Hugmyndafræði á RÚV, svik Framsóknar og ótrúleg ummæli Pírata
Fréttir vikunnar eru lentar. Þarf list að vera skemmtileg eða þarf hún bara að falla vel að tiltekinni hugmyndafræði? RÚV hefur myndað sér skoðun
Í fréttum vikunnar að þessu sinni förum við yfir augljós kosningasvik Framsóknar, alveg ótrúleg ummæli oddvita Pírata um Morgunblaðið, ritskoðunartilburði á sviði gervigreindar og þörfina á því að íslenskir auðmenn gefi til baka til samfélagsins.
Sérstaklega er vikið að hugmyndafræðilegri listrýni á vegum Ríkisútvarpsins og þar er sjónum beint að útvarpsrýni Evu Halldóru Guðmundsdóttur og Nínu Hjálmarsdóttur, sem leggja í drjúgum hluta pistla sinna sérstaka áherslu á að leikhús skuli hafa tiltekin hugmyndafræðileg áhrif. Sú nálgun er ekki einsdæmi, heldur er hún lýsandi fyrir menningarástand.
Fréttir vikunnar á X og svo á YouTube:
Fréttir vikunnar á hlaðvarpsveitum:
Hér að neðan er afrit af því sem sagt er í fréttum vikunnar; en ef texta greinir á við mælt mál skal hafa það sem sannara reynist.
Ritstjórinn er í farsælu samstarfi í nafni málfrelsis við þrjú fyrirtæki sem velja að stuðla að frjálsri fjölmiðlun í landinu. Eitt þeirra er Þ. Þorgrímsson byggingavöruverslun. Meira en 80 ára saga af alvöru þjónustu við alvöru neytendur. Annað fyrirtæki er Domino’s Pizza, þú veist hvaða pizzur ég er að tala um, rótgróin íslensk matarhefð frá 1993. Og loks er það fjarskiptafélag fólksins: Hringdu. Gott verð – og þjónusta sem er þannig að ef þú spyrð vini þína á Facebook hvar þú átt að kaupa net, þá mun gáfaður nörd sem veit allt svara: Hjá Hringdu.
Samstarf við þessi góðu fyrirtæki gerir okkur kleift að færa þér fréttir vikunnar á hverjum föstudegi, þér að kostnaðarlausu.
Komið sæl og verið velkomin í fréttir vikunnar.
Veturinn er óumdeilanlega genginn í garð þótt enn sé tækifæri á að býsnast yfir því hvað jólin koma snemma í verslunum landsins. Eftir svona viku þá eru jólin ekki lengur umdeild staðreynd, þá verður kominn 17. nóvember. Nú þegar kólnar í veðri verja menn skiljanlega meiri tíma heima hjá sér en ella og þá minni ég ykkur á að ritstjórinn er ávallt með ykkur á hverjum föstudegi, og ef sjónvarpsefni vantar að kvöldlagi er hægt að finna alla þættina kostnaðarlaust á YouTube og horfa á í sjónvarpinu. Googla bara Snorri Másson ritstjóri YouTube. Þótt þættir séu kenndir við þá viku sem þeir birtast í, fréttir vikunnar, eru þeir í raun tímalausir – og fjalla um samfélagið eins og það birtist ritstjóranum á okkar tímum almennt, ekki bara hina og þessa vikuna.
Að því sögðu; þá skulum vinda okkur í nokkur mikilvæg mál. Við fjölluðum í síðustu viku stuttlega um einhvers konar námsefni á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar þar sem skólabörn stilla upp svonefndum „forréttindapýramída“ – þar sem þau kortleggja alla mögulega áhættuþætti þegar kemur að því að hafa forréttindi í samfélagi dagsins í dag, að vera karl, hvítur, ófatlaður, gagnkynhneigður, fátækur – og svo röðuðu börnin þessum þáttum upp eftir mikilvægi og í raun forréttindamagni. Þetta er svolítið framandi aðferðafræði fyrir þeim sem ekki kynntust svona námsefni í skólanum á sínum tíma, en gott og vel.
Einhver hrútskýrði það fyrir okkur hér á ritstjórninni - eða sérfræðingasplainaði -að forréttindapýramídinn „væri í raun alls ekki kennsluefni“ heldur alveg sjálfsprottin iðja á vegum barnanna. Einmitt – líklegt. En ef svo er, þá það ljósi á mjög algenga tilviljun, sem er að alltaf þegar börn eru fengin svona til að segja „hvað börnin vilja í raun og veru“, hvort sem það er á Barnaþingi, eða í vinnusmiðjum Reykjavíkurborgar um lýðræðislega virkni, eða á öðrum barnalýðræðishátíðum, þá er grunsamlega algengt að útkoman – listinn yfir kröfur barnanna – er eiginlega alltaf, auðvitað af einskærri tilviljun, alltaf alveg í takt við, getum við sagt svona, ráðandi hugmyndafræði hins opinbera í félagslegum málum.
Það var til dæmis fjallað um það í Morgunblaðinu í síðustu viku að í aðdraganda Barnaþings núna hafi börn verið fengin til að setja fram svona lista af því sem þau vilji taka til umræðu þar.
Hlusti listans var birtur í Morgunblaðinu, sem sagt yfir mál sem börn vildu setja á oddinn: “Aukna fræðslu um andlega heilsu, eflingu kynsegin og hinseginfræðslu, minni matarsóun, meiri umhverfisfræðslu, bættar vistvænar samgöngur” og svona atriði. Vá, skrýtið, börnin eru bara alveg sammála Vinstri grænum. Já, maður spyr sig, ætli einu börnin sem nenni á svona barnaþing séu ekki einmitt börnin sem eru virkilega dugleg að æfa sig í hinni einu góðu og réttu hugmyndafræði hins opinbera.
Það er svipuð tilviljun hvaða Skrekksatriði slá í gegn á hverju ári. Yfirleitt eru það einmitt líka atriði sem svona hitta rækilega í mark hjá ríkjandi félagslegri hugmyndafræði – en líta jafnvel út fyrir að ganga enn lengra, vera svolítið róttæk. Eins og þetta atriði Laugalækjarskóla sem ritstjórinn fékk ábendingu um; það er sem sagt komið í úrslitin, alveg einskær tilviljun; fáum brot; atriðið “Dagurinn hennar mömmu.”
Já, karlar, hver þekkir ekki karlmenn, þeir eru hræðilegir. Róttækt verk hjá Laugalækjarskóla - á vef RÚV stendur að það fjalli meðal annars um þriðju vaktina. „Þriðju vaktina.” Ritstjórinn spyr: Hver ætlar eiginlega að fara og hópgaslýsa þessi börn? Þarf ég að gera það?
Það er kannski engin furða að þetta sé listrænt framlag ungu kynslóðarinnar þegar helsti umræðuvettvangur fyrir menningarstarfsemi á Íslandi er menningardeild RÚV. Þar er ég ekki að segja eins og sumir að RÚV sé „eina menningarumfjöllunin sem er eftir á Íslandi“ – það er alls ekki rétt, heldur erum við með prýðilegt efni í Morgunblaðinu, hjá Jakobi Bjarnari á Vísi og sérstaklega í Heimildinni þessa dagana – og svo bara á Facebook auðvitað – en RÚV er vafalaust svona áhrifamesti vettvangur menningarumfjöllunar á Íslandi.
Og eins og ég segi, það er engin furða að menningarafurðir Íslendinga þróist í sífellt einsleitari og hugmyndafræðilegri átt – þegar tveir helstu leikhúsgagnrýnendur í útvarpsdagskrá RÚV þessa dagana, Nína Hjálmarsdóttir og Eva Halldóra Guðmundsdóttir, dæma leikverk í íslenskum leikhúsum fyrst og fremst á hugmyndafræðilegum forsendum.
Það er segja: Í gagnrýni þeirra er meginspurningin yfirleitt ekki hvort listin sé fersk, falleg, uppörvandi, skemmtileg, fyndin; heldur er fyrsta spurningin oftast: Er listin rétt? Hefur hún skýr og rétt hugmyndafræðileg áhrif? Þetta er smá eins og talað var um „réttar“ bókmenntir í Sovétríkjunum – og réttar bókmenntir voru þá þegar verkið boðaði hreinan og tæran kommúnisma. Ekki að ég sé að líkja okkar tímum við Sovétríkin – ég er alls ekki að segja að við búum við smá svipaðan hugmyndafræðilegan þrýsting á eiginlega bara mjög mörgum sviðum samfélagsins. Alls ekki.
Í einum leikdómi frá Íslandi, sem sagt ekki frá Sovétríkjunum, frá Íslandi, í einum leikdómi sést hugmyndafræðileg áhersla gagnrýnanda RÚV, Evu Halldóru. Hún er að fjalla um uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Hamingjudögum eftir Samuel Beckett, sýnt í Borgarleikhúsinu síðasta vetur og Eva spyr: Hver var þörfin fyrir að setja þetta verk upp? Hver var þörfin? Fáum hluta úr pistlinum, þar sem klippt er saman brot af því besta. Brot spilað.
Þar höfum við það. Ekki aðeins þarf listin, samkvæmt Evu Halldóru, að fela í sér skýra afstöðu leikstjórans til samfélagslegrar umræðu, heldur þarf hún helst að senda áhorfandanum skýr skilaboð um það hvernig hann á að hegða sér í ljósi þessarar samfélagslegu umræðu. Það er að segja: Engin list listarinnar vegna, nei, við viljum boðskapsbókmenntir sem tala inn í samtímann, segir RÚV.
Hinn leikhúsgagnrýnandi RÚV, Nína Hjálmarsdóttir, er yfirleitt nokkuð óánægð með leikverk, sem er góður kostur í fari gagnrýnanda, að finnast allt smá ömurlegt. Nína var hins vegar ánægð með kabarettsýningu í Þjóðleikhúskjallaranum síðasta vetur, þar sem skilaboðin voru meðal annars þau, að sögn Nínu, að kyn væri samfélagslegur tilbúningur, að fegurðin felist ekki í steríótýpískri líkamsgerð og þar sem endanleg áhrif sýningarinnar voru að sögn Nínu þau að „grafa undan ráðandi heterónormatívri veröld.“ Þessi sýning, sem hafði þessi áhrif, var sannarlega langþráð mótefnasprauta við stöðnuðu leikhúsi, að sögn Nínu. Hún gróf undan heterónormatívu veröldinni.
Og það virðist vera að stjórn Borgarleikhússins hafi gjörsamlega hunsað þessi listrænu fyrirmæli Nínu, því að aðeins tæpu ári síðar er próblematíska og hugmyndafræðilega ranga sýning frumsýnd. Teprurnar eftir Anthony Neilson í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar. Sýningin fjallar um ungt heteró, sem sagt gagnkynhneigt, par í vandræðum í sambandi sínu, sem reynir að stunda kynlíf eftir langt hlé. Þar hefur karlinn greinilega einhverjar MeToo-áhyggjur og lætur konuna sína einhvern veginn líða fyrir það.
Þrátt fyrir það reynist karlinn að sögn Nínu vera stórkostlega vel heppnaður karakter. Nína skrifar: „Kómískar tímasetningar hans eru hárréttar og salurinn orgar af hlátri með fyndnustu línunum hans.“ Já, hárréttar tímasetningar og ánægður salur sem orgar úr hlátri – voða flott – en það er ekki það sem leikhús snýst um, kæra Borgarleikhús. Konan í verkinu er nefnilega óáhugaverðari karakter en karlinn, segir Nína, sem leiðir til þess að verkið nær ekki að hafa tilskilin hugmyndafræðileg áhrif. Nína segir að vegna húmorsins í uppsetningunni, “staðfesti verkið ofbeldi” í stað þess að grafa undan því, en eins og við vitum eigum við alltaf að vera að grafa undan einhverju vondu í listinni.
Fáum niðurlagið úr pistli Nínu:
Nína: „Kannski átti svona verk meira erindi árið 2018, en leiksýningar með svipuðu umræðuefni hafa sést á íslenskum sviðum á hverju ári síðan þá og þetta er orðið þreytt núna. Leiksýningar sem miðjusetja sársauka karlmanna í kerfislægri og sögulegri kúgun kvenna og kvára, miðjusetja sig í póst-metoo heimi, heimi þar sem konur og kvár eru komin með nóg af því að hlúa að egói karlmanna, og ætlast til þess að menningarstofnanir eins og Borgarleikhúsið sviðsetji ekki og undirstriki ekki svona löngu úrelta heimsmynd.“
Já við ætlumst til þess að Borgarleikhúsið taki sig til í eitt skipti fyrir öll, og ekki bara Borgarleikhúsið, heldur allar íslenskar menningarstofnanir, og hætti að “sviðsetja og undirstrika” úrelta heimsmynd. Það er ykkar hlutverk, íslenskir listamenn, að boða hina réttu heimsmynd framtíðarinnar, ekki að búa til leiksýningar með hárréttum kómískum tímasetningum þar sem salurinn orgar af hlátri. Árið er 2023; meira að segja krakkarnir í Laugalækjarskóla eru búnir að ná þessu.
En nóg um leikhús - það mjög svo lifandi listform - hefur aldrei verið jafn lifandi eins og leikhúsfólk segir stundum - þetta hér er auðvitað ekki menningarumfjöllun, við erum fréttaþáttur - og ég nefndi hér áðan kröfur barna í aðdraganda barnaþings. Flestar svona, já, óljósar, yfirborðslegar, og auðvelt fyrir stjórnmálamenn að leysa þær með orðasúpum - en sumar kröfur eru meira konkret, kröfur um mál sem raunverulega þarf að leysa, eins og ein krafa sem er sett fram þarna á barnaþingi núna um „Aukið aðgengi að íþróttum og tómstundastarfi.“ Þetta mun sem sagt vera bein krafa frá börnum.
Í aðdraganda síðustu þingkosninga var mönnum ljóst, og þeim hefur verið það ljóst lengi, að fátækt fólk hefur í flestum tilvikum ekki efni á að senda börnin sín í frístundir. Millitekjufólk á líka margt erfitt með það, þannig að það eru helst rík börn sem geta stundað þær frístundir sem þeim sýnist. Þetta er staðan.
Og þarna í kosningunum árið 2021, var loksins kominn flokkur sem var tilbúinn að takast á við þetta vandamál. Framsóknarflokkurinn kom fram af krafti inn á sviðið í kosningabaráttunni og Willum Þór var þar einna áhrifamestur. Með áhrifamiklar ræður eins og þessa. Spilað brot.
Orð í tíma töluð. Orðin kannski, sem allir voru að bíða eftir. “Það eru hvorki kringumstæður né tilefni til að draga kanínu upp úr hatti fyrir þessar kosningar. Fólkið er í fyrirrúmi og það á enginn að vera skilinn eftir.” Þetta var keyrt út sem sérstakt Facebook-myndband. Það er auðvitað magnað að geta sagt svona mörg orð án þess að þau hafi þýðingu. Fólkið er í fyrirrúmi. Hvað annað gæti verið í fyrirrúmi?
En kanínan er líka gott orðalag, kanínan upp úr hattinum. Willum sagði að það væru „hvorki kringumstæður né tilefni“ til að draga kanínu upp úr hattinum. En Framsókn dró samt kanínu upp úr hattinum.
Mjög Framsóknarlega kanínu, en kanínu þó. Framsóknarflokkurinn lofaði nefnilega frístundastyrk upp á árlegar 60.000 krónur á hvert barn frá sex ára aldri. Fyrir fólk með þrjú börn væru það 180.000 krónur á ári. Engin kanína upp úr hattinum þar, eða hvað? Ágúst Bjarni frambjóðandi flokksins skrifaði grein þar sem hann sagði:” Lausnin liggur í vaxtarstyrk Framsóknar.” Er það ekki smá kanína úr hattinum? Svo var mikil herferð.
Frábær forvörn sem við leggjum áherslu á að náist í gegn, segir Jóhann Friðrik Friðriksson maður sem síðan komst á þing fyrir Framsókn. Komst á þing, lagði áherslu á að þetta næðist í gegn, en hvar er þetta núna? Hver er staðan á vaxtarstyrkinum? Eins og þeir sem eiga börn í frístundum hafa kynnst, er hann ekki enn þá farinn að skila sér. Kosningar voru 2021 og nú er 2023. Þessi samskipti áttu sér stað á Alþingi fyrr á þessu ári. Brot.
Já, ekki gert ráð fyrir vaxtarstyrk í þeirri mynd sem fyrirhugað var. Þýðir það ekki í rauninni að Framsókn hafi einfaldlega lofað einhverju sem flokkurinn svo bara sveik? Alveg? Virðist vera. Við tökum svona ekkert það alvarlega. Þetta er bara eitthvað sem flokkar gera. En það er verra þegar flokkar gera þetta sem lofa því meira að segja að draga engar kanínur upp úr höttum! Kanína upp úr hatti. Ef dregur kanínu upp úr hatti – og það er kosningaloforð – og svo svíkur maður það – er maður þá, hvað að troða kanínunni aftur ofan í hattinn? Ekki falleg tilhugsun.
Reykjavíkurborg birti fjárhagsáætlun í vikunni sem lítur ekkert algerlega alveg ömurlega illa út, sem hljóta að vera góð tíðindi fyrir borgarbúa miðað við önnur ár. Fjárhagsáætlunin leit í raun það bærilega út að Morgunblaðið náði ekki að skrapa saman í betri fyrirsögn á forsíðu en „Gagnrýnir hallarekstur“ - viðtal við Hildi Björns. Ekkert skrýtið við þessa fyrirsögn, textinn er svona tiltölulega málefnalegur miðað við allt og allt og byggist einfaldlega á staðreyndum um fjárhagsstöðu borgarinnar - athugum að staðan er í raun ekki það góð, hún bara lítur aðeins skár út en hún gerði hérna um árið - en já, frétt Morgunblaðsins er svona já úr stjórnarandstöðuátt eins og maður hefði getað sagt sér.
Mogginn er auðvitað ekki sérlega ánægður með ríkjandi borgaryfirvöld. Það fer ekki fram hjá neinum. Dagur B. Eggertsson ræður stundum ekki við sig og skammar Moggann fyrir að vera vondur við sig, hann svona ætlar ekki að gera það, en gerir það svo, eins og í status frá því í síðasta mánuði: „Það er ekki beinlínis einsog fjölmiðlaumhverfið sé að hampa borginni eða borgarstjórnarmeirihlutanum (nóg um það)“ Nóg um það, - innan sviga, skrifar Dagur - Ekki tala um Moggann, Dagur, ekki tala um Moggann. Og Dagur heldur sig almennt og yfirleitt á þessari línu og nær að halda einhverri lágmarksreisn í baráttu sinni við Morgunblaðið.
Dóra Björt Guðjónsdóttir hins vegar. Oddviti Pírata. Vá. Sjáum brot úr vikunni, þar sem borgarfulltrúinn ræðir styrki til fjölmiðla. Morgunblaðið fékk sem sagt sínar árlegu 100 milljónir frá ríkinu nýlega. Spilað brot.
Já, hvar á maður að byrja. Forsenda fyrir því að fjölmiðlar eigi að fá ríkisstyrk á sem sagt að vera að fjölmiðillinn vinni þannig að kjörnir fulltrúar séu ánægðir með það – eða af „hlutleysi og að þeir styðji lýðræðishlutverk fjölmiðla“, eins og Dóra orðar það. Ef þú spyrð mig, segir Dóra. Já ég vona að við þurfum aldrei að spyrja þig, Dóra, hvaða fjölmiðill eigi að fá styrk frá hinu opinbera, vegna þess að þú setur greinilega pólitísk skilyrði fyrir stuðningnum. Þegar Morgunblaðið gagnrýnir meirihlutann í borginni, þá er blaðið greinilega ekki að „styðja lýðræðishlutverk fjölmiðla“ heldur er Morgunblaðið að mati Dóru í raun lýðræðislegt vandamál. Því þurfum við að kippa undan þeim fótunum.
Fáum annað brot.
Mm já. Finnst okkur þetta í lagi? Já. Þetta er bara algerlega í lagi fyrir öllum nema þeim sem hafa persónulega hagsmuni af því að umfjöllun um „meirihlutann í borginni“ sé ekki einhliða góð. Morgunblaðið dirfðist til þess að hafa sérstaka undirsíðu. Dirfðist. Heyra menn í sjálfum sér?
Sko. Það hefur sjaldan hefur komið fram skýrara dæmi frá kjörnum fulltrúa á Íslandi um að ríkisstyrkir til fjölmiðla eru mjög vond hugmynd. Ritstjórinn getur sagt það hér og nú, að hann myndi aldrei þiggja slíkan styrk. Nema mögulega ef hann uppfyllti skilyrðin fyrir slíkum styrki, sem hann gerir ekki einmitt núna. Þannig að á meðan svo er, myndi ritstjórinn aldrei þiggja ríkisstyrk.
Já, Píratar, hið eina sanna lýðræðisafl. Eins og ég sagði áðan, okkar stjórnmálaástand á auðvitað ekkert sameiginlegt við Sovétríkin á sínum tíma. Ekki neitt. Áhugaverð staðreynd í því - DDR - Austur Þýskaland - sem var hluti af Sovétríkjunum fram til 1990 - var einmitt kennt við lýðræði - Deutsche Demokratische Republik - en það var ekki lýðræði. Stundum voru pólitískir andstæðingar yfirvalda meira að segja ofsóttir fyrir að vera andlýðræðislegir. Þannig að það voru andlýðræðislegar aðgerðir andlýðræðislegra stjórnvalda sem voru allar gerðar í nafni lýðræðis. Áhugavert. Þannig að það er til í dæminu. Að stjórnmálamenn misnoti harkalega lýðræðishugtakið. Já, svona voru Sovétríkin.
Yfir í annað en tengt tjáningarfrelsinu að vísu. Elon Musk eigandi X kynnti til leiks nýtt gervigreindartól samfélagsmiðilsins á dögunum, sem heitir Grok. Þar með kom skýring á því hvers vegna Musk var svona hávær hérna um árið um að gervigreind væri að þróast of hratt – hann var sem sagt kannski ekki mjög mikið að hugsa um að bjarga mannkyninu frá tortímingu, heldur aðeins að meira að hugsa um að kaupa sér tíma áður en varan hans kæmi á markað. En hvað um það.
Grok - spjallmennið - boðar þá sérstöðu að vera „tilbúið að svara umdeildari (e. spicy) spurningum“ en önnur spjallmenni, sem hafa sum verið ritskoðuð mjög í nafni pólitískrar viðkvæmni, eins og fréttir hafa sýnt. Markaðslausnir eins og sú sem Musk hefur nú kynnt til leiks eru því fínt mótvægi við pólitískt ritskoðaða gervigreind og þær, hinar óhefluðu ef svo má segja, eru þá í boði fyrir þá sem vilja þannig gervigreind. En það er bara hægt ef stjórnvöld víða um heim ná ekki einokunarrétti á gervigreind og leyfa spjallmennunum þá aðeins að tala í takt við áherslur hugmyndafræðilegrar elítu. Tæknispekingar vestanhafs hafa bent á að það sé það sem bandarísk stjórnvöld eru allavega að reyna að gera, eins og þið getið lesið meira um í nýlegri grein á ritstjori.is.
En hvað um íslensk stjórnvöld? Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra skrifar í Morgunblaðið um áhyggjur af gervigreind og „fölsuðum myndböndum“: Hún skrifar: „Við blasir að ekki er hægt að láta þessa þróun eiga sér stað án þess að ábyrg stjórnvöld taki sig saman um að koma í veg fyrir að upplifun fólks af raunveruleikanum mengist svo af slíkum fölsunum að ekki sé mögulegt að taka upplýstar og þroskaðar ákvarðanir.“
Ritstjórinn segir á móti: Vörumst það þegar stjórnmálamenn lofa okkur að tryggja öryggi okkar með aðgerðum á sviði tjáningar. Við erum fær um að greiða úr ýmsum flóknum málum tilverunnar sjálf, án „ábyrgra yfirvalda sem taka sig saman“ um að ná stjórn á þeim upplýsingum sem við fáum. Staðreyndin er sú að stjórnvöld hafa, í allri baráttu gegn „upplýsingaóreiðu“, því miður ríka tilhneigingu til að leggja ávallt mesta áherslu á að berjast einkum og sér í lagi gegn þeirri upplýsingaóreiðu sem hentar þeim illa. Ef þau hefðu öflugustu tækni mannkynssögunnar sér til halds og trausts í því efni, væri það ekki til bóta fyrir „öryggi“ almennings.
Og yfir í enn annað hérna rétt í lokin; fjallað var um það á Ritstjóra punktur is í gær að tungumálakennslu fyrir annarrar kynslóðar innflytjendur er mjög illa sinnt í skólakerfinu. Úkraínsk móðir segir hér frá syni sínum, sem var afburðanemandi í heimalandinu, sem rekst nú á að nær ómögulegt er að fá aukaaðstoð við að læra íslenskuna. Móðirin leitar nú að einkakennara, af því að ekki getur hún hjálpað honum sjálf.
Lina Hallberg, sænskur tannlæknir sem fluttist hingað, lærði málið á mettíma og berst nú fyrir bættri íslenskukennslu fyrir útlendinga, skrifar að nú sé til dæmis svo komið að 85% nemenda í Fellaskóla séu af erlendu bergi brotnir. Innviðirnir ráða við slíkar aðstæður mjög líklega ekki við að sinna tungumálakennslu með fullnægjandi hætti fyrir alla sem þurfa á því að halda.
Gígja Svavarsdóttir tungumálakennari skrifar að enginn kennari geti einn síns liðs sinnt kennslu af neinu tagi þar sem hluti talar íslensku og hinn hlutinn ekki. Samt þurfa þeir margir að gera það. Þetta er staðan. Og stjórnvöld hafa ekki sýnt nein merki um að vilja virkilega bregðast við þessu ástandi. Þá er ég ekki að tala um ummæli eða stefnur. Að segja það er ekki það sama og að gera það.
Stór spurning í málefnum íslenskunnar eru snjallsímarnir og allt efnið sem þar er neytt. Það er mikið til á ensku. Ég og bróðir minn ræddum nauðsyn þess í hlaðvarpi okkar Skoðanabræðrum á dögunum að ráðast í heildarátak á sviði íslenskunnar, meðal annars með því að dæla mjög miklu af íslensku efni inn í stafræna veröld unga fólksins. Það er mikilvægt fyrir öll börn á Íslandi, ekki síst innflytjendur.
Það þarf að setja YouTubera á listamannalaun en ef ríkið fattar það einhvern tímann, verður það tuttugu árum of seint. Því sendum við út ákall til íslenskra auðmanna um að stofna sjóð á sviði tungunnar, þar sem ljóst er orðið að ekki er hægt að reiða sig á stjórnmálamennina. Myndband úr Skoðanabræðrum.
Þetta er alvöru hugmynd. Þetta er alvöru hugmynd. En, þetta verður ekki mikið lengra hjá okkur í dag. Getið kíkt á þennan þátt af Skoðanabræðrum á hlaðvarpsveitum; Ákall til íslenskra auðmanna heitir hann. Ég minni á samstarfsaðila frétta vikunnar, Þ. Þorgrímsson, Domino’s Pizza og Hringdu. Við sjáumst hér aftur í næstu viku og reynum í millitíðinni að sjálfsögðu að lifa eftir kjörorðum þessa fréttaþáttar; ást á ættjörðu, ást á sannleika. Guð blessi ykkur.
Það vantar alveg "dislike" hnappinn hér í kommenta kerfinu.
Djöfull er plebbalegt, Snorri, að hjóla í eitthvað Skrekksatriði eftir unglinga. Það er alveg nógu stutt síðan þú sjálfur varst í gagnfræðaskóla til að þú munir að það er þannig að krakkarnir búa sjálf til atriðið frá upphafi til enda. Btw Frosti Logason er með sama ylvolga take - svo það er offramboð af þessum frumlegu pælingum ykkar. Þú og Frosti eruð líka alveg jafn mótaðir af ykkar samfélagi og börn - að ýja að því að börn geti ekki haft eigin skoðanir og hugmyndir er með því hrokafyllra sem ég veit og það er eina ástæðan fyrir að ég mig langar að svara þessu þrugli í ykkur Frosta - því vissulega eruð þið að vinna með sama konsept í fjölmiðlun, meira að segja með sömu umræðuefni viku eftir viku.
Menningargagnrýni hefur svo alltaf snúist um að greina hvaða hugmyndir eru presenteraðar í verkinu, hvernig það gengur, hver gæði verksins eru, hvert erindi verksins er osfrv. Það er ekkert meira basic en að gagnrýnandi greini þessa þætti og er forsenda fyrir faglegri umræðu um listir. Fagleg gagnrýni snýst ekki um að segja bara til um hvort flestir virtust skemma sér vel - þó það komi vissulega oft líka fram í gagnrýni, líka hjá Nínu og Evu. Hins vegar má alltaf ræða hversu fjölbreytt leikhúsgagnrýni fjölmiðla er - nú eru þau þrjú, Eva, Nína og Trausti Ólafsson hjá Víðsjá. Hann er ívið hefðbundnari í túlkun sinni mætti segja, en fer að sama skapi í þessa þætti sem ég nefndi áðan í gagnrýni sinni. En þú ert ekkert að nefna það :)
Að lokum: leikhús snýst, nei, ekki bara um skemmtun, rétt eins og kvikmyndalistin. Þetta er listform sem hægt er að greina hversu "entertaining" sem það er. Þetta einfaldlega VEISTU, en ert líklega að skrifa gegn betri vitund til að afla þér vinsælda. Gangi þér vel með það.
kv
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir.