Fréttir vikunnar | Lífshættulegar launahækkanir, verðbólga Sjálfstæðisflokksins og skattur dauðans
Fréttir vikunnar að þessu sinni: Verðbólga í boði Sjálfstæðisflokksins, vel heppnuð áróðursherferð Samtaka atvinnulífsins, Íslendingar deyja hægt og rólega út - og svo: skattur á hina dauðu.
Síðasti þáttur ársins af fréttum vikunnar og ótrúlegt en satt var talsvert um að vera í síðustu viku ársins.
Fyrst er sjónum beint að ástæðu verðbólgunnar í augum Sjálfstæðismanna, sem vilja benda á allt annað en sjálfa sig. Samtök atvinnulífsins eru sammála Sjálfstæðismönnum um að eina lausnin við verðbólgu eru engar launahækkanir. Í því efni: Árangursrík áróðursherferð. Næst: Íslendingar eru hægt og rólega að deyja út og íslensk stjórnvöld taka það ekki nærri sér. Loks: Tvenns konar ný opinber gjöld leggjast á landsmenn á nýju ári.
Hér er uppkast að því sem sagt er í þættinum en ef vísa skal í orð ritstjórans í þessum þætti, skal hið talaða orð gilda, sem sagt úr myndbandinu:
Ritstjórinn er í farsælu samstarfi í nafni málfrelsis við þrjú fyrirtæki sem velja að stuðla að frjálsri fjölmiðlun í landinu. Eitt þeirra er Þ. Þorgrímsson byggingavöruverslun. Meira en 80 ára saga af alvöru þjónustu við alvöru neytendur. Annað fyrirtæki er Domino’s Pizza, þú veist hvaða pizzur ég er að tala um, rótgróin íslensk matarhefð frá 1993. Og loks er það fjarskiptafélag fólksins: Hringdu. Gott verð – og þjónusta sem er þannig að ef þú spyrð vini þína á Facebook hvar þú átt að kaupa net, þá mun gáfaður nörd sem veit allt svara: Hjá Hringdu.
Samstarf við þessi góðu fyrirtæki gerir okkur kleift að færa þér fréttir vikunnar á hverjum föstudegi, þér að kostnaðarlausu.
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar með Snorra Mássyni ritstjóra. Það er tuttugasti og níundi desember árið 2023, það eru tveir dagar eftir af árinu 2023 - hugsið ykkur.
Við byrjuðum árið 2023 í 9,9% verðbólgu, sem hefur lækkað mun hægar en vonast var til, núna í desember stóð hún í 7,7 prósentum - bara í hagspá Landsbankans í fyrra var talið að verðbólga á síðasta fjórðungi þessa árs, 2023, yrði 5,4%. Þannig að þetta er að hreyfast hægt.
Það er staðan þrátt fyrir gífurlega háa vexti, sem eru að koma mjög illa við stóran hóp fólks, sem, aftur, væri kannski bærilegra ef maður hefði vissu fyrir því að vextirnir væru allavega að virka almennilega á verðbólguna. Kannski er þetta reyndar allt spurning um hugarfar, er virkilega svona há verðbólga? “Er matur raunverulega dýr á Íslandi,” eins og Finnur Oddsson spurði í fjölmiðlaviðtali fyrr á árinu, forstjóri Haga, sem sagt, sem er með sjö milljónir í mánaðarlaun. Kannski er það rétt hjá Finni, kannski er þetta spurning um að Secret-a þetta bara; ef þú trúir því að matur sé dýr, er hann dýr, annars ekki.
En ef við ákveðum fyrir sakir þessarar umfjöllunar að trúa því að matur sé dýr og raunar allt annað líka, ef við ákveðum að trúa því að vegna verðbólgunnar hafi kjör almenns launafólks virkilega versnað á undanförnum misserum, þá þurfum við auðvitað að leita að sökudólgi. Hverjum er þetta að kenna? Ef við spyrjum hagfræðilegt átrúnaðargoð ófárra sjálfstæðismanna, bandaríska hagfræðinginn Milton Friedman, gaf hann skýrt svar á þessum málfundi árið 1978 í háskólanum í Kansas. Ríkisvaldið. Þetta er ríkisvaldinu að kenna. Verðbólgan er ríkisvaldinu að kenna, segir Milton Friedman.
Já, Milton Friedman var ekkert að skafa utan af hlutunum, hann var auðvitað einn af páfum hinnar alþjóðlegu róttæku frjálshyggju í þeirri mynd sem hún rataði líka hingað til okkar Íslendinga á áttunda áratugnum í gegnum stjórnspekinga eins og Hannes Hólmstein Gissurarson og síðar kjörna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Milton Friedman segir þarna skýrt: Verðbólga orsakast ekki af græðgi stéttarfélaga, þótt vissulega séu þau gráðug, neytendur búa ekki til verðbólgu, framleiðendur búa ekki til verðbólgu, erlendir þjóðarleiðtogar búa ekki til verðbólgu, innflutt hrávara býr ekki til verðbólgu, hvað býr hana þá til, spyr Friedman, og svarar: Of mikil ríkisútgjöld búa til verðbólgu og þar með í grunninn of mikil peningaprentun stjórnvalda (peningaprentun er þá notað sem hugtak yfir aðgerðir stjórnvalda sem auka peningamagn í umferð í hagkerfinu).
Verðbólga er samkvæmt þessu búin til hjá stjórnvöldum, því að aðeins stjórnvöld geta búið til peninga úr engu. Þau eru eina einingin sem getur þynnt út þann pening sem fyrir er. Að benda á einhvern annan sökudólg en þau, er einfaldlega rangt, segir Milton Friedman.
Nú, áhrif Milton Friedman eru ekki horfin úr Sjálfstæðisflokknum, við búum við þá hættu á hverri stundu að rekast á grein í Morgunblaðinu þar sem fótgönguliði úr Sjálfstæðisflokknum notar hnyttna tilvitnun í Milton Friedman sem útgangspunkt fyrir ömurlegu pælinguna sína, en Sjálfstæðismenn virðast þó velja hverju þeir vilja trúa í boðskap Friedmans. Þeir eru nefnilega ekki hrifnir af því þessa dagana að horfast í augu við ábyrgð ríkisvaldsins á verðbólgunni (kannski af því að fjármálaráðuneytið hefur verið í höndum Sjálfstæðisflokksins samfleytt frá 1991 með einni undantekningu í fjögur ár).
Bjarni Benediktsson sem var fjármálaráðherra í tíu ár þangað til fyrir skemmstu fer beint gegn Milton Friedman í grein sem hann skrifaði í apríl á þessu ári, þar sem hann segir að “ríkisfjármálin séu ekki upphaf og endir þess” að ná tökum á verðbólgunni, heldur þurfi samhent þjóðarátak á vinnumarkaði og “mikilvægur þáttur í því að draga úr verðbólgu til lengri tíma er breytt vinnumarkaðslíkan á Íslandi.”
Þið heyrið þetta: Vinnumarkaðurinn er vandamálið, ekki ríkisvaldið… Laun fyrir venjulegt fólk eru stóra vandamálið, ekki stjórnlaus eyðsla og sjálftaka okkar stjórnmálamannanna. Nú skil ég.
Og það eru ekki breyttir tímar í flokknum ef Þórdís Kolbrún velst til forystu, þegar hún tók við fjármálaráðuneytinu í október var hún spurð að því í þinginu hvernig stæði til að taka á verðbólgunni, og þá benti hún sérstaklega á að kjaraviðræður myndu hafa þar mikil áhrif. Í því efni var krafan skýr hjá ráðherranum, plís ekki hækka laun.
Þórdís segir þetta skýrt: Ef við viljum tryggja það að fjölskyldur geti greitt af sínum lánum og haldið í sína stöðu “þá munu launahækkanir ekki leysa það með krónutölu, heldur það að ná tökum á verðbólgu þannig að vaxtastigið lækki.” Það er að segja: Við leysum ekki málin með launahækkunum, heldur með því að ná tökum á verðbólgu. Þetta eru semsagt tveir valkostir: annaðhvort launahækkanir eða ná tökum á verðbólgu. Standa í stað í launum eða hafa verðbólgu að eilífu, hvort viltu, launaþræll? Þú mátt velja, en sama hvað þú gerir, mundu að verðbólgan er þér að kenna.
Í augum Sjálfstæðisflokksins er það eina leiðin til þess að laga verðbólguna, að hækka ekki kaupið hjá launþegum. Stóra vandamálið er því í augum flokksins græðgi stéttarfélaga, þetta hefur ekkert að gera með eyðslusemi ríkisvaldsins umfram efni, það myndi fela í sér viðurkenningu á þeirri staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á þessu ástandi. Vandamálið verður að vera launþegar og þeirra fáránlegu kröfur.
Atvinnurekendur og fjármagnseigendur eru auðvitað hjartanlega sammála þessari nálgun Sjálfstæðisflokksins. Það er reyndar ekki endilega ástæða til að aðgreina það sérstaklega, atvinnurekendur og fjármagnseigendur annars vegar og Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar, þetta er þegar allt kemur til alls eitt og sama batterí; við sáum það á dögunum þegar Svanhildur Hólm var færð til í starfi innan stjórnarráðsins frá því að vera framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og yfir í embætti sendiherra Íslendinga í Washington. Já lobbýið og Sjálfstæðisflokkurinn eru sammála um flest, meðal annars einmitt það að örlítið hærri laun til handa vinnandi fólks í landinu séu virkilega líkleg til þess að endanlega ganga frá hagkerfinu hérna. Kíkjum á nýja áróðursherferð Samtaka atvinnulífsins, viðtöl við venjulegt fólk, þetta eru ekki leikarar.
Já, amma sagði mér alltaf að atvinnurekendur ættu ekki að þurfa að hækka laun starfsmanna.
Maður verður að gefa Samtökum atvinnulífsins það, það er eiginlega virðingarvert að þau hafi raunverulega fundið venjulegt fólk, allavega sem lítur út fyrir að vera bara venjulegt fólk; ekki leikarar; það er eiginlega virðingarvert að Samtök atvinnulífsins hafi fengið þarna venjulegt fólk til þess að fara með hörðustu áróðurspunkta lobbýsins í fjörutíu sekúndna klippum svona út frá sínu persónulega sjónarhorni, bara eins og þetta séu bara hversdagslegar skoðanir venjulegs fólks, að vilja ekki hærri laun.
Já og þetta er að virka; áróðurinn er að hafa áhrif á ólíklegustu menn; Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR var í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku þar sem hann var hálfpartinn bara farinn að tala eins og Samtök atvinnulífsins, sem er kannski gott reyndar - það eru líklega gleðifréttir að við séum að þokast í áttina að samningum mögulega; Ragnar sagði þar meðal annars að í þeim stóru samningum sem nú sé verið að reyna að teikna upp sé launaliðurinn orðinn aukaatriði. Kjör aukaatriði í kjaraviðræðum. Tilvitnun hefst: „Stóru tölurnar liggja í vöxtum og verðbólgunni. Hagsmunirnir liggja í því að hið opinbera, sveitarfélögin, atvinnulífið og fyrirtækin taki öll þátt í því að ná hér niður vöxtum og verðbólgu. Sem dæmi, Ragnar heldur áfram, þá þýðir eitt prósent lækkun vaxtaá 40 milljóna kr. húsnæðisláni í dag að ráðstöfunartekjur aukast um 33 þúsund kr., sem jafngildir 50 þúsund kr. launahækkun. Þarna eru stærstu kostnaðarliðirnir og verðmætustu krónurnar sem við getum samið um, sem lækkar kostnaðinn við að lifa.“ Tilvitnun lýkur í Ragnar Þór; hann segir eins og konan í myndbandinu frá SA - Bara einu prósenti lægri stýrivextir, væri strax frábært. Ragnar er vel að merkja kominn í bandalag með Sólveigu Önnu Jónsdóttur í Eflingu - sem hefur ekki rekið þessar pælingar ofan í hann, þannig að allt fer þetta núna að hljóma bara ágætlega líklegt. Fyrsti fundur átti að vera haldinn í gær - og menn tala um að samningar gætu allt eins náðst í janúar.
Nú tekur ritstjórinn það fram að það er alveg eins líklegt að þetta sé allt saman rétt - að málið núna sé að stilla launahækkunum í hóf og einblína bara á að koma vöxtunum niður. Sem atvinnurekandi styður hann þá nálgun. En við minnum á að þeir samningar munu ekki leysa grundvallarvandamál í hagkerfinu, eins og eyðslusemi ríkisvaldsins og svo undirliggjandi framboðsskort á húsnæðismarkaði - hver segir til dæmis að um leið og þú svo mikið sem hreyfir við vöxtunum niður á við, muni fasteignaverð ekki fara aftur á flug?
Já, við ætlum að fara yfir í annað, það er svo sem ekki algengt að það sé svona mikið að frétta í grundvallarmálum yfir hátíðirnar. Það eina sem var annað að frétta var jólakort háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaugar Örnu, sem birtir mynd af fjölskyldunni í Disney-búningum. Áslaug heldur áfram að reyna að lappa upp á orðsporið eftir nokkur feilspor fyrr í vetur, eins og þegar hún baktalaði Svandísi Svavarsdóttur uppi á sviði á sjávarútvegsráðstefnu og sló með þeirri ræðu ekki beint í gegn.
Já, við gætum spilað meira en ætlum að hlífa ykkur en ein spurning í þessu er þó útistandandi: Hver er undir teppinu í káetunni? Það er þarna bunga í efri kojunni, sem enn hafa ekki fengist nánari upplýsingar um. Er það Svandís, spurði einn lesandi ritstjórans að - sem er sannfærandi tilgáta, en í bili fæst ekkert staðfest.
Það sem er hins vegar staðfest og það sem öllum er orðið ljóst á árinu 2023 er að það ríkir stjórnarkreppa í landinu; við erum með Vinstri græna með sitt fimm prósenta fylgi og Sjálfstæðisflokkinn á niðurleið hálfpartinn forystulausan með formanninn á útleið og svo Framsókn þarna alveg tilgangslausan og ótrúverðugan í miðjunni. Samstarfið hefur ekki gert nema versnað á þessu ári. Þetta er ríkisstjórn sem kemst ekki neitt áfram með mikilvæg mál heldur er það eina sem flokkarnir gera bara að kalla fram það versta í hver öðrum, Vinstri grænir komast upp með sína ósannfærandi draumórapólitík og niðurdrepandi miðaldrawokeisma í æðstu stöðum stjórnkerfisins, munum, þetta gera þeir bara með 5% fylgi, almenningur hugsar ekki svona, Sjálfstæðisflokkurinn kemst upp með sinn gegndarlausa pilsfaldakapítalisma - og er þessi pólitík VG ekki einmitt það sem íhaldsflokkurinn Sjálfstæðisflokkurinn ætti að hata hvað mest og er þessi pólitík Sjálfstæðisflokksins ekki einmitt það sem sósíalíski flokkurinn Vinstri grænir ættu að berjast gegn? Jæja, látið þetta meika sens. Framsókn er eins og ég segi áfram bara kerfisflokkur sem gengur út á mjög þrönga rótgróna sérhagsmuni og hann unir sér ágætlega í þessu samstarfi.
-
Niðurstaðan er sú að ekkert gerist og kyrrstaða grefur um sig í mikilvægum málum fyrir Íslendinga. Tökum til dæmis eitt mál sem hefur verið rætt nokkuð á þessum vettvangi í vetur. Nú er það vissulega óþyrmilega til orða tekið, en í vissum skilningi liggur það fyrir að íslenska þjóðin er, þótt löturhægt sé, að deyja út. Ef marka má tölfræðina.
Árið 2022 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 barn á hverja konu og hún hefur aldrei mælst minni frá því að mælingar hófust árið 1853. Við sláum nýtt met á hverju ári og fjarlægjumst sífellt töluna 2,1 í frjósemi kvenna, sem er mælikvarðinn á það hvort mannfjöldinn sé að viðhalda sér.
Í nýjustu mannfjöldaspá Hagstofunnar er ekki gert ráð fyrir að vandinn skáni, heldur aukist: Eftir fimmtíu ár er talið að að börn á hverja konu á Íslandi verði orðin 1,36. Og hvað gera stjórnvöld, þegar ljóst er orðið að mannfjöldinn er ekki að viðhalda sér, og verður sífellt ólíklegri til þess?
Stjórnarsáttmálinn frá 2021 er til marks um áhugaleysi stjórnvalda á að takast á við þennan risavaxna vanda, sem hefur verið að ágerast árum saman. Orðið „fæðing“ kemur einu sinni fyrir í stjórnarsáttmálanum, nefnilega aðeins í þessari setningu: „Unnið verður að því í samvinnu við sveitarfélögin að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla.“
Það hefur tekist svona líka frábærlega. Foreldar eru bókstaflega mættir í Ráðhúsið til að mótmæla ástandinu í leikskólamálum. Í stjórnarsáttmálanum er því heitið að „vinna að því“ að brúa þetta umrædda bil. En í raunheimum virðist uppgjöf opinbera kerfisins vera alger gagnvart því að finna börnum öruggan dvalarstað á meðan foreldrarnir fara í verksmiðjurnar.
Arnaldur Grétarsson, mannfræðingur, starfsmaður Alþýðusambandsins og þriggja barna faðir, fjallar í athyglisverðri grein á síðu sinni um tilraun Kópavogsbæjar, undir stjórn Sjálfstæðisflokks, sem felst í að stytta gjaldfrjálsa dvöl barna á leikskólum í sex tíma og að fólk þurfi að borga með börnum allt umfram það. Bæjarstjórinn Ásdís Kristjánsdóttir hefur látið hafa eftir sér að þetta hafi verið nauðsynlegt skref að mati allra sem hún hafi rætt við í kerfinu, „að draga úr álagi og streitu með því að draga úr dvalartíma barna.“
Arnaldur skrifar, um þessa ákvörðun Ásdísar: „Þannig er óformlega látið skína í að eina leiðin til að laga kerfið sé að skerða dvalartíma barna og að leikskólastarfsfólk sjálft sjái enga aðra leið út úr vandanum. Ekki með því að auka fjármagn, ekki með því að bæta vinnuaðstæður, ekki með hækkun launa eða öðrum ráðum, sem ætla mætti að gætu bætt vinnuaðstæður innan leikskólanna. Eina leiðin samkvæmt þessu er að draga saman starfsemina.“
Hér verður því alls ekki haldið fram að stjórnvöld beri ein ábyrgð á að Íslendingar fjölgi sér. En ef stjórnvöld ætluðu yfirleitt að leggja sín lóð á vogarskálarnar, þá væri það með því að setja raunverulegan metnað í að tryggja fólki aðgang að viðunandi þjónustu fyrir börnin sín. Það hefur mikinn fælingarmátt frá barneignum þegar þessi mál eru í ólagi, eins og þau eru núna. Og þegar Sjálfstæðismenn gagnrýna Reykjavíkurborg fyrir lélegan árangur í leikskólamálum, er alla vega gott að vita að þeir leysa málin með því að draga úr þjónustu, en ekki bæta hana.
Hvað annað gæti skipt meira máli, þegar fæðingartíðni er í frjálsu falli, en að taka þá þróun alvarlega og til dæmis byrja á að bjóða foreldrum sem þó láta verða af því að fjölga sér leikskólapláss fyrir börnin svo þeir geti dregið björg í bú á meðan, ef þeir þurfa?
Óskastaða margra er auðvitað að vera heima með barninu eins lengi og hægt er, en það verður aldrei raunhæft fyrir alla. Þrátt fyrir þetta hafa stjórnmálamenn ekki viljað lögfesta einfaldlega skyldu sveitarfélaga til að veita börnum dagvistunar- eða leikskólapláss eftir fæðingarorlof. Í stað þess að ráðast á þennan vanda af fullum þunga, dunda stjórnvöld sér við mál sem láta þeim líða eins og þau hafi áorkað einhverju á meðan þau vanrækja raunverulega skyldu sína. Og að því marki sem íslensk stjórnvöld kannast við það óefni sem mannfjöldaþróun hér á Íslandi er komin í, telja þau að innflutningur vinnuafls muni sjá alfarið um að leysa vandamálið. Hér verður maður þó að vona að flestir átti sig á að takmörk eru fyrir því langt er hægt að ganga í innflutningi vinnuafls.
Þótt þröngir skammtímahagsmunir atvinnurekenda og kjörinna fulltrúa kunni um skeið að vera þeir að flytja einfaldlega inn sem mest fólk eins hratt og hægt er, liggur það fyrir að afleiðingar hruninnar fæðingartíðni á allt samfélagið og atvinnulífið verða til lengri tíma mjög miklar, jafnvel þótt innflytjendur vegi upp á móti.
Lítil þjóð eins og Ísland þolir síðan af ýmsum ástæðum ekki of mikinn innflutning á of skömmum tíma. Vandinn verður einfaldlega ekki leystur með innflutningi einum saman, heldur verður að ráðast í alvöru úttekt á því hvað er hægt að gera til að fá Íslendinga til að eignast fleiri börn. Fyrsta skrefið er að vilja bæta ástandið - en það er eins og stjórnvöld raunverulega vilji það ekki.
-
Jæja - þetta væri eitthvað til að hugsa um á næsta ári - ótengt þessu hér í lokin þá byrjar árið á að stjórnvöld boða tvær nýjar leiðir til að sækja fé í vasa okkar skattgreiðenda með nýstárlegum hætti, ekki til að eyða honum í gott leikskólakerfi nei guð veit í hvað hann fer; í alvöru; eitt af nýju gjöldunum er kílómetragjald á bifreiðaeigendur en innheimta þess verður hafin strax núna í janúar. Það eru sex krónur á kílómetrann fyrir rafbílaeigendur, þannig að ef þú keyrir rúma þúsund kílómetra í mánuði á rafbílnum þínum eða tengiltvinnbílnum þínum, sem er meðalakstur, ættirðu að byrja að borga á milli sex og sjöþúsund króna fyrir aksturinn í mánuði héðan í frá. Síðan, á árinu 2025, stendur til að fara að rukka alla bíla um svona kílómetragjald fyrir akstur, líka bensínbíla.
Annað nýtt gjald kom fram í viðtali við dómsmálaráðherra bara á jóladag á mbl.is, þar sem ráðherrann Guðrún Hafsteinsdóttir boðaði að hún hygðist leggja fram frumvarp strax á vorþingi sem veitti kirkjugörðum heimild til þess að innheimta sérstakt líkgeymslugjald til þess að standa undir geymslu líka – þannig að þar er komið nýtt opinbert gjald, líkgeymslugjald. Við fjölluðum um það hérna á dögunum þegar stjórnvöld lögðu nýjan skatt á heimilin til að byggja varnargarða á Reykjanesi - þá var það kallað forvarnagjald - oft gert með nýja skatta - nefna þá eitthvað sem er ekki hægt að vera á móti - forvarnir við eldgosum - hver er á móti þeim - og ætli megi ekki segja það sama um líkgeymslugjaldið, ekki ætlum við að setja okkur upp á móti tilhlýðilegri líkgeymslu. Við hljótum öll að vilja það - en þurfum við nýja skatta? Sjálfstæðisflokknum finnst það. Jæja.
-
Kæru áhorfendur, hlustendur, lesendur. Þetta hefur verið ótrúlegt ár í lífi ritstjórans – síðustu áramót var ég enn fastur starfsmaður Stöðvar 2 en þegar við kveðjum þetta ár er ég eini fasti starfsmaður míns sjálfs í eigin fyrirtæki. Ritstjóri punktur is og starfsemi mín á öllum mikilvægum miðlum okkar samtíma hefur farið betur á stað en mig óraði fyrir; hundruðir þúsunda áhorfa á tugi þátta, klippa, greina, viðtala og ég veit ekki hvað og hvað; viðbrögðin eru stundum góð og stundum slæm, allt eftir því hver hatar ritstjórann fyrir það sem hann er að segja þá stundina; en þannig á það að vera og þannig verður það áfram. Höfum á hreinu að 2023 var bara upphafið, fram undan er mikil uppbygging á vegum fyrirtækisins, sem þið munuð strax fá að sjá snemma á næsta ári; haldið ykkur fast. Fyrir mig persónulega er það að framleiða efni fyrir ykkur það skemmtilegasta sem ég geri og ég lofa ykkur að á næsta ári er þetta að fara bara að fara að verða enn skemmtilegra.
Hér í lokin á þessum síðasta þætti ársins vil ég þakka samstarfsaðilum þessa fréttaþáttar kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári, Þ. Þorgrímssyni byggingavöruverslun, Domino’s Pizza og fjarskiptafélaginu Hringdu. Án þessara frábæru fyrirtækja væri þetta ekki mögulegt. Á sama hátt þakka ég þeim lesendum og áhorfendum sem hafa ákveðið að gerast áskrifendur á ritstjori.is, sem er jafnvel nauðsynlegri undirstaða í rekstrinum – og ef ykkur vantar áramótaheit, hafið þau þá að styðja við frjálsa fjölmiðlun, á ritstjóri.is. Ég minni hér að lokum á kjörorð þessa fréttaþáttar, ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við sjáumst hér að viku liðinni - á næsta ári, þangað til þá Guð blessi ykkur og gleðilegt nýtt ár.