Playback speed
×
Share post
Share post at current time
0:00
/
0:00
Transcript
1

Fréttir vikunnar | Vinstrisinnuð öfgahægrisveifla og strákar á móti „stelpum og stálpum“

Umræðuefni: Sigurganga róttækra íhaldsmanna, lýðræði í ESB, kúgun drengja í skólakerfinu, gervigreind hjá Apple og umfjöllun um kjarna sósíalismans.
1

Þetta efni er opið öllum, en reglulegar greinar eru það ekki.

Áskrift

Fréttir vikunnar eru sendar út frá Siglufirði enda stefnir ritstjórinn á að ganga í það heilaga um helgina. Umræðuefni: Sigurganga róttækra íhaldsmanna, lýðræði í ESB, kúgun drengja í skólakerfinu, gervigreind hjá Apple og umfjöllun um kjarna sósíalismans.

Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Myntkaup, Þ. Þorgrímsson, Happy Hydrate og Reykjavík Foto.

Fréttir vikunnar í textaformi, þótt talað orð gildi:

Fréttir vikunnar eru í samstarfi við öflug íslensk fyrirtæki.

Þ. Þorgrímsson byggingavöruverslun er minn staður til þess að kaupa efni tengt framkvæmdum heima við. Baðflísar, alls konar panelar, alls konar sniðug ódýr efni til þess að leysa málin heima við, bæta hljóðvistina, gera hlutina vistlegri – farið í Þ. Þorgrímsson. 

Happy Hydrate – þetta er málið. Öflugt íslenskt sprotaverkefni sem allir eru að kaupa, allir eru að drekka, ég ætla að gefa brúðkaupsgestum mínum Happy Hydrate - þannig að þau verði ekki þunn! Þú þarft söltin, magnesíum, vítamínín – ég leitaði lengi að góðri leið til að halda mér vökvaferskum - og svei mér þá ef ég finn ekki í alvöru mun – þetta lífgar upp á mig. Held ykkur uppfærðum – fáið ykkur Happy Hydrate.

*

Fréttir vikunnar – margt um að vera auðvitað. Nýr forseti var kjörinn fyrir tveimur vikum og menn hafa ekki heyrt á það minnst allar götur síðan. Allir hættir að pæla í þessu, sem bendir til þess að kannski muni Halla T. sitja á friðarstóli. Halla er sjöundi forseti lýðveldisins og á mánudaginn kemur eru 80 ár frá því að við fengum okkar fyrsta forseta Íslands, Svein Björnsson. Það er merkilegt þegar maður gluggar í innsetningarræðu Sveins frá 1945, þá fjallar hún að langmestu leyti, skiljanlega út frá tímanum, eða næstum því bara um varnarmál og utanríkismál. Hvaða samstarfi við eigum að vera í, hvaða bandalagsþjóðir viðurkenna okkur sem ríki og hvernig við tryggjum góðan útflutning. Sveinn Björnsson lofar Jón Sigurðsson fyrir hans framlag, rétt eins og mætir menn reyna að gera þegar umræða um sjálfstæði þjóðarinnar er annars vegar. Ólafur Thors gerði það líka og fjallaði um Jón Sigurðsson á 150 afmæli Jóns þann 17. júní 1961 og þar lýsti hann Jóni svona: 

„Sjónarhóll Jóns Sigurðssonar var svo hár, að hann sá yfir fjöll og firnindi, í allar áttir og langt fram í tímann. Honum skildist til fullnustu, að frelsisviðurkenningin ein nægði ekki Íslendingum, svo sem þá var komið högum þjóðarinnar. Þess vegna barðist hann á tvennum vígstöðvum í senn. Út á við fyrir auknu þjóðfrelsi og á heimavígstöðvum gegn fátækt, deyfð, fáfræði og vesaldómi. Hann skildi vel, að það sem á reið var að manna þjóðina og mennta hana á öllum sviðum, vekja metnað hennar og kenna henni að græða óræktaða jörð og berjast við óblíða náttúru eftir nýjum leiðum.“

Já – það er ekkert nýtt undir sólinni í stjórnmálum, þetta er allt spurning um a) frelsi (eftir atvikum þjóðfrelsi) og b) framfarir. Og nú er liðinn allur þessi tími, árið er 2024, hvert hefur orðið okkar starf í sex hundruð sumur, höfum við gengið götuna til góðs? Frelsi og framfarir… Það eru svo sem ekki neinar alvarlegar blikur á lofti um frelsi Íslendinga. Við stöndum í skjóli máttugasta hernaðarbandalags heims og ekkert hefur með afgerandi hætti bent til þess að þar á verði nokkrar breytingar í bili. Sömuleiðis erum við ekki á leið inn í ESB í bili þótt flestir virðist sammála um að EES-samningurinn sé bara fínn, þótt vissulega séu alltaf uppi spurningar um það hvenær EES-réttur er farinn að þrengja að valdi íslenskra kjörinna fulltrúa, eins og með bókun 35 núna, það er ekki jafnflókið mál og þú heldur, ég mæli með viðtali frá því í síðustu viku við Sigríði Andersen um það mál. Hérna í hlaðvarpsveitunni.

Framfarir heima fyrir, sagði Ólafur Thors um áhyggjur Jóns Sigurðssonar, er fátækt, deyfð, fáfræði og vesaldómur? Það er flóknari spurning. Jón Sigurðsson skildi að það riði á að mennta þjóðina á öllum sviðum og „vekja metnað hennar“. Hvernig gengur það? Staða drengja í skólakerfinu! Töluvert hefur verið um hana rætt frá því að ágæt skýrsla Tryggva Hjaltasonar fyrir ráðherrana kom út, þar sem farið var nokkuð ýtarlega yfir stöðu drengja í skólakerfinu. Það er alltaf verið að tala um þetta en skoðum nokkra punkta: Um 47% drengja getur ekki lesið sér til gagns við útskrift úr 10. bekk og þriðjungur nær ekki grunnviðmiðum í stærðfræði og náttúruvísindum. - Einungis þriðjungur nýnema í háskóla eru drengir. - Eitt mesta brottfall drengja úr framhaldsskólum í Evrópu er á Íslandi. - Stór hluti þeirra upplifir lítinn tilgang með námi sínu og að fá ekki áskoranir m.v. færni. - Drengir eru þrefalt líklegri en stúlkur til að vera með einkunnir undir 6,5 í framhaldsskóla.

Þetta er staða drengja - á næstum öllum sviðum áþreifanlega mikið verri en staða stúlkna. 

Persónulegri dæmi eru foreldrar að fjalla um það í sorglegum færslum á samfélagsmiðlum að verðlaunapallar á útskriftum í grunnskólum hafi margir eingöngu verið skipaðir stúlkum og að drengirnir hafi á meðan setið í salnum eins og illa gerðir hlutir með sinn óviðunandi árangur í ýmsum greinum.

Þessi undarlega staða hefur ekki dregið úr þrótti jafnréttishugsjónarinnar í íslenskum skólum. Nýlegt dæmi sem ritstjórn barst úr grunnskóla í Reykjavík var þannig að stelpur voru sendar í vettvangsferð í spennandi fyrirtæki til að læra um tæknimenntun á háskólastigi en strákarnir voru hafðir í skólanum ef ske kynni að þeir fengju áhuga á tæknimenntun og færu að eyðileggja „kynjahlutföllin í tæknigeiranum“. Lesum úr tölvupóstinum hérna: 

“Sælir foreldrar í 9. bekk. 

Á morgun skiptum við árganginum í tvo hópa, stelpur og stálp og síðan strákar. Stelpur og stálp eiga að mæta í skólann kl. 8.45. Kennarar fara með þann hóp í verkefni sem kallast „stelpur, stálp og tækni“. 

Við munum fara í heimsókn í Landsvirkjun og enda svo í HR þar sem við fáum frekari fræðslu en markmiðið með verkefninu er að jafna kynjahlutföllin í tæknigeiranum. 

Strákarnir fá einnig fræðslu en hún verður í [skólanum] og því lítil röskun á skóladeginum hjá þeim.”

Sem sagt: „Stelpur og stálp“ fara í heimsókn í öflug fyrirtæki og öfluga háskóla, strákar já fara ekki neitt, engin röskun, fara vonandi ekki í tæknigeirann. Skal einhvern undra að árangur drengja sé eins lakur, þegar skilaboðin til drengja frá skólayfirvöldum og frá stofnunum samfélagsins eru svona skýr: Að þeirra þátttaka í „tæknigeiranum“ sé í grunninn óæskileg og að hennar sé ekki óskað, á meðan „stúlkur og stálp“ eru hvött til að taka þátt og þeim eru gefin sérstök tækifæri á þessu sviði. Sérstök rannsóknarspurning síðan hvers vegna „stálpum“ er skipað í flokk með stúlkum, stálp eru sem sagt börn sem upplifa sig hvorki sem stráka né stelpur. Ætli hugsunin sé ekki að stelpur og stálp séu Hin Jaðarsettu Kyn. En hvaða kyn er það sem er í alvöru jaðarsett í skólakerfinu? 

Stjórnvöld segjast hugsi yfir stöðu drengja, eins og fyrrmeir. Þessi nýja skýrsla er komin út og við getum vonað að „átta lausnir með samtals 27 aðgerðum“ til að bæta stöðu drengja virki og snúi dæminu við. Flestir hafa þó mátulega trú á því. 

Ef við viljum vera heiðarlegri og eilítið kaldari í okkar athugun, getum við skoðað málið út frá kerfisfræðilegum kenningum. Ein slík frá bandarískum kerfisfræðingi hljóðar svo: Tilgangur kerfis er það sem kerfið gerir (e. the purpose of a system is what it does).

Tilgangur tiltekins kerfis er samkvæmt þessu þau áhrif eða sá árangur sem kerfið raunverulega framkallar. Það ber sem sé ekki að horfa á yfirlýst markmið heldur aðeins mælanleg áhrif og álykta um tilgang kerfisins út frá því.

Tilgangur íslenska skólakerfisins væri þá, út frá þessu sjónarhorni, að brjóta drengi niður og koma í veg fyrir að þeir fái notið sín. Tilgangur kerfis er það sem það gerir.

Og ekki aðeins brýtur það niður drengi reyndar, heldur leiða PISA-kannanir í ljós sífellt verri lesskilning hjá öllum íslenskum börnum, nánar tiltekið birtist okkur eiginlega bara sögulegt hamfaraástand í þeim efnum. Það gildir þvert á kyn en við bætist hin ömurlega staða drengja.

Þannig að: Ef árangurinn er þessi, þarf þá ekki að spóla til baka og spyrja út í tilganginn? Varla föllumst við á að hann eigi formlega að vera sá að brjóta niður drengi, þannig að hver á hann að vera? Hver á tilgangur skólakerfisins að vera? 

Tilgangur skólakerfisins getur verið sá að koma á algeru jafnrétti kynjanna á hverju einasta hugsanlega sviði, og það getur verið að það takist eða að við komumst í áttina að því, en það verður ekki án fórnarkostnaðar á öðrum sviðum. 

Það er á hinn bóginn líka hægt að taka sérstaka ákvörðun um að tilgangur skólakerfisins sé einfaldlega að mennta fólk, að koma börnum til mennta. Þá held ég að það sé hreinlegast að taka breytuna kyn bara út úr þeirri jöfnu og einbeita sér að því sem máli skiptir, að mennta börn.

Eftir slíkar breytingar gæti hið merka framtak „Stelpur, stálp og tækni“ fengið nýjan titil sem jafnvel gengi svo langt að hvetja bara öll börn til þess að finna sína ástríðu, verða sérstaklega fær í einhverju ákveðnu, einfaldlega að skara fram úr í námi og vinnu og þá væri hægt að hætta að skipta skipta grandalausum börnum upp í fórnarlambskategóríur á hugmyndafræðilegum forsendum fullorðinna, eins og margir í skólakerfinu eru greinilega farnir að líta á sem hlutverk sitt. Ég hef rætt við aðra í skólakerfinu, sem eru ekki hrifnir af þessu nýlega innrætingarhlutverki, en segja ekki mikið, enda er auðvitað eitthvað sovéskt við þá tíma sem við lifum, eitt er hin opinbera narratíva, annað það sem almenningur hugsar.

*

Já – einhver wokeismi, einhver sósíalismi, einhver hugmyndafræðileg dáleiðsla er sterk á meðal okkar og hefur kannski verið í lengri tíma en við höldum. Guð er dauður, sagði Nietzsche, og var þá ekki síst að velta fyrir sér hvað kæmi í staðinn fyrir Drottinn Guð, hvað kæmi í staðinn fyrir hina kristnu heimsmynd, hina kristnu hugsun, eftir að sú trú hætti að vera okkar móralski áttaviti – Nietzsche sagði þetta seint á 19. öld – Guð er dauður og hver veit hvað tekur við – og við vitum hvers konar upplausn fór í hönd á þeirri tuttugustu. Evrópubúar sem höfðu misst trú á Guði sínum fundu nýja trú og það voru í grófum dráttum stjórnmálastefnur, getum við sagt, með nýjum himnaríkjum, útópíum, og nýjum óvinum, nýjum fjendum. Fasismi, sósíalismi, kommúnismi, nasismi, frjálslynt lýðræði. Sósíalisminn lifir enn á meðal vor og honum er stundum stillt upp gegn kapítalismanum sem er að mati margra auðvitað misskilningur. Þeir segja að kapítalisminn sé í raun bara maskína, vél, skipulagsaðferð, á meðan sósíalisminn er mórölsk hugmyndafræði sem segir hvað er vont og hvað er gott, jöfnuður er góður, jafnrétti, velferðarkerfi, endurútdeiling verðmæta er móralskt góð. Þetta er gæti maður sagt í grunninn það sem er í gangi innra með vinstrimanninum, það sem útskýrir pólitíska afstöðu hans: Hann hugsar: Ég trúi á að ríkisvaldið eigi að færa til verðmæti á milli hópa vegna þess að það er siðferðislega gott að hugsa þannig og þar með er ég orðin góð manneskja. Í gamla daga hefði það verið góð manneskja í augum Guðs á meðan það var einhvers virði - en nú er það góð manneskja í augum vinstristefnunnar, í grunninn, í augum hugmyndafræðinnar sem líkist mjög trú. Að mörgu leyti er þetta líka ástæðan fyrir því að hægrimönnum og vinstrimönnum gengur oft illa að komast að sameiginlegri niðurstöðu, kapítalisminn sem hægrimenn trúa á er ekki beint mórölsk hugmyndafræði heldur bara tillaga að gangverki, hún hefur ekki móralskt inntak um það hvað er innilega siðferðislega gott og hvað ekki, á meðan vinstrimennskan og sósíalisminn er mórölsk hugmyndafræði þar sem er skýrt hver er vondur og hver er góður. 

Þess vegna: Að segja hvort viltu kapítalisma eða sósíalisma er í einhverjum skilningi eins og að bera saman epli og appelsínur, Michael Solana blaðamaður hefur meðal annars fjallað um þetta kunnáttusamlega. Annars er hægri og vinstri á nokkru reiki þessa dagana. Í fréttum vikunnar dró það til tíðinda að svonefndir öfgahægriflokkar unnu mikla sigra í kosningum til Evrópuþingsins. Þetta eru þýskir, franskir, belgískir og spænskir öfgaflokkar, allra þjóða kvikindi – og hvers konar öfgahægri? Förum yfir það eftir smá.

Fyrst aðeins; fréttir vikunnar eru í samstarfi við Reykjavík Foto; Mynd, hljóð, ljós – það er ótrúlegt hvað er hægt að gera árið 2024, bara með því að kaupa mjög sanngjarnt verðlagt ódýrt dót hjá Reykjavík Foto – og gæðin eru eins og hjá fagmönnum. Fagmenn versla enda líka við Reykjavík Foto.

Fréttir vikunnar eru einnig í samstarfi við Myntkaup. Ég segi stundum: Auðvelda leiðin til að kaupa Bitcoin. Margir eru að fylgjast náið með Bitcoin – peningamenn eru farnir að vera mildari gagnvart þessu – þetta er áhugaverð þróun. Ef menn eru áhugasamir, mæli ég sjálfur með að leita til Myntkaupa – myntkaup.is - vottaðir af fjármálaeftirlitinu og svo framvegis - þetta er örugga leiðin til að kaupa Bitcoin.

Önnur tilkynning. Toyota.

Við nefndum kosningar og sigurför umræddra öfgahægriflokka í Evrópuþingskosningum í vikunni. Evrópuþingið sem sagt lýðræðisvettvangur Evrópusambandsins (ef það er ekki þversögn) þar sem þjóðirnar kjósa inn á þing sem er þó ekki mjög áhrifamikið skilst manni í allri ákvarðanatöku. En Evrópuþingskosningarnar skipta máli af því að þær eru stöðutaka á fylgi flokka, eins konar millikosningar í mörgum Evrópuríkjum og ef ríkjandi stjórnvöld fara of illa út úr þeim, sitja þær eftir með laskað umboð. En sem sagt. Lýðræðisvettvangur Evrópusambandsins, þar sem kerfið þó ræður, ekki endilega lýðræðislega kjörnu fulltrúarnir. Það er mjög áhugaverð grein sem Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði um heimsókn sína til Strassborgar, þar sem henni misbauð réttilega hvernig ókjörinn starfsmaður háttsettur á vegum Evrópuþingsins, að nafninu til óháður embættismaður, forstöðumaður kosningaherferðarskrifstofu þingsins, fór „grímulaust yfir áhyggjur Brusselvaldsins af vinsældabylgju fyrrgreindra flokka. (öfgahægriflokka) Þeir væru enda mjög gagnrýnir á Evrópusambandið. Því væri mikilvægt fyrir Evrópuþingið að standa fyrir kröftugri kosningaherferð um mikilvægi Evrópuþingskosninga. Góð þátttaka í þeim væri líklegri til að draga úr vægi framangreindra flokka.“ Diljá Mist segist hafa staldrað við þetta og maður gerir það líka. Vinnur þessi gaur ekki fyrir þingið bara eins og starfsmaður skrifstofunnar, eins og á skrifstofu Alþingis eins og Diljá Mist líkir þessu við, og hann er samt bara 100% pólitískur að vinna með ákveðnum öflum og gegn öðrum öflum? Svona framferði er í seinni tíð réttlætanlegt í hugum margra stuðningsmanna kerfisins, að skrifstofan, hinir ókjörnu, vinni líka gegn ákveðnum stjórnmálaflokum alls ekki síst ef þeir eru „öfgaflokkar“ – hver vill ekki vinna gegn öfgamönnum. Sums staðar má lýsa þessu þannig að menn séu í raun að taka lýðræðið úr sambandi í von um að bjarga lýðræðinu.

En. Hvaða hægriöfgamenn eru þetta allt, hver eru þessi öfgafullu hægrimál? Öfgahægriflokkarnir vilja margir vinda ofan af alþjóðavæðingu, takmarka alþjóðaviðskipti til að tryggja hagsmuni innlendrar framleiðslu og starfsmanna þar, þeir taka þjóðleg sjónarmið fram yfir alþjóðleg sjónarmið, þeir vilja takmarka frjálsa flutninga fólks yfir landamæri, þeir vilja verða óháðari Bandaríkjamönnum og Atlantshafsbandalaginu, þeir vilja viðskiptahindranir og svo framvegis og svo framvegis. Þetta eru öll hægrimálin - sögulega séð eiginlega allt mjög mikil vinstrimál. Og sumt af þessu er kjarninn í stefnunni hjá þessum flokkum. Þannig að þetta er allt í einu öfgahægri – hugtökin eru mjög greinilega mjög á reiki. Annars eru augljóslega verulegar hræringar í stjórnmálalífi í Evrópu, mér sýnist af þessum niðurstöðum að tiltölulega víða í Austur-Þýskalandi séu AfD, Alternative für Deutschland, með í kringum 40% fylgi, þá erum við að tala um að nánast annarhvor maður sé orðinn öfgamaður. Annaðhvort er það staðan, að annarhvor maður sé orðinn öfgamaður - mögulega er það bókstaflega staðan, annað eins hefur gripið um sig í Þýskalandi - eða þá að öfgastimpillinn sé ekki endilega gagnleg aðferð til að greina það sem er í gangi í stjórnmálum þarna, þótt sannarlega leynist öfgamenn innan raða þessara flokka.

Það skal reyndar engan undra að annarhvor maður sé í raun orðinn hægriöfgamaður á Vesturlöndum þegar maður fer yfir það hvað það er í augum frjálslyndra fjölmiðla að vera öfgamaður. Það þarf ekki mikið til að verða öfgamaður og þetta er fljótt að telja. Breski miðillinn Guardian, sem margir Íslendingar taka nokkurt mið af, hefur til dæmis skrifað greinar þar sem líkamsrækt er sögð geta ýtt undir róttæka hægrivæðingu, Guardian skrifaði hér á sínum tíma grein um það hvernig það væri hætta á að öfgahægrivæðast við að fara að reyna borða hollar, POLITICO skrifar hér um það hvernig öfgahægrimenn eru að reyna að stuðla að því að fólk hafi mögulega á að eignast börn, sem sé barneignir eru öfgahægri, Arnar Sigurðsson vínfrumkvöðull nefnir nokkur dæmi um mál sem eru komin yfir til öfgahægrisins, tjáningarfrelsi er öfgahægri, vísindalegar staðreyndir og líffræði eru öfgahægri, landamæri eru öfgahægri og svo framvegis og svo framvegis. Það er staðan. Í grunninn, ef maður hugsar út í það, er fullt af skoðunum sem voru mjög meginstraums fyrir svona tuttugu árum nú margar eyrnamerktar öfgaflokkum. Ef einhver gleðst yfir því, eru það væntanlega einmitt öfgaflokkarnir. Jæja.

*

Annað mál. Apple kynnti heimsbyggðina fyrir nýjum eiginleikum í iOS hugbúnaðinum í vikunni, þar sem gervigreind leikur lykilhlutverk. Það hefur verið sótt að þeim að innleiða tækni stóru mállíkananna í stýrikerfi símans og nú er stefnt að því með ýmsum hætti og sumpart er það óþægilegt að sjá hvernig gervigreindin verður látin lesa allt dótið manns, skilaboð og annað til þess að síðan vera manni innan handar um það hvernig maður á að svara og almennt lifa lífinu. En þetta er ekki óumdeilt, það er ekki óumdeilt að Apple sé til dæmis í samstarfi við OpenAI um að þjónusta iPhone-notendur beint í gegnum Siri – enda segja sumir að slík ráðstöfun veki miklar spurningar um það hvernig Apple mun sýna OpenAI þau gögn sem Apple býr yfir um okkar persónulega líf. Musk hefur tjáð sig gegn þessu og dramað heldur áfram. Það er ljóst að þetta er sviðið sem nú er barist um í tækniheiminum og alveg óljóst hver verður ofan á. Þótt við sjáum það ekki núna hjá Apple háir fyrirtækið auðvitað stríð upp á líf og dauða. Hvernig lítur framtíð iPhone út? Það veit enginn – en það hefði líklega enginn fallist á það upp úr 2000 að fæstir ættu í framtíðinni eftir að eiga borðtölvu heima hjá sér, en tíu árum síðar árið 2010 voru fartölvur farnar að seljast meira en borðtölvur. Eins núna með iPhone - verður aðgangur okkar að tækninni endilega í gegnum svona tæki? Ef það er nógu fullkomið – þannig að Apple má ekki sofna á verðinum. Ta-land-i um þetta. Við Bergþór bróðir minn höldum úti einu fremsta hlaðvarpi landsins, Skoðanabræður, þar sem við erum í vikunni að gera sérstakan þátt um líf og störf Steve Jobs, stofnanda Apple. Hann átti lygilegt lífshlaup, fæddur 1955 og dáinn 2011, en umbylti heiminum með nýsköpun sinni. Stofnaði Apple og var svo rekinn frá Apple og komst ekki aftur inn í langan áratug frá 1985 til 1997, þegar hann sneri aftur og gerði Apple að skrímslinu sem það er í dag. Hvað gerði Steve Jobs á þessu tímabili, hann keypti Pixar af George Lucas og bjó til Toy Story og varð milljarðamæringur – og það er margt mjög athyglisvert við þetta tímabil, hér er brot.

Hvað sagði hann í þessu símtali? Já, þáttinn í heild og fjölda annarra epískra þátta má nálgast á Patreon - Skoðanabræður.

Að öðru leyti. Fréttir vikunnar eru í samstarfi við Reykjavík Foto, Myntkaup, Þ. Þorgrímsson og Happy Hydrate. Við komumst ekki lengra með þetta að sinni kæru áhorfendur, gleðilegan 17. júní á mánudaginn, haldið hann hátíðlegan, fagnið lýðveldisafmælinu, haldið áfram að starfa í þágu ættjarðarinnar, kjörorð fréttaþáttarins, munið þau– ást á ættjörðu, ást á sannleika. Við sjáumst hér á þessum vettvangi von bráðar, þangað til næst, Guð blessi ykkur.

1 Comment