Playback speed
×
Share post
Share post at current time
0:00
/
0:00
Transcript
1

Fréttir vikunnar | Halla Hrund ruglast, fjallkonan og gervigreind lýgur vísvitandi að ritstjóranum

Byltingar í gervigreind og átök innan OpenAI, við tökum gervigreindina tali (skrýtin uppákoma), við ræðum þjóðernishyggju þá og nú og loks, Halla Hrund og hennar meintu skandalar.
1

Í fréttum vikunnar förum við yfir byltingar í gervigreind og átök innan eins mikilvægasta fyrirtækis heims á því sviði, við tökum gervigreindina tali (skrýtin uppákoma) við ræðum þjóðernishyggju þá og nú, nefnum þar misheppnaða bókargjöf forsætisráðherra og svo förum við yfir rugling hjá Höllu Hrund og meinta skandala í hennar sögu.

Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Þ. Þorgrímsson, Myntkaup, Reykjavík Foto og einnig Rafstorm.

Áskrift – bjarga lýðræðinu ódýrt

*

Að neðan eru lausleg drög að því sem fram kemur í þættinum, en talað orð gildir.

Nú, veröldin eins og við þekkjum hana er í þann mund að umbreytast alveg. Töluvert hefur verið um tíðindi á sviði gervigreindar í vikunni og þar er helst að nefna ChatGPT-4o frá OpenAI - nýju gervigreindarlíkani sem er sagt mun færara en fyrri líkön. Nú nálgast sú stund að flestir sem taka starf sitt alvarlega eða daglegar athafnir – dragast verulega aftur úr öðrum, ef þeir ákveða ekki að tileinka sér þessa nýju tækni. Sam Altman forstjóri OpenAI er strax byrjaður að nota nýju tæknina, hér lýsir hann því. Brot.

Já - „surprisingly cool thing“ - ef gæðin koma sjálfum stofnanda fyrirtækisins á óvart, ættu þau að koma okkur á óvart. Já að nota þetta bara allan daginn til að hjálpa sér - það eru margir sem sjá fyrir sér að gervigreindin verði að lokum einmitt það - geri okkur öll að betra fólki, eða verra, eftir viðhorfum.

Hvað verður þetta þá að lokum? 

Einhvers konar persónulegur aðstoðarmaður eða framkvæmdastjóri til margra ára sem hefur verið að vinna fyrir þig - fáum annað brot frá Sam Altman.

Ofurhæfur hátt settur starfsmaður. Annar stór þáttur sem við fjölluðum um í vikunni er færni nýja líkansins til beinna þýðinga á milli tungumála – sem getur skipt miklu fyrir varðveislu smærri tungumála eins og íslensku. Nýja módelið byggir á hljóði, sjón og texta - öllu í einu - multi modal. Prófum. 

Menn spreyta sig á tækninni (sjón er sögu ríkari).

Kíkjum aftur á meira. Það er ekki tilviljun að OpenAI hafi tilkynnt um 4o módelið í þessari viku, því að Google var að koma með sitt útspil líka - það er gjörsamlega sturlað. Kíkjum á þetta. Brot.

Já - spurning hvort þetta verði að lokum í gleraugum hjá manni en ekki í símanum. Í grunninn: Fréttir vikunnar: Við höfum færst skrefi nær því að gervigreindin skáki mannskepnunni á nánast hverju sviði. Það er stundum talað um Artificial General Intelligence í því samhengi – almenn gervigreind, þegar gervigreindin hefur náð almennri greind. Sam Altman segir í viðtali núna að við séum ekki komin þangað en að hann telji að það geti allt eins gerst í næsta líkani OpenAI eða þarnæsta. 

Hægt að rifja upp dramað í OpenAI í nóvember í fyrra þegar Sam Altman var steypt af stóli, meðal annars af Ilya Sutskever, eins stofnanda fyrirtækisins og þáverandi stjórnrmanni - færasta manneskja veraldar í gervigreind- þá var grínið að Ilya Sutskever hefði séð eitthvað í vinnunni sem hefði valdið því að hann þyrfti að koma Altman frá völdum enda væri hann ekki nægilega ábyrgur. Svo urðu málamyndasættir - Ilya baðst afsökunar á að hafa farið gegn Altman, og hélt áfram störfum, þótt hann viki úr stjórninni. Núna er hann endanlega hættur aftur hjá OpenAI. Ilya er sagður hafa verulegar áhyggjur af öryggismálum í tengslum við gervigreindina og hann á að hafa sagt við starfsmenn openAI - ef þú ert ekki að velta fyrir þér möguleikanum á AGI - almennri gervigreind - þegar þú vaknar og þegar þú ferð að sofa - þá áttu ekki að vera að vinna hérna. Hann á að hafa lýst verulegum áhyggjum af til dæmis möguleikum almennrar gervigreindar á að festa endanlega í sessi stjórnmálalegt einræðisfyrirkomulag og svo á hann að hafa bent á möguleikann á að ef gervigreindin er ekki forrituð rétt, að hún fari að fylgja náttúrulögmálum sem hylla öflugri kerfum umfram önnur - og lætur þessi kerfi hugsa um eigin hag umfram allt annað – að gervigreindin fari þá að tryggja eigin öryggi, en ekki öryggi mannsins. Ilya Sutskever hættur hjá OpenAI - samkvæmt Elon Musk - er Ilya aðalástæðan fyrir velgengni OpenAI. Þeir náðu honum þangað frá Google.

*

Þetta er tekið upp á miðvikudegi og útlendingafrumvarp Sjálfstæðisflokksins, stjórnarfrumvarp, hefur verið tekið til umræðu í þinginu; þetta eru allt aðgerðir sem eiga að draga úr straumi flóttamanna; hert skilyrði um fjölskyldusameiningu; að aðeins þeir sem hafa búið hér á landi í tvö ár geta sótt um slíka sameiningu. Dvalarleyfistími á að vera styttur og breytingar gerðar á kærunefnd útlendingamála til að hraða afgreiðslu kærumála. Þá stendur til að fella úr lögum hið svokallaða séríslenska ákvæði um málsmeðferð hælisumsókna. Núna er stjórnvöldum sem sagt skylt að kanna sérstaklega umsóknir þeirra sem þegar hafa fengið hæli í öðrum Evrópuríkjum eða hafa fengið synjun. - Það á að detta út, eins og við skiljum þetta. Sú séríslenska regla. Undanfarin ár hefur Ísland verið það ríki í Evrópu sem hefur fengið hlutfallslega flestar umsóknir frá einstaklingum sem þegar njóta verndar í öðru Evrópuríki. Það á að reyna að stoppa þetta, ég held að 90% fái nei – en mikil orka fer í að afgreiða þessar umsóknir. Örugglega ýmislegt fínt í þessu frumvarpi, býst ég við og eðlilegt að menn komi þessu í skynsamlegri og hóflegri farveg. Las að vísu ótrúlega umfjöllun í Heimildinni þar sem verið var að vísa nígerískum manni úr landi sem var giftur íslenskri konu og með ótímabundinn ráðningasamning hjá Rúmfatalagernum. Giftur og í vinnu – en vísað úr landi. Það er eitthvað undarlegt við það. Hafði sem sé fengið brottvísun áður en hann gifti sig, en engu að síður. Mætti skoða þetta betur í leiðinni – þar erum við sannarlega að tala um eðlilega sanngirni.

*

En talandi um útlendingamál - talandi um forsetakosningarnar. Tvær góðar spurningar í kosningaprófi Ríkisútvarpsins, þar sem maður svarar rúmlega tuttugu spurningum og fær að vita hvaða frambjóðandi passar best við mann; og flestar spurningarnar eru ósköp eðlilegar en tvær vöktu athygli okkar. Númer 19. “Það er í góðu lagi að forsetar hafi einsleitan bakgrunn og uppruna. Þeir þurfa ekki endilega að endurspegla fjölbreytileika íslensks samfélags.” Já finnst þér það kæri lesandi, finnst þér í góðu lagi að forsetar hafi einsleitan bakgrunn og uppruna? Erum við ekki að kjósa forseta núna – og getur einn forseti haft einsleitan bakgrunn? Hefur hann ekki bara einn bakgrunn, getur hann verið einsleitur innbyrðis? Erum við að kjósa fleiri en einn forseta? Svo er þetta með fjölbreytileika íslensks samfélags, við fáum ekki séð að margir séu í framboði núna sem endurspegli meintan fjölbreytileika, mögulega Baldur Þórhallsson? Hann er samkynhneigður. Fjölbreytileiki er notað svolítið á því sviði - allavega, aðalpunkturinn: Þessi spurning getur engan veginn stuðlað að því að fólk átti sig á því hvern það vill kjósa. Einsleitur bakgrunnur forsetA í fleirtölu. Óskiljanlegt. Næsta spurning, númer 21: “Forsetinn er forseti allra á Íslandi og talar máli þeirra, líka þeirra sem hér vilja setjast að.” Líka nokkuð leiðandi spurning – ef maður talar ekki máli allra sem vilja setjast að á Íslandi – er maður þá ekki forseti allra sem eru á Íslandi núna - kemur þetta saman í pakka? Mig minnir að Jóhanna Vigdís hafi spurt þessarar fáránlegu spurningar í kappræðum forsetaframbjóðendanna á RÚV og fólk gat auðvitað ekki svarað þessu skýrt enda já. Þeir sem vilja setjast að á Íslandi. Er ekki hægt að sjá fyrir sér að þeir skipti milljónum ef út í það er farið, sem vilja setjast að á Íslandi eða myndu vilja það? Á forseti að vera sérstakur fulltrúi þeirra og ef ekki er hann þá jafnvel pólaríserandi? Undarlegar vangaveltur – en óháð því, grundvallaratriðið, kosningapróf sem byggir á svona rugli getur auðvitað aldrei verið marktækt. Ég fékk Viktor Traustason til dæmis – sem ég hafði gaman af í fyrsta viðtalinu en ekki meira en það. 

*

Brot spilað frá Höllu Hrund og fjallað um viljayfirlýsinguna í Argentínu.

*

Talandi um kosningabaráttuna… Stjórnvöld eru að gefa út bók “Fjallkonan. Þú ert móðir vor kær“ í tilefni af lýðveldisafmæli Íslendinga þann 17. júní 2024 - áttatíu ár frá stofnun lýðveldisins. Mjög eðlilegt að halda upp á það með veglegum hætti – þótt maður sjái athugasemdir frá glóbalískum tollfrelsissinnum eins og Ólafi Stephensen, formanni Félags atvinnurekenda, sem leggur þetta til um bókargjöfina fyrirhuguðu: “Eða bara að slaufa þessari furðulegu hugmynd sem hljómar eins og Jónas frá Hriflu hafi fengið hana.” Nei við getum ekki tekið undir það - tökum hlið Jónasar frá Hriflu í þessu máli - en þessi áform rötuðu sem sagt í fréttir eftir að þau breyttust aðeins eftir að forsætisráðherra Katrín hafði ritað sinn formála og svo sagði hún af sér fyrir lýðveldisafmælið, þannig að farga þurfti þeim 30.000 eintökum sem var búið að prenta. Nú skrifar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sinn formála - eins gott að hann verði góður. Les á vef Stjórnarráðsins um þessa bók að hún verði að hluta til á pólsku og ensku, þessi lýðveldishátíðarbók, sem er tímanna tákn og auðvitað lýsandi fyrir Katrínu Jakobsdóttur að geta ekki gert eitthvað svona án þess að hafa það með. Hinn fjöltyngdi nútími. En. Almennt fögnum við svona framtaki að sjálfsögðu. Við höfum talað fyrir vinsamlegri þjóðlegri vakningu hér á landi til að hrista stóra hópinn saman á miklum umbreytingartímum með mikið af nýju fólki hérna - í Skoðanabræðrum hlaðvarpi mínu og bróður míns kom í dag út sérstakur þáttur helgaður forvígismönnum íslenskrar ættjarðarástar eins og hún gerist best á 19. öld - þeim Fjölnismönnum - hvar værum við án þeirra? Miklir frumkvöðlar, miklir kóngar, miklir meistarar. Við rekjum á líflegan hátt þeirra ótrúlegu afrek í þágu þjóðar á fjórða áratug nítjándu aldar og í lok þáttar förum við aðeins yfir þjóðrækni í nútímanum aðeins, fáum brot af því. Skoðanabræður, brot.

1 Comment