð á annarri öld vægðarlaus upphafsorðin í Brekkukotsannál: „Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en missa föður sinn.“
Þessi kaldlynda mótsögn varð öðru skáldi að yrkisefni í aðsendri grein í Morgunblaðinu 12. apríl 1980, en þar skrifaði Þorsteinn Gylfason, heimspekingur að aðalstarfi, eftirfarandi:
Eftir að heimili landsmanna lögðu upp laupana sem uppeldisstofnanir er þess gætt eftir föngum í grunnskólum að börn verði ekki sómasamlega mælt á íslenzku; síðan eldast þessi börn og gerast sum þeirra barnakennarar svo að sagan endurtekur sig með æ tilþrifameiri afleiðingum unz þar kemur á endanum, ef að líkum lætur, að enginn maður kann íslenzku lengur nema ýlustrá í eyðimörk svo sem háskólakennarar í öðrum löndum. Reyndar gætir þeirrar skoðunar […] að nú sé svo komið að næst því að missa foreldra sína sé ungum börnum hollast að missa af skólagöngu sinni.
Þetta eru auðvitað nokkrar skáldöfgar og vissulega mun fæstum hollast að missa af skólagöngu sinni. Um leið og við fögnum því að hrakspáin hefur ekki ræst, um að enginn muni lengur kunna íslenzku nema ýlustrá í eyðimörk, verðum við að muna að hrakspáin er enn á lífi og hún verður sífellt trúlegri.
Úkraínskir flóttamenn geta ekki sjálfir kennt börnum sínum íslensku
Víglínan hefur færst og þar sem skólakerfið gat áður gefið sig að málrækt, þarf nú mun frekar að leggja áherslu á að börnin tali tungumálið yfir höfuð. Sérstaklega þarf að sinna innflytjendum á því sviði, sem ekki hafa eins sterkt málumhverfi og innfæddir.
Þessu er illa sinnt og skólakerfið virðist samkvæmt frásögnum fólks alveg vera að bregðast innflytjendum.
Hér segir úkraínsk móðir frá syni sínum, sem var afburðanemandi í heimalandinu, sem rekst nú á að nær ómögulegt sé að fá aukaaðstoð við að læra íslenskuna. Hún leitar nú að einkakennara, af því að ekki getur hún hjálpað honum sjálf.
Lina Hallberg tannlæknir skrifar að nú sé til dæmis svo komið að 85% nemenda í Fellaskóla séu af erlendu bergi brotnir. Innviðirnir ráða við slíkar aðstæður mjög líklega ekki við að sinna tungumálakennslu með fullnægjandi hætti fyrir alla sem þurfa á því að halda.
Lina nefnir líka dæmi frá syni sínum, sem er í öðrum bekk í Hvassaleitisskóla. Þar séu 7 af 24 nemendum (29%) sem tali nánast enga íslensku. Lina skrifar: „Kennarinn er frábær en ég myndi ekki vilja vera í hennar sporum. Hún hefur aldrei fengið menntun í að kenna íslensku sem annað mál og svo á hún ekki einu sinni heildstætt og faglega unnið aldursmiðað námsefni sem hún gæti gripið í,“ segir Lina.
Gígja Svavarsdóttir tungumálakennari skrifar að enginn einn kennari geti sinnt kennslu af neinu tagi þar sem hluti talar íslensku og hinn hlutinn ekki: „Það þarf að styðja við öll þau hæfileikaríku sem sinna þessu kennslustarfi ENN - það er brottfall, því að þessi áskorun er of mikil og of erfið.“
„Þetta er skelfilegt ástand“
Eins og Lina segir: „Að kenna erlendum börnum íslensku myndi styrkja íslensku sem þjóðtungu á Íslandi.“ Það er eina leiðin fram á við en það er ekki verið að gera þetta.
Eiríkur Rögnvaldsson málfræðingur bendir á: „Þetta er skelfilegt ástand. Stjórnvöld lofa aðgerðum en ekkert gerist. Það átti að leggja aðgerðaáætlun fram í mars en því var frestað. Svo átti að leggja hana fram í október en hún er ekki komin enn. Og jafnvel þótt hún komi - og verði samþykkt einhvern tíma í vetur - er ekkert í fjárlögum eða fjármálaáætlun sem bendir til þess að hún verði fjármögnuð.“
Hvað hafa stjórnvöld gert annað en að sýna fram á vangetu sína í þessum efnum og hvar halda stjórnvöld að þetta endi?
Ég og bróðir minn ræddum nauðsyn þess í hlaðvarpi okkar Skoðanabræðrum á dögunum að ráðast í heildarátak á sviði íslenskunnar, meðal annars með því að mæta með mjög mikið af íslensku efni í stafræna veröld unga fólksins. Það er mikilvægt fyrir öll börn á Íslandi.
Það þarf að setja YouTubera á listamannalaun en ef ríkið fattar það einhvern tímann, verður það tuttugu árum of seint.
Því sendum við nýlega út ákall til íslenskra auðmanna um að stofna sjóð á sviði tungunnar, þar sem ljóst er orðið að ekki er hægt að reiða sig á stjórnmálamennina:
Þetta er alvöru hugmynd.
Við getum vitnað hér aftur til Þorsteins Gylfasonar um vanrækslu samfélags okkar þegar kemur að því að tryggja heilbrigða málvitund barnanna okkar: „Víst má þetta skeytingarleysi þykja skrýtið, til að mynda í ljósi þess að börn eru næstum eina fólkið í landinu sem hlustandi er á og talandi er við.“