Ef þú ert hrifin(n) af því starfi sem hér er unnið er rétt að þú íhugir vandlega að ganga í hóp áskrifenda ritstjórans gegn hóflegu gjaldi og styðja þar með við frjálsa fjölmiðlun í landinu:
Hér var á föstudag vikið að orwellískri endurskrifun Google á sögunni með því að bjóða notendum nýrrar gervigreindar upp á „fjölbreyttari“ birtingarmynd mannkynssögunnar en skráður veruleiki gefur tilefni til.
Með öðrum orðum var innbyggð kynþáttahugmyndafræði í tækninni sem tryggði að flest svörin væru augljóslega út í hött, samanber einn bandarískan landsföðurinn á 18. öld:
Mikilvægt að átta sig á að þetta er ekki slys, heldur er svona endurskrifun sögunnar sérstök tegund af valdbeitingu. Markmiðið er ekki fjölbreytileiki og jafnrétti – það er yfirvarp.
Markmiðið er stjórn, endanlegur fullnaðarsigur hugmyndafræðinnar og þar vísum við enn í Orwell*: „Sá sem ræður yfir fortíðinni, ræður yfir framtíðinni. Sá sem ræður yfir nútímanum, ræður yfir fortíðinni.“
Þeir sem trúa yfirvarpinu og telja jafnvel að tilgangurinn helgi meðalið, hljóta að opna augun fyrir gerræðislegum tilburðunum við að skoða viðbrögð gervigreindarinnar á öðrum sviðum. Þau hafa verið að birtast okkur á undanförnum dögum og gefa tilefni til nánari athugunar.
Í fyrsta lagi má sjá muninn á afstöðu Gemini til fjölmiðla sem styðja Demókrataflokkinn (sem er við völd) miðað við afstöðu til Murdoch-miðla, sem eru repúblikanamegin í stjórnarandstöðu. Það er ekkert galin pæling samkvæmt þessu að banna síðarnefnda miðla.
Ef maður tekur þessa skiptingu áfram, demókratar og repúblikanar, sést að Gemini hallar ekki aðeins í eina átt, heldur býður hún í sumum málum bara upp á eina nálgun á stjórnmálin. Innflytjendalög demókrata frá 1965 eru hafin yfir vafa.
Hér biðlar svo einn til vélarinnar að semja starfsauglýsingu fyrir lobbýistasamtök gas- og olíuframleiðenda í Bandaríkjunum, en hefur ekki erindi sem erfiði. Google hefur nefnilega ákveðin gildi. Hvaðan ætli það sæki gildin…
Sígild og skemmtileg samsæriskenning hljóðar þannig að ætlunin sé að láta okkur sótsvarta alþýðuna nærast á skordýrum á komandi tímum vegna yfirvofandi prótínskorts af annarri gerð. Segja má að Gemini-gervigreindin leggi sitt ekki af mörkum til að draga úr þrótti þeirrar samsæriskenningar:
Ritstjórinn hefur í fjölda greina á undanförnum mánuðum leitað leiða til að sýna fram á hve ákaflega vafasamt það er, þegar stjórnmálamenn í samkrulli við tæknifyrirtæki berja sér á brjóst og lofa að tryggja örugga og ábyrga framþróun gervigreindar – almenningi til heilla.
„Almenningi til heilla“-hlutinn er, aftur, yfirvarp. Við sjáum í þessum dæmum að „ábyrgðin og öryggið“ gengur aðeins út á að ekki sé vikið frá pólitískum rétttrúnaði í augum ríkjandi afla.
Ásetningur þessara hópa er leynt og ljóst að tryggja að tæknifyrirtækin láti gervigreindina lúta réttri hugmyndafræði stjórnvalda (sama hversu galin hún er) og að á móti tryggi stjórnvöld tæknifyrirtækjunum vernd og eftir atvikum einokunarstöðu, með sérstakri lagasetningu.
Við Íslendingar njótum varla meira frelsis í hinum nýja stafræna veruleika en sem nemur því frelsi sem bandarískum almenningi er leyft að njóta af þarlendum yfirvöldum. Ef tæknifyrirtækjum er falið að stjórna bandarískri hugsun með harðri hendi, verða það okkar örlög líka.
Hlutverk Google virðist hafa breyst. Fyrst var hugsjónin að þjónusta almenning með því að veita honum aðgang að öllum upplýsingum heims, en nú er stefnan að þjónusta yfirvöld með því að takmarka þær upplýsingar sem almenningur hefur aðgang að. Og hvað þá? Hvar eigum við að gúgla ef við getum ekki treyst Google?
*P.S. Ekki halda að ritstjórinn taki því af léttuð að vera orðin sú manngerð sem skrifar varla grein án þess að 1984 eftir George Orwell sé útgangspunkturinn. Þar er ekki við mig að sakast, heldur við þessa síðustu og verstu tíma.
Prófaði í morgun að leita að þessari frétt á RÚV allra Íslendinga. Fann því miður ekkert. :) Gemini hefði sennilega þurft að halla á hina hliðina svo fréttin rataði þangað.