

Discover more from Snorri Másson ritstjóri
Hitler, Trump og ritstjórinn
„Rannsóknarblaðamenn“ hafa því miður ekki einkaleyfi á sannleikanum
Ef ritstjórinn væri í vondu skapi þessa dagana myndi hann hreyta því út úr sér í upphafi svona greinar, að maður þurfi að vera býsna vanstilltur í vitsmunalífinu til þess að geta ekki komið með góðan punkt án þess að slengja bæði Hitler og Trump á borðið í samanburðarskyni við þann sem maður vill gera tortryggilegan þann daginn.
En ég er ekki í vondu skapi, þannig að ég hef þessi skrif á jákvæðum nótum. Ef fyrirtæki á fleti fyrir bregðast misjafnt við frumkvæði manns á stöðnuðum markaði, þá bendir það til þess að maður sé að villast rétta leið.
Jón Trausti Reynisson, hinn reyndi „rannsóknarblaðamaður“, stofnandi Stundarinnar og framkvæmdastjóri Heimildarinnar, skrifaði í gær á Facebook-síðu sína pistil um skaðsemi einkafjölmiðla. Þið afsakið gæsalappirnar utan um „rannsóknarblaðamennskuna“ en þar er sterk óhemjandi réttlætiskennd mín að verki. Ég tel hugtakið rannsóknarblaðamennsku í grunninn kúgunartæki til að jaðarsetja aðra blaðamenn með því að gefa í skyn að þeir rannsaki ekki umfjöllunarefni sitt.
Einfaldast er að leggja mat á skrif Jóns Trausta lið fyrir lið. Hans skrif eru skáletruð, athugasemdir mínar ekki. Grein hans í heild má síðan lesa hér neðst.
Nú er vinsælt að segja að allir séu sinn eigin fréttamiðill, sérstaklega hjá þeim sem afneita tilvist fréttamiðla til að rýma fyrir sinni eigin útgáfu sannleikans.
Heimildin getur því miður ekki frekar en neinn annar boðið upp á hina „endanlegu almennu“ útgáfu sannleikans, heldur líka aðeins sína eigin útgáfu sannleikans. Sum blaðamennska Heimildarinnar er sannarlega gagnleg. En mikið af efninu er, fyrir fólki sem hefur aðra heimssýn, bara botnlaus libbaskapur, útgáfa Heimildarinnar af sannleikanum. Það gerir blaðið ekki verra, en það er staðreynd málsins.
Í dag stofnuðu tveir bændur tengdir barnamálaráðherra sína eigin fréttasíðu um sitt eigið deilumál til að svara hlaðvarpsröð um einkennilega og vafasama hegðun þeirra allra í Dalasýslu. Þótt lénið Dalalíf.is sé laust heitir miðillinn Hrútar. Áður hafa aðilar stofnað sína eigin fjölmiðla til að miðla ásökunum tengdar eigin deilumálum í sinni eigin ritstjórn, vel magnaðir fjár.
Fjölmiðlar hafa ekki einkarétt á að stofna vefsíðu – og af hverju ættu þessir bændur ekki að svara fólki sem gerir hlaðvarp (nútímatækni) með því að stofna síðu (nútímatækni)? Annars er ég sammála því að þessar ættardeilur í Dalasýslu eru sannkallað shit show at the fuck factory.
Síðan er vísað til Frosta Logasonar, sem reyndar hefur náð slíkum árangri í sinni persónulegu herferð gegn Heimildinni að hann hefur fært Brynjari Níelssyni það vopn í hendurnar að geta tortryggt miðilinn í hvert skipti sem hann nefnir hann með því kalla hann Missögnina. Ég skil að það sé viðkvæmt mál á ritstjórninni. En vel magnaðir fjár? Eigendur Heimildarinnar eru sumir mjög efnað fólk og þeir eru varla hluti af útgáfufélaginu til að græða á tá og fingri.
Tækniframfarir hafa sögulega eflt einstaklingsbundna fjölmiðlun. Hátalarinn og útvarpið hjálpuðu til að geta af sér Hitler og hann var reyndar fljótur að yfirtaka hefðundnu fjölmiðlana, „lügenpresse“. Donald Trump í forsetastóli er síðan eitt afsprengi samfélagsmiðla.
Inntak sirka: Einstaklingsbundin fjölmiðlun = Hitler og Trump? Ég veit ekki alveg hvað maður á að gera við slíka fullyrðingu.
Eins og ég hef fjallað um hér og hér, þá er tilkoma samfélagsmiðla og einstaklingsmiðla í fyrsta lagi óumflýjanleg og aðeins að fara að færast í aukana og í öðru lagi er hún mögulega lýðræðisbylting, sem þarf þó ekki nauðsynlega að ógna gamla forminu af fjölmiðlum. En ef gömlu miðlarnir fyllast örvæntingu og rýra eigin trúverðugleika í tilraun sinni til að verja hlutverk sitt sem hliðverðir hinnar „endanlegu almennu“ útgáfu sannleikans, þá er auðvitað hætt við að fólk leiti annað fyrir heiðarlega aðstoð við skilning á veruleikanum.
Þessir einstaklingsbundnu fjölmiðlar á Íslandi í dag eru líklega frekar ígildi gettóblasters, en það er staðreynd að hefðbundnir fjölmiðlar á Íslandi eru flestir ýmist veiklaðir, lokaðir eða yfirteknir af hagsmunum.
Myndi ekki einhver kalla það próblematískt að segja gettóblaster verri en önnur útvarpstæki? Það hefur annars jafnan verið mæltur meiri sannleikur í gettóinu en á Seltjarnarnesinu. En ég er sem sé gettóblaster, en ekki alveg hátalari Hitlers. Það er skárra. Ég er auðvitað tilbúinn að gera margt til að halda góðu sambandi við lesendur mína, jafnvel standa fyrir utan hjá þeim í rigningu með útvarp á öxlinni og segjast elska þá.
Kenningin um einkafjölmiðla er líka notuð til að réttlæta hlutdrægni stórra fjölmiðla, skrifar Jón Trausti áfram. Hún er hluti af brotinni heimsmynd, þar sem hugsanaþráðurinn rofnar stöðugt vegna algóriþma sem knýr auglýsingabirtingar með yfirtöku athygli okkar á forsendum annarra. Til að heilast þurfum við að geta treyst upplýsingum sem eru á sameiginlegum forsendum, sem næst okkar eigin. Leiðin í átt að traustinu og endurheimt athyglinnar er ekki að hver og einn hámarki hávaða eigin hagsmuna, heldur að við höfum samfélagslega innviði og einstaklingsbundna getu til að hífa okkur upp fyrir þá, án þess að miðstýra upplýsingagjöf. Þess vegna er hugmyndin um hagsmunabundna fjölmiðlun svona varasöm. Eina raunhæfa og sjálfbæra leiðin til þess að nálgast þetta markmið er að borga sjálfur fyrir upplýsingar og fá aðra til þess að sannreyna og miðla hlutlægt en ekki hlutdrægt í okkar dreifða umboði, óháð einkahagsmunum.
Smá orðasúpa, en já. Stórir fjölmiðlar eru í eðli sínu líklegir til að vera ógagnsærri en einstaklingsmiðlar einfaldlega af lífeðlisfræðilegum ástæðum. Það er smuga að reikna út hvatir einstaklings, en stór, að hluta til óskilgreindur hópur hluthafa og starfsmanna er önnur skepna. Að öðru leyti tek ég af öllu hjarta undir það með Jóni Trausta að þið, kæru lesendur, ættuð tvímælalaust að borga okkur fyrir upplýsingar.
Í skrifum Jóns Trausta birtist ótti við nýja tækni, sem er vissulega eðlislægur okkur öllum. Brotin heimsmynd hljómar nokkuð illa í fyrstu, en hvað getum við gert? Ritstjórinn segir: Við getum farið óhrædd inn í nýja öld hliðstæðra veruleika.
Heimildin hefur ekki einkaleyfi á sannleikanum og mér fannst ég þurfa að svara því þegar gefið er í skyn að miðill sem þessi sé í óheilbrigðara sambandi við sannleikann en miðlar eins og Heimildin. Ég tala nú ekki um í ljósi þess sem ég hef þegar gefið út, að kjörorð míns miðils eru málinu skyld. Þau koma frá þjóðskáldinu góða og eru svohljóðandi: Ást á ættjörðu, ást á sannleika.
Hitler, Trump og ritstjórinn
Er það ekki upphefð fyrir ritjórann að vera líkt við Hitler og Trump? Tveir þrekir á velli.