Ekki frekja eða útlendingahatur að vilja halda í sína menningu
Helsta ógnin sem steðjar að íslenskri tungu er viðhorf sjálfra Íslendinga, að sögn prófessors í málvísindum. Þeir eru haldnir minnimáttarkennd.
Elín Þöll Þórðardóttir er prófessor í málvísindum við McGill háskóla í Montréal í Kanada. Hún hefur starfað við rannsóknir á sviði málvísinda og talmeinafræði við erlenda og íslenska háskóla og hefur verið búsett utan landsteinanna í meira en 25 ár. Á undanförnum árum hefur hún meðal annars fengist við rannsóknir á tvítyngi íslenskra barna og í því samhengi, stöðu íslenskrar tungu.
Við förum yfir nokkuð flókna stöðu íslenskunnar með Elínu í hálftíma hlaðvarpsviðtali og í greininni hér að neðan í tilefni dags íslenskrar tungu. Þetta er sérstaklega áhugavert viðtal, þótt ritstjórinn segi sjálfur frá.
Þessi afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar er auðvitað ekki dagur fyrir fortíðarþrá heldur framtíðarsýn.
En áður en við förum í framtíðarsýnina, fáum í tilefni dagsins smá fortíðarþrá úr skeyti sem Fjölnismaðurinn Konráð Gíslason sendi vini sínum Jónasi í bréfi dagsettu 12. apríl 1844: „Og sólin er ekki eins björt og veðrið ekki eins heitt og heimurinn ekki eins fagur og 1834. Í guðs nafni huggaðu mig, Jónas! jeg hef misst alla veröldina. Gefðu mjer veröldina aptur, Jónas minn! þá skal jeg aldrei biðja þig optar.“
Maður er gripinn fortíðarþrá bara við að sjá fortíðarþrá í þessum búning. Ef Konráð var haldinn fortíðarþrá, hvernig heldur hann þá að okkur líði?
Þá að framtíð íslenskunnar
Hún er ekki björt, nema til komi „mjög mikið átak“, að sögn málvísindakonunnar.
Elín hefur kannað tungumálafærni barna í íslensku skólakerfi og komist að þeirri niðurstöðu að árangurinn sé óviðunandi. Tölfræðin er eiginlega sláandi.
„Um það bil helmingur krakka af erlendum uppruna læra íslensku bara mjög vel. Og gengur vel. En hinn helmingurinn lærir ekki íslensku og á jafnvel í mjög miklum vandræðum í mörg ár, þannig að þeim fer ekkert fram. Þannig að það er algerlega óviðunandi,“ segir Elín.
Í leikskólakerfinu er svipað uppi á teningnum. Þar þekkist það að sögn Elínar að börn séu í fjögur ár á leikskóla í átta tíma á dag og við útskrift kunni þau ekki íslensku. Augljóslega sé þar misbrestur á að verið sé að tala íslensku í kringum þau og við þau.
Þetta getur sloppið ef börnin læra að minnsta kosti sitt eigið móðurmál heima við, en hætt sé við að málkunnátta barna við svona aðstæður falli á milli skips og bryggju og þau nái í raun ekki að læra neitt tungumál almennilega.
Að sögn Elínar þarf að gera verulegar breytingar á kennslu bæði í grunn- og leikskóla ef vel á að fara. „Það þarf að koma til mjög mikið átak til þess að þetta takist. Það þarf að setja fjármuni í það. Til þess að við endum ekki uppi með helming allra barna af erlendum uppruna, að láta þau vera í íslenskum skóla ár eftir ár og útskrifast án þess að hafa þá tækifæri til að fara í það nám sem þau vilja. Það er bara ekki hægt,“ segir Elín.
Málkunnátta dreifist á tvö tungumál
Annar vandi er málumhverfi barna sem neyta mikils menningarefnis á ensku í snjalltækjum og í sjónvarpi. Nú er svo komið að sögn Elínar að íslensk ungmenni eru í vissum skilningi tvítyngd.
„Þegar fólk fer að verja stórum hluta dagsins í öðru tungumáli en því sem það talar sjálft, fer málkunnátta þeirra að breytast og hún fer að dreifast yfir á tvö tungumál. Þetta er að gerast við börnin okkar,“ segir Elín.
Elín segir að rannsóknir sýni skjalfest að tungumál séu til dæmis í meiri hættu þar sem tal í sjónvarpsefni er ekki allt þýtt.
„Eins og í Þýskalandi og í Frakklandi þar sem maður horfir á James Bond tala þýsku eða frönsku. Þar er hættan ekki svona mikil,“ segir Elín.
Hún heldur áfram: „Þannig að við erum í svo mikilli hættu. Og svo virðist okkur vera alveg sama: Okkur er boðið upp á að geta ekki lengur farið út í búð án þess að talað sé við okkur á ensku og við verðum að tala ensku. Við bara látum þetta yfir okkur ganga eins og þetta sé bara eðlilegt. Þetta þykir ekkert alls staðar eðlilegt.“
„Lummó og útlendingahaturslegt“ að vilja varðveita sitt tungumál
Hvernig skýrir Elín það að við föllumst á eins mikla breytingu umyrðalaust, að enska sé nú mjög víða á Íslandi eina tungumálið sem boðið er upp á?
„Er þetta ekki einhver minnimáttarkennd?“ spyr hún.
„Ég held að þetta togist á í okkur. Við tölum þetta gamla tungumál og minni kynslóð var innrætt það að við ættum að passa upp á það. Nú þykir það svo lummó og útlendingahaturslegt að maður vilji varðveita sitt tungumál.
Okkur finnst þetta merkilegt en við þorum það ekki af því að okkur finnst einhvern veginn að það sé rangt af okkur að hafa þá skoðun af því að það gæti verið eitthvað hræðilegt við það,“ segir Elín.
Hún heldur áfram: „Svo höfum við bara ekki trú á að einhver gæti lært íslensku. En hvað segja innflytjendur? Þeir segja: „Við viljum íslenskunámskeið. Betri námskeið. Meiri námskeið. Auðvitað viljum við læra íslensku, við búum á Íslandi. Hvers konar spurning er þetta?““
Viðhorf Íslendinga hættan sem steðjar að tungunni
Elín segir að það séu meira að segja dæmi um það á meðal kennara að skipta yfir í ensku í von um að námsefnið komist að minnsta kosti aðeins betur til skila. „Þannig að þeir gefast upp fyrir þessu. Þannig að ég held að hættan sem steðjar að íslenskri tungu sé ekki að hér séu innflytjendur. Heldur það hvað við erum tilbúin til að skipta yfir í ensku,“ segir Elín.
„Við getum ekki breytt því að innflytjendur flytji til Íslands. Það eru breyttir tímar og það mun gerast. Við getum bara breytt því hvernig við tökum á þessu. Það eru ekki alltaf bara útlendingarnir sem tala ensku, heldur stundum Íslendingar.
Þannig að þegar fólk vill vera að æfa sig, er því stundum svarað á ensku. Í því eru gífurleg skilaboð. Það þýðir: „Þetta var ömurlegt útspil hjá þér. Ekki gera þetta aftur. Ekki þú vera að tala íslensku.“
Þótt það geti verið vel meint að svara fólki á ensku, hefur það oft öfug áhrif,“ segir Elín.
„Mér finnst að við þurfum að taka afstöðu sem þjóð“
Elín segir: „Mannfræðingar hafa talað um hugtak sem er menningarblinda. Það er að segja: Við tökum svo vel eftir því að menning er mikilvæg fyrir annað fólk. Fólk sem sé af annarri menningu geri það sem það geri vegna þess að sé af einhverri menningu.
En við skiljum ekki að þetta á við um alla og þetta á líka við um okkur. Allt sem við gerum í daglegu lífi er út af okkar menningu. Og við skiljum það mjög vel að innflytjendur haldi í sína menningu og að þeim þyki hún mikilvæg. Þetta kemur fram í stefnu skólana okkar, að við berum virðingu fyrir menningu innflytjenda.
En okkur finnst stundum að við megum ekki bera virðingu fyrir okkar eigin menningu. Og við skiljum ekki að hún er mikilvæg. Samt erum við með Þjóðminjasafn, byggðasöfn úti á landi, torfbæi, Þjóðdansafélagið og svona hluti. Þetta eru allt mikilvægir hlutir. Það eru allar þjóðir með svona hluti,“ segir Elín.
Tíminn til að stemma stigu við þessu er núna
„Það er ekkert að því að vilja halda í sína menningu. Það vilja það allir. Það er ekki frekja að vilja það. Það er ekki útlendingahatur. Það er eitthvað sem við verðum að tala um sem þjóð. Við verðum að hafa málfrelsi til að tala um það án þess að vera kölluð útlendingahatarar og svoleiðis.
Svo verðum við að taka ákvarðanir í því máli, því að ég held að tíminn til að stemma stigu við þessu sé núna og hann útheimtir aðgerðir. Ég held að við munum annars líta um öxl, hugsa: Þarna höfðum við tækifæri og við misstum af því.“
Elín segir að lokum:
„Ég held að við þurfum að gefa okkur leyfi til að hugsa út í að það er engin frekja að vilja halda upp á sína menningu. Það vilja það allir. Við verðum að virða þennan menningarmun og líta á hann sem auðlind. En það þýðir ekki að við þurfum að stroka okkur sjálf út. Okkar menning er hluti af auðlindinni. Stór hluti af henni, af því að þetta er nú Ísland,“ segir Elín.